Föstudagur, 30. maí 2025
Samtökin 78 njósna um fólk og krefjast slaufunar
Samtökin 78 stunda stafrænar njósnir á samskiptum fólks og finna leiðir til að koma höggi á þá sem ekki sýna transhugmyndafræðinni skilyrðislausa hollustu. Norðlensk kona varð fyrir barðinu á Stasi-aðferðum lífsskoðunarfélagsins. Sjálfboðavinna í þágu innflytjenda er í uppnámi vegna aðgerða Samtakanna 78.
Norðlenska konan vann sér til óhelgi að hafa ranga skoðun á transmálum í umræðum á samfélagsmiðlum. Samtökin 78 flettu upp á konunni og komust að því að hún vann í sjálfboðavinnu að aðstoða erlendar konur aðlagast íslensku samfélagi. Sjálfboðavinnan er í samstarfi við Amtsbókasafnið á Akureyri. Framkvæmdastjóri Samtakanna 78, Kári Garðarsson, skrifaði harðort bréf norður sem lýkur með þessu orðum:
Er það krafa Samtakanna 78 að forsvarsfólk Amtsbókasafnsins taki föstum tökum á þeirri stöðu sem upp er komin.
Þetta er krafa um slaufun. Samtökin 78 njósnuðu um konu, fundu snöggan blett, að hún starfaði í sjálfboðavinnu í samstarfi við opinberan aðila, Amtsbókasafnið, og krefjast að konunni verði úthýst.
Netmiðillinn Þjóðólfur fjallar um málið undir fyrirsögninni: Er Samtökunum 78 eitthvað í nöp við innflytjendur? Þjóðólfur birtir helstu gögn málsins.
Samtökin 78 eru nær alfarið rekin fyrir opinbert fé. Þegar fyrir liggur að samtökin stunda stafrænar njósnir á fólki út í bæ og standa fyrir skemmdarverkum á frjálsu félagastarfi, sem unnið er í sjálfboðavinnu, hljóta kjörnir fulltrúar að endurskoða fjárframlög til samtakanna. Transnjósnir á ekki að fjármagna með opinberu fé. Í ljósi sérhæfingarinnar er nærtækt að endurskíra lífsskoðunarfélagið, nefna það Stasi 78.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fimmtudagur, 29. maí 2025
Sema Erla, Hamas og Íslandsbanki
Sema Erla Serdaroglu rekur samtökin Solaris og safnaði í fyrra 93 milljónum króna í þágu Palestínuaraba. Grunur er um peningaþvætti og rannsakar lögreglan málið. Tilfallandi sagði frá greinargerð ríkissaksóknara:
Markmið Solaris var að safna 50 milljónum króna. Söfnun hófst 7. febrúar 2024 lauk formlega 4. mars sama ár og höfðu þá safnast 50 milljónir króna. Í rökstuðningi ríkissaksóknara til lögreglunnar, um að sakamálarannsókn skuli haldið áfram, kemur fram að tugir milljóna króna hafi flætt inn á reikning Solaris í vikur og mánuði eftir að söfnun lauk.
,,Fram til 4. september 2024 söfnuðust 93.338.100 kr.," segir í greinargerðinni. Hvaðan komu rúmlega 43 milljónir króna inn á reikning Solaris, hálfu ári eftir að formlegri söfnun lauk og 50 milljón kr. markinu var náð? Allir sem þekkja til fjársafnana af þessum toga vita að eftir að söfnun lýkur kemur sáralítið ef nokkuð til viðbótar inn á söfnunarreikning. Í greinargerð ríkissaksóknara segir að ,,sætir það furðu" að Solaris hefði ,,viðvarandi innstreymi fjármagns."
Viðskiptablaðið skrifar frétt um að Sema Erla sé stórkaupandi hlutafjár Íslandsbanka í nýlegu útboði, keypti fyrir hámarksfjárhæð, 20 milljónir króna.
Í blogginu, sem vitnað er í hér að ofan, segir:
Glæpahópar og hryðjuverkasamtök nota gjarnan góðgerðar- og mannúðarsamtök til að þvætta peninga. Söfnun á peningum frá almenningi er notuð til að gera illa fengið fé hreint. Ólögmætir peningar fara inn á reikninginn en út koma peningar sem hægt er að koma í umferð í þágu málefna á skjön við lög og reglur.
Í hnotskurn: Sema Erla er undir lögreglurannsókn vegna gruns um peningaþvætti. Hún kaupir fyrir 20 milljónir hlut í Íslandsbanka á eigin kennitölu. Í útboðinu er vitað af kennitölusöfnun fjársterkra aðila.
Fjármálastofnanir eru lykilaðilar í peningaþvætti.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Miðvikudagur, 28. maí 2025
Þjóðin kaupir sér banka? Nei, aðeins 10% þjóðarinnar
Mest lesna fréttin í gær á Mbl.is er listinn yfir þá sem keyptu hlutabréf í Íslandsbanka. Aðrir fjölmiðlamiðlar birtu einnig listann sem þýðir að verulegur áhugi var að lesa nöfn og kennitölur þeirra sem keyptu. Minnir okkur á að við erum þjóðin sem til skamms tíma skemmti sér við að hlera samtöl í sveitasímanum.
Tilfallandi hefur ekki gefið sér tíma að stúdera nafnalistann af nýjum eigendum Íslandsbanka. Guðmundur Brynjólfsson rithöfundur gjóaði á listann og fannst prýðismál hve margir ávöxtuðu fé sitt í útboðinu. Sagði síðan í færslu á Facebook:
Áhugaverðast er auðvitað að sjá að fólk sem hvorki borgar tekjuskatt né útsvar skuli eiga í handraðanum aura, jafnvel milljónir, til að kaupa hlutabréf í banka.
,,Þetta tækifæri greip þjóðin," sagði Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra þegar útboðið var afstaðið. Í reynd voru það aðeins ríflega tíu prósent af fjárráða Íslendingum sem keyptu. Meðaltal kaupanna voru tæpar þrjár milljónir á haus. Útboðsgengið var 106,56 kr. á hlut, gengið í bankanum í dag er 118,5 kr. á hlut. Rúmlega tíu prósent hagnaður. Lagleg ávöxtun á fáeinum dögum, en ekkert meira, séu hreyfingar á hlutabréfamarkaði hafðar í huga.
Hvað stjórnvöld varðar gekk útboðið vel, fáir gerðu athugasemd við framkvæmd og almennt virðist sátt um hvernig til tókst. Engum datt í hug að gera því skóna að vildarvinum ríkisstjórnarflokkanna væri hampað. Útboðið var almennt og jafnvel þótt einhver ráðherrafaðir hefði keypt hlut yrði ekki gert veður út af því. Er nokkur annar bragur á umræðunni en við síðasta útboð sem leiddi til krampakenndra viðbragða, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.
En það er þetta með þjóðina sem keypti sér banka þegar í reynd aðeins tíundi hluti fjárráða kaupir hlut. Menn ættu að fara varlega í að þjóðgera tíund landsmanna. Níu af hverjum tíu létu sér fátt um finnast útboð Íslandsbanka.
![]() |
Listi yfir þá sem keyptu í Íslandsbanka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 27. maí 2025
Þorgerður Katrín veikir varnir Íslands
Utanríkisráðherra Þorgerður Katrín smeygir vörnum Íslands og öryggishagsmunum undir pilsfald Evrópusambandsins. Hún rekur fleyg í varnarsamstarfið við Bandaríkin með aðlögun Íslands að varnar- og öryggismálum ESB.
Í viðtengdri frétt segist utanríkisráðherra vilja aðlagast Evrópusambandinu ,,vegna breyttra aðstæðna í heiminum." Meginbreytingar á aðstæðum í heimspólitíkinni eru tvennar. Í fyrsta lagi eru Rússar jafnt og þétt að sigra Úkraínustríðið. Í öðru lagi er yfirlýst stefna ríkisstjórnar Bandaríkjanna að láta Evrópumenn sjá um eigin varnir. Báðar breytingarnar stórlega veikja Evrópusambandið í bráð og lengd.
Rússneskur sigur í Úkraínu fæli í sér að ESB-Evrópa yrði í afar veikri stöðu hernaðarlega gagnvart Rússlandi samtímis sem Bandaríkin þvo hendur sínar af varnarmálum Evrópu. Aðlögun Íslands að öryggis- og varnarhagsmunum ESB-Evrópu undir núverandi kringumstæðum stórlega veikir varnir Íslands. ESB-Evrópa er ekki í neinum færum að sinna Íslandi á Norður-Atlantshafi með óvígan rússneskan her á austurlandamærum sínum og litlar sem engar bandarískar varnir.
Bandarískt stjórnvöld vinna skipulaga að því markmiði að gera Grænland hluta af bandarísku öryggissvæði í vestri. Með háttsemi sinni eykur Þorgarður Katrín utanríkisráðherra líkur á að hér innanlands verði ófriður milli tveggja fylkinga, þeirra sem kjósa bandaríska hervernd annars vegar og hins vegar þeirra sem vilja leita á náðir ESB-Evrópu í öryggis- og varnarmálum.
Smáþjóð sem verður bitbein stórveldahagsmuna er komin á vonarvöl. Þorgerður Katrín er stórhættuleg varnar- og öryggishagsmunum íslensku þjóðarinnar.
![]() |
Þvertekur fyrir upptöku utanríkisstefnu ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 26. maí 2025
RÚV afhendir gögn, ekki þó byrlunargögnin
RÚV afhendir lögreglu gögn í gagnalekamálinu, segir í frétt ríkisfjölmiðilsins. Nýmæli eru að RÚV sýni samstarfsvilja í sakamálarannsókn. Til skamms tíma hét það að RÚV afhenti ekki lögreglu gögn og upplýsingar sem starfsmenn taka við í trúnaði.
Fyrir þremur árum fékk Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks á RÚV stöðu sakbornings í byrlunar og símamálinu. Við það tækifæri gáfu þeir Stefán Eiríksson útvarpsstjóri og Heiðar Örn Sigurfinnsson fréttastjóri yfirlýsingu þar sem m.a. segir:
Forsenda fyrir því að fjölmiðlar geti rækt hlutverk sitt er að þeir geti aflað upplýsinga um mál sem hafa þýðingu fyrir almenning og miðlað þeim án afskipta annarra. Einn þáttur í þessu sjálfstæði fjölmiðla er að þeir geti tekið við slíkum upplýsingum í trúnaði án þess að þurfa að gera grein fyrir hvaðan eða frá hverjum þær stafi...
Fyrir þremur árum var trúnaður æðsta boðorðið, jafnvel í sakamálarannsókn, og ekki skyldi RÚV eiga samvinnu við lögreglu um að upplýsa lögbrot. Í tölvupósti sem Stefán Eiríksson útvarpsstjóri skrifaði 11. janúar 2023 til lögreglunnar á Norðurlandi eystra hafnar hann blákalt að veita upplýsingar um síma með númerið 680 2140 (sjá nánar um símann að neðan). Stefán skrifar fyrir tveim árum í tölvupósti:
Þegar af þessum ástæðum er ekki unnt að fallast á upplýsingabeiðnina, enda uppfyllir hún að okkar mati ekki lagaskilyrði.
Nú ber aftur svo við, í gagnalekamálinu, að RÚV afhentir umyrðalaust trúnaðargögn. Enginn vængjasláttur um trúnað og sjálfstæði fjölmiðla. Ekkert fjas, líkt og fyrir þrem árum, að fjölmiðlar verði að rækja hlutverk sitt.
Hvað breyttist?
Jú, í stuttu máli, Efstaleiti varð að Glæpaleiti á þremur árum, 2022 til 2025. Á þeim tíma komu fram upplýsingar um að RÚV var aðgerðamiðstöð í byrlunar- og símamálinu sem hófst í apríl 2021 er samband komst á milli byrlara Páls skipstjóra Steingrímssonar og fréttamanna RÚV. Skipstjóranum var byrlað 3. maí 2021. Daginn eftir var sími hans afritaður á Samsung-síma í eigu RÚV með númerið 680 2140. Tilfallandi rakti atburðarásina:
Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks á RÚV keypti Samsung síma í apríl 2021 og skráði á hann númerið 680 2140 í sama mánuði. Síminn er sömu gerðar og sími Páls skipstjóra sem hefur númerið 680 214X. Aðeins munar síðasta tölustaf á númerunum tveim. Til afritunar var nauðsynlegt að hafa síma sömu gerðar og skipstjórans, Samsung. Símarnir eru lagðir saman og afritunarforrit er ræst. Aðgerðin tekur nokkrar mínútur.
Páli skipstjóra Steingrímssyni var byrlað 3. maí 2021, stuttu eftir símakaup Þóru. Nýr ónotaður sími með símanúmer líkt númeri skipstjórans beið á Efstaleiti. Ráðabruggið lá fyrir. Aðeins átti eftir að byrla og stela
Margvísleg samskipti voru á milli byrlara skipstjórans og fréttamanna RÚV, einkum Þóru Arnórsdóttur og Helga Seljan. RÚV birti enga frétt með vísun í gögn skipstjórans. Á Glæpaleiti voru aftur skrifaðar tvær efnislega samhljóða fréttir sem birtust samtímis í Stundinni og Kjarnanum að morgni dags 21. maí 2021. Allt samkvæmt skipulagi.
Seint og um síðir átta ábyrgir aðilar sig á að við svo búið má ekki standa. Upplýsa þarf aðild RÚV að byrlunar- og símamálinu. Stjórnarmaður í RÚV, Ingvar Smári Birgisson, lét bóka nýlega á fundi stjórnarinnar:
Mikilvægt er að Ríkisútvarpið bregðist umfram það sem þegar hefur verið gert við þeim alvarlegu ásökunum, sem eru hafðar uppi gagnvart stofnuninni í málinu. Um alvarlegar ásakanir er að ræða sem nauðsynlegt er að svara með skilmerkilegum hætti og ítarlegri upplýsingagjöf, með það að markmiði að staðreyndir málsins liggi fyrir og málið verði upplýst eins og kostur er. Þannig telur undirritaður að best megi verja orðspor og heiður Ríkisútvarpsins.
Í frétt RÚV um bókun Ingvars Smára er haft eftir Stefáni útvarpsstjóra að hann viti ekkert um málið. En hann vissi nóg til að lauma Þóru Arnórsdóttur út um bakdyrnar á RÚV eftir að upp komst um símakaup hennar í tengslum við byrlun skipstjórans. Þóra var látin fara frá RÚV einu ári eftir að hún varð sakborningur. Stefán hélt hlífiskildi yfir fyrrum forsetaframbjóðanda. En þegar uppvíst varð um símakaupin taldi útvarpsstjóri óhjákvæmilegt að ritstjóri Kveiks tæki pokann sinn. Þóra hætti á RÚV í byrjun febrúar 2023, rétt eftir að Stefán hafnaði samvinnu við lögreglu vegna símans með númerið 680 2140, samanber tölvupóstinn sem hann skrifaði og vitnað er í hér að ofan. Gagnvart lögreglu lét Stefán eins og ekkert hefði í skorist og hafnaði samvinnu um að upplýsa lögbrot - en hann lét Þóru fara frá stofnuninni.
Stefán ræddi ekki starfslok Þóru við stjórn RÚV. Á fundi 22. febrúar 2023, leggur Stefán fram minnisblað, líkt og venja er á stjórnarfundum. Þar segir m.a. frá starfslokum Þrastar Helgasonar dagskrárstjóra Rásar 1. Ekki eitt aukatekið orð um svipleg starfslok Þóru. Í starfsaldri er Þröstur ekki hálfdrættingur Þóru, hún hafði aldarfjórðung að baki hjá stofnuninni. Stefán upplýsti ekki stjórn RÚV um starfslok ritstjóra Kveiks enda hefði hann þurft að útskýra ástæðuna - að Þóra keypti afritunarsímann í byrlunar- og símamálinu áður en byrlun fór fram. Á Glæpaleiti er óþægilegum staðreyndum sópað undir teppið.
Stefán útvarpsstjóri og Heiðar Örn fréttastjóri vita hvar afritunarsíminn er niðurkominn. Er líklegt félagarnir á Glæpaleiti framselji símann í hendur réttvísinnar líkt og þeir afhenda gögnin í gagnalekamálinu?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 25. maí 2025
Úlfar talar en ráðherra flýr á vit transmála
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri er flæmdur var úr embætti fyrir að gæta landamæranna, talar tæpitungulaust í Spursmálum um ófremdarástand löggæslumála hér á landi. Blaðamaðurinn Stefán Einar gerir grein fyrir á Facebook-færslu hvers vegna dómsmálaráðherra, Þorbjörg Sigríður, mætir ekki til andsvara:
Það var auðsótt að fá Úlfar á vettvang. Öðru máli gegnir um dómsmálaráðherrann sem vikum saman hefur, ásamt aðstoðarmönnum sínum, sýnt mér fullkomna fyrirlitningu með því að láta það með öllu eiga sig að svara beiðni minni um viðtal.
Hvað má segja um fólk sem umgengst vald sitt og störf í þágu almennings af slíku yfirlæti? Ég hef horft ofan í svartholið sem lögreglustjórinn fyrrverandi færði í tal í viðtalinu. Það er reyndar í lok dags ekki annað en birtingarmynd óöryggis og vandræðagangs hjá fólki sem veit ekki hvernig það á að snúa sér.
Þorbjörg Sigríður dómsmálaráðherra þorir ekki í viðtal um hörmungarstöðuna í löggæslumálum. Verklaus er ráðherra þó ekki. Á föstudag sendir Þorbjörg Sigríður frá sér fréttatilkynningu um forgangsröðunina í ráðuneyti dóms- og lögreglumála og nefnir þrjú tilvik um sérdeilis vel heppnaða stjórnsýslu:
Sem dæmi má nefna að hatursorðræða á grundvelli kyneinkenna var gerð refsiverð með breytingu á 233. gr. a í almennum hegningarlögum.
Með leyfi að spyrja: hvaða ,,kyneinkenni" eru til í henni veröld önnur en þau sem kennd eru við karl og konu? Hvernig getur það verið hatur að afhjúpa orðræðu sem heldur fram þeirri staðleysu að kynin séu fleiri en tvö? Hvers vegna gengur ráðherra ekki röklega skrefinu lengra og bannar orðræðu um ,,tegundareinkenni"? Þar með yrði úthýst úr tungumálinu orðinu maður. Úlfur bendir á, í viðtalinu við Stefán Einar, að lögreglustjórinn í Reykjavík, notar orðskrípið ,,lögreglufólk", ekki lögreglumenn. Næsti áfangi er að tala um ,,lögreglufyrirbæri", það má jú ekki mismuna translífríkinu með sínum líffræðilega fjölbreytileika.
Næst brýnasta mál ráðherra:
Jafnframt var sett reglugerð um blóðskimanir í því skyni að undirbúa afnám banns við blóðgjöfum karla sem stunda kynlíf með öðrum körlum.
Hér fer dómsmálaráðherra inn á svið heilbrigðismála og ætlar að afnema bann við blóðgjöf homma. Bannið er af heilbrigðisástæðum. Karlar sem gefa blóð í Blóðbankanum eru spurðir hvort þeir hafi stundað kynlíf með karli. Ef já, þá á maður ekki að gefa blóð. Sýkt blóð skapar hættu fyrir blóðþega. Ekki í heimi dómsmálaráðherra, þar gildir hinseginlínan, skítt með lýðheilsuna.
Þriðja dæmið sem Þorbjörg Sigríður telur ráðuneytinu til ágætis:
Með sama hætti er stuðlað að því með reglugerðarbreytingu að kynhlutlaust salerni séu til staðar ef salernisaðstaða er kynjaskipt.
Aftur eru það hinseginmálin sem trompa allt annað. Ef eitt salerni er ætlað körlum og annað konum skal byggt þriðja salernið fyrir öll ímynduðu kynin.
![]() |
Ráðuneytisstjórinn víki sökum þjóðaröryggis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 24. maí 2025
Namibíuráðgjafar ríkisstjórnar Kristrúnar
Tveir fyrrum blaðamenn eru helstu ráðgjafar stjórnar Kristrúnar Frostadóttur í veigamesta máli stjórnarinnar til þessa, tvöföldunar á veiðigjöldum útgerðarinnar. Í blaðamennskutíð sinni sérhæfðu félagarnir sig í útgerðarháttum í Namibíu. Fyrir fjórum árum birtu þeir stórfrétt, að eigin mati, um uppboð á veiðiheimildum í Namibíu. Hér væri komin fyrirmynd fyrir Ísland. Útreikningurinn á veiðigjöldum sem runnu í namibíska ríkiskassann reyndist kolvitlaus, eins og lyfjafræðingurinn Ingunn Björnsdóttir benti þeim á.
Ingunn rifjar upp samskiptin við Arnar Þór Ingólfsson og Þórð Snæ Júlíusson í færslu á Facebook fyrir þremur dögum. Hún skrifar:
Ég var að gramsa í gömlum Messenger skilaboðum. Og hnaut um bæði samtal mitt við Inga Frey Vilhjálmsson um stóru læk-fréttina... Ooog samtal mitt við Þórð Snæ Júlíusson um namibíska kvótauppboðið sem floppaði og endaði með að nágrannarnir í Kongó skáru Namibíumenn úr snörunni og keyptu óselda kvótann á yfirverði. Ég taldi ástæðu til að leiðrétta Kjarnafrétt um mislukkaða kvótauppboðið af því að Kjarna-piltarnir höfðu feilreiknað sig dálítið hressilega. Þeir áttuðu sig á feilreikningnum eftir stutta kennslustund í reikningi, - og leiðréttu fréttina. En þeir þökkuðu mér ekki fyrir, bölvuð beinin. Hvorki í skilaboðum né í tilkynningunni um leiðréttinguna.
Ingunn vísar í fréttina sem þeir Arnar Þór og Þórður Snær eru ábyrgir fyrir og þar kemur leiðréttingin fram:
Fréttin hefur verið uppfærð: Í fyrri útgáfu fréttarinnar var því ranglega haldið fram, vegna villu í útreikningum blaðamanns, að ríkisstjórn Kongó hefði keypt hrossamakrílskvóta á því verði sem var meðalverð á þeim uppboðum sem namibísk stjórnvöld stóðu fyrir. Hið rétta er að Kongómenn greiddu hærra verð en fékkst í uppboðunum.
Eins og Ingunn segir, kvótauppboðið í Namibíu floppaði. Ýmislegt annað floppaði þar syðra sem tengist RSK-miðlum (RÚV, Stundinni og Kjarnanum), eins og frásagnir fyllibyttu um mútugjafir - en það er önnur saga.
Arnar Þór og Þórður Snær eru núna á mála hjá stjórnarmeirihlutanum á alþingi, fá ríkislaun í gegnum þingflokk Samfylkingar. Helsta verkefni þeirra er að tala fyrir tvöföldun veiðigjalda á útgerðina hér heima. Helsta sérhæfing félaganna er að þeir kunna ekki að reikna, það sást á Namibíufréttinni. Kristrún og félagar í stjórnarráðinu ættu að fá Ingunni Björnsdóttur að yfirfara það sem frá Namibíuráðgjöfunum kemur. Eins og norðlenskur skipstjóri myndi orða það: þjóðarbúið má ekki við ,,sérfræðingum" með greindarvísitölu við frostmark og botnfrosið siðvit. Skipstjórinn talar af reynslu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 23. maí 2025
Þrír karlar í kjallara og sprenging
Voveiflegur atburður varð í vesturbæ Reykjavíkur í gær. Um tíuleytið að morgni er sprenging í kjallaraíbúð og eldur kviknar. Þrír fullorðnir karlar voru í íbúðinni, einn lést og hinir eru alvarlega slasaðir.
Í fréttum kemur ekki fram hvort karlarnir hafi verið við vinnu i íbúðinni og sprengingin orðið vegna standsetningar hennar. Eða hvort íbúðin hafi verið heimili karlanna þriggja. Þrír karlar heima hjá sér á vinnudegi og úr verður sprenging er ekki daglegt brauð.
Alvarlegur atburður, sprenging, eldsvoði og mannslát í íbúðarhúsnæði, gerir kröfu til fjölmiðla að þeir upplýsi almenning um kringumstæður. Fréttir af atburðinum í vesturbænum eru í skötulíki og bjóða heim hverskyns orðasveimi um að þetta eða hitt liggi að baki.
Morgunblaðið talar um sprengingu, en Vísir skrifar bruni og hjá RÚV heitir það eldsvoði. Sjónvarvottar nærri vettvangi upplýsa um sprengingu og síðan eld. Það skiptir máli. Venjuleg heimilistæki valda ekki sprengingu sem leiðir til eldhafs. Var óvenju mikið um eldsmat í íbúðinni? Hér þarf skýringar. Það virðast samantekin ráð fjölmiðla að upplýsa sem minnst þennan sviplega atburð. Í morgun, daginn eftir atvikið, er enn þögn.
Enginn biður um nafn og kennitölu mannanna en umfjöllun um kringumstæður og sennilegar skýringar á atburðinum eru eðlileg krafa. Ríkið dælir peningum í fjölmiðla en þeir standa sig ekki í stykkinu.
![]() |
Fullorðnir karlmenn sem slösuðust í sprengingunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fimmtudagur, 22. maí 2025
Þorgerður Katrín færir Ísland nær Evrópustríði
ESB-Evrópa býst við að Úkraína tapi stríðinu við Rússland næstu vikur eða mánuði. Þorgerður Katrín utanríkis sendir Ísland lóðbeint inn í veikburða ESB-Evrópu, sem þarf að glíma við Rússa án stuðnings Bandaríkjanna.
Þýskur fyrrum herforingi, Roland Kather, reglulegur álitsgjafi Die Welt, segir ljóst að Trump ætli ekki í leiðangur með ESB-Evrópu að setja Rússum úrslitakosti og skammt sé í endalokin.
ESB-Evrópa er fangi eigin orðræðu, trúir að Rússland sé í landvinningastríði í vesturátt, Úkraína sé aðeins fyrsti munnbiti bjarnarins í austri. Orðræðan styðst ekki við trúverðugar vísbendingar um að Kremlarbændur ætli sér annað og meira en að sitja yfir hlut Úkraínu - koma í veg fyrir að landið verði Nató-ríki.
Vegna orðræðunnar er stríðsæsingur á meginlandi Evrópu og í Bretlandi. Ráðamenn tala um stórfellda hernaðaruppbygginu næstu ár og áratugi. Það eykur á vanda ESB-Evrópu að skilaboð Trump-stjórnarinnar eru að Bandaríkin ætli sér ekki að sjá um varnir Evrópu, líkt og í kalda stríðinu. Trump stefnir á friðsamleg samskipti við Rússland að loknu Úkraínustríði. ESB-Evrópa er með böggum hildar, þarf að sjá um eigin varnir í fyrsta sinn frá lokum seinna stríðs.
Ljúki Úkraínustríðinu með rússneskum sigri, sem allar líkur eru á, verður ESB-Evrópa í stórkostlegum vanda næstu ár og áratugi - jafnvel þótt Rússar hleypi ekki af einu einasta skoti í vesturátt. Í stórveldapólitík skiptir sköpum ógnin af hernaðarlegri getu andstæðingsins. Í 80 ár hefur Vestur-Evrópa notið bandarískrar herverndar. Ekki lengur. Utanríkispólitík ESB-Evrópu er í uppnámi og verður um langan aldur. Áratugi tekur að byggja upp trúverðugan hernaðarmátt.
Mistök ESB-Evrópu eru þau að ætla sér landvinninga í austri, m.a. með innlimun Úkraínu í ESB, í skjóli bandarísks hernaðarmáttar. Trump-stjórnin vill aftur samstarf við Rússland, ekki freista þess að gera Rússland að vestrænni hjálendu. Gömlu nýlenduveldin á meginlandinu standa nú berskjölduð, hafa engt rússneska björninn til reiði með Bandaríkin sem skálkaskjól.
Í herfræðihugsun sem kallast landapólitík, geó-pólitík á útlensku, er Ísland ekki hluti af Evrópu heldur vesturheimi, Bandaríkjunum og Kanada. Ísland á ekki að tengjast öryggishagsmunum ESB-Evrópu nánari böndum. Okkar þjóðaröryggishagsmunir liggja í vestri, ekki austri. Angist og heimatilbúinn tilvistarótti gömlu nýlenduþjóðanna á meginlandi Evrópu eru ekki okkar mál.
Löngun ESB-sinna á Íslandi í fyrirmyndarríkið glepur þeim sýn. Utanríkispólitík Íslands á viðsjárverðum tímum þarf að vera edrú, taka mið af pólitískum veruleika, ekki áfengri ímyndun. Þorgerður Katrín utanríkisráðherra er stórhættuleg öryggis- og varnarhagsmunum Íslands.
![]() |
EES-ríkin og ESB efla samstarf á sviði öryggismála |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 21. maí 2025
Hamas í stað hamfarahlýnunar
Hamfarahlýnun er ekki lengur í tísku hjá góða fólkinu. Ekki voru mótmæli gegn heimshlýnun er árleg söngvakeppni Evrópu var haldin. Ekki koma stjórnmálamenn sér saman um að lýsa yfir neyðarástandi vegna heimshlýnunar. Nei, núna eru hryðjuverkasamtökin Hamas mál málanna hjá góða fólkinu.
Ísraelar fremja þjóðarmorð í Gasa er viðkvæðið. Þegar Ísrael lét Gasa í hendur araba, árið 2005, voru íbúarnir ein milljón. Tuttugu árum síðar eru þeir tvær milljónir. Fá ef nokkur dæmi eru um jafn öra fólksfjölgun, tvöföldun á 20 árum. Góða fólkið kallar það þjóðarmorð. Stefnið er gamalkunnugt, hvít er gert svart.
Yfirstandandi stríð Ísrael við Hamas, sem fer með yfirráðin á Gasa, hófst með fjöldamorðum Hamas í Ísrael þann 7. október fyrir tveim árum. Bresk þingnefnd fór í saumana á atburðinum og skilaði ítarlegri skýrslu. Stutta útgáfan er að Hamas eru blóðþyrstir villimenn. Ísrael einsetti sér að uppræta samtökin.
Góða fólkið fagnar og fegrar villimennsku eftir að það fékk ekki framgang fyrir loftslagshamfarir af mannavöldum. Gréta Thunbeg, sem í fyrradag boðaði heimsendi vegna hamfarahlýnunar, segir núna að heimur án Hamas sé óbærilegur. Vinstrimenn hér á landi taka undir með ríkisstjórnina í broddi fylkingar. Heimsendaóttinn var rekinn áfram af heimsku sem ýmist er eðlislæg eða valkvæð. Hamasaðdáunin er af sama stofni.
Lítið dæmi um valkvæða heimsku góða fólksins. Dagbjört Hákonardóttir þingmaður Samfylkingar skrifar í miðopnu Morgunblaðsins í gær að hún sé gyðingavinur eftir að hafa séð Schindlers list ellefu ára. En segir síðan
Það er einmitt þess vegna sem mér finnst hafið yfir allan vafa að fordæma framgöngu Ísraela sem hernámsaðila í Palestínu, sem nú tala fyrir þjóðflutningum og nota hungursneyð sem og óhjákvæmilega útbreiðslu smitsjúkdóma sem vopn í hernaðarátökum, samhliða stóraukningu á landhernaði á síðustu dögum.
Dagbjört nefnir ekki fjöldamorðin 7. október 2003. Þau gerðust ekki í hennar huga. Dagbjört þykist syrgja helförina 80 árum en hún strokar út fjöldamorðin fyrir tveim árum. Þingmaðurinn veit betur en kýs valkvæða heimsku.
Dagbjört bullar um hernám Ísraela í Palestínu. Ísrael lét Gasa í hendur araba fyrir 20 árum. Engu hernámi Ísrael er til að dreifa á Gasa. Fyrir fjöldamorðin réð Hamas lögum og lofum í Gasa, þar var ekkert ísraelskt yfirvald. Sjálft nafnið Palestína, er ekki arabískt að uppruna, heldur heiti sem Rómverjar gáfu landi gyðinga, Júdeu. Nafnið notaði rómverska heimsveldið til að afmá tilkall gyðinga til heimalandsins. Filistear, sem Palestína er nefnd eftir, sátu yfir hlut gyðinga á dögum Simsonar og Delíu. Samkvæmt arfsögninni tortímdi blindaður Simson yfirstétt Filistea einmitt í Gasa. Filistear eru týnd þjóð, voru ekki arabar. Þeir komu seinna til sögunnar og heimta nú í sinn hlut alla Júdeu.
Deilur Ísraela og araba snúast ekki um land. Ef svo væri hefði fyrir löngu verði búið að skipta landinu. Deilan snýst um að meginþorri araba hafnar tilvist Ísraelsríkis. Góða fólkið í vestrinu tekur undir með Hamas og vill tortíma Ísrael. Það er þjóðarmorðið sem að er stefnt.
![]() |
Skorar á Netanjahú að opna aftur á mannúðaraðstoð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)