Þriðjudagur, 14. apríl 2015
Höftin, kjarasamningar og ríkisstjórnin
Afnám hafta skapa efnahagsleg skilyrði sem ekki er hægt að sjá fyrir. Höftin verða leyst næstu mánuði, gangi fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar eftir.
Í því ljósi væri e.t.v. ráðlegt að kjarasamningar yrðu gerðir til eins árs, með kannski 5 til 7 sjö prósent hækkun. Að ári liðnu væri hægt að meta stöðuna upp á nýtt. Ókosturinn við skammtímasamninga er kjarasamningar gætu e.t.v. verið lausir fram á haust á kosningavetri og það er ávísun á hörmungar fyrir land og þjóð.
Hinn kosturinn er að gera samninga sem ná fram yfir næstu kosningar, vorið 2017. Miðað við núveranadi forsendur yrði launahækkun í kringum tíu prósent.
Ríkisstjórnin tekur réttan pól í hæðina þegar hún heldur að sér höndum og bíður þess sem verða vill í kjarasamningum á almenna markaðnum.
Ekki undir nokkrum kringumstæðum er hægt að láta opinbera starfsmenn stjórna ferðinni í launaþróun. Almenni markaðurinn býr við meira aðhald í kjaramálum. Ef fyrirtæki semja um meiri kauphækkanir en þau standa undir fara þau einfaldlega á hausinn.
Kvótakerfið, jafn illa þokkað og það annars er, gerbreytti kjarasamningum með því að eftir að það festist í sessi er tómt mál að tala um að ríkisvaldið krukki í gengi krónunnar til að bjarga útgerð og vinnslu sem urðu við verkföll að semja um ósjálfbær laun. Gjaldþrot blasir við fyrirtækjum sem reisa sér hurðarás um öxl, - ekkert elsku mamma lengur.
Sterk samstaða ríkisstjórnarflokkanna um að gefa hvergi eftir óbilgjörnum kröfum mun stytta verkfallsaðgerðir. Verkalýðshreyfingin er með veikt pólitískt bakland og gildir það bæði um ASÍ-félögin og samtök opinberra starfsmanna.
Þegar verkalýðshreyfingin skynjar staðfestu ríkisstjórnarinnar verður leitað eftir samningum, annað tveggja til skamms tíma eða fram yfir næstu kosningar.
![]() |
Stöðugleikaskattur á lokametrunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 14. apríl 2015
ESB-andstæðingar fá tvo fyrir einn
Umsókn er aðferð til að eyðileggja stjórnflokk, að því gefnu að umsóknin sé nógu illa ígrunduð og borin fram af græðgisblindri vanþekkingu. ESB-umsóknin og Samfylking passa eins og flís við rass í þessari skilgreiningu.
Samfylking getur hvorki barist fyrir ESB-umsókninni því að málefnastaðan er gjörtöpuð, hvort heldur litið er til eymdarstöðu Evrópusambandsins eða velsældarinnar á Íslandi, né getur Samfylking svarið af sér umsóknina og varpað Evrópumálum fyrir róða enda á flokkurinn ekkert annað málefni að berjast fyrir.
Samfylking er með ESB-umsóknina sem myllustein um háls sér. Systurflokkurinn, Björt framtíð, er um það bil búin að koma sjálfum sér fyrir kattarnef vegna umsóknarinnar, þótt ekki beri systurflokkurinn sömu ábyrgð og móðurflokkurinn á mistökunum fyrir sex árum.
Guðmundur Steingrímsson formaður Bjartrar framtíðar er ESB-sinni fram í fingurgóma. Hann líður önn yfir stöðu umsóknarinnar og reyndi í gærmorgun að véla fulltrúa Seðlabankans með sér í evruför með fjármagnshöftin. Heimssýn greinir frá sálarstríði formannsins á morgunfundinum með seðalbankamönnum.
Eftir hádegi var Guðmundi öllum lokið og hann lýsti sig fífl sem ekki hægt væri að boða á fundi. Stjórnmálamaður sem uppnefnir sjálfan sig og auglýsir sig hornkerlingu sem ástæðulaust er að boða á fundi er vitanlega á leið úr starfi; án funda þrífast ekki stjórnmál.
Kratísku systurflokkarnir stunda umsóknarsjálfspíningu sem verður æ ámátlegri eftir því sem frá líður pólitíska stórslysinu 16. júlí 2009.
![]() |
Þjóðin klofin í afstöðu til ESB-umsóknar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 14. apríl 2015
Sjálfsmorð, glæpur og trú
Sjálfsmorð eru litin hornauga í kristnum menningarheimi. Þeir sem tóku eigið líf fengu til skamms tíma ekki kristna greftrun enda glæpur að tortíma dýrmætustu guðsgjöfinni, lífinu sjálfu. Í veraldlegum heimi vesturlanda er sjálfsmorð tíðast greint sem sjúkdómur og sem slíkt án tilgangs.
Fyrirsögnin ,,Sjö Frakkar frömdu sjálfsmorðsárásir" er óskiljanleg sökum þess að vestrænn menningarheimur býður ekki upp á merkingarlega umgjörð til að ræða árásir og sjálfsmorð í sömu andrá.
En um leið og upplýst er að Frakkarnir sjö eru múslímar klæðast sjálfsmorðsárásirnar merkingarbærum búningi. Í vestrænum augum er atburðurinn glæpur en múslímum tekst að finna þar trúartjáningu.
![]() |
Sjö Frakkar frömdu sjálfmorðsárásir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)