Evran veldur fátækt, ósjálfstæði

Ítalía er með minni landsframleiðslu í dag en fyrir sameiginlegan gjaldmiðil ESB-ríkja, segir í samantekt Die Welt. Ríki Suður-Evrópu, s.s. Spánn, Grikkland, Ítalía og Frakkland, búa við sviðna jörð sameiginlegs gjaldmiðils.

Kórónuveiran veldur Suður-Evrópuríkjum með einhæfri efnahagskerfi meiri búsifjum en þróuðum iðnríkjum í Norður-Evrópu.

Reglulega þurfa ríki með einhæft efnahagskerfi að fara með betlistaf í hendi til Þýskalands og biðja um ölmusu. Ástæðan er að þessi ríki búa ekki við fjárhagslegt sjálfstæði, eru fangar sameiginlegs gjaldmiðils.

Og svo eru þeir til á Íslandi, Viðreisn og Samfylking, sem óska sér evru. Það er fólk fátækt í hugsun og þýlynt. 


Íslensk æfing í þegnskap og norsk smitskömm

Íslendingar og Norðmenn eru sama fólkið, en hafa búið hvorir í sínu samfélaginu í þúsund ár. Á þeim tíma hefur hvor þjóðin um sig tileinkað sér eilítið ólíka samfélagshugsun sem farsóttin leiðir fram.

Íslendingar eru almennt efagjarnari á ríkisvald en Norðmenn. Forfeður okkar tóku meðvitaða ákvörðun að hafa ekkert ríkisvald, engan konung. Fyrstu 330 árin bjuggu Íslendingar við goðavald þar sem um 40 goðar ákváðu lög í landinu. Frjálsleg framkvæmd á lögum, byggð á skynsemi og einstaklingshyggju, sem oft var hrátt vald, skóp gullöld Íslendinga. Þeir skrifuðu alþjóðlegar metsölubækur, byggðu Grænland og könnuðu Ameríku.

Þegar Íslendingar stóðu frammi fyrir alþjóðlegri vá, kristni í heiðnum heimi, tóku þeir skynsemi fram yfir vopnaskak. Á einum fundi alþingis ákváðum við að taka upp nýjan sið að nafninu til. Sérhver mátti þó halda í heiðni að vild; bera út börn, éta hrossakjöt og blóta.

Norðmenn, aftur, beygðu sig undir konungsvald frá dögum Haralds hárfagra. Þeir urðu aðeins kristnir með manndrápum og pyntingum konunganna Ólafs Tryggvasonar og Ólafs digra Haraldssonar. Til að kenna Norðmönnum að kyssa vöndinn var sá digri gerður að dýrlingi.

Þegar norskt ríkisvald lagaðist yfir Ísland, með Gamla sáttmála 1262/64, hófst 700 ára eymdartími með dyntóttu útlendu valdi og lausung í samfélaginu er gekk mest út á að koma sér undan téðu valdi.

Norðmönnum farnaðist ekki betur, urðu danskir þegnar og máttu þola þá skömm að landi þeirra var úthlutað Svíum í lok Napóleonsstyrjaldanna snemma á 19. öld.

Ólík saga samfélaganna tveggja birtist í viðbrögðum við kínversku veirunni, kófinu. Hjá Íslendingum eru viðbrögðin æfing í þegnskap. Ríkisstjórnin framseldi sóttvarnir í hendur þriggja geðþekkra embættismanna sem daglega ræða við landsmenn um nauðsyn ítrustu varkárni en hafa jafnframt auga með því að efnahagskerfið hrynji ekki.

Norðmenn, á hinn bóginn, beita sálfræðihernaði og útilokun.

Lengi lifir í gömlum glæðum. Íslendingar urðu kristnir á einum fundi en Norðmenn með áralöngu ofbeldi og kúgun. Farsóttarvarnir er byggja á yfirvegun og æðruleysi eru farsælli en bannfæring og yfirgangur.  

 


mbl.is Úthrópaðir á samfélagsmiðlum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland er á engilsaxnesku áhrifasvæði, Katrín

Útganga Breta úr ESB, Brexit, breytir stöðu Íslands á alþjóðavísu. Heimssýn Breta snýst ekki lengur um meginland Evrópu heldur hverfist hún um náin tengsl við Bandaríkin.

Þýska útgáfan Die Welt myndskreytir nýja stöðu á norðurslóðum. Ísland, Grænland og Færeyjar eru brúin á milli Bandaríkjanna og Bretlands.

Rússland, og þar áður Sovétríkin, gera sig gildandi á norðurslóðum. Kínverjar eru nýliðar sem þarf að hafa auga með.

Aftur er morgunljóst að Evrópusambandið er á útleið sem valdaafl á norðurslóðum. 

Verkefni íslenskra stjórnvalda næstu ára er að losa Ísland úr viðjum ESB. 

Samningurinn, sem við sitjum uppi með, EES, er frá tíunda áratug síðustu aldar, þegar ESB ætlaði sér stóra hluti í okkar heimshluta, með Bretland, Noreg og Ísland innanborðs. En þegar Norðmenn afþökkuðu aðild, Ísland lét samfylkingarumsóknina deyja drottni sínum og Bretland gekk út eru forsendur gjörbreyttar.

Katrín forsætis er vonandi nógu raunsæ til að sjá hvert stefnir og tala í takt við hagsmuni Íslands. Kannski verða henni fyrirgefin mistökin frá 16. júlí 2009.

 


mbl.is Mikilvægt að forðast hernað á norðurslóðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Biden í kjallaranum, húsbóndavald Trump

Mótframbjóðandi Tump Bandaríkjaforseta, Joe Biden, kallaður Linku-Jón, er geymdur ofan í kjallara enda ekki treyst til annars en að fara með nafnið sitt og varla það. Á meðan grafa farsótt, menningarstríð og efnahagsþrengingar undan fylgi Trump.

Trump tístir þeirri hugmynd að fresta forsetakosningunum. Snjallt útspil með þríþættar afleiðingar.

Í fyrsta lagi verður Biden svældur úr kjallaranum til andsvara. Hann kemur hikandi, hóstandi og stamandi og segir að víst verði kosningar að fara fram á tilsettum tíma. Þögn yrði túlkuð sem samþykki.

Í öðru lagi slær Trump spilin úr höndum þeirra sem gera hvað mest úr farsóttinni til að koma höggi á forsetann. Nái móðursýkin vegna farsóttar og glæpaöldu í skjóli Svartra lífa meiri hæðum er komið neyðarástand sem réttlætir frestun kosninga.

Í þriðja lagi sýnir forsetinn myndugleika sem hrífur þá með sér er telja lýðræðið komið í ógöngur. Í Bandaríkjunum, og víðar á vesturlöndum, er lýðræði óðum að komast á stig óreiðu. Á tímum óreiðu er góðlynt húsbóndavald þegið með þökkum.

 


mbl.is Trump vill fresta kosningunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Farsóttin er veiran plús pólitík

Á meðan farsóttin kennd við COVID-19 geisar eru minni líkur á endurkjöri Trump 3. nóvember. Fyrir forsetann er bráðnauðsynlegt að farsóttin gangi yfir og/eða að mótefni verði aðgengilegt.

Að sama skapi eru andstæðingar Trump áfram um að halda lífi í farsóttarógninni sem allra lengst.

Vísindin vita enn fremur lítið. Deilt er um hvort önnur bylgja sé á ferðinni eða að sú fyrsta sé enn að rísa. Ófyrirséðar afleiðingar dúkka upp, t.d. fækkun fyrirburafæðinga, og betra efnahagsástand en fyrst var ætlað.

Þegar fárið sjatnar og hægt að draga lærdóm af, sem vit er í, verða forsetakosningarnar löngu afstaðnar. 


mbl.is Tekur í sama streng og sonurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Píratafylgið og vinstrióreiða

Svört líf skipta máli, Trump-andúð og vinstrifasismi eru erlend áhrif á íslensk stjórnmál þetta sumarið. Vinstrimenn og frjálslyndir eru einkum móttækilegir fyrir erlendum áhrifum enda skortir þá þjóðlega kjölfestu.

Fylgi Pírata tekur stökk í könnun miðsumars og er það mælikvarði á velgengni innfluttu óreiðunnar.

Á meðan heimatilbúin upplausnarmál Samfylkingar voru í forgrunni síðvetrar fékk sá flokkur nokkurn meðbyr í mælingum. Nú eru það Píratar. Ves fyrir sjóræningjana að forsetakosningarnar í Bandaríkjunum verða löngu yfirstaðnar þegar gengið verður til þingkosninga á Fróni.


mbl.is Píratar með næstmest fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagvöxtur eftir farsótt

Spænska veikin var síðasta skæða farsóttin sem reið yfir vesturlönd 1918-1920. Um 500 milljónir sýktust og einn af hverjum tíu dó, að talið er. Bullandi hagvöxtur var í áratug eftir spænsku veikina.

Sumir, t.d. Jeremy Warner á Telegraph, spá viðlíka hagvexti eftir Kínasóttina sem nú tröllríður heimsbyggðinni.

Við ættum þó að fara varlega. Þrælgóðum þriðja áratug síðustu aldar lauk með kauphallarhruni í New York haustið 1929. Heimskreppa, fasismi og heimsstríð sigldu í kjölfarið.

Að vísu erum við að taka út þessi misserin frjálslyndan fórnarlambafasisma og hann endist trauðla fram yfir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í haust. Heimsstríð er ekki yfirvofandi. Þjóðir heims eldast og með aldri kemur viska. 

Þá er aðeins eftir hagvöxtur sem einatt er hringrás með innbyggðri kreppu. Alveg hægt að lifa við það. 


mbl.is Vísbending í krönum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skólahald eða ferðaþjónusta

Grunn- og framhaldsskólar hefja haustönn um miðjan ágúst. Samkomubann á 500 manns og fleiri gildir til 18. ágúst vegna farsóttar. Smitið kemur erlendis frá. 

Hagsmunir ungmenna ættu að ganga fyrir ferðamönnum, bæði Íslendingum sem fara til útlanda og erlendum ferðamönnum sem sækja landið heim.

Lok, lok og læs á Keflavíkurflugvelli er rétta niðurstaðan.


mbl.is Tilslökunum takmarkana frestað um tvær vikur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ragnar Reykás-verkó

Flugfreyjur höfnuðu kjarasamningi afgerandi 8. júlí. Innan við þrem vikum síðar samþykkja flugfreyjur sama samning, líka afgerandi.

Ragnar Reykás var fígúra í skemmtiþætti, þekkt fyrir að skipta algerlega um skoðun í einu og sama fréttaviðtalinu.

Flugfreyjur héldu, líkt og Sólveig Anna í Eflingu og Ragnar Þór í VR, að hægt væri að breyta heiminum með orðum. Að með því að segja að Icelandair væri ekki nærri gjaldþrota, og hafna kjarasamningi, væri hægt að halda vinnunni og sækja fram til betri kjara.

En sumar staðreyndir lífsins breytast ekki með orðum. Prik til flugfreyja að þær þurftu ekki nema þrjár vikur til að skilja efnahagslegan veruleika. Sólveig Anna og Ragnar Þór eru enn í eyðimörk óskhyggjunnar.


mbl.is Flugfreyjur samþykktu kjarasamning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hikandi afdráttarleysi Ragnars Þórs

Formaður VR boðar afdráttarlaust svar við ósk um að hann biðjist afsökunar á því að saka tvo nafngreinda menn um umboðssvik. En hann þarf samt að hugsa málið. Hikandi afdráttarleysi er mótsögn. Eins og málflutningur Ragnars Þórs.

Í viðtalinu í meðfylgjandi frétt er Ragnar Þór á hröðum flótta. Hann segir: ,,Eins og ég hef marg­bent á er verið að benda á ákveðnar grun­semd­ir og óeðli­leg tengsl." Já, Ragnar Þór, þú bendir á eigin ábendingar. Svona eins og þeir sem lifa í hugarheimi laustengdum veruleikanum.

Ragnar Þór vill kalla ,,eft­ir­litsaðila lög­gjaf­ans" að málinu. Hvað umboðsmaður alþingis á að gera í málefnum lífeyrissjóða er á huldu. 

Ragnar Þór er í grunninn pólitískur aðgerðasinni. Hann skilur ekki að formennska í stéttarfélagi er annað hlutverk en að gera hávaða.

 


mbl.is „Svarið verður mjög afdráttarlaust“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband