Sunnudagur, 15. desember 2019
Ríkisvald, landamæri og lýðræði: Trump, Boris og Pútín
Frjálslyndir og vinstrimenn aðhyllast hugmyndafræði sem felur í sér mótsögn: lýðræði án landamæra. Blekkingin að baki hugmyndafræðinnar er að frjálsri verslun fylgi algild mannréttindi.
Frjáls verslun kemur úr ranni frjálslyndra en lýðræði án landamæra frá sósíalistum. Evrópusambandið er háborg blekkingarinnar.
Boris Johnson þakkar kjósendum Verkamannaflokksins stuðninginn í nýafstöðum þingkosningum í Bretlandi, sem Íhaldsflokkurinn sigraði í undir formerkjunum ein þjóð, ein landamæri. Boris strýkur meðhárs þeim sósíalistum sem sáu ljósið, rifu sig frá blekkingunni.
Sigur Johnson og Íhaldsflokksins var tap Frjálslynda flokksins, sem vill Bretland áfram í ESB, og Verkamannaflokksins sem krafðist opinna landamæra.
Öflugustu stjórnmálamenn síðustu ára; Trump í Bandaríkjunum, Pútín í Rússlandi og Johnson í Bretlandi fylgja þeirri stefnu að lýðræði er óhugsandi án landamæra. Borgaraleg réttindi, mannréttindi, eru aðeins tryggð með ríkisvaldi og landamærum. Samræmt hatur frjálslyndra og vinstrimanna á þremenningunum staðfestir meginvíglínu vestrænna stjórnmála.
Hugmyndafræði frjálslyndra og vinstrimanna um lýðræði án landamæra leyfir hvaða öfgamanni sem er að vaða á skítugum skónum inn í vestrænt lýðræðisríki og haga sér eins og apaköttur í nafni mannréttinda sem öfgamaðurinn þó fyrirlítur.
Almenningur skynjar mótsögnina og kýs til valda menn sem virða landamæri, trúa á fullveldi þjóða og hafna mótsögninni um lýðræði án landamæra.
Aðeins ríkisvald tryggir mannréttindi. Á vesturlöndum fær ríkisvaldið umboð sitt frá almenningi sem framselur einstaklingsrétt sinn í nafni sameiginlegra gilda um hvernig málefnum samfélagsins skuli háttað. Af þessu leiðir getur ekki hvaða apaköttur sem er orðið þegn samfélagsins. Hann þarf að játast grunngildum samfélagsins sem hann æskir aðild að.
Hér heima eru eftirfarandi stjórnmálaflokkar bandingjar blekkingarinnar um lýðræði án landamæra: Samfylkingin, Viðreisn, Vinstri grænir og forysta Sjálfstæðisflokksins. Framsókn ekur seglum eftir vindi, eins og jafnan. Aðeins Miðflokkurinn er réttu megin víglínunnar.
![]() |
Þakkar stuðningsmönnum Verkamannaflokksins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)