Þriðjudagur, 25. desember 2018
Evrópskir Trump fordómar staðfestir
Stórútgáfan Der Spiegel í Þýskalandi sendi stjörnublaðamann sinn í smábæinn Fergus Falls í Minnesota í Bandaríkjunum. Meirihlutinn í Fergus Falls kaus Trump. Verkefni útsendara Spiegel var að bregða ljósi á bæjarbúa í Trump-samfélagi.
Blaðamaðurinn fékk heila 38 daga í verkefnið og skilaði af sér ritgerð fremur en blaðagrein um kjósendur Trump. Der Spiegel birti það sem pantað var: ítarlega úttekt á heimskum og illa gerðum kjósendum Bandaríkjaforseta. Þeir eru rasískir, fákunnandi, ósigldir, menningarsnauðir og dólgslegir.
Ritstjórum Der Spiegel yfirsást eitt smáatriði. Ritgerðin er uppspuni, falsfrétt, skáldskapur stjörnublaðamannsins margverðlaunaða, Claas Relotius.
Lúpulegir senda ritstjórar Spiegel annan blaðmann til að biðja bæjarbúa í Fergus Falls afsökunar. Blaðamaðurinn fær þrjá daga að hafa uppi á helstu heimildamönnum Relotius og leita eftir fyrirgefningu.
Bæjarbúar í Fergus Falls eru stórir í sniðum og taka þýska útsendarann í sátt.
Blaðamaður Spiegel biðst ekki afsökunar á þeim fordómum sem voru ástæða þess að falsfréttamaðurinn Claas Relotius var upphaflega gerður út til að draga upp mynd af kjósendum Trump.
Fordómarnir eru nefnilega ekta.
![]() |
Ég er aleinn í Hvíta húsinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 25. desember 2018
Bylting að ofan í Evrópu
Gulvesta-mótmælin í Frakklandi beindust að hluta gegn Evrópusambandinu. Rétta svarið við mótmælunum er að bylta Evrópu að ofan, með því að gera ESB að einu Evrópuríki, segir einn helsti talsmaður frjálslyndra vinstrimanna á Evrópuþinginu.
Guy Verhofstadt, fyrrum forsætisráðherra Belgíu, og forseti bandalags frjálslyndra á Evrópuþinginu, segir í grein að Stór-Evrópa, með sameiginlegum herafla, einum fjárlögum og fullveðja ríkisvaldi geti mætt kröfum íbúa álfunnar um hagsæld og innra sem ytra öryggi.
Á síðustu árum gengur stjórnmálaþróun í Evrópu í þveröfuga átt við það sem Verhofstadt óskar sér. Brexit og framgangur stjórnmálaflokka sem vilja minni ESB en ekki Stór-Evrópu er órækur vitnisburður um kulnaðar glæður hugsjónar um sameinaða heimsálfu.
Tillaga Verhofstadt veitir innsýn í vaxandi örvæntingu ráðandi afla í Evrópusmabandinu. Macron Frakklandsforseti átti að vera svarið við hnignun ESB. Bandalag Macron og Merkel í Þýskalndi skyldi veita forystu í umsköpun sambandsins. Gulvesta-mótmælin lömuðu Macron og Merkel ætlar að draga sig í hlé frá stjórnmálum.
Mótsögn ESB er að sambandið er of sterkt til að þjóðríkin innan þess geti svarað kröfum kjósenda um endurbætur á skipan efnahagsmála og í málefnum innflytjenda en of veikt til að móta sameiginlega stefnu í þessum málaflokkum. Undir þessum kringumstæðum yrði bylting að ofan hreint og klárt valdarán.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)