Rósa Björk og frumhvötin

,,[É]g hef löngun til að láta að mér kveða og sækjast eftir forystu þar sem ég kem," skrifar Rósa Björk þingmaður sem skipti nýlega yfir í Samfylkingu og sóttist eftir að leiða framboðslista, annað hvort í Reykjavíkurkjördæmum eða Kraganum. Hvorugt varð, henni var skipað annað sætið.

Löngun til forystu er frumhvöt stjórnmálamanna. Þegar markmiðin nást ekki er það ekki þeim sjálfum að kenna. Rósa þreifaði fyrir sér í Kraganum, varð vel ágengt en, segir hún ,,eftir því sem á leið rann upp fyrir mér að harðasti kjarninn sem myndaði uppstillingarnefndina í Kraganum" vildi hana ekki. ,,Harðasti kjarninn" er annað orð yfir klíku.

En hvað hefur Rósa upp á að bjóða? Jú, hún vill leggja sitt ,,af mörkum fyrir græna atvinnustefnu, baráttuna gegn loftslagsbreytingum og fyrir femínisma og mannréttindum og önnur hjartans mál sem verða að komast sterkar á dagskrá en nú." (Undirstrikun pv)

Sérkennilega að orði komist atarna. Hjartans mál Rósu eru ekki nefnd á nafn, aðeins að þau séu til og verði að komast ,,sterkar á dagskrá." Hver skyldu ónefndu hjartans málin vera?

Eitt orð: völd. Löngun til forystu er löngun vil valda. Það er bara svo ósmekklegt að segja það upphátt. ,,Hjartans mál" er rósamál yfir frumhvötina.


mbl.is Ýmislegt sem Rósa Björk vill „gleyma sem fyrst“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump og póstmódernísk stjórnmál

Lýðræðið er brothætt, sagði Biden forseti eftir sýknu Trump. Takmörk eru fyrir ósannindunum sem lýðræðið þolir. Ákæran á hendur Trump var pólitísk, rétt eins og fyrri ákæran um að Pútín Rússlandsforseti hefði tryggt honum kjör 2016.

Trump er fyrsti póstmóderníski forseti Bandaríkjanna. Hugmyndastefnan verður til á síðasta þriðjungi 20. aldar. Upphafsmenn hennar eru róttækir vinstrimenn sem gáfust upp á marxisma. Trump er hægrimaðurinn sem sýndi rökréttar afleiðingar póstmódernisma.

Ein helsta kennisetning póstmódernisma er að sannleikur sé hugmyndafræði án fótfestu i hlutlægum veruleika. 

Bandarískur heimspekingur, Harry G. Frankfurt, greindi og útskýrði áhrif póstmódernisma í tveim smákverum sem komu út laust eftir aldamótin, Um kjaftæði og Um sannindi.

Fyrra kverið, Um kjaftæði, lýsir veldisvexti kjaftæðis í opinberri umræðu. Frankfurt skrifaði kverið, sem upphaflega var ritgerð, á níunda áratug síðustu aldar, löngu fyrir daga félagsmiðla. Seinni textinn, Um sannleika, kennir að án sanninda erum við glötuð, rötum ekki um samfélagið okkar.

Póstmódernísk stjórnmál tóku flugið eftir fall kommúnismans. Í kalda stríðinu voru til sannindi, ekki þau sömu, að vísu, fyrir sósíalista og borgaralega þenkjandi, en sannindi engu að síður. Eftir fall Berlínarmúrsins mátti hver syngja með sínu nefi þau sannindi sem hentug þóttu hverju sinni. Ef sannleikurinn er spurning um persónuleg viðhorf, nú þá er enginn sannleikur.

Til að gera langa sögu stutta notfærði Trump sér kjaftæði og ósannindahefð bandarískra stjórnmála og bjó til trúverðuga frásögn um stöðu mála. Út á þá frásögn fékk hann sigur 2016.

Réttarhöldin yfir Trump í febrúar 2021 eru pólitísk hefndaraðgerð. En kannski kviknar ljós í framhaldinu. Lýðræðið er brothætt. Til að ekki fari illa þurfum við sannindi.


mbl.is Donald Trump sýknaður öðru sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. febrúar 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband