Laugardagur, 11. febrúar 2017
Stjórnmálaflokkur Sigmundar Davíðs
Á Eyjunni/ÍNN eru skór settir á pælinguna að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson íhugi að stofna stjórnmálaflokk. Orð fyrrum formanns Framsóknarflokksins má skilja þannig að flokkurinn sé á skilorði.
Framsóknarflokkurinn er í pólitísku tómarúmi og dólar sér í tíu prósent fylgi. Engra afreka er að vænta af flokki sem gerir út á pólitískan ósýnileika.
Tveir flokkar eru í sæmilega góðum málum þessi misserin, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir. Hinir fimm eru meira og minna í tómu tjóni.
Róttækur miðjuflokkur gæti svarað kalli eftir sýnilegri pólitík, sem Framsóknarflokkurinn stundaði með Sigmund Davíð í brúnni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 11. febrúar 2017
Tvær spurningar um falsfréttir
Ógna falsfréttir veruleikaskynjun fólks? Eða eru falsfréttir merki um breyttan veruleika? Forstjóri Apple svarar fyrri spurningunni játandi, líkt og margir aðrir, og vill skera upp herör gegn falsfréttum. En seinni spurningin kemst nær kjarna málsins.
Fréttir eru fyrstu drög sögunnar. Þær segja tíðindi dagsins og verða síðar efniviður sagnfræðinga. En fréttir eru líka fyrsta uppkast framtíðarinnar. Fréttir segja ekki aðeins hvað gerðist áðan, í gær eða fyrradag. Þær boða það sem koma skal. Skoðanakannanir fyrir kosningar eru dæmi um tíðindi óorðins veruleika.
Um leið og fréttir eru sagðar af skoðanakönnun er spáð í það sem koma skal. Meinið er að við vitum ekki framtíðina. Fréttir um framtíðina eru óskhyggja, nú eða bölmóður ef maður er svartsýnn. Sem slíkar eru þær allar falsfréttir enginn veit óorðna tíð.
Það eru ekki aðeins skoðanakannanir sem spá í framtíðina. Pólitískir atburðir, Brexit og kjör Trump, leiða til stórframleiðslu á fréttum um langtímaáhrif þeirra. Strangt tekið eru þetta allt falsfréttir.
Væntingar fólks byggja á skynjun þess í samtímanum og vangaveltum um framtíðina. Veruleg óánægja blasir við í samtímanum. Stórir hópar fólks eru óánægðir og vilja breytingar. Aðrir óttast breytingar, finnst þær ógna hagsmunum sínum.
Fréttir um framtíðina spila á væntingar og ótta fólks um breytingar. Eftirspurn er eftir framtíðarfregnum og falsfréttir sjá um framboðið. Viðbrögðin við falsfréttum skapa nýjan pólitískan og félagslegan veruleika. Þess vegna eru þær ómótstæðilegar. Veldisvöxtur falsfrétta er fyrirsjáanlegur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 11. febrúar 2017
Obama er fordæmi Trump í ESB-málum
Obama fráfarandi Bandaríkjaforseti talaði fyrir hönd Evrópusambandsins þegar hann varaði Breta við að ganga úr sambandinu fyrir tæpu ári. Bretar tóku ekki mark á forsetanum og kusu Brexit.
Nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, er á öndverðri skoðun en forveri sinn um Evrópusambandið. Og nú vilja ráðamenn í Brussel að Bandaríkjaforseti skipti sér ekki af málefnum sambandsins.
Evrópusambandið er ekki Evrópa, þótt látið sé eins og Brussel tali fyrir alla álfuna. Vandræði sambandsins munu halda áfram hvort sem Trump láti skoðun sína í ljós eða ekki. ESB getur ekki pantað réttar skoðanir í London hvað þá Washington.
![]() |
Varar Trump við afskiptum af Evrópu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)