Pútín sigrar án innrásar

Í Úkraínudeilunni sigrar Pútin þótt ekki komi til innrásar. Bandaríkin, Nató þar með, gefa Úkraínu upp á bátinn án þess að skoti sé hleypt af. Stjórnin í Kænugarði biðst undan ,,stigmögnun átaka," það skaði efnahagslíf landsins.

Yfirlýsing Biden forseta um að aðeins fáeinir bandarískir hermenn verði sendir til Austur-Evrópu, en ekki Úkraínu, samhliða sem vesturlönd kalla heim sendiráðsfólk sitt í Kænugarði, er ótvíræð staðfesting á sigri Pútín og Rússa.

Stríðsþreyta Bandaríkjanna er merkjanleg. Þeir lögðu á flótta frá múslímskum skæruliðum í Afganistan sl. sumar. Fyrir tíu árum gáfust þeir upp á Írak og Sýrlandi um miðjan síðasta áratug. Nú er Úkraína yfirgefin.

Útþensla í Úkraínu var sameiginlegt verkefni Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Brexit fyrir sex árum hjó fótinn undan samstöðu stóru Evrópuríkjanna. ESB er í stórvandræðum að ráða við stjórnvöld í Póllandi og Ungverjalandi sem annt er um fullveldið, en eru ESB-ríki.

Hugmyndafræðin um vestræna yfirtöku landa fyrir botni Miðjarðarhafs og frekari útþenslu í Austur-Evrópu er, í fáum orðum sagt, kominn yfir síðasta söludag.

Mistökin, sem gerð voru eftir lok kalda stríðsins, koma æ betur í ljós. Hroki og yfirgangur Bandaríkjanna og ESB gagnvart Rússlandi á tíunda áratug síðustu aldar, þegar Jeltsín var við völd, kom í bakið á þeim eftir valdatöku Pútín um aldamótin. Síðan eru 20 ár. Menn læra seint og illa.

Rússar ættu að vera bandamenn vestrænna ríkja en ekki andstæðingar. Ef Úkraínudeilan leysist friðsamlega, enn er ekki hægt að slá neinu föstu um það, er kannski komin forsenda fyrir varanlegri skipan öryggismála í Austur-Evrópu. Það má byggja frið á þeim grunni.

 


mbl.is Mun senda „lítinn hóp hermanna“ til Austur-Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. janúar 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband