Sunnudagur, 14. ágúst 2016
Kristín um ESB-klúður Samfylkingar
ESB-sinninn Kristín Þorsteinsdóttir segir i leiðara Fréttablaðsins að Samfylkingin beri ein og sér ábyrgð á misheppnaðri tilraun til að gera Ísland að ESB-ríki.
Evrópusambandsaðild og upptaka evru hefur verið slegin út af borðinu sem raunhæfur kostur í þjóðfélagsumræðunni. Sá sem mest vildi, klúðraði. Af hverju ætti Evrópusambandið annars að taka upp þráðinn að nýju eftir það sem á undan er gengið? Af hverju ætti þjóðin að veðja á annað svona leikrit?
Samfylkingin er rjúkandi rúst eftir ESB-leiðangurinn. Kristín ræðir ekki ástæðurnar fyrir klúðrinu. En þær eru helstar að Samfylkingu, og ESB-sinnum utan flokksins, mistókst að sannfæra þjóðina um að ESB aðild væri skynsamleg. Litlar sem engar líkur voru á að það tækist.
Öll nágrannaríki okkar, Grænland, Færeyjar og Noregur, hafa komist að þeirri niðurstöðu að aðild að Evrópusambandinu þjónar ekki hagsmunum þeirra. Í sumar ákvað Bretland að ganga úr Evrópusambandinu.
Evrópusambandið er fyrst og fremst félagsskapur meginlandsríkja. Það er hannað til að verða Stór-Evrópa með sameiginlegri yfirstjórn. Þessi misserin stendur ESB fyrir tröllauknum vanda vegna þess að gjaldmiðill sambandsins, evran, stuðlar að misvægi í efnahagsþróun. Þekktasta fórnarlambið er Grikkland en Ítalía er líklega næsta.
Ef ESB tekst ekki að verða Stór-Evrópa, og byggja á áþekku skipulagi og Bandaríkin, mun það gliðna í sundur. Hvort heldur sem verður er hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess.
ESB-klúður Samfylkingar var óhjákvæmilegt um leið og flokkurinn tók upp þá stefnu að Ísland skyldi verða ESB-ríki. Harður pólitískur veruleiki trompar alltaf draumóra.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)