Þriðjudagur, 23. nóvember 2021
Kjarninn: RÚV stal síma Páls skipstjóra
Ritstjóri Kjarnans, Þórður Snær Júlíusson, viðurkennir að RÚV hafi staðið að stuldi á síma Páls Steingrímssonar skipstjóra hjá Samherja. Símanum var stolið aðfaranótt 4. maí eftir að eitrað hafi verið fyrir skipstjóranum og hann lá meðvitundarlaus í öndunarvél.
Játning Þórðar Snæs kemur fram í fréttaskýringu sem hann skrifaði 21. maí í Kjarnann. Þar segir
Ábyrgðarmenn Kjarnans vilja taka fram að umrædd gögn sem eru grundvöllur umfjöllunar miðilsins bárust frá þriðja aðila. Starfsfólk Kjarnans hefur engin lögbrot framið...
RÚV skipulagði og stjórnaði atlögunni að Páli skipstjóra. Verktaki á vegum RÚV sá um framkvæmdina. Tæknimaður ríkisfjölmiðilsins afritaði gögnin úr snjallsíma Páls. Fréttamaður í samvinnu við yfirmann á RÚV deildi gögnunum á milli Stundarinnar og Kjarnans. Vefritin tvö starfa í skjóli miðstöðvarinnar á Efstaleiti.
Aðalsteinn Kjartansson, sem RÚV lánaði á Stundina kortéri fyrir glæp, opnaði málið á Stundinni 21. maí, sama dag og Kjarninn. Aðalsteinn birti sína frétt kl. sex að morgni en Þórður Snær Kjarnafréttina tveim klukkustundum síðar, kl. 07:52. Síma Páls var stolið 17 dögum áður. Í rúmar tvær vikur var lagt á ráðin til að hámarka áhrifin á þjóðfélagsumræðuna. Miðstöð skipulagsins var á Efstaleiti.
,,Þriðji aðilinn" sem Þórður Snær talar um getur ekki verið neinn annar en RÚV. Fyrir utan RÚV er enginn ,,þriðji aðili" er gæti ritstýrt Stundinni og Kjarnanum og samstillt útgáfutíma. Bæði vefritin, vel að merkja, kynna sig sem sjálfstæða fjölmiðla. Í raun eru útgáfurnar leppar RÚV, enda ritstýrt frá Efstaleiti.
Eins og Þórður Snær segir: ,,Starfsfólk Kjarnans hefur engin lögbrot framið". RÚV skipuleggur og framkvæmir glæpina. Kjarninn og Stundin sjá um að koma afrakstri afbrotanna í umferð. Rúsínan í pylsuendanum er að fyrrverandi lögreglustjóri fer með húsbóndavaldið á Glæpaleiti.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)