Mánudagur, 7. apríl 2025
Tollar, trans og loftslagsvá sem viðtekin sannindi
Aðalhagfræðingur Íslandsbanka, Jón Bjarki Bentsson, segir í viðtengdri frétt að ágæti Trump-tolla séu ,,algjör jaðarskoðun" í hagfræði. Ekki er ástæða til að andmæla Jóni Bjarka. Er ég einn um að dásama tollmúra Trump? spyr dálkahöfundur Telegraph. Trump-tollar eru staðreynd sem þarf að setja í samhengi.
Áður en það verður gert er ástæða til að vekja athygli á tvennu, sem ekki koma tollum við, en segja nokkra sögu um jaðarskoðanir sem verða meginstraumsannindi.
Fyrir árið 1990 var algjör jaðarskoðun að heimsbyggðin stæði frammi fyrir loftslagsvá vegna manngerðar hlýnunar andrúmsloftsins.
Fyrir aldamótaárið 2000 var algjör jaðarskoðun að karlar gætu verið konur.
Skilja lesendur hvað átt er við? Jú, í stuttu máli, að jaðarskoðanir í gær eiga til að verða viðtekin sannindi á morgun. Í mannlífinu getur sérviska sem fær lýðhylli orðið viðtekin sannindi þvert á hlutlægan veruleika. Sannfæringarkraftur múgsins á samfélagsmiðlum er verulegur eins og dæmin sanna. Trúi nógu margir fær jaðarskoðun sannindastimpil. Sé hægt að telja fólki trú um loftslagsvá, sem stangast á við eðlisfræði, og karlkonur, sem samrýmast ekki líffræði, er ekki tiltökumál að búa til ný hagfræðisannindi.
Yfirlýsing Bandaríkjaforseta, sem fylgdi tilkynningu um tollahækkanir, segir að þjóðarvá (takið eftir: ekki loftslagsvá, það er grýla gærdagsins) blasi við verði ekkert að gert. Tilgangurinn sé að styrkja Bandaríkin sem efnahagsveldi á alþjóðavísu og verja hagsmuni bandarískra launþega, segir í fyrstu efnisgrein. Enduriðnvæðing Bandaríkjanna kallar á tollahækkanir til að verja föðurlandið fyrir innflutningi frá ríkjum sem tolla bandarískar vörur. Tollarnir jafni ósjálfbæran viðskiptahalla Bandaríkjanna við útlönd.
Á dögum upplýstra einvalda í Evrópu var tollvernd kennd við merkantílisma, kaupauðgisstefnu á okkar ylhýra. Síðast var víðtæk tollinnheimta reynd á vesturlöndum í kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar. Í sögulegu samhengi ruddu tollmúrar austurrískum liðþjálfa braut til valda í Þýskalandi. Vegferðin endaði illa.
Í hagfræðinni eru frjáls viðskipti talin auka ábata allra á meðan kaupauðgisstefna, flytja meira út en inn, er ávísun á tollastríð og allsherjartap, ef ekki samfélagsupplausn. Hagfræðin er, ólíkt eðlisfræði og líffræði, samfélagsgrein og er sem slík með pólitíska slagsíðu. Innbyggt í hagfræðina er homo economicus, hagræni maðurinn sem sjálfselskur leitast við að hámarka eigin hag.
Til að virkja sjálfselskuna í þágu almannaheilla bjó hagfræðin til snyrtilega hugmynd, að með verkskiptum milli einstaklinga, samfélaga og þjóða batnaði hagur allra. Alþjóðahyggja síðustu áratuga, grunnurinn var lagður eftir seinna stríð, byggir á þessari hugsun. Bandaríkin urðu heimamarkaður alþjóðahagkerfisins en á móti var eina alþjóðamyntin bandarískur dollar. Bandaríkin létu sér vel líka að frjáls viðskipti leiddu til verksmiðjulokana og nánast afiðnvæðingar.
Bandaríkin sem heild uxu og döfnuðu í alþjóðhyggjunni með frjálsa verslun í öndvegi. Um síðustu aldamót fór aftur að bera á verulegu ójafnvægi í auðlegð þjóðarinnar. Verkamenn og lægri millistétt sátu uppi með verri lífskjör en sérfræðingar og efsta lag millistéttarinnar bættu hag sinn. Þeir ofurríku léku við hvurn sinn fingur - gera það yfirleitt í borgaralegu hagkerfi.
Trump fékk fyrst kjör 2016 til að leiðrétta frjálsa heimsverslun og alþjóðahyggju, setja bandaríska almannahagsmuni í forgang. Aftur fékk hann kjör 2024 á sömu forsendum. Núna leggur Trump til atlögu. Upplýsandi 25. mín. myndband útskýrir tollastefnu Trump, bæði í sögulegu alþjóðlegu samhengi og sérbandarísku.
Myndbandið segir ekki hvort uppstokkun Trump á alþjóðahagkerfinu muni heppnast. Enginn veit afleiðingarnar af tollastríðinu sem Trump efnir til. Óvissutími er framundan. Ekki aðeins í heimsviðskiptum heldur alþjóðamálum í heild sinni. Tilfallandi leyfir sér þann spádóm að tollastefna Trump verði innan fárra mánaða ekki talin ,,algjör jaðarskoðun." Valdi fylgir sannfæringarkraftur, bandaríska forsetavaldið vegur þungt. Að því sögðu er hvergi nærri gefið að viðtekin verði Trump-sannindi í hagfræðibókum. Trump-tollar gætu verið samningatækni fremur en viðleitni að blása lífi í merkantílisma. Bandaríkjastjórn býður upp á samtal um gagnkvæmni í tollamálum, en mun ekki hverfa til fyrra fyrirkomulags. Breytingar verða, opin spurning hve róttækar.
Bjartsýn spá er að í tíma munu helstu hagaðilar, stærstu efnahagsveldin s.s. Bandaríkin, Kína og ESB, ná samkomulagi um hóflega tolla er kæfa hvorki skynsamlega verkskipti né friðsamleg viðskiptasambönd á alþjóðavísu. Efnahagssamdráttur, að ekki sé sagt kreppa, gæti þó orðið hlutskipti margra hagkerfa, það bandaríska ekki undanskilið. Spennið beltin og haldið ykkur fast.
![]() |
Hin dæmalausa formúla Trumps útskýrð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 6. apríl 2025
Jafnrétti og innivinna hugrænna háskólakvenna
Dómsmálaráðherra fer nú með jafnréttismál. Ráðherra lét mynda sig með jafnréttisdeildinni, sex konur í þægilegri innivinnu. Ljósmyndin segir meira en þúsund orð um jafnréttisbaráttu íslenskra kvenna á þessari öld, að háskólakonur fái vinnu við hæfi.
Til að réttlæta yfirtölu kvenna í þægilegri innivinnu er búin til innihaldslaus orðræða sem fleytir skattfé í kvennaföndur. Í framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum fyrir árin 20252028, er eftirfarandi aðgerð boðuð:
Unnið verði að því að fanga kynjamynstur hugrænnar vinnu á Íslandi. Unnin verði eigindleg rannsókn á hugrænni vinnu með viðtalsviðbót við megindlega tímarannsókn Hagstofu Íslands og forsætisráðuneytis. Í eigindlegu rannsókninni verði rýnt betur í niðurstöður megindlegu rannsóknarinnar sem endurspegla hugræna vinnu og ósýnilega verðmætasköpun hennar. Markmið aðgerðarinnar verði að fanga umfang hugrænnar vinnu kynjanna á Íslandi. (feitletr. pv)
Á mannamáli segir þarna að ein rannsókn skuli gerð á annarri rannsókn til að ,,endurspegla" eitthvað sem er ósýnilegt. Markmiðið er að ,,fanga umfang" ósýnileika sem skapar verðmæti. Ósýnileiki hefur ekkert umfang.
Tillagan er heilaspuni skrifaður í stjórnarráðsstíl til að fá virðulegan blæ. Verið er að búa til vinnu um ekki neitt, að ný rannsókn rannsaki eldri rannsókn um eitthvað sem er ósýnilegt enda huglægt.
,,Hugræn vinna" er uppskrúfað orð um hugsun. Meðvitundin, þar sem hugsunin fer fram, verður ekki smættuð niður í starfshugsun, einkalífshugsun, félagshugsun, tómstundahugsun eða hverja aðra hugsun sem vera skal. Þeir sem efast ættu að prófa að skrá hugsanir sínar yfir einn dag. Þeir sem segjast geta flokkað allar hugsanir sínar yfir daginn annað tveggja segja ósatt eða eru frámunalega einfaldar sálir.
Meðvitundin er altæk. Á sama tíma og tilfallandi skrifar þennan texta getur hann velt fyrir sér Úkraínustríðinu, hvort veðrið verði gott í sumar, hvenær valkyrjustjórnin líðast í sundur og gert sér ótal aðrar hugsanir um stórt og smátt. Allt á meðan hann ritar um fávísishjal hugrænna háskólakvenna.
Snorri Másson þingmaður Miðflokks tók jafnréttisráðherra til bæna fyrir framkvæmdaáætlun kynjajafnréttis og spyrti hana við fórnarlambafræði, sem kenna sig við kyn en geta þó hvorki sagt hvað kyn er né hvað kynin eru mörg.
Okkur er ætlað að trúa að konur eigi bágt en samt stjórna þær samfélaginu. Við þurfum fleiri Snorra en færri ,,hugrænar" konur með háskólapróf.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 5. apríl 2025
Sigríður Dögg sendir Flóka í Spursmál
Formaður Blaðamannafélags Íslands, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, treysti sér ekki að mæta í Spursmál til að ræða byrlunar- og símamálið. Í staðinn sendir Sigríður Dögg lögmanninn Flóka Ásgeirsson.
Í haust mætti Flóki með þeim Þóru Arnórsdóttur og Aðalsteini Kjartanssyni í pallborð á Vísi til að ræða byrlunar- og símamálið.
Staða blaðamanna almennt, fyrrum sakborninga í byrlunar- og símamálinu sérstaklega, er með þeim hætti að blaðamenn senda lögmann á opinberan vettvang að tala sínu máli. Vörn blaðamanna er ekki fagleg og byggð á siðareglum stéttarinnar heldur lagatæknileg. Blaðamenn sem fela sig á bakvið lögmann til að ræða fagleg álitamál eru málefnalega gjaldþrota.
Í Spursmálum í gær viðurkenndi Flóki (viðtalið hefst 1:03:56) að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis hafi fulla heimild til að setja á stofn rannsóknanefnd til að komast til botns í byrlunar- og símastuldsmálinu.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis er með byrlunar- og símamálið til meðferðar að ósk Páls skipstjóra Steingrímssonar sem blaðamenn þriggja miðla, RÚV, Stundarinnar og Kjarnans gerðu að skotmarki. Skipstjóranum var byrlað, síma hans stolið og færður Þóru Arnórsdóttur á RÚV. Síminn var afritaður á Efstaleiti en RÚV birti enga frétt. Stundin og Kjarninn sáu um að birta fréttir með vísun í gögn úr síma skipstjórans. Þáverandi ritstjóri Kjarnans, Þórður Snær Júlíusson, núverandi framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingar, viðurkenndi að lögbrot hefðu verið framin í aðdraganda fréttaöflunar.
Æ fleiri átta sig á að meðan byrlunar- og símamálið er óupplýst er íslensk blaðamannastétt á skilorði. Blaðamennska hér á landi er í felum, fjarvera formanns Blaðamannafélagsins frá Spursmálum staðfestir þrotastöðuna. Trúverðugleiki stéttarinnar verður ekki endurreistur fyrr en stærsta hneyksli íslenskrar fjölmiðlunar er upplýst.
![]() |
#72. - Trump og Kristrún setja allt í uppnám |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 4. apríl 2025
ESB-aðild Íslands úr sögunni eftir Trump-tolla
Ef Ísland væri í Evrópusambandinu yrðu bandarískir tollar á íslenskar vörur 20 prósent. Það sem verra er færi ESB með samningsumboð Íslands gagnvart Bandaríkjunum. Ísland nýtur lágmarkstolla, tíu prósent, og semur beint við Bandaríkin. Þar skilur á milli feigs og ófeigs.
Yfirlýsing Trump um breytta tolla er stórpólitísk. Þjóðhyggja framar alþjóðahyggju er rauði þráðurinn. Í fyrirsögn yfirlýsingarinnar er talað um fullveldi og þjóðaröryggi. Til skamms tíma voru Bandaríkin merkisberar alþjóðahyggju. Ekki lengur, fullveldi og þjóðhyggja eru í forgrunni. Hornsteinn alþjóðahyggjunnar var frjáls viðskipti. Nánast á einni nóttu er hornsteinninn malaður mélinu smærra.
Afleiðingarnar fyrir alþjóðasamfélagið eru ófyrirséðar. Hitt er deginum ljósara að alþjóðahyggja síðustu áratuga er liðin undir lok. Þar sem áður voru bandalög og alþjóðasamningar koma núna stórveldahagsmunir. Í þeim veruleika er ESB hvorki né.
Burtséð frá pólitíkinni er Trump-tollmúrinn stórmerkileg hagfræðitilraun. Tollarnir eiga að skila 728 milljörðum dollara í tekjur, skapa 2,8 milljónir starfa og auka rauntekjur bandarískra heimila um 5,7%. Gengur það eftir? Enginn veit. Stefnumótunin, að Bandaríkin séu ekki lengur heimamarkaður alþjóðahagkerfisins, mun aftur setja öll ríki, sem selja til Bandaríkjanna, í aðra og veikari stöðu en áður.
Daði Már fjármálaráðherra og ESB-sinni er fremur hjárænulegur í viðtengdri frétt. Þar segir:
Daði segir of snemmt að segja til um hvort það komi til með að hafa áhrif á hugsanlegar aðildarviðræður Íslands við ESB, að lönd innan sambandsins hafi fengið á sig 20% tolla, segir Daði of snemmt að segja til um það.
Daði Már gerði vel í að líta á landakort. Ísland er á milli Bandaríkjanna og ESB-Evrópu. Burtséð frá tollum og viðskiptum er Ísland miðjan á svæði, sem Bandaríkin miða þjóðaröryggi sitt við, og kallast GIUK-hliðið, Grænland-Ísland-Bretland.
Kjarni málsins er að ESB-aðild myndi færa okkur efnahagslega örbirgð annars vegar og hins vegar yrðum við bitbein stórveldahagsmuna, Bandaríkjanna og ESB-Evrópu.
Við núverandi aðstæður í alþjóðamálum jaðrar við landráð að tala fyrir ESB-aðild Íslands.
![]() |
Höfðu ekki ímyndunarafl í svona mikinn mun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 3. apríl 2025
10% Trump-tollur og 100% Kristrúnarskattur
Trump leggur tolla á innflutning til Bandaríkjanna, segir það réttlætismál. Vörur frá Íslandi munu bera 10 prósent toll. Þorgerður Katrín utanríkis harmar Trump-tollinn, segir hann vinna gegn ,,fyrirsjáanleika" og bitni á íslenskum ,,fyrirtækjum og fjölskyldum."
Tollar eru skattheimta. Veiðigjöld eru einnig skattheimta.
Kristrún forsætis og Þorgerður Katrín utanríkis beita sér fyrir tvöföldun á veiðigjöldum, eða 100 prósent hækkun.
Nú þurfa þær stöllur Þorgerður Katrín og Kristrún að útskýra hvernig Trump-tollar upp á tíu prósent komi illa við fyrirtæki og fjölskyldur á Íslandi en 100 prósent hækkun á veiðigjöldum bitni ekki á einum eða neinum. Í leiðinni þarf að greina hvernig Trump-tollur valdi ófyrirsjáanleika en tífalt hærri Kristrúnarskattur sé til marks um fyrirsjáanleika.
![]() |
Þorgerður um nýjustu vendingar: Honum var alvara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 2. apríl 2025
Var aðförin að Ásthildi Lóu skipulögð?
Sigríður Á. Andersen þingmaður Miðflokksins þýfgaði Kristrúnu forsætis afsögn Ásthildar Lóu barnamálaráðherra. Fátt var um svör. Vörn Kristrúnar er að Ásthildur Lóa hafi sagt af sér ótilneydd. Að auki segist forsætisráðherra móðgaður að Sigríður skyldi voga sér að spyrja.
Margt er á huldu um aðdraganda afsagnar barnamálaráðherra. Meint tilefni afsagnarinnar, 35 ára gamalt ástarmál, virðist samtímis reka á fjörur forsætisráðuneytisins og fréttastofu RÚV. Kristrún og starfslið hennar í ráðuneytinu láku til Ásthildar Lóu nafni uppljóstrarans, Ólafar Björnsdóttur. Óljóst er hvenær og hvaðan RÚV fékk upplýsingarnar um ástarmálið. Hitt liggur fyrir að sótt var að Ásthildi Lóu með tangarsókn forsætisráðuneytis og RÚV.
Kristrún var meðvituð að lekinn úr ráðuneytinu var stórhættulegur. Skrifstofa hennar sendi út ,,leiðréttingu" á fréttum af lekanum þann 20. mars, sama dag og afsögnin var tilkynnt. Þar er látið líta svo út að afar takmörkuð samskipti hafi átt sér stað. Ein setning í yfirlýsingu forsætisráðuneytisins getur ekki verið annað en ósönn: ,,Önnur samskipti áttu sér ekki stað um málið." Ekki er nokkur einasti vafi er á verulegum samskiptum ráðgjafa Kristrúnar við RÚV um leið og spurðist að ríkisfjölmiðillinn væri með puttana í málinu. Það var nokkrum dögum fyrir afsögn barnamálaráðherra.
Í heila viku, 13. mars til 20. mars, vissi forsætisráðuneytið um málavöxtu. Símar ráðgjafa Kristrúnar hafa verið rauðglóandi til að skipuleggja framvindu málsins með það í huga að verja pólitíska stöðu forsætisráðherra.
Náinn samgangur er á milli starfsfólks Kristrúnar og fréttastofu RÚV. Þórður Snær Júlíusson framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingar og Helgi Seljan, sem aftur er kominn á RÚV, eru trúnaðarvinir. Trúnaðurinn er hertur í eldri siðleysisfrétta, Namibíumálinu og byrlunar- og símamálinu.
Ásthildur Lóa vissi, áður en hún sagði af sér, að RÚV væri með fréttina í bígerð. Líklega vissi hún ekki að erlendir fjölmiðlar höfðu fengið ábendingar um hvað væri í uppsiglingu. RÚV var í mun að ganga þannig frá mannorði Ásthildar Lóu að hún ætti ekki uppreist æru. RÚV-lygin um að barnsfaðir ráðherra hafi verið ósjálfráða, 15 ára, var ekki tilviljun. Hverjir eru líklegir til að undirstinga erlenda fjölmiðla um að í aðsigi sé hneyksli á æðstu stöðum á Íslandi?
Það má gefa sér, þrátt fyrir andmæli Kristrúnar, að Ásthildur Lóa hafi verið knúin til afsagnar. Kristrún, Þorgerður Katrín og Inga Sæland funduðu með Ásthildi Lóu í rúmlega þrjár klukkustundir frá klukkan tvö þann 20. mars. Niðurstaðan var að barnamálaráðherra myndi segja af sér ráðherradómi. Á meðan fundur oddvita ríkisstjórnarinnar stóð unnu aðstoðarmenn þeirra baki brotnu að hanna fréttafrásögn sem ylli ríkisstjórninni sem minnstum skaða. Hönnunin fór ekki fram í tómarúmi inn í stjórnarráðinu. Samskipti voru á milli aðstoðarmanna oddvitanna og fjölmiðla.
Hvers vegna varð Ásthildur Lóa að segja af sér?
Eitt svar er að Kristrún hafi talið að mistökin á hennar skrifstofu, að gefa Ásthildi Lóu upp nafn uppljóstrarans, gæti orði forsætisráðherra dýrkeypt og sett stjórnarsamstarfið í uppnám. Sem stendur er þetta líklegasta ástæðan, Ásthildi Lóu var fórnað fyrir Kristrúnu.
En það gætu verið aðrar ástæður, sem ekki eru komnar fram.
Ásthildur Lóa er enn heit kartafla í stjórnarráðinu. Ef fyrrum barnamálaráðherra stígur fram og staðfestir að hún hafi verið beitt þrýstingi og knúin til afsagnar er Kristrún forsætis uppvís að ósannindum á alþingi. Það er alvarlegt mál.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 1. apríl 2025
Valkyrjurnar með eldspýturnar
Valkyrjustjórnin minnir á sögu H.C. Andersen um litlu fátæku stúlkuna með eldspýturnar. Stúlkan fann ekki kaupendur að eldspýtunum og þorði ekki heim af ótta við hirtingu. Að kveldi dags fann hún sér skjól í húsasundi og brenndi upp söluvöruna. I bjarma hverrar eldspýtu sá stúlkan sýn um betra líf. Dagdraumar í húminu gáfu stundarfrið. Vegfarendur fundu stúlkuna örenda með stirðnað bros.
Valkyrjurnar dunda sér við að kveikja í bjargræðinu sem kjósendur treystu þeim fyrir. Skandalar eins og símtal Ingu við skólastjórann útaf skópari barnabarns, hótanir Sigurjóns trilluþingmanns í garð fjölmiðla fyrir að benda á hagsmunaárekstra, lekinn frá Kristrúnu sem felldi Ásthildi Lóu, stríðsrekstur sömu Kristrúnar í Úkraínu, óvinveitt afstaða Þorgerðar Katrínar til Bandaríkjanna, aðförin að landsbyggðinni með sérskatta á útgerð og vinnslu, mótsagnir á milli útgjaldaloforða og fastmæla um aðhald í ríkisrekstri. Er þá ótalin helförin til Brussel þar sem fórna skal fullveldi og farsæld þjóðarinnar.
Ríkisstjórn Jóhönnu Sig. 2009-2013 var einnig dugleg að kveikja elda sem brenndu upp traust og tiltrú á stjórnarflokkunum. Jóhanna og félagar höfðu þá afsökun að svokallað hrun olli viðsjám í stjórnmálum um langt árabil.
Þær Kristrún, Þorgerður Katrín og Inga tóku við góðu búi í hagfelldu árferði. Kosningarnar í haust voru ekki ákall um róttækni. Kjósendur höfnuðu óreiðuflokkum eins og Vinstri grænum, Pírötum og Sósíalistum.
Dagdraumar valkyrjanna um að setja mark á samtíð sína eru til marks um sjálfhverfu. Samfylking, Viðreisn og Flokkur fólksins fengu ekki umboð til að stokka upp samfélagið. Engin eftirspurn er eftir hávaðapólitík, þolinmæði fyrir axarsköftum takmörkuð. Skandala og klúður fyrstu hundrað dagana má með velvilja skrifa á reynsluleysi. Ætli valkyrjur sér að halda út kjörtímabilið er ráð að rifa seglin og hemja hégómann. Stjórnvald á ekki að vera sirkus.
![]() |
Blása á allt tal um reynsluleysi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)