Ísland blómgast, ESB visnar

Efnahagskennitölur Íslands eru öfundsverðar; lág verðbólga, hagvöxtur og ríkisfjármál í góðu lagi.

Á evru-svæðinu er verðhjöðnun, lítill sem enginn hagvöxtur og ríkisfjármál í uppnámi hjá þorra þeirra 18 þjóða sem mynda þetta efnahagssvæði.

Það sem verra er fyrir Evrópusambandið er útlitið er býsna dökkt, samanber þessa samantekt Die Welt. 

ESB-sinnar á Íslandi vilja leiða þjóðina inn í bandalag sem skapar atvinnuleysi, kreppu og setur ríkisfjármál í uppnám.  


mbl.is Vatnaskil í ríkisfjármálum framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstripólitík í tilvistarklemmu

Samfylking með 20%, Björt framtíð með 14% og Vg með 12% eru þeir þrír flokkar sem mynda vinstri væng stjórnmálanna. Engar líkur eru á því að þessir flokkar nái meirihluta í fyrirsjáanlegri framtíð.

Kannanir á kjörtímabilinu sýna að fylgisflæði er á milli Samfylkingar og Bjartar framtíðar en Vg er pikkfastur með stöðugt 12 prósent fylgi. Í kosningabaráttu eru áhrif formanna meiri en annars og þar flaggar Vg sterkum leiðtoga en hvorki formaður Bf né Samfylkingar halda máli.

Þegar dregur nær kosningum munu vinstriflokkarnir, einkum Samfylking og Björt framtíð, gera hosur sínar grænar fyrir Sjálfstæðisflokknum, sem er eini turn íslenskra stjórnmála. Eftir bæjarstjórnarkosningarnar í vor stungu fulltrúar Bf undan félögum sínum í Samfylkingu og hoppuðu upp í með Sjálfstæðisflokknum á lykilstöðum, s.s. Hafnarfirði og Kópavogi.

,,Kósí-pólitík" Bf leitar sjálfkrafa í hlýju valdsins en er algerlega ófær um að móta stefnu upp á eigin spýtur. Vinstripólitík mun ekki endurnýjast innan raða Bjartrar framtíðar.

Samfylkingin mun leggja sig í líma fyrir næstu þingkosningar að verða valkostur fyrir Sjálfstæðisflokkinn, m.a. fórna Evrópustefnu sinni og taka upp hægripólitík í efnahagsmálum. Við það opnast sóknarfæri frá vinstri fyrir Vg sem skartar formanni sem (oft) er tekið mark á. Vg er á hinn bóginn niðurnegldur minnihlutaflokkur sem ekki er í færum að komast yfir 15% - nema hrun komi til.

Við þessar kringumstæður verður ekki til vinstripólitískur valkostur í landsstjórninni. Spurningin er aðeins hvort Sjálfstæðisflokkurinn muni starfa með Framsóknarflokknum eða hægrivæddri Samfylkingu.

 


Hanna Birna styrkir Sjálfstæðisflokkinn

Snörp vörn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráherra, þegar ómaklega var að henni sótt í lekamálinu, skilar sér í auknu fylgi Sjálfstæðisflokksins.

Hanna Birna var sá stjórnmálamaður sem mest var í fréttum síðustu vikur og landsmenn kunnu vel að meta frammistöðu hennar og sjá í henni stjórnmálamann sem lætur ekki bilbug á sér finna í orrahríðinni.

Þá skilar það án efa Sjálfstæðisflokknum auknu fylgi að þingflokkur og flokksforysta stóð saman sem einn maður þegar lekahávaðinn var hvað mestur. Þjóðin umbunar staðfestu en refsar hviklyndi. Spyrjið bara vinstrimenn.

 


mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokksins 28%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband