Krónan setur Ísland í úrvalsflokk, evran Evrópu í ruslflokk

Stýrivextir íslensku krónunnar eru 6%, verðbólga er lág, um 2,5%, hagvöxtur um 3% og atvinnuleysi óverulegt. Á mælistiku hagfræðinnar er Ísland í úrvalsflokki.

Í evrulandi er nánast núll hagvöxtur, verðhjöðnun, stýrivextir eru núll og stefna í neikvæða vexti og atvinnuleysi er 12% að meðaltali.  Evrópa er í hagfræðilegum ruslflokki - þökk sé evrunni.

Neikvæðir vextir, þ.e. að viðskiptabankar borgi Seðlabanka Evrópu að fyrir að geyma fyrir sig fé, fela í sér að það eru engin fjárfestingatækifæri í Evrópu, segir hagspekingurinn Wolfgang Münchau í Spiegel. Í álfunni ríkir efnahagsleg stöðnun.

Neikvæðir vextir geta haft margvíslegar ófyrirséðar afleiðingar og eru viðbrögð við efnahagspólitísku svartnætti sem evran skapar Evrópu.

 

 

 


mbl.is Óbreyttir stýrivextir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fótósjoppaður ESB-sinni selur ekki

Um alla borg eru stórar ljósmyndir af Halldóri Halldórssyni oddvita Sjálfstæðisflokksins og yfirlýstum ESB-sinna. Eins og algengt er í auglýsingamennsku eru ljósmyndirnar ,,fótósjoppaðar", lagaðar til rafrænt.

Halldór reyndi líka að ,,fótósjoppa" sannfæringu sína - kallar sig núna ,,viðræðusinna."

Könnun í dag sýnir að Sjálfstæðisflokkurinn er með rétt rúmlega 20 prósent fylgi í höfuðborginni.

Allir sem fylgjast með stjórnmálum vita að ESB-sinnar höfða ekki til kjósenda Sjálfstæðisflokksins. Trix með ,,fótósjoppi" á menn og málefni duga ekki til selja óseljanlega vöru. 


Icelandair er of stórt félag

Icelandair er of stórt félag í flugsamgöngum Íslands og í ferðaþjónustunni hér á landi. Félagið var í höndum útrásarmanna sem skiluðu skemmdum innviðum eins og viðvarandi deilum hálaunafólks fyrirtækisins.

Eftir því sem erlendum flugfélögum fjölgar sem fljúga hingað til lands eykst samkeppnin og minni þörf verður fyrir Icelandair.

Stundum verða óþurftaverk til þarfa. Yfirvinnubann flugmanna Icelandair tálgar flugfélagið niður og er það til bóta.

 


mbl.is Flybe flýgur allt árið til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingarframboð XD geldur afhroð

ESB-sinni leiðir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík. Stefnuskrá flokksins er moðsuðuvaðall sem býður upp á ,,kosningu" um flugvöllinn í Vatnsmýri í anda kosningakröfu vinstrimanna og Bennasinna í Sjálfstæðisflokknum um ESB-málið.

Niðurstaðan af samfylkingarvæddu framboði Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er algert hrun, aðeins einn af fimm kjósendum vill moðsuðuna.

Höfundur framboðsins í Reykjavík, Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra, gerir sig sekan um stærstu pólitísku afglöp í sögu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Að láta sér detta í hug að leiða til valda í höfuðborginni ESB-sinnaðan býkrókrata af Vestfjörðum er fávísara en tali tekur.

Samfylkingarvæddur Sjálfstæðisflokkur ber dauðann í sér.


mbl.is Meirihlutinn með tíu fulltrúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samkeppni á sjónvarpsmarkaði er engin

Yfirtaka 365 miðla á nýrri sjónvarpsstöð án þess að minnst sé á samkeppni staðfestir að hún er engin.

365-miðlar Jóns Ásgeirs Jóhannessonar einfaldlega eiga útvarps- og sjónvarpsmarkaðinn á Íslandi - að frádregnum ríkishlutanum.

Á ekki að vera til stofnun sem sinnir samkeppnismálum hér á landi?


mbl.is 365 eignast Bravó og Miklagarð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skæruverkföll og samfélagsfriður

Flugmenn verða ekki skikkaðir til að vinna yfirvinnu, fremur en aðrir launþegar. Á hinn bóginn liggur í augum uppi að flugmenn hafna yfirvinnu ekki af þeirri ástæðu að þeir séu að taka upp breyttan lífstíl, vinna minna og lifa af dagvinnunni, heldur af hinu að þeir standa í launadeilum við Icelandair.

Eftir lagasetningu á verkfall flugmanna er ekki skynsamlegt að grípa til skæruhernaðar af þessu tagi. Lagasetningin og umræðan í kringum hana sýndi að flugmenn njóta einskins stuðnings í samfélaginu.

Stétt sem segir sig úr lögum við samfélagið er komin með sín mál út í algera ófæru.


mbl.is Starfsmenn Icelandair grýttir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sólon, Sigmundur Davíð og bakmælgi Benedikts J.

Skuldaleiðréttingar eru jafngamlar lýðræðinu. Sólon, sem uppi var á sjöttu öld fyrir Krist, og eignaðar eru grunnstoðir lýðræðis í Aþenu til forna, beitti sér fyrir skuldaleiðréttingu þegar í óefni var komið fyrir aþensku samfélagi.

Aristóteles segir að andstæðingar Sólon hafi núið honum um nasir að hafa grætt á skuldaniðurfellingunni; látið vini sína vita af henni fyrirfram sem  tóku lán og keyptu eignir en fengu skuldirnar felldar niður.

Orð Aristótelesar minna á að pólitískt baktal er eldra lýðræðinu. Baknag í Aþenu til forna snerist um hagsmuni og grunsemdir misnotkun opinbers valda og er fylgifiskur stjórnmála löngum síðar.

Rógur Benedikts J. um forsætisráðherra, sem samfylkingarútgáfa ber á borð, styðst hvorki við hagsmuni né grun um að ekki sé allt með felldu í opinberum málum. 

Áburður Benedikts er rætnin sjálf uppmáluð. 


mbl.is Hægt að sækja um skuldaleiðréttingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morðingjar og hetjur

Samfélög liðast ekki í sundur hægt og rólega heldur með hávaða og látum. Úkraína er ekki undantekning. Almenn herhvöt mun ekki höfða til ábyrgra manna heldur þeirra klikkuðu sem þrífast ekki í heilbrigðu samfélagi en njóta sín í ofbeldisóreiðu.

Blaðamaðurinn Chris Hedges skrifaði bók byggða á reynslu sinni af margvíslegum átökum, hliðstæðum þeim sem nú geisa í Úkraínu. Bókin heitir Stríð er afl sem gefur okkur merkingu.

Mótsögnin sem Hedges fjallar um er þessi: stríð drepur en gefur sumum lífstilgang. Það eru einmitt þeir, morðingjarnir meðal vor, sem ráða ferðinni þegar samfélög brotna í sundur. Og sumir verða hetjur.


mbl.is „Byltingin þarfnast ykkar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB-herinn, Ísland og umsóknin

Til að Evrópusambandið eigi framtíð fyrir sér verður það að koma sér upp her, segir Ken Rogoff fyrrum aðalhagfræðingur Alþjóðgjaldeyrissjóðsins. Vaxandi veldi Kínverja og Rússa beinlínis kalli á að ESB verði sem líkast heildstæðu ríki.

Rogoff sagði fyrir nokkru að evran væri mistök. Núna, í ljósi stríðsógnar frá Rússum, telur hann að skattgreiðendur í Þýskalandi eigi að greiða fyrir þessi mistök til að halda nauðsynlegri samrunaþróun áfram. Rogoff segir auðveld að blekkja skattgreiðendur til að borga brúsann.

Annar virtur álitsgjafi, Ian Buruma, sem veit aðeins meira um þjóðir ESB, segir að þjóðernisflokkar andstæðir  Brusselvaldinu munu ráða lögum og lofum í evrópskri pólitík næstu árin. Kaþólska bandalagið, sem hratt ESB-verkefninu úr vör, er fúið og án forystu. Almenningur leitar til þjóðernisflokka sem bjóða þjóðríkið sem valkost við Stór-Evrópu.

Líkt og Rogoff er Buruma sannfærður um að Evrópusambandið verði að koma sér upp hernaðarmætti og verða sem líkast ríki. Hann telur samfélagssáttmála upplýsingamannsins John Locke fyrirmynd en sér þó ekki þróunina stefna í þá átt, heldur þvert á móti að ESB leysist upp.

Hvort sem Evrópusambandið heldur velli eða ekki og hvort það verður með eða án stórfelldrar hernaðaruppbyggingu þá er öllu sæmilega viti bornu fólki ljóst að sambandið er í meiri kreppu en nokkru sinni.

Á meðan alvarleg og yfirveguð umræða fer fram á alþjóðavettvangi reynir fyrrum utanríkisráðherra Íslands, Össur Skarphéðinsson, að slá pólitískar keilur með montgrein fyrir ónýtu umsóknina sem hlegið var að í Brussel síðasta kjörtímabil.

Í álfunni takast á öfl og hagsmunir sem okkur Íslendingum eru með öllu framandi. Við eigum ekki að sitja í biðstofu Brusselvaldsins á meðan meginöfl í Evrópu takast á um framtíð álfunnar. Það er ekki í þágu íslenskra hagsmuna að tengjast ESB nánari böndum á meðan fullkomin óvissa ríkir um afdrif Evrópusambandsins.   


mbl.is Gæti hafið viðræður fyrirvaralaust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórn sem stjórnar ekki er feig

Afturköllun ESB-umsóknar var samnefnarinn sem bjó til ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar

Ef ríkisstjórnin gefst upp á því að afturkalla ESB-umsóknina er hún hætt að stjórna utanríkismálum þjóðarinnar. Og ríkisstjórn sem ekki stjórnar er búin að vera - þótt dánartilkynning sé ekki enn undirrituð.

Ríkisstjórnin er búin með fjórðung af kjörtímabilinu. Ef ESB-umsóknin verður látin standa á hún ekki framtíð, einfaldlega vegna þess að án samnefnara gliðnar stjórnin í sundur. Og enginn annar samnefnari en andstaðan við ESB stendur ríkisstjórn Sigmundar Davíðs til boða. 

 


mbl.is ESB-málið stjórnarflokkunum „dýrkeypt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband