Föstudagur, 20. júní 2025
Íran, Grænland, Ísland og vanmáttugt ESB
Í gær tilkynnti Trump Bandaríkjaforseti að hann gæfi klerkastjórninni í Tehran tvær vikur til að ganga til samninga um kjarnorkuvopnaáætlun Íran. Það þýðir að lofther Ísraela fær 14 daga til að sprengja innviði og hernaðarmannvirki að vild. Trump og Netanjahú forsætisráðherra Ísraels ráða framtíð Íran. Var Evrópusambandið spurt? Nei, ESB er peð í miðausturlöndum.
Í Úkraínu, bakgarði ESB, geisar stríð. Er beðið eftir að ESB taki af skarið og útkljái málið? Nei, það er beðið eftir Trump.
Er ESB stórveldi á norðurslóðum? Nei, ekki heldur. Smáríki innan ESB, Danmörk, er með forræði yfir Grænlandi. Trump ásælist Grænland. Danir eru smeykir. Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, fær Macron forseta Frakklands með sér í heimsókn til nýlendunnar. Macron lofar stuðningi við Dani að halda stærstu eyju heims innan danska ríkisins.
Trúir einhver að Frakkland myndi senda her til Grænlands að verja landið gegn Bandaríkjunum? Vel á minnst: Grænland er ekki í ESB, þeir eru eina þjóðin, utan Breta, að segja sig úr meginlandsklúbbnum með höfuðborg í Brussel.
Valdatilkall Bandaríkjamanna til Grænlands skiptir Ísland höfuðmáli. Grænlendingar eru næstu nágrannar okkar í vestri. Gangi það fram, sem líklegt er, að Bandaríkin fái Grænland viðurkennt sem sitt áhrifasvæði yrði óvinveitt af Íslandi gagnvart öryggishagsmunum Bandaríkjanna að ganga í Evrópusambandið, líkt og er markmið sitjandi Kristrúnarstjórnar.
Haldi Kristrúnarstjórnin áfram ESB-daðri er aðeins tímaspurning hvenær hér sprettur fram þjóðmálahreyfing sem boðar nánari tengsl við Bandaríkin sem valkost við ESB-aðild. Leiðtogi slíkrar hreyfingar er í starfsþjálfun. Þjóðin myndi klofna í afstöðu sinni. Í 17. júní-viðtali Morgunblaðsins við Kristrúnu talar forsætisráðherra að ,,selja Ísland" ESB dýrt. Bandaríkin munu alltaf bjóða betur en ESB. Við myndum halda sjálfstæði okkar og fullveldi, ekki flytja inn ESB-lög á færibandi frá Brussel.
Nú segja eflaust sumir lesendur. Æi, góði tilfallandi, hættu þessu bulli. Hvorki Trump né Bandaríkin hafa minnsta áhuga á Íslandi, þeir hugsa um Grænland. Tilfallandi svar er að ráðleggja fólki að skoða landakort af Íslandi og Grænlandi. Í skilningi öryggis- og varnarmála er Ísland Grænlandi það sem Grímsey var Íslandi á 11. öld. Þá vildi norskur konungur fá Grímsey að gjöf frá Íslendingum. Í snjallri ræðu Einars Þveræings, stíluð af Snorra Sturlusyni, er útskýrt hvernig lítil eyja veldur straumhvörfum í stórveldasamhengi.
Gangi Grænland Bandaríkjunum á hönd, formlega eða óformlega, fylgir Ísland með í pakkanum nauðugt viljugt hvað snerti varnar- og öryggismál. Vörn Íslands er ekki að sækja um vernd frá Evrópusambandinu. ESB er dvergur í öryggis- og varnarmálum á norðurslóðum. Bretland er merkilegri pappír í okkar heimshluta en Brusselvaldið. Ísland á ekki að ,,selja sig dýrt" ESB í anda Kristrúnar barnamálaráðherra, afsakið, forsætisráðherra, heldur marka sér stefnu er sæmir fullvalda þjóð og leita eftir vinsamlegum samskiptum við það ríki sem er máttugasti nágranninn, Bandaríkin. Ráðlegging Einars Þveræings Snorra Sturlusonar fyrir þúsund árum gildir enn. Gefum ekki fangstað á okkur, sýnum stórveldahagsmunum skilning en göngum ekki fyrir björg.
Bloggið í dag byrjaði á Íran. Margt er sagt um stöðu mála þar. Hér er hlekkur á samtal tveggja manna sem tala ekki vitleysuna.
![]() |
Reiðubúnir að halda sameiginlegar heræfingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 19. júní 2025
Tímamótadómur: ekkert barn fæðist trans
Enginn nýburi fær þá greiningu að meðvitundin sé í röngum líkama. Í ungbarnaeftirliti er aldrei spurt hvort barnið sé af réttu kyni. Nærtækara væri að spyrja hvort foreldrarnir séu heilir á geði, láti þeir sér detta í hug að barnið sé af röngu kyni.
Kyn er gefin stærð frá náttúrunni. Börn fæðast og eru annað tveggja sveinbarn eða meybarn. Einfaldar grunnstaðreyndir eru staðfestar í dómi hæstaréttar Bandaríkjanna um að rétt og skylt sé að banna misþyrmingu á heilbrigðum líkama barna. Í dómnum segir að grundvallarmunur sé á líffræði karls og konu og lögin verði að endurspegla þá staðreynd.
Transhugmyndafræðin kennir að sumir fæðist í röngum líkama og umbreyting á heilbrigðum líkama sé nauðsynleg til að barnið fái líkamseinkenni andstæð náttúrulegu kyni barnsins en í samræmi við meint hugarástand þess. Samkvæmt trans er hægt að vera stelpa fyrir helgi en strákur eftir helgi - kallast kynflæði.
Úrskurður hæstaréttar Bandaríkjanna hnígur í sömu átt og nýlegur dómur hæstaréttar Bretlands. Einstaklingur er af öðru hvoru kyninu, er karlkyns eða kvenkyns. Karl verður aldrei kona, hvorki með forskeytinu trans né á annan hátt.
Líffræðilega og röklega er ómöguleiki að fæðast í röngum líkama. Meðvitundin kemur með líkamanum í heiminn. Ef meðvitund og líkami fara ekki saman þá er eitthvað að meðvitundinni en ekki líkamanum. Úrræðið er geðhjálp, ekki skurðaðgerð.
Um tíma náðu trans-fræðin þeim árangri að sérstakar stofnanir voru settar á laggirnar að umbreyta líkama barna. Tavistock-stofnuninni í Bretlandi var lokað eftir að upp komst að hugmyndafræði en ekki heilbrigðisvísindi réðu ferðinni.
Trans er vúdú, galdralækningar, sem á ekkert skylt við heilbrigðisvísindi eða heilbrigða skynsemi. Transhugmyndafræðin er borin uppi af blætisfólki annars vegar og hins vegar körlum sem kalla sig transkonur og eru iðulega lesbískar.
Sjálfsögð mannréttindi eru að fullorðnir geri það við líkama sinn sem lundinni þjónar, fái sér tattú, ný kynfæri eða limlesti sig á annan hátt. En það ætti að vera jafn sjálfsögð krafa að börnin séu látin í friði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 18. júní 2025
Trú, sannindi og blekking þjóðkirkjunnar
Trú án sanninda er blekking. Vantrúaðir telja hverskyns hugmyndir um almætti blekkingu. Trúaðir, á hinn bóginn, eru sannfærðir um æðri sannindi, þau guðlegu. Án sannfæringar um eilíf sannindi eru menn ekki trúaðir. Trúarbrögð, kristni til dæmis, eru blekking án sanninda.
Guðleg sannindi eru manninum torræð. Flýtur það af eðli máls, það guðlega er annað en mannheimur. Skipulögð trúarbrögð hafa þann háttinn á að túlka á hverjum tíma það sem þau telja sannast vera. Svo lítið og ómerkilegt dæmi sé tekið af kristnitöku Íslendinga árið 1000 var málamiðlun milli kristni og heiðni að áfram mætti borða hrossakjöt þótt landslýður tæki nýjan sið. Túlkun ritningarinnar fyrir þúsund árum bannaði neyslu kjöts hófdýra. Lengi vel sultu Íslendingar heilu hungri fremur en að leggja sér hrossakjöt til munns.
Siðaboðskapur er meginstef kristni. Þú skalt ekki mann deyða, heiðra skaltu föður þinn og móður og elska náunga þinn eins og sjálfan þig er trúarleg lífsspeki sem jafnvel vantrúaðir tileinka sér.
Túlkun ritningarinnar annars vegar og hins vegar siðaboðskapur kristni hvíla ekki aðeins á sannfæringunni um guðleg sannindi heldur einnig á hlutveruleika mannheima. Til að heiðra föður og móður þurfa fyrirbærin móðir og faðir að vera til í kjötheimum. Það er munur á lifandi manni og dauðum, annars væri merkingarlaus boðskapurinn um deyða ekki mann og annan. Huglægt ástand, náungakærleikur, er öllum mönnum skiljanlegt hugtak. Önnur saga er hvernig menn rækta þann kærleika. Hversdagsleg sannindi eru jafn nauðsynleg trú og meintur eilífðarsannleikur. Veraldleg sannindi eru forsenda starfhæfs samfélags. Ef einhver þrítugur í dag segist á morgun sjötugur kemst hann ekki upp með það gagnvart samfélaginu. Þrítugur maður fær ekki ellilífeyrir, hvað sem líður hans persónulegu sannfæringu. Samfélagið þarf sannindi eins og aldur og kyn, virkar ekki án þeirra.
Í viðtengdri frétt er sagt frá þeim nýmælum innan íslensku þjóðkirkjunnar að kyn mannsins séu fleiri en tvö. Ekki er tilgreint hve mörg viðbótarkyn við karl og konu finnast í henni veröld, - nú eða þá í guðsríki. Kynin eru bara mörg, segir talsmaður nýmælanna, Sigríður Guðmarsdóttir, og vísar til ótilgreindra útlanda sem heimild fyrir þessari nýspeki.
Rök Sigríðar fyrir nýspekinni eru að við þurfum ,,aukinn orðaforða um hið heilaga." Það heilaga í þessu tilfelli er maðurinn. Við höfum mörg orð um manninn; karl, kona, strákur, stelpa, drengur, stúlka, meybarn, sveinbarn, öldungur, unglingstelpa- og piltur, húsbóndi, húsmóðir, meistari, liðléttingur, fagurkeri, lærlingur, nemandi, ökumaður, trúmaður og óteljandi önnur um manninn, líf hans og iðju í táradalnum.
Sigríður blekkir þegar hún segir þörf á fleiri orðum um manninn. Í reynd á hún við orð sem afmennska manninn, kenna hann við eitthvað sem ekki er til - eins og sjöunda eða fjórtánda kynið. Tvenn undirstöðusannindi um manninn eru kyn hans og aldur. Sjö ára strákur getur ekki verið áttræð kona. Enn síður að strákurinn sé af sjötugasta kyni. Fantasíuguðfræði sem býður upp á slíka ómöguleika er skemmtiefni fremur en alvarleg umræða.
Í málsvörn Sigríðar fyrir blekkingunni er furðuleg setning: ,,Við segjum að Guð sé andi og andar eru ekki bundnir við eitt kyn." Sigríður hoppar frá guði í eintölu yfir í fleirtölu guði. Kristni er eingyðistrú. Talsmaður þjóðkirkjunnar veltir sér upp úr fjölgyðistrú. Það rímar við boðskapinn um mörg kyn. Óteljandi kyn þurfa marga guði sér til sáluhjálpar. Hér er ekki um að ræða kristni heldur sérvisku sem ekki er yfirnáttúruleg heldur til marks um mennsk bágindi.
Við sitjum uppi með þjóðkirkju sem afmennskar manninn og flíkar fjölgyðistrú. Öðrum þræði hlægilegt en hinum þræðinum hryggilegt.
,,Trúin útilokar ekki fleiri kyn," er fyrirsögnin á viðtalinu við Sigríði. Trúin útilokar ekki heldur að jörðin sé flöt. Fantasíuguðfræði er kannski skemmtileg á þriðja glasi. Betra þó er að hugsa eilífðarmál og hversdagssannindi edrú.
![]() |
Trúin útilokar ekki fleiri kyn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 17. júní 2025
Hanna Katrín játar ósigur, segist ríkisstofnun
Atvinnuráðherra, Hanna Katrín, játar ósigur í veiðigjaldamálinu þar sem til stendur að tvöfalda skattinn sem lagður er á fiskveiðar. Játningin er í blaðagrein sem ráðherra skrifaði. Hanna Katrín klæðir játninguna í búning hótunar. Lokaorð ráðherra í Vísisgrein:
Það má hafa skilning á því að hagsmunaöfl, sem hafa vanist því að skrifa leikreglurnar að miklu leyti sjálf, fagni ekki þegar ný ríkisstjórn reynist þeim ekki leiðitöm. Það er hins vegar grafalvarlegt mál þegar viðbragð þessara sömu hagsmunaafla er að ráðast að stofnunum ríkisins að því er virðist í þeim tilgangi að þvinga fram aðra niðurstöðu. Við því verður brugðist af fullum þunga. (feitletr. pv)
Í fyrri feitletruninni stofnanagerir ráðherra sjálfan sig, Hanna Katrín er orðin að ríkisstofnun. Í seinni feitletruninni hótar þessi nýja ríkisstofnun, sem má kalla HKF-stofnunina, að beita sér af ,,fullum þunga" gegn þeim sem voga sér að andmæla tvöföldun skattbyrði á eina atvinnugrein. Í stað þess að taka umræðuna af drengskap leggur ráðherra á flótta, transar sig yfir í stofnun.
Hanna Katrín er eldri en tvævetra og sennilega óheimsk. Hún veit að ráðherra er eitt og ríkisstofnun annað. Ráðherra starfar tímabundið í umboði meirihluta þingsins og er það sem í daglegu tali kallast stjórnmálamaður. Ríkisstofnun er varanleg og starfar samkvæmt lögum.
Í Vísisgreininni, fram að lokaorðunum, skrifar Hanna Katrín eins og stjórnmálamaður, talar um að þjóðin vilji þetta og hitt, að tvöföldun skattbyrðar sé leiðrétting og svo framvegis. Ráðherra virðist meðvitaður að hann sé réttur og sléttur pólitíkus á umræðuvakt. Í lokaorðunum er komið allt annað hljóð í strokkinn, þar er gagnrýni á ráðherra orðin að árás á stofnanir ríkisins. Hanna Katrín getur ekki varið málflutning sinn sem stjórnmálamaður og fer í trans; hættir að vera stjórnmálamaður af holdi og blóði en gerist ríkisstofnun. Með yfirlýsingunni einni saman, líkt og karl verði kvenmaður með setningunni: ég er kona.
Lausatök Hönnu Katrínar á veruleikanum á sínar skýringar. Á hinsegin-hátíð í Washington nýverið tilkynnti hún að þörf væri á lagasetningu til að breyta skoðunum fólks. Skráð skal í lög að kynin séu fleiri en tvö og að hægt sé að fæðast í röngum líkama. Þeir sem eru annarrar skoðunar, að kynin séu aðeins tvö og ómögulegt sé að fæðast í röngum líkama, verða lögbrjótar fái sérviska ráðherra framgang. Geta má nærri hvort frjálshuga menn með dómgreindina óbrenglaða fái ekki að kenna á HKF-valdinu ,,af fullum þunga."
Frekjulegt valdboð afhjúpar veruleikafirringu meints valdhafa. Í veiðigjaldaumræðunni er ráðherra strand. Viðtengd frétt staðfestir skort á grunnfærni í reikningi af hálfu þeirra sem um véla. Í stað þess að afturkalla frumvarpið, þegar alvarlegir gallar komu í ljós, og vinna betur heimavinnuna, er málið transað. Ráðherra verður að ríkisstofnun sem hafin er yfir gagnrýni þótt ekki kunni hann að reikna. Staðreyndir, hvort heldur reiknanlegar eða líffræðilegar, verða aukaatriði, ímyndun aðalatriði. Heimurinn virkar ekki þannig. Tölur í bókhaldi segja hvort fyrirtæki sé gjaldfært eða ekki. Ímyndanir transráðherra forða hvorki rekstri né stjórnmálum frá gjaldþroti.
Í takt við annað, sem kemur frá atvinnuráðherranum er varð að stofnun, hlýtur að liggja fyrir kyn nýja ríkisapparatsins, HKF-stofnunarinnar. Er stofnunin kvár, stálp eða kannski bara dár?
![]() |
Viðurkenna ólíkar forsendur en hafna ásökunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 16. júní 2025
Ísrael, Íran og heimsfriðurinn
Tvö þúsund kílómetrar eru á milli Ísrael og Íran. Á milli landanna eru Jórdanía og Írak. Af því leiðir er hernaður á milli Ísrael og Íran lofthernaður, háður með flugvélum og eldflaugum en að litlu leyti drónum. Enginn landhernaður verður á milli landanna.
Í upphafi átakanna var talið að Íran ætti um tvö þúsund eldflaugar með drægni til Ísrael. Þeir eiga eftir um 1700 en líða fyrir skort á sérhæfum vélbúnaði sem nauðsynlegur er til að skjóta á loft eldflaugunum. Loftvarnir í Ísrael telja sig ná 95 prósent árangri. Fimm prósent af 300 flaugum eru fimmtán. Mannfall er í Ísrael af völdum eldflauganna sem komast framhjá loftvörnum. Svartsýnir spáðu margfalt meiri skaða á mannslífum og mannvirkjum en hingað til hefur raungerst.
Í fyrsta áfanga stríðsins tókst Ísraelum að eyðileggja lofvarnarkerfi Íran. Ísrael ræður lofthelgi Íran og getur sent bylgju eftir bylgju flugvéla á valin skotmörk. Munurinn er sá að Ísraelar leita uppi hernaðarleg skotmörk á meðan klerkarnir í Íran láta sig engu skipta hvar flaugar þeirra lenda, eins lengi og þær springa á ísraelsku landi.
Yfirlýst markmið Ísraela er að koma í veg fyrir að Íran eignist kjarnorkuvopn. Hliðarmarkmið er að búa í haginn að klerkastjórninni verði steypt af stóli - af almenningi. Yfirlýst markmið Íran er að gjöreyða Ísrael. Klerkastjórnin í Tehran segir Ísrael ,,litla Satan" og Bandaríkin ,,stóra Satan." Trúarlegt alræði íslam yfir heimsbyggðinni er lokamarkmiðið.
Eins og sakir standa er ólíklegt að árás Ísraela á Íran leiði til stigmögnunar. Íranar eru persar, ekki arabar, og aðhyllast shíta-útgáfu íslam á meðan arabar eru flestir súnní-múslímar. Kalt stríð er á milli Sádi-Arabíu og Íran, tveggja forysturíkja í heimshlutanum. Arabaheimurinn hefur ekki risið upp á afturlappirnar til stuðnings Íran. Rússar og Kínverjar fordæma árás Ísraels en láta það nægja. Eftirspurn eftir trúarlegri og veraldlegri leiðsögn Íran er takmörkuð.
Riði klerkastjórnin í Tehran til falls eftir árásir Ísraela er aldrei að vita hvaða stefnu miðausturlönd taka. Íran er herskáasti óvinur Ísraels og meginríki í heimshlutanum, telur 90 milljónir íbúa. Upplausn og óreiða í jafn stóru ríki er vís með að hafa áhrif út fyrir landamærin. Enn sem komið er ræður Íran ekki yfir kjarnorkuvopnum. Það eru góðu fréttirnar.
![]() |
Netanjahú: Munu gjalda dýru verði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 15. júní 2025
Miðflokkurinn er eini hægriflokkurinn
Eini hægriflokkurinn á alþingi er Miðflokkurinn. Andstaðan við bókun 35, að ESB-lög gangi framar íslenskum lögum, er hrein og tær fullveldispólitík. Flokkar sem ekki eru einarðir andstæðingar bókunar 35 eru ýmist á miðjunni eða til vinstri. Hælismálin er annað höfuðmál sem aðgreinir hægri frá vinstri. Þar er Miðflokkurinn með sérstöðu, líkt og í Evrópumálum.
Hvað með Sjálfstæðisflokkinn? Er hann ekki hægriflokkur? Nei, gamli móðurflokkur íslenskra stjórnmála er til vinstri við miðju í meginmálum. Flokkurinn rígheldur í EES-samninginn með tilheyrandi orkupökkum. Flokkurinn er værukær, svo notað sé hófstillt orðalag, í hælismálum. Stöku þingmenn, Diljá Mist til dæmis, taka hægrisprett og eru tilbúnir að taka slaginn en þorri þingliðsins er eins og rótlaust þang, reikult og rekst um víðan sjá. Líkt og skáldið orti: Bylgjan, sem bar það uppi/var blóðug um sólarlag.
Sólarlag Sjálfstæðisflokksins er í beinni útsendingu. Það verður blóðugra en síðustu kosningar. Þá varð flokknum til happs að botna á réttum tíma, nógu nærri þingkosningum til að hægt væri að hringja út skilaboðin ,,viltu að flokkurinn sitji uppi með tólf prósent fylgi." Á síðustu metrum kosningabaráttunnar tókst með herkjum að hífa fylgið upp í tuttugu prósent.
Gamlir flokksjálkar horfa til gullaldarinnar þegar XD var með þriðjungsfylgi í áskrift hjá þjóðinni. Hvað breyttist? Stutta svarið er að þjóðfélagið breyttist en Sjálfstæðisflokkurinn lifir í veröld sem var. Flokkurinn fór þjóðkirkjuleiðina, flaut með óskilgreindum meginstraumi án kjölfestu og stefnu. Hávaðafólk í samvinnu við fjölmiðla bjó til ímynd um meginstraum. Við sjáum hvert ímyndaður meginstraumur leiddi þjóðkirkjuna. Biskupinn á betur heima í druslugöngunni en við altarið. Sjálfstæðisflokkurinn er á sömu leið.
Sigmundur Davíð formaður Miðflokksins hélt opinn félagsfund á þriðjudag. Húsfyllir var og hafði formaðurinn á orði að mörg ný andlit væru á fundinum. Hann kom beint af kvöldfundi þingsins, talaði í einn og hálfan tíma við fundarmenn og svaraði spurningum, en hélt síðan aftur í þinghúsið að andmæla bókun 35. Fundarmaður spurði Sigmund Davíð um fjölmenn mótmæli á Austurvelli í lok maí, þar sem hælisstefnu stjórnvalda var andmælt. Hann kvaðst geta skrifað upp á hvern einasta lið mótmælanna.
Engum blöðum er að fletta að Sigmundur Davíð og Miðflokkurinn eru betur tengdir við undirstrauma samfélagsins og betur settir að sækja stuðning almennings en þjóðkirkjuflokkurinn í ímynduðum meginstraumi.
![]() |
Rætt um bókun 35 inn í sumarnóttina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Föstudagur, 13. júní 2025
Dómsmál: nýtur BDSM verndar sem kynhneigð?
Í gær var réttað yfir tilfallandi í héraðsdómi Reykjavíkur. Lögreglustjórinn í Reykjavík ákærði tilfallandi fyrir ,,hatursorðræðu." Tekist var á um hvort BDSM-kynlíf njóti lagaverndar á þeim forsendum að vera kynhneigð og hvort þeir sem það stunda séu jaðarsettur minnihlutahópur er skuli hafa aðgang að börnum í leik- og grunnskólum.
Forsaga málsins er tilfallandi blogg í september fyrir tveim árum. Inngangurinn að blogginu er svohljóðandi:
Í grunnskólum Reykjavíkur er BDSM-kynlífi haldið að börnum. BDSM stendur fyrir drottnun, undirgefni, kvalarlosta og píningarnautn. Samtökin 78 reka BDSM-deild. En það eru einmitt Samtökin 78 sem útvega kennsluefni í kyn- og kynlífsfræðslu grunnskóla Reykjavíkur og sjá um þjálfun og kennslu.
Samtökin 78 kærðu bloggið til lögreglu. Í framhaldi gefur lögreglan út ákæru á hendur tilfallandi fyrir brot á grein 233 a. hegningarlaga:
Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum. (feitletr. pv)
Saksóknarinn í gær, rúmlega þrítug kona, staðhæfði að tilfallandi hefði hæðst að, rógborið og smánað viðkvæman minnihlutahóp og ætti að sæta refsingu fyrir, sekt eða fangelsisvist. Nánar tiltekið í ákæruskjali eru eftirfarandi efnisgreinar sagðar hæðni, rógur og smánun:
1. Samtökin 78 eru regnhlífarsamtök og lífsskoðunarfélag fullorðinna sem áhugasamir eru um klám, kynlíf, kynjaveröld og tælingu barna.
2. Kennsluefnið er tæling dulbúin sem upplýsingar. Meðfædd blygðunarsemi barna er skipulega brotin niður. Börn eru gerð móttækileg fyrir þátttöku í kynlífi og það jafnvel ofbeldiskynlífi - BDSM. Börn eru gerð efins um eigin sjálfsmynd og talin trú um að þau séu mögulega fædd í röngu kyni. Ringluð börn og óörugg eru síður í stakk búin að veita viðnám fullorðnum með eitthvað misjafnt í huga. Út á það gengur tælingin.
Tilfallandi gaf skýrslu fyrir dómi í gær og svaraði spurningum saksóknara, dómara og verjanda. Enginn fjölmiðill sýndi málinu þann áhuga að mæta í réttarsal. Atlaga ríkisvaldsins að tjáningarfrelsinu þykir fjölmiðlum ekki fréttnæm. Tilfallandi svaraði spurningum réttarins eftir bestu samvisku, sagðist standa við orð sín. Bloggið var skrifað til að bera hönd fyrir höfuð barna í leik- og grunnskólum sem eiga ekki að þurfa að sitja undir boðskap Samtakanna 78. Tilfallandi gerir engar athugasemdir við að fullorðið fólk hafi félagsskap um sín áhugamál. Sum áhugamál fullorðinna eiga aftur ekkert erindi til barna.
Saksóknari tók annan pól í hæðina. Hann sagði orðrétt að ,,miðaldra karlar sem brjálast við lyklaborðið" verði að hljóta makleg málagjöld, fjárútgjöld og fangelsisvist. Eðlilega gerði verjandi athugasemd við orðfæri saksóknara.
Tilfallandi gengst við að vera miðaldra karl en telur ekkert ,,brjálæðislegt" við þá skoðun að kynin séu aðeins tvö og ekki sé hægt að fæðast í röngum líkama. Saksóknari lögreglustjórans í Reykjavík er annarrar meiningar, sem ekki er tiltökumál. Verri er aftur sú krafa saksóknara að tilfallandi sæti refsingu fyrir að andmæla boðskap Samtakanna 78 í leik- og grunnskólum. Maður bindur vonir við að dómari meti málsatvik tjáningarfrelsinu í hag. Illa er komið fyrir frjálsri orðræðu ef lögreglan ritstýrir með ákæruvaldi og dómstólar úrskurði atferlið lögmætt.
Lesendur hafa með framlögum stutt tilfallandi að halda fram sjónarmiðum og skoðunum sem ekki eiga upp á pallborðið hjá ráðandi öflum. Hjartans þakkir. Það er hvetjandi að vita af fólki sem ekki er sama um hvert horfir með málfrelsið í landinu.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fimmtudagur, 12. júní 2025
Katrín Thunberg og loftslagskvíðinn
Barnasendiherra Sameinuðu þjóðanna í loftslagsvá, Gréta Thunberg, gekk fyrir Hamas-björg og þáði góðgerðir frá ísraelskum hermönnum með bros á vör. Loftslagsvörumerkið Thunberg er ónýtt. Sænska barnaundrið víkur fyrir fyrrum formanni Vinstri grænna, Katrínu Jakobs.
Katrín er formaður nýrrar alþjóðanefndar um yfirvofandi loftslagshamfarir. Á RÚV fer hún með sömu rulluna og Gréta áður: við megum engan tíma missa. Málflutningur Katrínar er rökvilla, niðurstaðan á að sanna forsenduna. Á RÚV er haft eftir Kötu fyrrum spöku:
loftslagskvíði og aðrar ógnanir séu staðreynd nútímans segir Katrín.
Ef fólk er haldið loftslagskvíða, staðhæfir Katrín, hlýtur að vera loftslagsvá. Kvíði er hugarástand sem sannar ekki eitt eða neitt nema að einhver óttist eitthvað. Hamfaratrú orsakar kvíða. Umbjóðendur Katrínar, alþjóðaelítan, ala á kvíðanum, það er hluti af óttastjórnun. Gerið eins og við segjum, annars er heimsendir í nánd.
Fyrrum forsætisráðherra víkur almennum orðum að vísindum og gögnum, segir þau undirbyggja heimsendaspámennskuna. Nei, alls ekki. Nákvæmar gervihnattamælingar á loftslagshjúp jarðar sýna að jörðin hlýnar um 0,15 gráður á áratug síðustu 45 árin. Á einni öld hlýnar plánetan um eina og hálfa gráðu á selsíus. Engin hamfarahlýnun heldur náttúruleg þróun, í takt við það sem vitað er um fyrri loftslagsbreytingar.
Það er engin loftslagsvá, segir í yfirlýsingu 1900, já, eitt þúsund og níuhundruð, loftslagsvísindamanna og sérfræðinga, sem biðja um að stjórnmálamenn líti til staðreynda en ekki pólitískra fáránleikafræða.
Þegar Eiríkur rauði nam Grænland fyrir rúmum þúsund árum stundaði hann kúabúskap að norrænum hætti. Þá stóð yfir miðaldahlýskeiðið. Um 1300 tók við litla ísöld og varði til um 1900. Byggð norrænna manna eyddist á Grænlandi og stóð tæpt á Ísland þegar saman fór kuldi og eldvirkni kennd við móðuharðindin. Veðurfar breytist frá einu tímabili til annars. Það er ekki til neitt sem heitir kjörhitastig jarðar.
Gréta, Katrín og hamfarasinnar handvelja staði og tímabil til að kynda undir loftslagskvíða. Auðvelt er að beita sömu aðferð til að sýna fram á hið gagnstæða, að heimurinn sé að kólna. Þannig upplýsir sá ágæti veðurfræðingur Trausti Jónsson að fyrstu tíu Reykjavíkurdagarnir í júní í ár eru þeir köldustu í 118 ár. Er kuldaskeið yfirvofandi? Koma jólasveinar til byggða í ágúst?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 11. júní 2025
Spilafíkn og vinstripólitík
Fréttir herma að Píratar, Sósíalistaflokkurinn og Vinstri grænir hyggist leiða saman hesta sína og sækja fram sameiginlega í von um stóra vinninginn, völdin í stjórnarráðinu. Eldri en tvævetur muna að fyrir lýðveldisstofnun og allar götur síðan reyna vinstrimenn að setja saman sigurflokkinn - stjórnmálaflokk sem yrði ,,hinn turninn" í íslenskum stjórnmálum og keppti við Sjálfstæðisflokkinn.
Nú er Sjálfstæðisflokkurinn í lægð, með um 20 prósent fylgi, og Samfylkingin er á pari. Sögulegt tækifæri vinstrimanna er að efla Samfylkinguna til að verða ,,hinn turninn." Tuttugu prósent flokkur er að vísu enginn turn, fremur bæjarhóll. En það mætti byggja ofan á mishæðina i pólitíska landslaginu. Auðvitað munu vinstrimenn ekki fara þá leið, heldur hina sem mörkuð var með klofningnum 1930 er kommúnistar yfirgáfu Alþýðuflokkinn og stofnuðu nýjan flokk.
Félagssálfræði vinstrimanna verður ekki skilin á pólitískum forsendum. Geðlæknir kann betur skil á málefninu en stjórnmálafræðingur. Óttar Guðmundsson geðlæknir ræðir í viðtengdri frétt spilafíkn. Ef við skiptum út orðinu spilafíkill fyrir vinstrifíkill verður útkoman eftirfarandi:
Það er mjög algengt, að fólk sé með margar fíknir, segir Óttar sem lýsir vinstrifíkn sem erfiðri fíkn. Vinstrifíklarnir eru með svo miklar ranghugmyndir um sjálfan sig, um vinningslíkurnar og því um líkt. Þeir lifa oft í óraunverulegum heimi. Alveg sama hvað þeir tapa miklu og hve stór áföllin eru í spilamennskunni þá trúa þeir á að þeir muni vinna, segir hann og bætir við að mjög erfitt sé að meðhöndla einstaklinga sem hafi unnið stóra vinninga. Það er mjög erfitt að meðhöndla þá því þeir vita í hjarta sínu að þeir vinna þennan gullpott aftur. Vinstrifíklarnir eru sérstaklega slæmir hvað þetta varðar, þeir fara inn í ákveðinn heim og verða sannfærðir um að þeir muni vinna.
Vinstrifíklarnir unnu gullpott í kosningunum eftir hrun, þegar þjóðin var í taugaáfalli. Vinstri grænir fengu um 20 prósent fylgi og Samfylking tíu prósentum betur. Við síðustu kosningar fékk Samfylking silfurpott, 20 prósent fylgi. Vinstrifíklarnir sem einu sinni eða tvisvar vinna stórt yfir ævina eru eins og spilafíklarnir sem geðlæknirinn gerir að umtalsefni; haldnir ranghugmyndum um sjálfa sig og svara illa meðferðarúrræðum.
Fíklar, á spil og pólitík, eiga það sameiginlegt að skilja eftir sig sviðna jörð fái þeir tækifæri til. Jóhönnustjórnin bjó til óreiðu kjörtímabilið 2009-2013. Tólf árum síðar skapar Kristrúnarstjórnin farveg fyrir upplausn og eyðileggingu verðmæta, bæði efnislegra og menningarlegra. Fíklum er ekki sjálfrátt, þeir svara ekki rökum enda lifa þeir í heimi ímyndunar.
![]() |
Það fer i þetta mikill peningur, mikill tími og mikil hugsun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 10. júní 2025
Hildur, tjaldhælar og vók-barsmíðar
Best er að lemja þá sem andmæla stefnu stjórnvalda í hælisleitendamálum, skrifar Hildur Lillendahl. Nokkur framför hjá Hildi sem á fyrra skeiði sínu sem vók-álitsgjafi vinstrimanna mælti með að tjaldhælar væru notaðir á konu sem henni var í nöp við.
Ásamt barsmíðum mælir Hildur með hæðni og sniðgöngu gagnvart fólki sem andmælir stefnu stjórnvalda í hælismálum.
Ummæli Hildar, um að berja skuli fólk með rangar skoðanir, staðfesta umræðu síðustu daga um öngstræti vók-orðræðunnar. Vinstrimenn eru ábyrgir fyrir vókinu.
Vók er ógnarorðræða sem gengur út á að hræða almenning frá því að segja sína skoðun. Afgerandi meirihluti þjóðarinnar er á móti stefnu ríkisstjórnar Kristrúnar í hælisleitendamálum. Fjölsóttur mótmælafundur í lok maí á Austurvelli sýndi að fólk er tilbúið að leggja á sig það ómak að gera sér ferð niður í miðbæ Reykjavíkur á sólbjörtum degi sem mætti nýta til margs annars skemmtilegra en mótmæla stjórnvöldum. En almenningur er óðum að vakna til vitundar um að hælismálin eru í ólestri og lagði á sig að ferð niður í miðbæinn að tjá hug sinn með íslenska fánann í hönd.
Vinstrimenn eru meira og minna undir hælnum á vók-hugmyndafræðinni og þar er einn hornsteinninn opin landamæri. Hildur og félagar átta sig á samhenginu og hafa sem andsvar heilaga þrenningu vóksins; smánun, sniðgöngu og ofbeldi.
Hatursorðan, sem Hildur stendur fyrir, er ýkt útgáfa af viðbrögðum talsmanna stjórnarmeirihlutans, eins og Ágústa Árnadóttir skrifaði: þeir sem segjast þjóna þjóðinni ráðast á hana. Logi Einarsson fjölmiðlaráðherra er á sömu slóðum og Hildur þótt orðfærið sé klætt í öfgalausan lagatexta. Loga er í nöp við ákveðna fjölmiðla. Hvað gerir hann? Jú, breytir lögum til að þeir fái minni ríkisstyrk en hinir sem leggjast á vók-árarnar með vinstrimönnum.
Umræðan síðustu daga meðal vinstrimanna lýsir örvæntingu. Þeir átta sig á að slagurinn um opin landamæri er tapaður. Önnur helg vé vók-vinstrisins, t.d. fabúlan um manngert veður og transfræðin, liggja einnig undir ágjöf. Hótanir vók-liða um að beita ofbeldi þegar áhrifamátt hæðni og sniðgöngu þrýtur hittir vókið sjálft fyrir. Fólk sér hvað vókið stendur fyrir og yfirgefur málstaðinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)