Laugardagur, 12. mars 2022
Stríð er glæpur í Evrópu en aðferð í Asíu
Pútín Rússlandsforseti er evrópskur Saddam sálugi Hussein er fór fyrir Írak. Vesturlönd ákváðu að Hussein væri stríðsglæpamaður og settu hann af með innrás 2003. Það þótti réttlátt stríð siðmenningar gegn ómenningu.
Togstreitan um hvort Úkraína skyldi vera á áhrifasvæði ESB og Nató annars vegar eða hins vegar Rússlands byrjaði fyrir alvöru vorið 2008 þegar Nató-fundur í Búkarest, höfuðborg Rúmeníu, bauð Georgíu og Úkraínu aðild að hernaðarbandalaginu. Þá um sumarið réðst rússneskur her á Georgíu og batt endi á Nató-umsókn smáríkisins á 12 dögum.
Úkraínudeilan stigmagnaðist 2014 með stjórnarbyltingu í Kænugarði, sem studd var af vesturlöndum. Í beinu framhaldi tóku Rússar Krímskaga og studdu uppreisn í austurhluta landsins, Donbass.
Þriðja lota Úkraínudeilunnar hófst með innrás Rússa í landið 24. febrúar síðast liðinn. Frá Búkarest yfirlýsingunni 2008 til innrásar liðu heil 14 ár. Hvað voru ábyrgir aðilar á vesturlöndum að hugsa allan þennan tíma? Svona eftir á að hyggja.
Eina forsendu gáfu vestrænir valdamenn sér. Stríð í Evrópu er glæpur, sem enginn þorir að drýgja. Stríð í öðrum heimsálfum er lögmæt aðferð þegar nauðsyn krefur.
Valdimar Pútín drýgði glæpinn. Kannski gleymdu menn í Washington, Brussel, París og Berlín að helmingur Rússlands liggur í Asíu.
Lærdómur: aldrei skal vanmeta kunnáttu í landafræði.
![]() |
Segja handtöku borgarstjórans stríðsglæp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |