Þriðjudagur, 31. desember 2024
Legvandi karla, lífaldur og málfrelsi
Í Morgunblaðinu í gær var grein eftir Jón Sigurgeirsson lögfræðing til varnar trans. Jón skrifar:
Einstaklingur með leg sem upplifir sig sem eitthvað annað en konu hefur rétt á að vera það meðan viðkomandi gengur ekki á rétt annarra. Það er kjarninn í vestrænum frelsishugmyndum.
Rétt hjá Jóni, hver og einn má skilgreina sjálfan sig hvernig sem vera skal. Fimmtugur karlmaður má upplifa sjálfan sig sem tvítuga stúlku. Þrítug kona er í fullum rétti að skynja sjálfa sig sem sjötugan karl.
Nei, bíðum aðeins við. Samkvæmt lögum um kynrænt sjálfræði má aðeins skipta um kyn í huga sér, og fá nýja kynið skjalfest í þjóðskrá. Ekki er leyfilegt að breyta lífaldri. Þó er transaldur þekkt hugtak, transage á útlensku. Transaldur er skynjaður aldur, sem getur verið allt annar en lífaldur. Rétt eins og raunkyn, líffræðilegt kyn, er óbreytanlegt þótt huglæg upplifun sé önnur er lífaldur óbreytanlegur. Að vera ungur í anda er eitt. Annað og ótækara er að aldur sé ímyndunin ein.
Samfélagið verður ekki starfhæft ef grunnstaðreyndir um manninn eru háðar hugdettum. En allir hafa fullt frelsi til að vera í huga sér eitthvað allt annað en líffræðin og lífaldur upplýsa. Það skilur á milli feigs og ófeigs að réttur eins til ímyndunar felur ekki í sér að aðrir skuli tileinka sér ranghugmyndina.
Jón skrifar ekki um transaldur, aðeins transkyn. Tilgangur greinar Jóns er að mótmæla blaðagrein Snorra Mássonar þingmanns sem harmar að ríkissaksóknari ákæri þá sem gagnrýna transboðskapinn. Tilfallandi ræddi grein Snorra fyrir skemmstu.
En aftur að frelsinu til að skilgreina sjálfan sig. Um leið og einhver skiptir um kyn, eða aldur, geta orðið til ný réttindi sem viðkomandi hafði ekki áður. Það sem meira er þá geta einhverjir aðrir tapað rétti sem var helgur fyrir daga trans. Karl sem ákveður að verða transkona fær aðgang að rýmum sem eingöngu eru ætluð konum, t.d. kvennasalernum og búningsaðstöðu kvenna í íþróttahúsum og sundlaugum. Konum mörgum hverjum er alls ekki um það gefið. Inga Sæland, nýorðin ráðherra, skrifaði snarpa ádrepu til varnar frelsi kvenna að athafna sig á kyngreindum salernum.
Karlkonur krefjist aðgangs að mæðradeildum sjúkrahúsa. Í Bretlandi mæta karlkonur með líffræðileg æxlunarfæri sín en heimta meðferð eins og þær væru konur:
Tölfræði frá Wales og Englandi sýnir að 482 sjúklingar hafa verið skráðir inn sem konur, þrátt fyrir að eiga í vandræðum með blöðruhálskirtil, eistu eða getnaðarlim.
Karlar í kvenlíki vilja fá aðgang að kvennaíþróttum. Það stórlega skerðir réttindi og frelsi kvenna til að keppa á jafnréttisgrunni. Karlar eru frá náttúrunnar hendi með meiri líkamsmassa en konur og hafa að jafnaði betur í keppni við konur. Jafnvel í íþróttum þar sem ekki reynir á líkamsstyrk, t.d. skák, eru kyngreind keppnismót. Annars tækju karlkonur öll verðlaunin.
Þegar kemur að lífaldri og transaldri er nóg að vekja athygli á að fengi fólk rétt til að skrá aldur sinni samkvæmt huglægri upplifun yrðu allir lífeyrissjóðir gjaldþrota á augabragði og almannatryggingakerfið sömuleiðis. Ástæðan er sú að margir myndu skilgreina aldur sinn sjötugt og fá ókeypis pening - ellilífeyri. Þeir sem halda annað bera lítið skynbragð á mannlífið.
Fullyrðing Jóns um að þeir sem skilgreina sjálfa sig annað en það sem þeir eru, hvað kyn og aldur áhrærir, gangi ekki á rétt annarra eru staðlausir stafir. Karl sem þykist kona gengur á rétt kvenna. Fertugur sem segist sjötugur gengur á rétt þeirra sem í reynd eru sjötugir. Við þurfum ekki að ræða skelfinguna er fullorðnir haldnir ranghugmyndum tæla börn.
Fólk má tileinka sér ranghugmyndir og stofna um þær samtök. En við öll höfum málfrelsi til að andmæla að firrur einstakra séu teknar góðar og gildar almennt í samfélaginu. Áhyggjuefni er að á árinu sem er að líða beitir ríkissaksóknari sér fyrir að málfrelsið sé skert í þágu sérviskunnar. Tilfallandi var í haust ákærður fyrir hatursorðræðu er hann gangrýndi aðgang Samtakanna 78 að leik- og grunnskólum með þann boðskap að sumir séu fæddir í röngu kyni. Réttarhald verður á nýju ári.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 30. desember 2024
Fjölmiðlar: Sjálfstæðisflokkurinn er ráðandi í pólitík
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins, hvort hann verður haldinn í febrúar, maí eða september, er tilefni raðfrétta í stærstu fjölmiðlum landsins síðustu þrjá daga. Vísir birtir níu fréttir og RÚV fjórar um tímasetningu landsfundar.
Skilaboð raðfréttanna eru að tímasetning landsfundar Sjálfstæðisflokksins sé brýnna og mikilvægara en stefnumið og verkefnaskrá nýrrar ríkisstjórnar. Ruðningsáhrif raðfrétta Vísis og RÚV eru slík að Morgunblaðið fjallar einnig um ótímasettan landsfund í fjórum fréttum.
Merkilegt er að sjá fréttabál kveikt sem þjónar ákveðnum tilgangi en endar með að vinna gegn markmiði sínu. Vísir reið á vaðið og gerði því skóna að samsæri væri í undirbúningi um að fresta landsfundi, svona eins og Kastró á Kúbu frestaði jólunum hér um árið. RÚV fylgdi í humátt á eftir og bætti sprekum á fjölmiðlabálið. Morgunblaðið, almennt hlynnt Sjálfstæðisflokknum, gat ekki setið hjá og birti fréttir um sama mál en undir öðrum formerkjum.
Sjálfstæðismenn mega vel við una. Fjölmiðlar eru sannfærðir um að vöxtur og viðgangur Sjálfstæðisflokksins er meginmál stjórnmálanna. Þegar Lilja Alfreðsdóttir nánast segir berum orðum að hún ætli í framboð gegn sitjandi formanni Framsóknarflokksins er það aukasetning í einni frétt.
Fyrir nýja ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hlýtur að vera nöturlegt að lesa svart á hvítu hve fjölmiðlar telja hana ómerkilega. Í stjórnarmyndunarviðræðum var fjöldi frétta um kvenpersónurnar þrjár sem um véluðu. Sagt var frá stjórnarsáttmálanum og lyklaafhendingu í stjórnarráðinu. Síðan ekki sögunni meir. Sjálfstæðisflokkurinn yfirtekur allar fréttir af pólitískum vettvangi.
Fréttaflutningurinn veit ekki á gott fyrir Kristrúnarstjórnina. Fjölmiðlar segja undir rós að ný ríkisstjórn sé sviplaus og óspennandi valkostur við raunverulegt stjórnmálaafl sem skekur land og þjóð sé ekki á kristalstæru hvenær landsfundur þess verði haldinn.
Dvergflokkarnir áttu sína stund. Í þessu tilviki tæpa viku. Þá vöknuðu fjölmiðlar upp með andfælum og áttuðu sig á að Sjálfstæðisflokkurinn var utan stjórnar og óvissa væri hvenær landsfundur yrði haldinn. Blaðamenn voru ræstir út á aukavaktir, símar rauðglóandi og tölvupóstar sendir fram og tilbaka. Þrír stærstu fjölmiðlar landsins rigguðu upp 17 fréttum á hálfum þriðja sólarhring um mál málanna: hvenær verður landsfundur Sjálfstæðisflokksins haldinn?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 29. desember 2024
Bjarni hlynntur frestun, Gulli formennsku
Bjarni Ben. formaður Sjálfstæðisflokksins telur rök standa til að fresta landsfundi, sem ráðgerður er í febrúar. Guðlaugur Þór hafnar á RÚV frestun landsfundar. Á síðasta landsfundi skoraði Guðlaugur Þór Bjarna á hólm en tapaði stórt í formannskjöri, hlaut 40% atkvæða en Bjarni 59%.
Guðlaugur Þór er hvergi að baki dottinn. Hann gefur sterklega til kynna á RÚV að hann ætli í annað sinn að gera atlögu að formennsku Sjálfstæðisflokksins. Óvíst er hvort Bjarni gefi kost á sér til endurkjörs.
Guðlaugur Þór metur það hagfellt sínu framboði að halda landsfund sem fyrst. Stutt er frá kosningum. Úrslitin voru ekki það stórtap sem flokkurinn stóð frammi fyrir í upphafi kosningabaráttunnar. Hægt er að tala um varnarsigur eftir sjö ára stjórn með Vinstri grænum. Sé haft í huga að ákvörðun Bjarna formanns um haustkosningar ruddi af alþing bæði Pírötum og Vinstri grænum er meintur varnarsigur í reynd stórsigur. Róttækasta aflið á alþingi er núna einkaflokkur Ingu Sæland, íhaldssamari í samfélagsmálum en Sjálfstæðisflokkurinn.
Stjórnmálaflokkar byggja á sögu og málefnum. En mótandi fyrir pólitík stjórnmálaflokka hverju sinni eru samtímaaðstæður. Ráðandi fyrir pólitískar aðstæður hér á landi nú um stundir og sennilega næstu misserin er ný ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins.
Ríkisstjórn Kristrúnar var mynduð rétt fyrir jól. Í febrúar verður engin reynsla komin á hana, heldur ekki í vor. Næsta haust verður hægt að móta árangursríkt andsvar við pólitík kvennaþríeykisins. Þá en ekki fyrr er skynsamlegt að draga stóra ályktanir um stjórnmáþróun næstu missera.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins í febrúar næst komandi verður illa í stakk búinn að leggja málefnagrunn sem yrði valkostur við áherslur sitjandi stjórnar. Eftir tvo mánuði hylur nýjabrumið enn pólitískt inntak stjórnarstefnunnar.
Ákveði Bjarni að hætta í pólitík eftir farsælan feril eru þrjár konur helst nefndar sem arftakar, auk Guðlaugs Þórs. Þær eru Áslaug Arna, Guðrún Hafsteins og Þórdís Kolbrún. Aðrir gætu bæst í hópinn. Bjarni ætlar að segja af eða á fljótlega eftir áramót. Stutt og snörp kosningabarátta hentar Guðlaugi Þór prýðilega en öðrum síður.
Febrúar er í febrúar, segir djúpíhugull Gulli í RÚV-viðtalinu. Jafnvíst er að flas sé ekki til fagnaðar.
![]() |
Skiptir mestu að koma málefnalega sterk af landsfundi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 28. desember 2024
Trump, Grænland, Ísland og ESB-Evrópa
Trump verðandi forseti Bandaríkjanna vill kaupa Grænland. Spaugið hylur þá alvöru að Grænland er lífsnauðsynlegt Bandaríkjunum í öryggis- og varnarmálum. Grínið er leyfilegt þar sem Grænland er undir forræði smáríkis á meginlandi Evrópu, Danmörku. Að Grænland er á forræði Dana er sögulegur brandari. Danir fengu stærstu eyju heims gefins er norska konungdæmið rann inn í það danska á miðöldum.
Ísland fylgdi Grænlandi og Noregi inn í ríki Danakonungs á 14. öld. Færeyjar voru hluti af sama pakka og raunar einnig eyjar norður af Skotlandi.
Ástæða er að rifja upp söguleg umbrot sem gáfu þá kyndugu niðurstöðu að landbúnaðarríkið Danmörk eignaðist á einu bretti helstu eyjar á Norður-Atlantshafi. Eyjarnar byggðust norrænum mönnum, einkum norskum, á miðaldahlýskeiðinu um 900-1300. Norska konungdæmið hóf útþensluskeið er leið á tímabilið og fékk forræði yfir eyjunum, fyrst Færeyjum en síðast Íslandi eftir innanlandsófriðinn sem kenndur er við Sturlungaöld. Svarti dauði gekk nærri norska konungdæminu. Veðurfarstímabil, kennt við litlu ísöld, um 1300-1900, gerði illt verra. Noregur varð hjáríki kóngsins í Kaupmannahöfn, fékk ekki fullveldi fyrr en snemma á 20. öld. Danmörk sat uppi með eyjagóssið, án þess að hafa unnið til þess og litla burði til að verja eigur sínar. Eins og kom á daginn í seinni heimsstyrjöld.
Söguleg umbrot standa yfir í Evrópu þessi árin. Hvorki eru það loftslagsbreytingar né farsóttir sem knýja áfram framvindu mála heldur stríðsátök, líkt og löngum áður. Úkraínustríðið mun breyta Evrópu varanlega, hvort heldur að Rússar tapi eða sigri. Í tilfelli rússnesks ósigurs glímdi Evrópa við upplausn kjarnorkuveldis í túnfætinum. Sigri Rússar stendur á sama túnfæti óvígur her 140 milljón manna þjóðar með gnótt náttúruauðlinda. Evrópa, í merkingunni Evrópusambandið, er í báðum tilvikum með ærið verkefni næstu áratugina í austurvegi sem lítt eru fallin til að styrkja sambandið. Þvert á móti, öll rök standa til hnignunar.
Bandaríkin, burtséð frá Trump, líta ekki lengur á meginland Evrópu sem sitt kjarnasvæði, líkt og þau gerðu eftir seinna stríð. Öryggishagsmunir Bandaríkjanna í austurátt liggja á Norður-Atlantshafi. Á dögum kalda stríðsins var talað um GIUK-hliðið, kennt við Grænland, Ísland og Bretlandseyjar. GIUk verður borgarhlið Bandaríkjanna gagnvart ESB-Evrópu. Dálkahöfundur Telegraph í Bretlandi spyr í hálfkæringi hvort ekki sé einfaldast að eyríkið verði 51sta fylki Bandaríkjanna. Bretar sjá tilvistarvanda nágranna sinna á meginlandinu.
Vötn falla ekki til Brussel heldur öll til Washington. Í Reykjavík sitja aftur stjórnvöld sem stefna Íslandi út i óvissuna með æ nánari tengslum við hnígandi sól ESB-Evrópu. Það þjónar hvorki hagsmunum Íslands í bráð né lengd að landið verði bitbein stórvelda. Grínið um bandarísk kaup Grænlands er dauðans alvara.
![]() |
Guð forði okkur frá því að Ísland missi tengslin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 27. desember 2024
Loftslagsráðherra vill banna bensínbíla árið 2025
Jóhann Páll Jóhannsson er loftslagsráðherra í nýrri ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur. Jóhann Páll boðar að á Íslandi verði bannað að nýskrá bensínbíla eftir áramót. ,,Þetta eru þær alvöru aðgerðir í loftslagsmálum sem Samfylkingin hefur kallað eftir. Við notum orðið alvöru af því við höfnum sýndarmennsku og upplýsingaóreiðu [gömlu] ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum," skrifar Jóhann Páll.
Svo ekkert fari á milli mála er sannfæring loftslagsráðherra skráð og skjalfest með eftirfarandi orðum:
Í loftslagskaflanum boðum við [Samfylkingin] m.a. uppstokkun í landbúnaðarkerfinu, hraðari orkuskipti með fjölgun rafhleðslustöðva og banni við nýskráningu bensínbíla frá og með árinu 2025, byltingu í almenningssamgöngum með flýtingu Borgarlínu (feitletr. pv)
Báðar tilvitnanir eru úr grein Jóhanns Páls fyrir þrem árum þar sem hann útlistar loftslagsaðgerðir Samfylkingar, komist flokkurinn til valda. Nú er flokkurinn kominn í stjórnarráðið, stýrir bæði forsætisráðuneytinu og loftslagsráðuneytinu. Á milli jóla og nýárs hlýtur Jóhann Páll með stuðningi Kristrúnar forsætis að setja reglugerð sem bannar nýskráningu bensínbíla eftir fimm daga.
Annars eru hvorki Jóhann Páll né Samfylking ,,alvöru," samkvæmt eigin skilgreiningu, heldur haldin ,,sýndarmennsku og upplýsingaóreiðu."
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 26. desember 2024
Guð, maður og vél
Hlutlaust samfélag er tæpast til, segir Guðrún Karls Helgudóttir biskup. ,,Guðleysi er nefnilega ekki hlutleysi frekar en trú," er haft eftir biskupi. Hér er tæpt á málefnum sem ekki eru öll þar sem þau eru séð.
Viðurkennd mannréttindi eru að hver og einn má hafa hverja þá skoðun sem vera skal um lífið og tilveruna. Að tjaldabaki ríkir þó stigveldi skoðana sem hafnar jafnrétti ólíkra sannfæringa.
Eignarétturinn byggir á þeirri skoðun að menn eiga rétt eigna sinna. Samfélagið samþykkir ekki rétt þeirra sem eru andstæðrar skoðunar og haga lífi sínu til samræmis; taka hluti ófrjálsri hendi. Málsvörn þjófs, að hann viðurkenni ekki eignaréttinn, er ógild og að engu hafandi.
Samfélagið í einn stað heimilar hvaða sannfæringu sem vera skal en í annan stað takmarkar það rétt manna til að hrinda sannfæringunni í framkvæmd. Aðeins þeim skoðunum, vel að merkja, sem hindra nauðsynlega virkni samfélagsins, til dæmis þeirrar er lýtur að skiptingu efnislegra gæða. Um óefnisleg verðmæti eins og lífsskoðanir gilda mannréttindin í öllu sínu veldi, sérhver má þar syngja með sínu nefi. Engri lífsskoðun má hafna, það telst mannréttindabrot.
Til skamms tíma naut kristni, og önnur trúarbrögð í leiðinni, nánast sömu stöðu og eignarétturinn. Menn máttu vera trúlausir en áttu ekki að básúna sannfæringuna. Trúlaus varð að haga sér eins og þjófur að nóttu. Hæðni og spott í garð trúaðra var litið alvarlegum augum. Lög um guðlast voru ekki afnumin fyrr en um miðjan síðasta áratug.
Eignarétturinn er mannasetning, kemur ekki frá almættinu. Guðstrú, samkvæmt skilgreiningu, sækir sinn tilverurétt í eilífðina, sanninda sem ekki eru mannsins að véla um, í mesta lagi að túlka.
Svo vikið sé beint að orðum Guðrúnar biskups búum við ekki í gildislausu samfélagi. Veraldarhyggja er ráðandi sjónarmið. Eins og hún sjálf segir: trú er ,,einkamál."
Það má skilja orð biskups sem eftirsjá eftir þeim tíma þegar kristni var líflegri þáttur í menningunni en hún er í dag. Ekki er ólíklegt að fleiri deili þeirri skoðun. Afleiðingarnar af hnignun kristni er mörgum þungbær, einkum sú sem kallast siðferðisleg afstæðishyggja.
Mannréttindi, sem í grunnin byggja á kristinni menningu, eru helsta ástæða hnignunar guðstrúar. Þegar hver og einn hefur fullt frelsi til að skilgreina sjálfan sig og heiminn í kringum sig eftir eigin höfði hverfur sú undirstaða sem guðstrú er reist á; að maðurinn sé ekki eigin orsök. Veraldleg mannréttindi leiða til þess að hver og einn verður sjálfum sér guð. Fellur eins og flís við rass að veraldarhyggjunni um að trú sé einkamál. Sjálfsdýrkun fylgir blygðun. Til að sigrast á feimninni eru stofnuð samtök um sjálfsdýrkunina og hún sögð ,,leiðrétting" á sköpunarverkinu.
Eftirspurn er eftir kenningum sem réttlæta þá hugsun að maðurinn sé eigin orsök. Vitvélar, stundum kenndar við gervigreind, eru sagðar á þröskuldi þess að verða mennskar. Það litla sem vantar upp á er meðvitundin. Með talvélum, chatgpt, er kominn vísir að meðvitund ef hún þykir ekki þegar fullveðja. Vitvélar geta lært af mistökum og endurnýjað sig. Er ekki tímabært að þær fái sama þegnrétt og maðurinn? Er einhver munur á manni og vél þegar um bæði gildir að þau skilgreina sig sjálf eftir hentugleikum?
Þegar óverulegur eða enginn munur verður á manni og vél er úti um öll mannréttindi. Dauðir hlutir fá réttindi sem áður voru fæðingargjöf mannsins. Komi til þess, í fjarlægri framtíð, að einhver sannanlega mennskur spyrji sig hvenær siðmenningin hrökk af hjörunum verður svarið þetta: þegar maðurinn í nafni mannréttinda varð að vélmenni.
![]() |
Biskup: Guðleysi er ekki hlutleysi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 24. desember 2024
Kvennajól í fullri auðmýkt
Er Ísland kvennaríki? spyr RÚV í tilefni af valkyrjustjórn þriggja kvenna. Segir síðan:
Forseti Íslands og forsætisráðherra eru konur. Konur eru í meirihluta í ríkisstjórn Íslands. Biskup Íslands er kona sem og ríkislögreglustjóri og ríkissaksóknari.
Til að svara spurningu RÚV er vitanlega fengin kona. Þorgerður Jennýjardóttir Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands segir karla enn þvælast fyrir, einkum og sérstaklega í viðskiptum og efnahagsmálum.
Það verður munur þegar konurnar ná yfirhöndinni í einkageiranum, þar sem peninga er aflað. Núna raða þær sér helst í valdastöður þeim megin borðsins sem fjármunum er eytt.
Þorgerður segir konur umgangast vald af meiri auðmýkt en karlar. Svona eins og Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari.
Gleðileg jól, konur sem karlar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 23. desember 2024
Sigríður stundar einelti, bæði á vinnustað og í réttarsal
Nýr dómsmálaráðherra fær í fangið embættismann sem kann sér ekki hóf í valdbeitingu, bæði á vinnustað og í réttarsal. Hér er vitanlega átt við Sigríði J. Friðjónsdóttur ríkissaksóknara. Á skrifstofu embættisins stundar Sigríður grímulaust einelti gagnvart Helga Magnúsi Gunnarssyni vararíkissaksóknara, eins og kemur fram í viðtengdri frétt og annarri til.
Sigríður ríkissaksóknari reyndi í ágúst síðast liðnum að taka sér ráðherravald. Tilfallandi bloggaði:
Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari tók fram fyrir hendur dómsmálaráðherra er hún krafðist að Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari skilaði lyklum og vinnutölvu. Sigríður beindi til Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra fyrir þrem vikum að Helga Magnúsi yrði vikið tímabundið frá störfum.
Að krefjast lykla og vinnutölvu af Helga Magnúsi jafngildir uppsögn. Helgi Magnús kemur úr sumarfríi eftir þrjá daga. Sigríður ríkissaksóknari vildi útiloka að Helgi Magnús kæmist í vinnuna, láta þar með dómsmálaráðherra standa frammi fyrir orðnum hlut.
Fyrir hefur Sigríður viðurkennt að það sé ekki á hennar valdi að víkja vararíkissaksóknara úr starfi. Ekki einu sinni tímabundið. Vararíkissaksóknari er skipaður af ráðherra og Sigríður óskaði eftir við ráðherra að honum verði vikið tímabundið úr starfi. En á meðan ráðherra ígrundar tekur Sigríður ákvörðum, rekur Helga Magnús með kröfu um að hann afhendi lykla og vinnutölvu. Afturköllun Sigríðar á kröfunni er ígildi þess er þjófur skilar þýfi. Þjófur samt.
Stjórnsýsla Sigríðar er sjálftekt: ég á embætti ríkissaksóknara og má gera það sem mér sýnist.
Í gær, daginn sem nýr ráðherra dómsmála tók við embætti, gerir Sigríður ríkissaksóknari aðra tilraun til að eigna sér ráðherravald.
Ekki tekur betra við þegar kemur að embættisfærslu Sigríðar ríkissaksóknara í opinberum málum. Hún er æðsti handhafi ákæruvaldsins og dundar sér við að ákæra fólk fyrir ,,rangar" skoðanir. Tilfallandi hefur fengið á sig ákæru og þrír aðrir eru til rannsóknar fyrir rangar skoðanir. Tilgangurinn er skerða tjáningarfrelsi þeirra sem andmæla sérvisku lífsskoðunarfélagsins Samtakanna 78. Ríkissaksóknari sem heggur að rótum mannréttinda með tilhæfulausum ákærum hagar sér eins og yfirvald í lögregluríki.
Nýr dómsmálaráðherra stendur frammi fyrir þeim vanda að framfylgja lögum og almennu siðferði annars vegar og hins vegar valdefla ríkissaksóknara sem hættulegur er réttarríkinu. Vók-fasismi kvennaríkisstjórnar er ekki umboðið sem meirihluti alþingis fékk frá kjósendum fyrir þrem vikum.
![]() |
Ekkert tekið minna á heldur en hótanir Kourani |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 22. desember 2024
ESB-eitur í nammipoka valkyrja
ESB-eitrið er neðst í nammipoka valkyrjustjórnarinnar. Í síðasta tölulið stefnuyfirlýsingar segir að árið 2027 verði efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um ,,framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu." Framhald? Eftir tvö ár eru 15 ár síðan vinstristjórn Jóhönnu Sig. heyktist á ESB-aðlögunarferlinu og setti umsóknina ofan í skúffu.
Valkyrjurnar kynntu stjórnarsáttmálann í Hafnarfirði, eina bæjarfélaginu á Íslandi sem kennt er við brandara. Spaugið um ,,framhald" á viðræðum sem lauk fyrir 15 árum er lélegur Hafnarfjarðarbrandari.
Til að undirbyggja atkvæðagreiðsluna verður skipuð nefnd útlendinga til að meta kosti og galla krónunnar, sagði kúlulánadrottning Íslands í krónum talið. Er ekki næst að fá útlendinga til að meta kosti og galla íslenskunnar?
Pólitísk bernska er að halda að ríkisstjórn í fullvalda þjóðríki hefji ESB-leiðangur sem aukamarkmið í ríkisstjórnarsamstarfi. Breið samstaða um kosti aðildar er forsenda fyrir að þjóðríki stefni á aðild. Eini flokkurinn með ESB-aðild á dagskrá, Viðreisn, fékk 15,8 prósent fylgi í nýafstöðnum kosningum. Enginn ríkisstjórn með viti boðar ESB-aðild með jafn veikt umboð.
Er Þorgerður Katrín kynnti ESB-eitrið i brandarabænum talaði hún fjálglega um mikilvægi samstarfsins við Bandaríkin og hafði fyrir því að nefna varnarsamninginn frá 1951. En samt vill hún, sem utanríkisráðherra, að Ísland gangi í ESB. Brussel sér um utanríkismál aðildarríkja ESB. Yrði Ísland hjálenda ESB færu samskipti okkar við Bandaríkin í gegnum Brussel. Þeir sem fylgjast með alþjóðamálum vita að ESB stendur frammi fyrir tilvistarvanda sem kallast Úkraínustríðið.
Valkyrjur í syngjandi saumaklúbbi hugsa lítt um pólitískan veruleika, eru of uppteknar á deila út nammi á litlu jólunum. Skjólstæðingar flokkanna þriggja fá gott í skóinn. Jafnvel er hugsað fyrir smælingjunum; þingflokksformaður fær aðgang að meðferðarúrræðum að sumri til. Flokksheimilin þrjú eru í forgangi, þjóðarheill afgangsstærð.
Valkyrjurnar gátu farið aðra leið en að deila út nammi. Kvennaþríeyki í forystu landsstjórnarinnar í fyrsta sinn í sögunni hefði mátt hugsa stærra en í brauðmolum.
![]() |
Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar í heild sinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 21. desember 2024
Orðspor byrlunarútgáfu og netníðings
Bratt nokkuð hjá Vilhjálmi Þorsteinssyni stjórnarmanni Heimildarinnar að segja orðsporsáhættu að sameinast Mannlífi Reynis Traustasonar. Heimildin og þar áður Kjarninn, þar sem Vilhjálmur var einnig stjórnarmaður, fara í sögubækur íslenskra fjölmiðla sem byrlunarmiðlarnir - ásamt Stundinni og RÚV.
Kjarninn og Stundin höfðu samráð um að birta samtímis morguninn 21. maí 2021 sömu fréttina um meinta skæruliðadeild Samherja. Fréttin var hugarfóstur blaðamanna, aldrei var neinni skæruliðadeild til að dreifa. Eitt er að birta skáldskap og kalla frétt; annað og verra að réttlæta falsið með vísun í stolin gögn sem fengin eru með byrlun.
Ritstjórn Kjarnans vissi að lögbrot var framið áður en skáldskapurinn um skæruliðadeildina var kynntur sem frétt. Í Kjarnanum þann 21. maí 2021 stóð skýrt og skilmerkilega:
Ábyrgðarmenn Kjarnans vilja taka fram að umrædd gögn sem eru grundvöllur umfjöllunar miðilsins bárust frá þriðja aðila. Starfsfólk Kjarnans hefur engin lögbrot framið...
Kjarninn var þjófsnautur, þáði illa fengið efnið úr síma Páls skipstjóra Steingrímssonar. Blaðamenn birta ekki efni sem þeir vita ekki hvaðan kemur. Ábyrgðarmenn Kjarnans vissu hvernig í pottinn var búið. Til að komast yfir símann var Páli byrlað. Fyrir byrlun keyptu blaðamenn samskonar síma og skipstjórans, af Samsung-gerð, sem beið tilbúinn til að afrita símtæki Páls skipstjóra. Afritunarsíminn fékk númerið 680 2140. Númerið á síma skipstjórans er 680 214X.
Aðgerðin gegn skipstjóranum var með aðild þriggja fjölmiðla og sex til átta blaðamanna. Miðlarnir voru RÚV, Stundin og Kjarninn, RSK-miðlar.
Stundin og Kjarninn báru ekki sitt barr eftir að byrlunar- og símamálið varð heyrinkunnugt árið 2022. Útgáfurnar voru sameinaðar í ársbyrjun 2023. Samkvæmt Gallup voru 15 þúsund notendur að Heimildinni þegar útgáfan hóf göngu sína; þeir eru núna 12 þúsund. Á huldu er hvernig Heimildin er fjármögnuð. Viðskiptablaðið fjallar um rekstur fjölmiðla og segir um Heimildina:
Tekjum félagsins er skipt í tvo liði, sölu og aðrar tekjur. Aðrar tekjur stóraukast, fara úr 32 milljónum árið á undan í 103 milljónir árið 2023. Ekki er að finna skýringu á öðrum tekjum í ársreikningi félagsins.
Huldufé sem mokað er í Heimildina fer þverrandi. Nú þarf að grípa til róttækra aðgerða til bjarga rekstrinum, - sameinast Mannlífi. Vilhjálmur kallar það orðsporsáhættu og hættir í stjórn útgáfufélags Heimildarinnar.
Þórður Snær Júlíusson, fyrrum ritstjóri Kjarnans og meðritstjóri Heimildarinnar, er skjólstæðingur Vilhjálms til margra ára. Í nýafstaðinni kosningabaráttu var Þórður Snær þingmannsefni Samfylkingar með stuðningi Vilhjálms, sem er fyrrverandi gjaldkerfi flokksins. Þórður Snær var afhjúpaður sem netníðingur, skrifaði margt ljótt um nafngreint fólk, og konur í heild sinni, undir dulnefni. Vilhjálmi finnst Þórður Snær fínn pappír en Reynir Trausta heldur síðri. Hvorki hefur Reynir átt aðild að byrlun né stuldi á síma frá manni í öndunarvél. Textinn sem Reynir skilur eftir sig er barnagæla í samanburði við skrif ,,þýska stálsins", sem var dulnefni Þórðar Snæs í netníðinu.
![]() |
Ósammála kaupunum á Mannlífi vegna orðsporsáhættu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)