Lágmarkslaun, hámarkslaun og góðærið á landsbyggðinni

Á almenna vinnumarkaðnum er samið um lágmarkslaun. Það þýðir að skráðir launataxtar segja ekki nema hluta sögunnar um þau laun sem í boði eru. Þegar nær ekkert atvinnuleysi er í landinu eiga launþegar auðvelt með að semja um laun fyrir ofan taxta.

Útgjaldalítið er fyrir fyrirtæki að hækka kauptaxta þannig að þeir nálgist þau laun sem raunverulega eru greidd.

Á opinberum vinnumarkaði er á hinn bóginn samið um hámarkslaun. Þar gildir launataflan og lítið hægt að hreyfa sig frá henni, þótt smugur séu hér og þar, t.d. að greiða fyrir óunna yfirvinnu.

En það er tímanna tákn að verkalýðshreyfingin á landsbyggðinni ætlar að ríða á vaðið eð nýja kjarasamninga í verkfallsátökum sem litu út fyrir að vera óleysanleg.

Góðærið er á landsbyggðinni.


mbl.is Vilja semja við Framsýn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

BHM: of mikill jöfnuður, verðfall háskólamenntunar

Háskólamenn í BHM vilja auka ójöfnuð launamanna með því að þeir sem fá vinnu út á prófgráður fái hærra kaup en hinir sem búa ekki að háskólamenntun, eins og fjármálaráðherra vekur athygli á.

Verðfall bókvitsins síðustu ár er hluti þjóðfélagsbreytinga sem lítið er fjallað um. Verðfallið verður fyrst áberandi eftir að konur taka afgerandi forskot á karla í háskólamenntun.

Kjarasamningar munu ekki breyta stóru um verðfall háskólamenntunar. Líkleg niðurstaða er að menntunin sjálf verði niðurgreidd í auknum máli af samfélaginu, með námsstyrkjum í stað námslána. En það er framtíðartónlist sem engu breytir um verkföllin um þessar mundir.

Nærfellt allir háskólamenn sitja uppi með námslán sem þeir borga af fram á grafarbakkann. Hluti af lausn yfirstandandi kjaradeilu gæti verið að taka á þeim enda málsins.


mbl.is Grunnstoðir ítrekað í gíslingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólverjar myrtu gyðinga, án hjálpar nasista

Pólverjar myrtu þúsundir gyðinga í seinna stríði án þess að Þjóðverjar kæmu þar nærri. Fjölskyldusögur gyðinga geyma frásagnir af grimmd Pólverja, Úkraínumanna sem voru nágrannar gyðinga og áttu með þeim samfélag fyrir stríð.

Gyðingar voru bjarglausir og réttdræpir á hernámssvæði Þjóðverja. Pólski sagnfræðingurinn Jan T. Gross skrifaði bók um dýrslega hegðun Pólverja gagnvart varnarlausum gyðingum; pyntingar, nauðganir á öldruðum, konum og börnum eru tíunduð.

Þjóðverjar eru fjarri því að vera einir um gyðingaofsóknir. 


mbl.is Yfirmaður FBI vekur reiði í Póllandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkföll gegn sjálfum sér og lygarar til leigu

Verkalýðshreyfingin er í verkföllum gegn sjálfri sér með því að lífeyrissjóðir launþega eiga ráðandi hlut í flestum stærstu fyrirtækjum landsins. Verkalýðshreyfingin situr á upplýsingum um afkomu fyrirtækja og veit vel hvað hægt er að borga í laun.

Almannatenglar, sem stundum eru kallaðir lygarar til leigu, verða að hrista fram úr erminni stóra fjöður til að fela þá staðreynd að verkföllin eru niðurstaða ráðleysis verkalýðshreyfingarinnar í stjórnum fyrirtækja.

Verkalýðshreyfingin veit hvað fyrirtækin geta borgað en þorir ekki að segja það upphátt.

Lygarar til leigu geta reynt að snúa verkföllum upp á ríkisstjórnina. En málið snýst einfaldlega ekki um ríkisvaldið. Engin ríkisstjórn ákveður hvað er til skiptanna, heldur verðmætasköpun atvinnulífsins.

Verkalýðsforystan þorir ekki að koma til dyranna eins og hún er klædd og ræður almannatengla að sauma á sig nýju fötin keisarans.

 


mbl.is Almannatenglar veita ráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grikkland gjaldþrota á mánudag

Grikkland verður gjaldþrota á mánudag og líklegast samdægurs kveður landið evru-samstarfið. Jafnvel harðir ESB-sinnar vita að dagar Grikklands eru taldir. Opinberar skuldir eru ósjálfbærar og engar líkur að grískt efnahagslíf greiði skuldirnar hérna megin næstu aldamóta.

Spurningin er aðeins; á hvaða mánudegi gefst gríska Jóhönnustjórnin upp. Við þekkjum það á eigin skinni að vinstrimenn i ríkisstjórn halda endalaust í draumóra um að heimurinn bjargi þeim frá eigin heimsku. Heimurinn starfar ekki í þágu þeirra fávísu. Skuldadagar koma, fyrr en seinna.

Roger Bootle útskýrir á yfirvegaðan hátt hvers vegna Grikkland hlýtur að hrökkva úr evru-samstarfinu við gjaldþrot.

Íslenskir ESB-sinnar eiga nokkurt verkefni fyrir höndum að útskýra hvers vegna Evrópusambandið brýtur gegn þjóðarhagsmunum aðildarríkis og fleygir Grikkjum fyrir ljónin.

ESB-sinnar á Fróni halda þeirri firru á lofti að Evrópusambandið gangi aldrei á þjóðarhagsmuni aðildarríkja sinna.

Við skulum sjá til, einhvern næsta mánudaginn, hvernig þjóðarhagsmunum Grikkja er best borgið með evru og í Evrópusambandinu.


Samherji og HB Grandi; verkföll í borg og landsbyggð

Þau orð Björns Snæbjörnssonar formanns Starfsgreinasambandsins að Samherji láti starfsmenn fyrirtækisins njóta velgengninnar en HB Grandi ekki vekja ahygli á þeirri staðreynd að verkfallsdeilurnar sem nú standa yfir eru tvíþættar.

Öðrum þræði snúast þær um sanngjarna skiptingu rekstrarafkomu fyrirtækja milli fjármagnseigenda og launþega. Hinum þræðinum eru verkföll háð vegna reiði sem tilfinningin um að vera snuðaður vekur.

Samherji er landsbyggðarfyrirtæki og hefur tekist að virkja starfsmenn með sér. HB Grandi er höfðuborgarfyrirtæki sem ekki er í sömu tengslum við starfsfólkið.

Það er verkefni stjórnenda fyrirtækja annars vegar og hins vegar forystu verkalýðsfélaga að vinna saman að því að laga sambúð fyrirtækja og launþega.


mbl.is „Þessi aðgerð efldi okkar fólk“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skagafjörður, Úkraína og brotin valdakerfi

Í dag eru 769 ár frá Haugsnesbardaga, blóðugustu orustu Sturlungaaldar. Þórður Sighvatsson sigraði Brand Kolbeinsson og réð þar með yfir Norðurlandi öllu ásamt Vesturlandi. Skagafjörður var á Sturlungaöld það sem Úkraína er í dag, vettvangur þar sem örlög brotins valdakerfis ráðast.

Haugsnesbardagi varð á miðri Sturlungaöld en það er 40 ára tímabil, 1220 til 1264, sem markar endalok valdakerfis þjóðveldisaldar sem stóð i 300 ár. Önnur orusta í Skagafirði, Örlygsstaðabardagi, gerði úti um vonir Sturlunga að ná landsyfirráðum. Enginn íslensku goðanna var í færum að koma á nýju valdakerfi. Tilgangslaus manndráp stóðu yfir í áratugi áður en yfir lauk.  

Engin einhlít skýring er á því hvers vegna goðakerfið liðaðist í sundur. Innlendar ástæður, s.s. valdabarátta höfðingja, og erlendar, ásælni Noregskonungs, voru meginskýringar en þær eru hvergi nærri tæmandi. Valdakerfi verða til undir ákveðnum kringumstæðum, í okkar tilfelli þegar Ísland var fullbyggt, og þau halda velli uns sagan úrskurðar þau úrelt.  

Valdakerfið í Evrópu er 70 ára gamalt, varð til eftir lok seinni heimsstyrjaldar, þegar sigurvegararnir, Bandaríkin og Sovétríkin, skiptu með sér álfunni.

Valdakerfi Evrópu stóð af sér hrun Sovétríkjanna fyrir aldarfjórðungi. Þrjú öfl þrengdu sér inn í valdatómið sem Sovétríkin skildu eftir; Bandaríkin, Evrópusambandið og Rússland. Valdaöflin þrjú eru hver með sína skoðun á skipan mála á meginlandi Evrópu og það er undirrót átakanna.

Úkraína er, eins og Skagafjörður á Sturlungaöld, miðlægt svæði. Veldi Sturlunga voru vestan og austan Skagafjarðar en Haukdæla fyrir sunnan. Úkraína er á milli Evrópusambandsins og Rússlands.

Vegna miðlægrar legu er Úkraína kjörlendi uppgjörs brotins valdakerfis. Landið er vettvangurinn þar sem blóðsúthellingar ákveða framtíð álfunnar. Líkur eru meiri en minni að baráttan dragist á langinn og tvísýnt er að það takist að halda átökunum innan landamæra Úkraínu. 

 

 


mbl.is „Af Rússlandi stafar ógn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sósíalismi atvinnurekenda - biðja um skattahækkun

Atvinnurekendur vilja að ríkissjóður, það er almenningur, niðurgreiði launin í landinu, sagði framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í hádegisútvarpi RÚV.

Forsætisráðherra tekur eðlilega treglega í þessa hugmynd.

Er ekki rétt að hækka skatta á fyrirtæki og setja einnig á hátekjuskatt til að framkvæma sósíalisma atvinnurekenda?


Þversögnin Katrín Jakobs og Vg - uppstokkun á næsta leiti

Að forseta frátölum ber almenningur mest traust til Katrínar Jakobsdóttur formanns Vinstri grænna, Vg, þegar stjórnmálamenn eru annars vegar. Forsenda þess að stjórnmálaflokkur nái árangri er frambærilegur formaður, þótt það sé hvergi nærri nægilegt eitt og sér, og samkvæmt því ætti nokkur skriður að vera á Vinstri grænum.

En svo er ekki. Flokkurinn mælist í nágrenni við kjörfylgið í síðustu kosningum, 10,9%, og tapaði þar helming fylgisins frá 2009.

Þversögnin um trúverðuga formanninn í fylgislausa flokknum verður aðeins skýrð með málefnastöðu Vg. Stærsti þáttur í slæmri málefnastöðu og takmörkuðum sóknarfærum er 16. júlí mistökin, þegar flokksforystan kúventi árið 2009 í afstöðu sinni til aðildar Íslands að ESB og samþykkti umsókn Samfylkingar.

Forysta Vg fékk ekki nema hluta flokksins með sér í ESB-vegferðina með Samfylkingu, margir sögðu sig úr flokknum og þingflokkurinn klofnaði.

Vg nær sér ekki eftir 16. júlí mistökin. Eina huggun flokksins er að samkeppnisaðilinn, Samfylkingin, er álíka lemstruð og kemst hvorki lönd né strönd.

Vinstrimenn stokkuðu síðast upp flokka sína um aldamótin. Krafa um einn snúning enn á flokkunum verður hávær í ár og næsta vetur til að vinstrimenn eygi von í kosningunum 2017.

Sú pæling verður ofarlega í huga margra að með Katrínu Jakobsdóttur sem formann í nýjum flokki vinstrimanna væri möguleiki að komast í stjórnarráðið.

 

 


mbl.is Flestir treysta Ólafi Ragnari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar; eitt kjörtímabil enn, takk fyrir

Ólafur Ragnar Grímsson nýtur mesta trausts íslenskra stjórnmálamanna. Hann stóð vaktina þegar þjóðin gerði misheppnaða tilraun til vinstri eftir hrun.

Með staðfestu sinni í stórmálum, t.d. Icesave og stjórnarskránni, sá hann til þess að skaði Jóhönnustjórnarinnar varð ekki meiri en svo að hægt væri að bæta hann með borgaralegri stjórn.

Ólafur Ragnar er kjölfesta í stjórnmálakerfi sem enn er kvikt eftir hrun. Á meðan Ólafur Ragnar valdar Bessastaði er ekki hætta á að kjánapólitík flæði yfir bakkana í lýðveldinu.

Við þurfum að bóka Ólaf Ragnar á Bessastaði eitt kjörtímabil enn.


mbl.is Frakklandsforseti til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband