Jón Ásgeir veit ekki og kann ekki

Maðurinn sem átti flesta fjölmiðla landsins, langstærstu smásölukeðjuna og einn af þrem stærstu bönkum hér á landi vissi ekkert um fjármál og kunni ekki að meta fjárhagslega áhættu, að sögn verjanda hans.

Jón Ásgeir Jóhannesson, kenndur við Baug, drottnaði yfir viðskiptalífinu á árunum fyrir hrun. Stjórnmálamenn og heilu stjórnmálaflokkarnir lutu vilja Jóns Ásgeirs en bæði fjármagnaði hann þá og sá til að þeir fengu umfjöllun í fjölmiðlum. Sjálfa hrundagana var hann með viðskiptaráðherra Samfylkingar í vasanum og kallaði hann til sín eftir þörfum.

En núna eigum að trúa því að Jón Ásgeir hafi verið óvirkur áhorfandi að fjármálaveldi sínu og látið aðra um að taka helstu ákvarðanir, jafnvel þær sem vörðuðu beint viðskiptafléttur Jóns Ásgeirs. 

Verjandi Jóns Ásgeirs, Gestur Jónsson, býr til persónu sem veit ekki og kann ekki og vissi mest lítið um hverju fram vatt í íslensku viðskiptalífi.

Gestur gerir orðspori Jóns Ásgeirs ekki greiða með því að lýsa hann ósakhæfan á þeim grunni að hann hafi verið utangátta. Jón Ásgeir stundar enn viðskipti og þarf á því að halda að vera talinn með á nótunum.

 


mbl.is Jón Ásgeir hafði ekki boðvald yfir Glitni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vigdís er alvöru, femínistar eru til skrauts

Vigdís Hauksdóttir er alvöru stjórnmálamaður sem stendur körlum jafnfætis. Varaformaður Samfylkingar, Katrín Júlíusdóttir, er meira femíniskt skraut fremur en stjórnmálamaður á pari við karlmenn.

Þetta er niðurstaðan af samanburði á viðbrögðum við því þegar Steingrímur J. sagði Vigdísi að þegja annars vegar og hins vegar er Bjarni Ben. bað Katrínu að róa sig.

Þegar Vigdís var fyrir árás frá alræmdum karlpungi þögðu femínistar þunnu hljóði. En þegar alkunnur ljúflingur andaði á Katrínu ætlaði allt um koll að keyra.

Femínismi er mest brandari.


Obama stjórnar Evrópu; Merkel vildi ekki sjálfsmorð

Barak Obama Bandaríkjaforseti var í forsæti á fundi í franska kvikmyndabænum Cannes í nóvember 2011 þegar evru-kreppan var við það að brjóta Evrópusambandið í sína upphaflegu þjóðríkjabúta. Leiðtogar ESB voru ráðalausir eins og þeir voru örvæntingafullir.

Á fundinum sagðist Angela Merkel ekki fremja pólitískt sjálfsmorð með því að fara gegn ráðum þýska seðlabankans við lausn evru-kreppunnar. Hvöss skoðanaskipti milli Obama og Merkel leiddu ekki til niðurstöðu. Eftir fundinn tók Obama utan um Merkel til að hugga hana. Augnablikið náðist á ljósmynd sem endurbirt er í greinarflokki FT um evru-kreppuna.

Merkel framdi ekki pólitískt sjálfsmorð en hún tók þátt í því með Frakklandsforseta að velta úr valdastól tveim forsætisráðherrum í Suður-Evrópu; Papandreou í Grikklandi og Berlusconi á Ítalíu. Félagarnir voru ekki nógu leiðitamir og móuðust við ákvörðunum teknum á vettvangi ESB - en af Merkel og Sarkozy, þáverandi Frakklandsforseta.

Greinarflokkur FT veitir innsýn í stjórnmál Evrópusambandsins; hve veik og ruglingsleg ákvarðanataka er og hve lítt hirt er um lýðræðislegar meginreglur; svo sem að lýðræðislega kjörnir leiðtogar þjóðríkja skuli halda embættum sínum þótt þeir lendi upp á kant við máttarvöldin í Brussel.

Evrópusambandið er ekki góður staður til að vera á fyrir þjóðir sem einhvers meta fullveldi sitt og sjálfsákvörðunarrétt.


Fyrirtæki er samfélag

Flestir fallast á að yfirmenn skuli hærra launaðir en undirmenn; forstjóri fái hærri laun en sá sem starfar á gólfinu. Aftur er engin sátt um hver launamunurinn eigi að vera innbyrðis á milli launþega, millistjórnenda og æðstu stjórnar.

Ekki aðeins er deilt um launakökuna heldur einnig um hagnaðinn; hve stór hluti hagnaðarins skuli fara í hærri laun og hve stór til hluthafa og/eða fjárfestinga.

Gamla skiptakerfið í sjávarútvegi þar sem háseti fékk sinn hlut, skipstjóri tvo hluti og með sambærilegum hætti fékk útgerðin sitt var með þann kost að heildarverðmætum aflans var skipt með fyrirfram ákveðnum hætti. Hlutaskiptakerfið i sjávarútvegi varð til vegna þess að útgerðin var samfélag sjómanna, formanna og eiganda. Án þessa samfélags var einfaldlega ekki hægt að gera út.

Þótt launakjör í landi séu sjaldnast ákveðin með hlutaskiptum þá gildir forsendan fyrir skiptakerfinu um öll fyrirtæki, hvort heldur á landi, láði eða legi; þau eru samfélag starfsmanna, stjórnenda og eigenda.

Sameiginlegt verkefni samfélagsins sem myndar hvert fyrirtæki er að finna leiðir að skipta því sem til skiptanna er. Og í grunninn er það ekki svo flókið. 


mbl.is Icelandair móti kjörin til framtíðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögmál lýðveldisins og fylgi Bjartrar framtíðar

Eitt lögmál lýðveldisins var aftengt eftir hrun. Björt framtíð græðir mest á hljóðlátri pólitísku byltingu sem aftengingin vitnar um.

Lögmálið er þetta: þegar hægristjórn er í landinu og vinnudeilur standa yfir þá hagnast vinstriflokkarnir og því meira sem fleiri hópar launþega standa í stórræðum.

Nú standa yfir fleiri og víðtækari vinnudeilur en þekkst hafa frá löngu fyrir aldamót en fylgi vinstriflokkana er nánst kjurt frá síðustu kosningaúrslitum - sem voru vinstriflokknum þungbærar.

Nema Bjartri framtíð, sem mælist næst stærsti flokkur landsins á eftir Sjálfstæðisflokknum.

Deilur um hvernig skipta ætti þjóðarkökunni skilgreindu stjórnmál alla síðustu öld. Vinstriflokkarnir voru stofnaðir gagngert til að berjast fyrir stærri hlut launþega. Þessi barátta gaf vinstriflokkunum inntak og markaði pólitískar starfsaðferðir.

Verkalýðspólitíkin er liðin tíð en vinstriflokkarnir nota sömu pólitísku taktík fyrir nýjum málum; Samfylkingin fyrir ESB-umsókninni og VG fyrir náttúruvernd. Hvorugt virkar vegna þess að kjósendahópur vinstriflokkanna er ekki stilltur inn á baráttupólitík.

Kjósendahópur vinstriflokkanna er að stærstum hluta kósí-fólkið sem nennir ekki hávaða og látum. Það vill notalegt líf án átaka og segir já við Bjartri framtíð. 


mbl.is Flugvallarstarfsmenn samþykktu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stétt með stétt; samstaða í sundrungu

Stéttastjórnmál eru liðin tíð; engin pólitík er gerð úr því að ríkisvaldið setji lög á verkföll og allra síst þegar hátekjuhópur á í hlut. Á yfirborðinu virðist ríkja sundrung í samfélaginu, sé horft til fjölda verkfalla og aðgerða vegna kjaradeilna. Að ekki sé talað um ástandið á alþingi.

Á hinn bóginn ríkir samstaða í samfélaginu eftir hrun að við erum öll á sama báti. Og ef einhver ætlar að bera meira úr býtum í kjaradeilum en aðrir hópar verða að standa skýr og nær óvefengjanleg rök til þess.

Það stjórnmálafl sem best nær að tóna samstöðuna í eftirhrunssamfélaginu verður leiðandi afl í pólitík næstu árin. Sjálfstæðisflokkurinn er í bestum færum til þess. Hugmyndin um stétt með stétt er þaðan komin fyrir miðja síðustu öld. Stjórnmál eru sígild þegar að er gætt.


mbl.is „Þetta er alltaf neyðarúrræði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugmenn nánast biðja um lög á sig

„Við bú­umst allt eins við því að sett verði lög á verk­fallið,“ er haft eftir formanni samninganefndar flugmanna í annarri frétt á mbl.is og er það efnislega samhljóða ummælum sem RÚV hafði eftir formanninum í hádegisfréttum.

Þetta hljómar eins og flugmenn séu að biðja um að ríkisvaldið hlutist til og bindi enda á vinnudeilur þeirra við Icelandair.

Ekki er tilefni til að setja lög á flugmenn Icelandair enda fjöldinn allur af flugfélögum sem flýgur til og frá landinu.

Flugmenn Icelandair eiga vel fyrir salti í grautinn, líklega með um 1,5 m.kr. í heildarmánaðarlaun. Þeir vildu hvorki upplýsa almenning um launin sem þeir hafa né hvaða kaupkröfur þeir gerðu og mættu mótbyr í samfélaginu.

En það er ekki reisn yfir flugmönnum að nánast biðja um að fá á sig lög.


mbl.is Lög verða sett á flugmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brilljant blogg úr Reykjanesbæ

Blogg er vettvangur hins almenna borgara að setja yfirvaldinu stólinn fyrir dyrnar. Styrmir Barkarson heldur úti bloggi sem andæfir sérkennilegu stjórnarfari Sjálfstæðisflokksins og Árna Sigfússonar í Reykjanesbæ.

Hann afhjúpar m.a. undirlægjuhátt starfsmanna bæjarins gagnvart Árna bæjarstjóra. Starfsmenn bæjarins skrifa texta um bæjarstjórann í norður-kóreskum stíl með slíku oflofi að aulahrollurinn situr lengi eftir. Niðurlag Styrmis:

Þau sem stjórna Reykjanesbæ hafa setið svo lengi við völd að þau hafa varla lengur rænu á því að hylja spillinguna. Það er treyst á þýlyndi og þöggun og að íbúar bæjarins kyngi athugasemdalaust þeim áróðri sem Sjálfstæðisfólk í valdastöðum í ráðhúsinu lætur frá sér. Það er treyst á að þegar samfélagsmiðill bæjarins er misnotaður í pólitískum tilgangi sé nóg að láta það bara hverfa til að ekki verði minnst á það meira.


Aldursforsetinn og virðing alþingis

Enginn af sitjandi þingmönnum býr að lengri þingreynslu en Steingrímur J. Sigfússon. Fordæmið sem Steingrímur J. setur með framkomu sinni og orðavali er ekki til að auka vegsemd þingheims.

Vinstriflokkarnir eru enn að jafna sig eftir úrslit síðustu þingkosninga. Líklegar niðurstöður sveitarstjórnarkosninga gera lítið til að kæta geð vinstrimanna.

Orð Steingríms J. verður að meta í þessu ljósi. En það er klént að maður með hans reynslu skuli ekki búa yfir meiri sjálfsstjórn. 


mbl.is Sagði Vigdísi að þegja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forstjórinn, flugmenn og meðalhófið

Hrunið varð vegna græðgi, heimtufrekju og dómgreindarleysis þeirra sem fóru með mannaforráð í viðskipalífinu. Réttur lærdómur af hruninu er að taumleysi hefnir sín, ekki síst á þeim sem leyfa sér það.

Launaumræðan er frumskógur þar sem einföld og mælanleg atriði, t.d. heildarlaun, eru gerð óljós og myrk. Í yfirlýsingu forstjóra Icelandair, sem annars er nokkuð sannfærandi, er t.d. vísað til gagna Hagstofu Íslands um laun flugmanna. Hvers vegna eru tölur úr launabókhaldi Icelandair ekki lagðar á borðið um meðalmánaðarlauna flugmanna? Varla eru þær tölur trúnaðarmál.

Flugmenn neita að upplýsa um launakröfur sínar og ekki heldur hafa þeir lagt fram upplýsingar um meðalheildarlaun félagsmanna.

Heildarlaun fullvinnandi launamanna á síðasta ári voru 526 þús. kr. á mánuði að meðaltali. Eftir því sem best er vitað voru flugmenn Icelandair með um 1500 þús. kr. í meðalheildarlaun á síðasta ári. Heildarmeðallaun forstjórans voru líklega um 4 m.kr. á mánuði.

Það standa engin til þess að flugmenn og forstjóri Icelandair beri úr býtum þreföld til áttföld meðallaun landsmanna. Allir eru þeir í vinnu hjá fyrirtæki sem almennir launþegar eiga í gegnum lífeyrisjóðina.

Ef ríkisstjórnin setur lög um vinnudeilu flugmanna og Icelandair er nærtækt að hugsa sér flugmenn  fái 700 til 800 þús. kr. í heildarmánaðarlaun og forstjórinn um milljón kr. - það væri meðalhóf. 

Áður en ríkisstjórnin setur slík lög væri snjallt að kalla flugmenn og forstjóra niður í stjórnarráð og kynna þeim efnisatriði fyrirhugaðrar lagasetningar. Þá yrði samið á augabragði.


mbl.is 92 af 100 launahæstu flugmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband