Föstudagur, 11. ágúst 2023
Svandís: veiða hvali, bjarga loftslaginu
Svandís ráðherra matvæla tilkynnti í moggagrein í gær að hún tæki loftslagsmál alvarlega enda heimurinn að farast vegna koltvísýrings. í sama tölublaði blaðs allra landsmanna er frétt um útöndun koltvísýrings frá hvölum. Segir þar
Hver langreyður er talin losa samsvarandi magn af koltvísýringi á ári og ríflega 30 bílar sem eyða sex lítrum á hundraðið og ekið er 14 þúsund kílómetra árlega.
Svandís skellti á hvalveiðibanni í vor. Hvorki var það af umhyggju fyrir loftslaginu né vinnandi fólki til sjós og lands.
Ef Svandís meinar eitthvað með meintum áhyggjum af koltvísýringi í andrúmslofti ætti hún að biðjast afsökunar og aflétta strax hvalveiðibanninu.
Yfir til þín, Svandís.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 10. ágúst 2023
Bjarni Ben., valkostirnir og uppgjörið
Valkosturinn við sitjandi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er landsstjórn með Sniðgöngu-Kristrúnu og Samfylkingu innanborðs. Ekki er flas til fagnaðar.
Valkosturinn við Bjarna Ben. í formennsku Sjálfstæðisflokksins er enginn. Punktur.
Brýnasta verkefni formanns Sjálfstæðisflokksins á hverjum tíma er þríþætt. Að halda flokknum saman, að eiga aðild að landsstjórninni og tryggja að flokkurinn sé öflugasta stjórnmálaaflið í landinu. Þrenna hjá Bjarna Ben. (Viðreisnarklofningurinn skrifast ekki á hann, sjá neðar).
Bjarni tók við flokknum í kúltúrsjokki. Samfylkingin stakk flokkinn í bakið eftir hrun, lét móðurflokkinn dingla einan í snörunni. Veganestið sem Bjarni fékk var kratískt, ættað frá aldamótum þegar margur sjálfstæðismaðurinn trúði að hálfsósíalísk alþjóðahyggja með höfuðstöðvar í Brussel væri morgunroðinn í austri. Sjálfur var Bjarni ekki frír af smiti, hélt að hægt væri að taka upp evru án ESB-aðildar, en sá að sér, og leyfði viðreisnarkrötum að sigla sinn sjó. Snjall leikur, kom á daginn. Viðreisn tekur fremur fylgi frá Samfylkingu en móðurflokknum.
Umræðan í sumar er uppgjör við kratasóttina sem Sjálfstæðisflokkurinn tók að smitast af um aldamót, við stofnun Samfylkingar. Alþjóðlegar hræringar skiptu mál. ESB var á flugi, nýr gjaldmiðill gaf til kynna nýtt ríki, Stór-Evrópu. Bandaríkin drógu saman seglin á Norður-Atlantshafi, pökkuðu saman í Keflavík í september 2006. Samfylkingin virtist hafa svörin. Eftir hrun höfðu sjálfstæðismenn ekki einu sinni spurningar, hvað þá svör.
Frá aldamótum hefur gerst að frjálslynd alþjóðahyggja rann sitt skeið. Árið 2016 var vendipunkturinn með Brexit og kjöri Trump. Glæðurnar kulna í Úkraínu. Enginn veit hvað tekur við. Á meðan þarf að halda sjó.
Í innanlandsmálum eru þær fréttir helstar að efnahagsmálin eru í lagi en vandræði á landamærunum. Vaxandi ótti er um tilvist tungumálsins sem, í sögulegu samhengi, veit á veðrabrigði í afstöðu Frónbúa til útlanda.
Séð í þessu samhengi hefur Bjarni Ben unnið kraftaverk á sinni formannstíð og á inni lífstíðarábúð í Valhöll. Sprikl Sniðgöngu-Kristrúnar í skoðanakönnunum er sambærilegt og þegar Píratar mældust stærstir flokka. Þeir sem svara í könnunum veita velmegunarólundinni útrás með fölskum vonum til flokka er þeir síst kysu á kjördegi.
![]() |
Áskorun að halda áfram í langan tíma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 9. ágúst 2023
Líkami, meðvitund og hamingja
Meðvitundin kemur með líkamanum við fæðingu. Annars er nýburi andvana fæddur. Meðvitundin er tveggja þátta. Í fyrsta lagi heilinn, þar verður meðvitundin til. Í öðru lagi hugsun og sjálfsvitund, sem er óefnisleg afurð heilastarfseminnar.
Heilinn er líffæri sem ekki er hægt að skipta út (þótt sumum veitti ekki af). Flest önnur líffæri, hjartað meðtalið, er hægt að endurnýja. Í versta falli lagfæra eða vera án, sbr. botnlangann.
Velmegun og framfarir í lýtalækningum valda aukinni eftirspurn eftir læknisfræðilegu inngripi sem áður var bundið við slysfarir og sjúkdóma. Réttlætingin er huglæg, ekki hlutlæg.
Sumir vilja skipta um kynfæri með þeim rökum að þeir séu fæddir í röngum líkama. Það er sjálfsblekking. Enginn getur fæðst í röngum líkama. Það er líffræðilegur ómöguleiki. Heilinn, þar sem meðvitundin á heima, fæðist með líkamanum.
Hér áður var orðið ,,sálin" notuð um meðvitundina. Í samtímanum eru það helst trúaðir einstaklingar sem tala þannig. Trúaðir telja sálina eilífa. Guð er aldrei svo vondur og miskunnarlaus að klæða sálina líkama af röngu kyni. Guð gerir ekki mistök. Annars væri hann ekki guð.
Fólki langar oft að líkami sinn sé öðruvísi en hann er; grennri, hærri, stæltari og svo framvegis. Maður getur grennt sig, stælt vöðvana en gerir lítið með líkamshæð og enn minna með kyn. Fólk getur fengið löngun til að vera hitt kynið, eða þriðja, fimmta eða seytjánda kynið. En það er ekki hægt. Kynin eru aðeins tvö. Allir, nema örfá læknisfræðileg frávik, fæðast annað tveggja sveinbarn eða meybarn. Darwin og biblían eru þar á einu máli, fræðin og trúin. Þeir sem segja annað fara með rangt mál.
Löngun fólks til að vera í öðrum líkama en það fékk við fæðingu býr í meðvitundinni. Það er hagkvæmara og heilladrýgra að vinna með meðvitundina, uppræta ranghugmyndir og rækta réttar, fremur en að gera árás á eigin líkama, stunda sjálfskaða í þágu ranghugmynda.
Hvað er til ráða?
Maður byrjar á að vísa út í ystu myrkur falsspámönnum sem boða bull, ergelsi og firru. Að hægt sé að fæðast í röngum líkama, að kyn sé huglægt en ekki hlutlægt og að kynin séu fleiri en tvö. Þar á eftir beitir maður skilningarvitunum til að greina á milli ímyndunar og veruleika. Aðferðin er traust og þaulprófuð. Descartes notaði hana á árnýöld og lagði þar með grunninn að nútímavísindum. (Sem raunar láta á sjá á þessari öld, en það er önnur saga).
Sjálfshjálp, að skipta út röngum hugsunum fyrir réttar, er leiðin til farsældar. Þegar vitið hefur unnið sitt starf er dómgreindinni beitt til að sættast við sjálfan sig, líða vel í eigin skinni, og gera sér að góðu þann skrokk sem maður hefur - og helst fara vel með hann. Forn-Grikkir kölluðu það heilbrigða sál í hraustum líkama.
Hlutverkaleiki, sem börn og sumir fullorðnir stunda, má hafa sér til hugarhægðar. Súperman, Barbie, Messi, Gunnar Hámundarson, Jóhanna af Örk og Hallveig Fróðadóttir eru dæmi um sögupersónur sem má dunda sér við að þykjast vera. Börn læra að flest að greina á milli ímyndunar og veruleika er þau vaxa úr grasi. Fáeinir halda í bernskuna fram á fullorðinsár. Af þeim má hafa skemmtun en aldrei viturleg ráð.
Í lokin er rétt að segja á þessum degi í þessari viku: það á ekki að hleypa lífsskoðunarfélögum í leik- og grunnskóla til að kenna þvætting eins og að kyn sé ágiskun við fæðingu en ekki óvefengjanleg staðreynd. Án staðreynda verður lífsins vegferð stormasöm áttleysa, uppskrift að óhamingju.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 8. ágúst 2023
Markmið Rússa í Úkraínu
Enginn veit raunveruleg markmið Rússa í Úkraínu. Réttlæting Rússa á upphaflegri innrás var að koma í veg fyrir að Úkraína yrði Nató-ríki er ógnaði öryggi Rússlands. Eftir rúmlega 500 daga stríð er suður- og austurhluti Úkraínu undir stjórn Rússa, um þriðjungur landsins alls.
Þýskur fréttamaður, Christoph Wanner, er staðsettur í Moskvu og fylgist með sjónarmiðum Kremlarherra frá upphafi stríðsátaka. Hann telur Rússa ekki með endanleg eða afgerandi markmið heldur ráðist þau af þróuninni á vígvellinum. Hann segist þó heyra æ oftar að Rússar ætli sér að gera Úkraínu landlukt ríki með því að ná yfirráðum yfir allri strandlengjunni við Svartahaf. Það fæli í sér að borgin Odessa félli þeim í skaut.
Wanner segir það ekki, en verði Úkraína landlukt, er borin von að ríkið geti staðið á eigin fótum. Efnahagslega, ef ekki hernaðarlega, yrði Úkraína leppríki Rússlands.
Landið sem átti að verða verkfæri Bandaríkjanna, Nató og ESB til að ,,Finnlandisera" Rússland gæti endað sem rússnesk hjálenda.
Þeir sem dag frá degi fylgjast með framvindu átakanna, og eru hlynntir málstað Úkraínu, draga upp æ dekkri mynd af möguleikum stjórnarinnar í Kænugarði að gera Rússum þá skráveifum á vígvellinum er kæmi í veg fyrir ráðagerð Kremlarbænda.
Þannig segir Ukrainka í morgun að eftir tveggja mánaða sókn Úkraínuhers sé varnarlínum Rússa ekki ógnað, herlið Kænugarðsstjórnarinnar kemst ekki að skotgröfunum. Stórskotalið og flugher Rússa sjái til þess. Úkraínu blæðir út í stríði sem gengur út á að drepa sem flesta hermenn andstæðingsins. Rússar séu fjórum til fimm sinnum fleiri en Úkraínumenn. Hægur en öruggur dauði bíði Úkraínuhers.
Standist greining Ukrainka, og verði engar óvæntar vendingar, t.d. bein aðild Pólverja að stríðinu, verður stjórnin í Kænugarði knúin til að óska eftir friðarsamningum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 7. ágúst 2023
Oftæknivædd ungmenni
Viðtengd frétt segir frá áhyggjum íslenskra foreldra á snjalltækjanotkun barna sinna. Frétt á visir.is hermir að stofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, leggi til að snjallsímar verði bannaðir í grunnskólum.
Þótt rök og rannsóknir segi snjallsímanotkun trufla einbeitingu ungmenna og valda vanlíðan og kvíða er hæpið að boð og bönn leysi vandann. Þó ekki sé nema vegna þess að margir foreldar nota símann til að hafa stafrænt auga með ungviðinu.
Góðu fréttirnar eru vísbendingar um að unglingarnir sjálfir telja nóg komið af tæknivæðingunni. Í fréttinni á vísi.is segir að
samkvæmt nýlegum fréttum danska ríkisútvarpsins virðist sem unglingar sæki í auknum mæli eftir því að kaupa farsíma sem einungis er hægt að nota til símtala og sms-sendinga.
Símtöl og einföld textaskilaboð eru minni streituvaldur og síðri tímaþjófur en sítenging við alnetið, svo mikið er víst.
![]() |
Helmingur verji of miklum tíma í snjalltækjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 6. ágúst 2023
Skoðanalöggan, veiðileyfið og minnihlutafrekjan
,,Svo verður ekki horft fram hjá því að það er stórhættulegt hvernig skoðanalöggur halda umræðunni í heljargreipum. Þess vegna er svo margt sem erfitt er að ræða; allt frá íslenskri tungu yfir í kristindóminn og allt þar á milli. Þegar við bætist að fjölmiðlum fækkar þá verðum við að tala og tala hátt og ekki láta þessa skoðanakúgun stjórna umræðunni."
Ofanritað er tilvitnun í orð Kristrúnar Heimisdóttur í spjalli við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í Helgarmogga.
Skoðanalöggur gefa aldrei upp nafn og númer. Tilfallandi man ekki eftir neinu dæmi um að einhver hafi gengist við skoðanalöggæslu. Enginn hreykir sér af iðjunni, enda er hún lítilmótleg og einkum tíðkuð af hugleysingjum sem fela sig í fjöldanum.
Skoðanalöggæsla fer þannig fram að einhver fær gefið út á sig veiðileyfi fyrir að segja eitthvað um heilagar kýr, s.s. samfélagshópa eða tískuskoðanir. Veiðileyfið er virkjað með því að fleiri fjölmiðlar taka undir, fréttir endurunnar á samfélagsmiðlum og stjórnmálamenn og umræðufrægir taka undir.
Í virkjuðu veiðileyfi kemst skotspónninn ekki að í umræðunni sem gengur út á að kaffæra það sem raunverulega var sagt en leggja út á versta veg skrumskælda útgáfu. Flestum er annt um álit samborgaranna á sér og taka nærri sér umtalið. Menn biðjast afsökunar eða fara í felur, verða hræddir. Til þess er leikurinn líka gerður.
Mörg veiðileyfi eru gefin út en aðeins fáein virkjuð. En þau eru nógu mörg til að halda fólki í þögn, segja ekki upphátt hugsanir sínar af ótta við að veiðileyfi verði gefið út og það virkjað. Mannorð og stundum atvinna er í hættu.
Skoðanalöggur starfa í tveim deildum. Efri deildin er skipuð fólki úr starfstétt fjölmiðlamanna, stjórnmálamanna og álitsgjafa, sem kallaðir eru umræðufrægir hér að ofan. Þessi deild er fámenn og lagskipt, samtals kannski 150 manns, gróft reiknað. Neðri deildin er fjölskrúðugri og greinist í fjölmarga undirhópa sem eiga þó flestir sameiginlegt að vera á vinstri væng stjórnmálanna. Í fjölda er neðri deildin tí- eða tvítugföld efri deild.
Verkaskiptin milli efri og neðri deilda skoðanalöggæslu er að efri deildin gefur út veiðileyfi en neðri deildin virkjar leyfið.
Skoðanalöggæsla starfar í menningarástandi sem kallast má-ekki-bjóða-þér-að-brjálast og er í grunninn frjálslynd afstæðishyggja. Ef mér finnst eitthvað hlýtur það að vera rétt og þeir sem andmæla mér særa tilfinningar mínar og eru vont fólk sem ætti að missa æru og helst líka lifibrauðið.
Þeir sem hallir eru undir þetta viðhorf eru blindir á að réttur einstaklingsins til persónulegrar sannfæringar getur aldrei vegið þyngra en málfrelsi þeirra sem eru andstæðrar skoðunar. En, nei, tilfinningar skulu trompa bæði andstæðar skoðanir og staðreyndir. Móðgist einhver gróflega er það talið til marks um heilsteyptan málflutning. Grátur með móðgun neglir niðurstöðuna.
Sagnfræðingurinn Eric Hobsbawm kom auga á þessa þróun í uppgjöri við 20stu öld. Um miðjan tíunda áratug liðinnar aldar skrifaði hann að andfélagsleg einstaklingshyggja tröllriði húsum, bæði sem opinber og óopinber hugmyndafræði, jafnvel hjá þeim sem hörmuðu afleiðingar hennar.
Um helgina mátti lesa frásögn karlmanns sem gerðist kona á fimmtugsaldri. Karlkonan sagðist hafa áttað sig á því fjögurra ára, segi og skrifa 4 ára, að hafa fæðst í röngum líkama. Allir sem vita eitthvað um lífið vita það tvennt að ekki er hægt að fæðast í röngum líkama og hitt að fjögurra ára barn veit fjarska lítið um sjálft sig og enn minna um lífið almennt. Karlkonan hefði allt eins getað sagt: ég vissi fyrir fæðingu að mér yrði úthlutað röngum líkama. Í hugmyndafræði andfélagslegrar einstaklingshyggju eru augljóslega vitfirrtar skoðanir teknar góðar og gildar sem trúverðug frásögn um veruleikann.
Einstaklingar haldnir einni eða annarri útgáfu af andfélagslegri einstaklingshyggju rotta sig iðulega saman og smíða sér minnihlutahóp vilja helst fá sérstökum dögum úthlutað á almanaksárinu. Sérviska þeirra andfélagslegu þarf áróðursstöðu og sýnileika. Í krafti þess að vera kúgaður minnihlutahópur gerir sérviskan sig gildandi í samfélagi sem býr ekki lengur að siðferðislegri kjölfestu, sbr. það sem áður sagði um frjálslynda afstæðishyggju, heldur er upp á náð og miskunn sérvitringahópa með skoðanalöggur á sínum snærum.
Í viðtalinu við Kolbrúnu kemur Kristrún inn á frekju minnihlutahópana (án þess að nota orðasambandið) og segir
Það var sagt að ekki mætti innræta börnum neitt. Ef við horfum í kringum okkur þá er fjöldinn allur af aðilum sem hafa frítt spil til að innræta börnum allt mögulegt. Spurningin sem stendur eftir er: Af hverju í ósköpunum mega börn ekki vita eitthvað um Jesúm Krist? Af hverju er það svona hættulegt? Menn þurfa að svara þeirri spurningu.
Tilfallandi amen á eftir efninu.
![]() |
Undarleg þögn um Jesúm Krist |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Laugardagur, 5. ágúst 2023
Frosið Úkraínustríð, en langt í frið
Pútín verður að ósk sinni, frystir Úkraínustríðið. Fyrirsögnin og fréttaskýring er úr bresku útgáfunni Telegraph, sem þekkt er fyrir einarðan stuðning við Úkraínu. Frostið vísar til þess að tveggja mánaða gagnsókn Úkraínuhers skilar nánast engu í landvinningum.
Fréttaskýringu Telegraph lýkur með þeim orðum að líklega verði Selenskí forseti Úkraínu að semja við Pútín.
Stríðið stendur núna um hver ræður frásögninni, segir í úttekt bandarísku NBC-útgáfunnar sem eins og Telegraph er fjarska hlynnt málstað Úkraínu. Gildir raunar um flesta vestræna meginstraumsfjölmiðla.
Frásagnastríð er eitt, vígvöllurinn annað. Sigur í orustu fæst ekki með snjallri frásögn. Tvær mælistikur eru lagðar á framvindu átakanna á sléttum Garðaríkis. Landvinningar og mannfall. Upplýsingar um breytingar á víglinu liggja fyrir, nánast í rauntíma. Þar er staðan svotil óbreytt í tvo mánuði. Dýpra er á tölum um mannfall. Sókn tapar nær alltaf meira en vörnin. Áætlaðar tölur um mannfall Úkraínu í tvo mánuði liggja á bilinu 30 til 40 þúsund.
Gagnsókn Úkraínu átti að knýja Rússa, ef ekki til uppgjafar, þá til að fallast á niðurlægjandi friðarsamninga.
Nú þegar bakhjarlar Úkraínu viðurkenna að gagnsóknin er misheppnuð vaknar spurningin hvað gerist næst. Stjórnin í Kænugarði og vesturlönd vildu ná frumkvæðinu en tókst ekki. Litlar líkur er á að Rússar láti gott heita, telji sig hólpna að halda víglínunni eftir tveggja mánaða harða hríð andstæðingsins.
Stríð hefjast með röngu mati annars stríðsaðila, þess sem bíður lægri hlut. Misskilningurinn stafar oftast af ofmati á eigin getu og vanmati á andstæðingnum. Til að ljúka stríði með friðarsamningum, en ekki uppgjöf, þarf sá aðili sem stendur höllum fæti að viðurkenna dómgreindarleysi og éta ofan í sig fyrri yfirlýsingar. Sú viðurkenning felur oftar enn ekki í sér valdhafaskipti. Tregða til að kannast við hlutlægan veruleika og trúa frásögn óskhyggju er skiljanleg sé haft i huga hvað er í húfi.
Friðarsamningar eru ekki á dagskrá á meðan víglínan er frosin. Til að friður verði ræddur af alvöru þarf annar hvor stríðsaðilinn að horfa í byssuhlaup andstæðingsins og biðja um samninga.
Handverksmenn í hernaði, t.d. bandaríski ofurstinn Douglas Macgregor, segja að úrvinnslan sé eftir og velti mest á hve stóran hluta Úkraínu Rússar ætli sér. Óvænt atriði, bein aðild Pólverja og Litháa, gætu sett strik í reikninginn en skriftin sé á veggnum.
Næsta leik á vígvellinum eiga Rússar. Hvort það verði breið sókn stórra herja eða hægfara mulningsvél er óvíst. Úkraínustríðið er dauði og eyðilegging sem hefði mátt afstýra með samningum. Það verður viðurkennt í stríðslok.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 4. ágúst 2023
Jöklar, loftslagsbreytingar og dólgafræðin
Rómverska hlýskeiðið varði frá um 250 f. Kr. til jafnlengdar eftir fæðingu frelsarans, eða í 500 ár. Hernaðarleg og menningarleg útþensla heimsveldisins náði nyrst til Skotlands. Kuldaskeið í kjölfarið varði til um 900 en þá hófst miðaldahlýskeiðið er stóð til um 1300.
Á miðaldahlýskeiðinu byggðist Ísland og Grænland norrænum mönnum og keltneskum sem stunduðu búfjárbúskap og kornrækt lík og í heimahögum. Litla ísöld er tímabilið um 1300 til 1850, sumir segja 1900. Norræn byggð á Grænlandi lagðist af, en inúítar héldu velli. Stappaði nærri, í lok 18. aldar, að Ísland yrði talið óbyggilegt - móðuharðindin.
Nýja hnitmiðaða samantekt, með tenglum, um þróun veðurfars á líftíma mannsins hér á jörð, má nálgast hér.
Texti, jafnvel byggður á heimildum, er eitt og handfastur veruleiki annað. Jöklarnir á Íslandi og Evrópu hopa í hlýindum eftir lok litlu ísaldar, fyrir 150 árum eða svo. Yfirlætislaus frétt á RÚV segir þá sögu að er jöklarnir skreppa saman opinbera þeir mannvistir fyrri tíðar, t.d. á landnámsöld Íslands. Jöklar voru minni, jafnvel alls engir, á miðaldahlýskeiðinu en sóttu í sig veðrið á litlu ísöld sem beit hvað grimmast um miðja 17. öld.
Sú öld er í evrópskri sögu kölluð galdraöld. Helvíti er heitt, segir kenningin, og kannski ekki voðalegur staður fyrir fólk sem dó unnvörpum úr kulda og vosbúð. Gamanlaust varpar galdraöldin ljósi á mátt kennisetninga. Á Íslandi, þar sem fátt var um eldivið, var dýrmætum sprekum fórnað til að kveikja í fólki sem auðveldlega mátti farga í flæðarmálinu eða drekkja í tjörn. En, nei, dólgafræðin mæltu um líflát á báli. Nú segja viðtekin fræði yfirvaldsins að sé drepið á bensín- og díselvélum geri svalara veður og það forði okkur frá jarðnesku helvíti. Svo á að heita að við lifum á upplýstum tímum án hindurvitna.
Jöklarnir sýna svo ekki verður um villst að veðurfar sveiflast náttúrulega. Engir mannlegir kraftar, eða athafnir mannsins, breyta að veðursaga jarðarinnar býður upp á hlýskeið og tímabil kulda. Ekki er einhugur um ástæðurnar. Upplýstar ágiskanir eru m.a. að virkni sólar sé hluti skýringarinnar.
En svo eru þeir sem trúa að náttúrulegt veður sé hægt að leiðrétta með pólitískri stefnumótun. Einn slíkur var til sjónvarps nýlega. Spyrillinn, kona með prýðilega jarðtengingu, sagði manninn lifa í fábjánalandi. Nokkur eftirspurn virðist eftir þeim heimkynnum, jafnvel frá fólki sem ætti að vita betur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 3. ágúst 2023
Þjóðverjar herða frávísun hælisleitenda
Þýsk stjórnvöld hyggjast herða reglur um frávísun hælisleitenda sem ekki hafa fengið dvalarleyfi í Þýskalandi. Lögreglu verður heimilt að halda þeim sem vísa á úr land i varðhaldi í allt að 28 daga, en var áður tíu dagar.
Hert löggjöf í Þýskalandi er til að létta á álagi við móttöku hælisleitenda og vinsa úr þá sem leita hælis á fölskum forsendum, segir Die Welt. Refsingar eru gerðar hælisleitendum sem veita engar upplýsingar um sig, líka þeim er gera ranga grein fyrir sjálfum sér eða veita ófullnægjandi upplýsingar.
Umboðsmaður hælisleitenda á alþingi, Arndís Anna, er jöfnum höndum selur flóttamönnum lögfræðiþjónustu og veitir þeim ríkisborgararétt sem þingmaður, segir í fréttum RÚV að Ísland ætti að taka Þýskaland sér til fyrirmyndar í málefnum hælisleitenda.
Þá liggur það fyrir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 2. ágúst 2023
Tilfinningar, málfrelsi og vestræn þjáning Svía
Sænska ríkið stendur frammi fyrir meiri ógn en nokkru sinni frá seinna stríði, segir sjálfur forsætisráðherra landsins Úlfur Kristersson.
Stór orð um ástand mála í rómuðu friðarríki Norður-Evrópu.
Ógnin er ekki ein heldur samverkandi þættir. Innflytjendaofbeldi vex, óvissa er um framgang Svía í Nató; leyniþjónustan afhjúpar hryðjuverkaáform íslamista.
Ógnin sem fær flestar fyrirsagnir er þó kóranabrennur á opinberum vettvangi. Kóraninn er helgirit múslíma. Þjóðir sem lífa eftir kenningum spámannsins krefjast aðgerða stjórnvalda gegn guðlastinu.
Sænska hefðin er sú vestræna. Guðlast er leyfilegt. Réttur til tjáningar trompar virðingu fyrir helgisiðum. Í múslímaríkjum er þessu öfugt farið, guðlast er dauðasök.
Brennumenn kóransins i´Svíþjóð eru tveir, já tveir, segir sænski ríkisfjölmiðillinn, SVT. Báðir eru aldir upp í íslamskri trúarmenningu, koma frá Írak.
Tvímenningarnir heita Salwan Momika og Salwan Najem. Salwan Momika kom til Svíþjóðar frá árið 2015. Salwan Najem er líka flóttamaður, kom til Svíþjóðar 1998 og fékk ríkisborgararétt 2005. Sá fyrri er hvatamaður en hinn hjálparhella.
Svíar rata í ógöngur með tjáningarfrelsið þegar múslímskir flóttamenn, sem fá hæli í Svíþjóð, taka upp á íkveikjum á kóraninum og valda milliríkjadeilu milli Svíþjóðar og múslímaríkja.
Ég hætti ekki bókabrennum fyrr en Svíar banna kóraninn, segir Salwan Momika í viðtalinu við sænska ríkisfjölmiðilinn og krefst lögregluverndar þar sem hann iðkar tjáningarfrelsið undir líflátshótunum.
Woke-hugmyndafræðin vestræna leyfir afturköllun mannréttinda og réttlætir atvinnu- og ærumissi þegar í hlut á einstaklingur sem særir tilfinningar annarra. Aðgerðasinnar beita woke og dæmi eru um að opinberir dómstólar taki undir, samþykki að móðgun eins réttlæti mannréttindamissi annars.
Sænsk stjórnvöld gætu í samstarfi við OIC, samtök múslímskra ríkja, tekið woke á Salwan Momika og framselt hann til múslímaríkis. En það verður vitanlega ekki gert þar sem dauðrefsing liggur við guðlasti í trúarmenningu íslam.
Einkaframtak tveggja múslíma í Svíþjóð bregður vandræðalegu ljósi á þróun vestrænnar menningar síðustu áratuga.
![]() |
Kristersson sýnir klærnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)