Snorri skýri og Jóhannes vók

Snorri Másson nýkjörinn þingmaður Miðflokksins reit Morgunblaðsgrein til stuðnings málfrelsinu. Alltof sjaldan láta þingmenn sig varða tjáningarfrelsi almennra borgara. Oft er þörf en nú er nauðsyn. Þrír borgarar, sem hafa andmælt transáróðri í leik- og grunnskólum, sæta lögreglurannsókn og ákæru, tilfallandi þar á meðal. Nánar um það á eftir.

Jóhannes Þór Skúlason talsmaður ferðaþjónustu og nú líka transinnrætingar var ekki ánægður með framlag Snorra skýra heldur ,,sár og svekktur". Eins og það skipti máli hvort einhver vælukjói móðgist þegar skipst er á skoðunum. Í Facebook-færslu sem varð að frétt á Vísi segir Jóhannes Þór til varnar lögregluafskiptum af frjálsri umræðu:

Það er grundvallarþáttur í tjáningarfrelsinu að fólk ber ábyrgð á orðum sínum. Samtökin 78 telja að þessi orð sem þú vísar til í greininni séu til þess fallin að ýta undir andúð og jafnvel ofbeldi gegn trans fólki í samfélaginu. Þess vegna eru ummælin kærð. Sú kæra fær svo umfjöllun í kerfinu samkvæmt reglum réttarríkisins. Er það ekki einmitt þannig sem það á að virka?

Nei, Jóhannes vók, kerfið á ekki að virka þannig að lífsskoðunarfélag á opinberu framfæri geti kallað á lögregluna og krafist bannfæringar á andstæðum sjónarmiðum. Huglæg upplifun eins á ekki að takmarka mannréttindi annars.  Væluvókið er yfirþyrmandi í þeim orðum Jóhannesar að frjáls umræða ýti ,,undir andúð og jafnvel ofbeldi gegn trans fólki". Andmæli gegn fávisku, eins og að hægt sé að fæðast í röngum líkama, eiga fremur að fá verðlaun en ákæru í sæmilega heilbrigðu samfélagi.

Ríkissaksóknari er í rassíu gegn frjálsri orðræðu á Íslandi um transmálefni. Samtökin 78 etja ríkissaksóknara á foraðið með kærum. Tilfallandi var ákærður í haust og bíður réttarhalda og dóms. Eldur Smári Kristinsson var boðaður í yfirheyrslu lögreglu í kosningabaráttunni og bíður ákæru. Þriðji einstaklingurinn, sem hafði vogað sér að andmæla transáróðri í skólum, hefur verið kallaður til yfirheyrslu lögreglu og bíður ákæru. Við þrjú höfum það eitt til saka unnið að skrifa gegn bábiljufræðum trans. Fyrir þá sök stöndum við frammi fyrir allt að tveggja ára fangelsi, samkvæmt lagagreininni sem ákært er fyrir brot á, gr. 233 a hegningarlaga.

Það er ótækt að vænisjúk lífsskoðunarfélög geti sigað lögreglu og ákæruvaldi á frjálsa borgara með sjálfstæðar skoðanir. Allir þingmenn vita þetta og þeir ráða lögum landsins. Aðeins Snorri skýri er nógu hugaður að segja það upphátt. Tilfallandi tekur hatt sinn ofan fyrir nýkjörnum þingmanni Miðflokksins.


Byrlunar-Heimildin fær skjól á Mannlífi Reynis Trausta

Heimildin, sem hýsti flesta sakborninga í refsimáli í sögu íslenskra fjölmiðla, er sögð kaupa Mannlíf, sem hefur helmingi fleiri lesendur en Heimildin. Ritstjóri Mannlífs, Reynir Traustason, fylgir ekki með í kaupunum. Reynir er faðir Jóns Trausta framkvæmdastjóra Heimildarinnar og þar með tengdafaðir Ingibjargar Daggar ritstjóra útgáfunnar.

Samkvæmt Gallup er Mannlíf með 21 þúsund lesendur á viku en Heimildin 12 þúsund. Um 25 manna starfslið er á Heimildinni en sex til átta á Mannlífi. Hvernig getur smámiðill í ósjálfbærum rekstri keypt nær tvöfalt stærri fjölmiðil? Líklegasta skýringin er auðmaðurinn Höskuldur Höskuldsson. Höskuldur er hluthafi í Heimildinni og á helminginn í Mannlífi, á móti Reyni Trausta. Höskuldur er eigandi Lyru og hagnaðist vel á Covid-19 faraldrinum með sölu á lækningavörum til Landsspítalans.

Heimildin er aðeins tveggja ára gömul útgáfa. Hún varð til við samruna Stundarinnar og Kjarnans sem, ásamt RÚV, mynduðu RSK-miðla. Alræmdir urðu RSK-miðlar fyrir aðkomu að byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi og afritun á síma hans 3. maí 2021. Aðgerðamiðstöðin í byrlunar- og símamálinu var á RÚV þar sem sími skipstjórans var afritaður. Andlega veik þáverandi eiginkona skipstjórans byrlaði og stal í samráði við blaðamenn. Stundin og Kjarninn birtu samtímis samræmdar fréttir 21. maí 2021 með vísun í gögn úr síma skipstjórans.

Lögreglurannsókn á byrlun, stuldi og afritun hófst sumarið 2021. Í febrúar árið 2022 fengu fjórir blaðamenn stöðu sakbornings, síðar bættust við Ingi Freyr Vilhjálmsson og Arnar Þórisson. Allir nema tveir, Arnar og Þóra Arnórsdóttir á RÚV, voru blaðamenn á jaðarútgáfunum tveim: Aðalsteinn Kjartansson, bróðir Ingibjargar Daggar ritstjóra, Þórður Snær Júlíusson og Arnar Þór Ingólfsson.

Rekstur Stundarinnar og Kjarnans þyngdist er leið á árið 2022, ekki síst þar sem blaðamenn gerðu ekki grein fyrir aðkomu sinni að byrlunar- og símamálinu - hafa ekki enn. Brugðið var á það ráð áramótin 2022/2023 að sameina útgáfurnar undir merkjum Heimildarinnar. Ástæða sameiningarinnar var byrlunar- og símamálið sem gerði fjölmiðlana tortryggilega í augum lesenda og lélega auglýsingamiðla. Rekstur Heimildarinnar gekk þó ekki sem skyldi með sakborninga í refsimáli á ritstjórn.

Lögreglan hætti rannsókn á byrlunar- og símamálinu í september síðast liðnum með sérstakri yfirlýsingu. (Innan sviga: rannsókninni var hætt, en ekki felld niður). Páll skipstjóri kærði ákvörðun lögreglunnar til ríkissaksóknara sem tekur afstöðu fyrir lok næstkomandi janúar um framhald málsins.

Vísir sagði fyrst frá sameiningu Heimildar og Mannlífs og fylgdi eftir með annarri frétt. Ljóst er að gamlir hluthafar Kjarnans yfirgefa útgáfuna við samruna. Þórður Sær, fyrrum ritstjóri Kjarnans og síðar meðritstjóri Ingibjargar Daggar á Heimildinni, hrökklaðist frá Heimildinni í sumar eftir að hafa reynt yfirtöku á miðlinum í félagi við gamla Kjarnamenn. Í framhaldi reyndi Þórður Snær fyrir sér sem þingmannsefni Samfylkingar með frægum afleiðingum.

Ritstjórnarstefna Mannlífs undir stjórn Reynis Trausta er kennd við gulu pressuna. Heimildin er aftur vók-útgáfa vinstrimanna, blönduð eitri og ólöglegum afritunum.

 


mbl.is Reynir hættir með Mannlíf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðæri skapar ríkisstjórnarvanda

Engir þingmenn væntanlegra stjórnarflokka vilja tjá sig um gang viðræðna; þeir vísa á formennina. Þær Inga, Kristrún og Þorgerður Katrín segja næsta fátt en bjóða reglulega upp á myndatöku af sér saman.

Tveir ólíkir mælikvarðar verða lagðir á niðurstöðu stjórnarmyndunarviðræðna. Í fyrsta lagi hvort stjórnarsáttmálinn byggi á trúverðugu stöðumati um landshagi almennt annars vegar og hins vegar hvert stjórnin hyggst stefna með land og þjóð. Ef ekki tekst þokkalega til með þennan þátt verður erfitt að selja þjóðinni nýja ríkisstjórn. Í öðru lagi þarf stjórnarsáttmáli að endurspegla áherslumál flokkanna þriggja í nýafstöðnum þingkosningum. Formenn og þinglið þriggja ólíkra flokka verða að geta sagt baklandinu frá markverðum árangri.

Þjóðarskútan siglir þokkalegan byr nú um stundir. Verðbólga fer lækkandi og hagvaxtarhorfur prýðilegar. Engin stórverkefni blasa við og enn síður brýnar aðgerðir, nema ef vera skyldi í útlendingamálum. Fyrir þjóðina er árferðið blessun. Væntanlegir stjórnarflokkar sakna á hinn bóginn aðsteðjandi vanda til sameinast gegn.

Það sást best fyrir helgi þegar reynt var að leggja út afkomuspá ríkissjóðs sem ógnandi fyrir stöðugleika og, ekki síst, að spáin  tefði viðræður. Kunnáttumenn á sviði ríkisfjármála gáfu lítið fyrir tíðindin. Fréttin um verri afkomu dó á sólarhring. Þvert á móti eru æ skýrari merki um afkomubata til sjávar og sveita.

Í góðæri er landsstjórnin erfiðari en í hallæri. Kröfur um  aukin efnisleg lífsgæði vaxa hraðar en hagvöxtur. Næsta ríkisstjórn getur ekki þakkað sér góðærið en verður refsað grimmt klúðri hún hagstjórninni.

Samhliða textagerð stjórnarsáttmála er ráðuneytum skipt á milli flokka. Það getur reynst snúið, bæði á milli flokka og innan þingflokka. Sísvengd eftir metorðum er aðalsmerki stjórnmálamanna.

Í stjórnarmyndunarferlinu, sem staðið hefur í 15 daga, er fátt bitastætt að frétta. Stjórn þriggja flokka er verkefni sem lætur ekki að sér hæða. Konurnar þrjár sem um véla segjast vanda sig. Í stjórnarsáttmálanum, líti hann dagsins ljós, sést hvort kastað hefur verið til höndum eða ígrundun liggi að baki.

 

 


mbl.is Viðræðurnar stranda ekki á neinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannvirðing, kynfölsun og kirkjan

Mannvirðing og mannhelgi haldast í hendur í yfirlýsingu Páfagarðs frá í vor, Dignitas Infinita. Yfirlýsingin er niðurstaða fimm ára umræðu kaþólsku kirkjunnar. Mannvirðing felur í sér fjóra þætti, þar sem einn er mikilvægastur, sá verufræðilegi. Verufræði, ontólógía á útlensku, vísar til þess sem er. Þjálla er á íslensku að tala um hlutveruleika mannsins fremur en verufræði.

Hlutveruleiki mannsins er hann er í tveim kynjum, karli og konu. Í senn er það náttúrulegur veruleiki og trúarlegur. Guð skapaði manninn í sinni mynd, karl eða konu. Þá er maðurinn, samkvæmt yfirlýsingu Páfagarðs, sjálfráð skynsemisvera.

Mannvirðing er gefin við fæðingu og óframseljanleg. Úthlutun á mannvirðingu fæli í sér að hún væri afturkræf - en það er hún ekki. Í yfirlýsingu Páfagarðs er mannvirðing mátuð við samtíma okkar, þar á meðal kynjafræði, gender theory, og kynfölsun, sex change. Í tölusettri yfirlýsingu er um að ræða greinar 55-60.

Kynjafræði er ,,hugmyndafræðileg nýlendustefna" segir þar og er sérstaklega hættuleg enda hafnar kynjafræðin náttúrulegri aðgreiningu mannsins í karl og konu. Kynjafræði setur persónulegt sjálfræði ofar þeim meginsannindum að lífið er gjöf. Kynjafræðin fellur í forna freistingu, gerir manninn að guði í samkeppni við hinn eina sanna kærleiksríka guð ritningarinnar.

Karl og kona eru hluti sköpunarverksins er kemur á undan reynslu okkar og ákvörðunum. Líffræðilega eðlisþætti er ekki hægt að sniðganga. Aðeins með viðurkenningu á þessum grunnsannindum getur manneskjan að fullu uppgötvað sjálfa sig, öðlast sjálfsvirðingu og sjálfsvitund.

Maðurinn er óaðskiljanlegur í líkama og sál. Líkaminn er efnisform sálarinnar. Líkami og sál eru samstofna mannvirðingunni. Kynbreyting er, samkvæmt Páfagarði, fölsun á frumverund mannsins. Athygli vekur að páfadómur eyðir ekki orðum í þá fásinnu transfræða að hægt sé að fæðast í röngum líkama. Hér á Fróni kenna Samtökin 79 bábiljuna í leik- og grunnskólum með leyfi og vitund fræðsluyfirvalda.

Nokkur umfjöllun var í erlendum fjölmiðlum í vor, eftir yfirlýsingu Páfagarðs. Tilfallandi tæpti á tveim slíkum. Ekki varð vart við að íslenskir fjölmiðlar gæfu yfirlýsingunni gaum. 

Íslenska þjóðkirkjan er á öðru róli en móðurkirkjan. Í Róm er ígrundað um manneðli, veruleika og trúarsannfæringu. Biskupinn í Reykjavík stundar geðþóttaguðfræði í anda sérgæskunnar; ég á þetta, ég má þetta.


Elon Musk sammála íslenskum kjósendum

Í nýafstaðinni kosningabaráttu hér á landi komust loftslagsmál ekki á dagskrá. Frambjóðendur ræddu ekki loftslagsmál. Könnun Félagsvísindastofnunar um málaflokka sem kjósendur höfðu áhuga á sýndi loftslagsmál utan dagskrár. Til skamms tíma var auðmaðurinn Elon Musk, eigandi rafbílafabrikkunnar Tesla, sannfærður um loftslagsvá af mannavöldum. Ekki lengur.

Washington Post segir að fyrrum hafi loftslagsvá verið hluti af stöðluðu kynningarefni í verksmiðjum Tesla. Árið 2016 hvatti Musk til uppreisnar gegn olíuiðnaðinum og hafði loftslagsspámanninn Al Gore í hávegum. Ekki lengur.

Musk er einarður stuðningsmaður nýkjörins forseta, Donald Trump. Í tísti í ágúst síðast liðinn á X beindi Musk orðum sínum til Trump og sagði óþarfa að leysa loftslagsvandann. 

Almenningur á Íslandi veit sínu viti og sér í gegnum blekkingu hamfarasinna. Menn eins og Musk, sem gerðu út á hræðsluáróðurinn, með rafbílaframleiðslu, eru farnir að sjá að sér. Veruleiki loftslagsbreytinga er sá að náttúran ræður ferðinni ekki maðurinn.

Skynsemin skilar sér heim eftir eyðimerkurgöngu síðustu tveggja áratuga. 


Pútín, tvær frásagnir og Trump

Tvær meginfrásagnir eru af Úkraínustríðinu. Í einn stað að Úkraína sé stökkpallur Pútíns og Rússa inn í önnur Evrópuríki þar sem stefnt sé að endurreisn rússneskra keisaradæmisins ef ekki sjálfra Sovétríkjanna. Í annan stað að Rússar séu að verja öryggishagsmuni ríkisins með því að koma í veg fyrir að Úkraína verði Nató-ríki.

Fyrri frásögnin er ráðandi á vesturlöndunum og að mestu leyti röng. Seinni frásögnin fer nærri lagi, þótt ekki megi gera lítið úr áhuga Rússa að tryggja hagsmuni sína í nærsveitum Úkraínu að stríði loknu, - meira um það á eftir. Fáar vísbendingar eru um löngun Rússa að leggja undir sig nærliggjandi ríki, t.d. Eystrasaltsríkin. Úkraínudeilan hófst eftir Búkarestfund Nató 2008 er Úkraínu og Georgíu var boðin Nató-aðild. Pútín og Rússar sættu sig ekki við að slíka ógn við öryggishagsmuni sína.

Nú kynnu einhverjir að segja að þótt Rússar hafi ekki sýnt löngun að leggja undir sig nágrannaríki gæti það breyst eftir árangursríkt Úkraínustríð. Möguleikinn er fyrir hendi en hann er langsóttur. Úkraínustríðið sýnir að Rússar eiga fullt í fangi með meðalstórt Evrópuríki. Í byrjun ágúst í ár gerðu Úkraínumenn innrás í Kúrsk-hérað og tóku töluvert land. Úkraínumenn sitja enn í Kúrsk og hafa hugsað sér að nota landvinninga sína þar í væntanlegum friðarsamningum. Þeir norður-kóresku hermenn, sem fjallað er um í viðtengdri frétt, berjast í Kúrsk-héraði, rússnesku landi, og eru ekki í ,,árásarliði Rússa" inn í Úkraínu, þótt fyrirsögn mbl.is gefi það til kynna.

Ef Rússland væri það heimsveldi sem af er látið myndu þeir ekki sætta sig við hertöku eigin lands í fimm mánuði. Ekki þyrftu þeir að leita á náðir Norður-Kóreu til að frelsa rússneskt land úr klóm óvinarins - væri Rússland heimsveldi, sem það er ekki. Ráði Rússar ekki við úkraínska herinn án utanaðkomandi aðstoðar dettur engum í hug að Rússar geti barist við samanlagða heri Nató.

Útreið bandamanns Rússa í Sýrlandi, Assad forseta, gefur ekki til kynna máttugt heimsveldi. Rússland er veldi í sama skilningi og Frakkland og Þýskaland, en kemst ekki með tærnar þar sem Bandaríkin hafa hælana. Nema á einu sviði, og það skiptir máli. Rússar eiga kjarnorkuvopn, sem kannski ekki eru á pari við þau bandarísku, en nógu öflug til að skjóta mönnum skelk í bringu.

Úkraínustríðinu lýkur með friðarsamningum en ekki uppgjöf Úkraínu. Rússar eru ekki með herstyrk til að leggja landið allt undir sig, hafi þeir áhuga, sem er óvíst.  Trump, sem tekur við embætti forseta Bandaríkjanna í janúar, hefur sagst ætla að binda endi á stríðið. Bandaríkin fjármagna og hervæða Úkraínu að stærstum hluta. Án stuðnings Bandaríkjanna er Úkraínu allar bjargir bannaðar. Spurningin er hvernig verði staðið að stríðslokum eftir að Trump sest í Hvíta húsið.

Ein tillaga, sem er til umræðu, er að frysta stríðið, binda endi á átök þar sem víglínan liggur núna. Í framhaldi yrði boðað til friðarráðstefnu. Fjölþjóðaher, í umboði Sameinuðu þjóðanna, myndi gæta þess að hvorugur aðili neytti færis að bæta hag sinn á meðan vopnahlé og friðarsamningar stæðu yfir.

Austurríski ofursteinn Markús Reisner kemur reglulega fram í þýskumælandi fjölmiðlum sem álitsgjafi um Úkraínustríðið og er að auki að finna á Youtube. Í samtali við Die Welt ræddi Reisner hugmyndina að frysta víglínuna. Hann segir að víglínan sé um 1200 km löng og gott betur. Til að gæta friðar þyrfti líklega 100-150 þúsund manna herlið. Enginn slíkur fjölþjóðaher er til reiðu. Marga mánuði tæki að skipuleggja úrræðið. Af þeirri ástæðu einni er ólíklegt að úr verði.

Ýmsar aðrar hugmyndir eru ræddar, t.d. að Trump hóti Rússum að stórefla stuðning við Úkraínu, fallist Pútín ekki á friðarviðræður. Rússum hefur áður verið hótað með litlum árangri.

Á meðan engin raunhæf tillaga er um að binda endi á átök heldur stríðið áfram. Fyrir utan árangur Úkraínu í Kúrsk eru Rússar með yfirhöndina og vinna jafnt og þétt úkraínskt land þótt ekki fari þeir hratt yfir.

Raunhæf tillaga um stríðslok í Úkraínu verður að fela í sér endurkomu Rússlands í samfélag meginlandsríkja Evrópu og þar með vesturlanda. Á meðan vestrið er ekki tilbúið að éta ofan í sig ráðandi frásögn um heimsvaldastefnu Pútíns eru litlar líkur á raunhæfri friðartillögu. Orðspor of margra valdamanna í vestrinu er í húfi. Ekki þó Trump, sem gæti riðið baggamuninn.


mbl.is Norðurkóreskir hermenn í árásarliði Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hanna Katrín og orðin sem skipta máli

Í viðtengdri frétt um stjórnarmyndun segir Þorgerður Katrín formaður Viðreisnar: 

En ég þekki það líka af fyrri reynslu að það tek­ur tíma að skrifa stjórn­arsátt­mála og orð skipta máli.

Þorgerður Katrín býr að mestri reynslu kvennanna þriggja sem leggja drög að stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Viðreisnar, Samfylkingar og Flokks fólksins.

Samflokksmaður Þorgerðar Katrínar er Hanna Katrín Friðriksson. Hún er margreynd, þingmaður frá 2016, og formaður þingflokks Viðreisnar. Morgunblaðsgrein Hönnu Katrínar í gær er athyglisverð í ljósi viðræðna um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Greinin birtist við hlið leiðara Morgunblaðsins. Plássið er frátekið fyrir þingmenn sem skrifa 400 - 500 orða pistil samkvæmt fyrirfram ákveðnu skipulagi. Í gær var komið að Hönnu Katrínu og hún varð að skila pistli þótt eflaust væri kappnóg að gera í stjórnarmyndun. 

Hanna Katrín ákvað að skrifa undir fyrirsögninni ,,Ísland og umheimurinn". Er þingmaður Viðreisnar birtir texta undir slíkri fyrirsögn gera lesendur ráð fyrir romsu um hve brýnt sé að Ísland gangi í Evrópusambandið. En Hanna Katrín kom á óvart. Hún beitir sig hörðu að aðskilja persónuleg sjónarmið frá pólitískum viðhorfum.

Í fyrstu efnisgrein áréttar hún varnarsamstarfið við Bandaríkin. Upphafssetning annarrar efnisgreinar er: ,,Und­an­far­in 80 ár hef­ur Ísland verið frjálst og full­valda ríki." Viðreisnarfólki er almennt ekki tamt að tala þannig um lýðveldið. Til að enginn fari í grafgötur um virðingu formanns þingflokks Viðreisnar fyrir sjálfræði þjóðarinnar hefst þriðja efnisgrein pistilsins í Morgunblaðinu í gær á þessum orðum: ,,Við höf­um sem frjálst og full­valda ríki..." Í lokasetningu efnisgreinarinnar kveður við annan og persónulegri tón:

Af sömu ástæðu er ég þeirr­ar skoðunar að við ætt­um að vera hluti af Evr­ópu­sam­band­inu og standa þar jafn­fæt­is þeim sjálf­stæðu og full­valda Evr­ópuþjóðum sem sjá hags­mun­um sín­um best borgið þar.

Fyrsta persóna eintala Hönnu Katrínar vill í Evrópusambandið - en hvað með fleirtöluna, ,,við í Viðreisn"? Ekkert að frétta þar, þingflokksformaðurinn er á kafi í stjórnarmyndunarviðræðum og tiplar á tánum.

Afgangurinn af pistlinum, tæpur helmingur, fjallar um mik­il­vægi nor­ræns sam­starfs.

Með sjónarmið Þorgerðar Katrínar í huga, að orð skipta máli, má álykta að Hanna Katrín leggi sig í líma að haga orðum sínum þannig að þau verði ekki túlkuð á þann veg að Viðreisn ætli að setja ESB-aðild á dagskrá í stjórnarmyndunarviðræðum.

Guð láti gott á vita. Ef úr verður, og flokkarnir þrír sammælast um meirihlutastjórn, væri hryggilegt að að horfa upp á nýja ríkisstjórn skjóta sig í fótinn í upphafi vegferðar með ESB-daðri.

Ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins er ekki óskastjórn tilfallandi, fjarri því. Á hinn bóginn er æskilegt, raunar brýnt, að stjórnin leggi á djúpmiðin með rá og reiða er gefi sæmilegar vonir um gifturíkan leiðangur. Konurnar þrjár sem fara með forræði mála eru ábyggilega allar af vilja gerðar að gagnast vel landi og þjóð. Ef af verður leiðangri mun tilfallandi óska þeim velfarnaðar. Að því gefnu að ESB-sérviskan verði áfram geymd ofan í skúffu. Þar á hún heima. 

 


mbl.is Vonast eftir stjórn fyrir áramót „ef ekki fyrr“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Katrín og óþol sérviskunnar

Umburðalyndi í stjórnmálum og mannlífinu almennt felur í sér að meginstraumurinn, almenningur, lætur sér vel líka að sumir stundi sérvisku af einu eða öðru tæi. Kynlegir kvistir eru krydd í mannlífið annars vegar og hins vegar minna þeir á hvað sameinar hinn breiða fjölda.

Katrín Jakobsdóttir fyrrum formaður Vinstri grænna og forsætisráðherra segir ástæðu ófara flokksins í nýafstöðum þingkosningum vera lítið ,,umb­urðarlyndi gagn­vart mála­miðlun­um."

Katrín notar aðra merkingu hugtaksins umburðalyndi en útskýrt er hér að ofan. Hún á við umburðalyndi sérviskunnar. Katrín var formaður sérviskuflokks, sem fyrir sögulega tilviljun fékk meginstraumshlutverk, að leiða ríkisstjórn í tæp tvö kjörtímabil. Tvíþættur vandi flokksins fólst í að Katrín gekk fyrirvaralítið frá borði en meira þótt hitt að vinstri grænir þekktu ekki sinn vitjunartíma. Eftir kosningarnar 2021 átti flokkurinn að yfirgefa stjórnarráðið og þjóna sinni lund í stjórnarandstöðu.

Eðli sérviskunnar er öfgar. Umburðalyndi og öfgar eru andstæður, samkvæmt skilgreiningu. Mótsögn er að tala um umburðalyndar öfgar.

Sérviska sem Vinstri grænir tóku upp á sína arma eru til dæmis trans og loftslagsvá. Í báðum tilfellum er um að ræða öfgafólk sem krefst hlýðni við málstaðinn. Transliðið krefst breytinga á tungumálinu til að það falli að sérútgáfu fárra um lífið og tilveruna. Transið byggir á þeirri fávisku að kyn sé ekki líffræðileg staðreynd heldur geðþótti; karl fyrir hádegi verði kerling síðdegis með hugdettunni einni saman. Kennisetning í transinu er að sumir fæðist í röngum líkama. Það er ómöguleiki. 

Loftslagssérvískan kennir að andrúmsloftið sé ofmettað koltvísýringi. Afleiðingin sé fyrirsjáanleg tortíming jarðarinnar í helvítishita. Tilfellið er að koltvísýringur mælist 400 ppm en hefur í jarðsögunni farið yfir 2000 ppm. Koltvísýringur, C02, er lífnauðsynlegur plönturíkinu. Án C02 svelta plöntur og deyja, jörðin verður óbyggileg. Sveltimörkin liggja við 150 ppm. Við erum nær skorti á koltvísýringi en ofgnótt. Loftslagskirkjan er á öndverðum meiði og rígheldur í sérvisku heimsendaspámanna. Valkvæð heimska íklædd trúarsannfæringu.

Vinstri grænir eru stofnaðir til að vera sérviskuflokkur, tískusósíalískur valkostur við borgaralegan kratisma. Pólitískar aðstæður, stjórnarkreppa, leiddu flokkinn í forystu ríkisstjórnar árið 2017, með Katrínu í öndvegi. Flokkurinn stóð, eftir fyrsta kjörtímabilið, frammi fyrir tveim kostum. Að gera sig að meginstraumsflokki, tálga sérviskuna, eða hverfa úr ríkisstjórn. Flokkurinn gerði hvorugt, hélt í sérviskuna og sat í ríkisstjórn. Sérstöku aðstæðurnar, sem voru fyrir hendi 2017, voru tímabundnar. Með sérvisku gátu Vinstri grænir lifað góðu lífi á þingi en utan ríkisstjórnar. Katrín kann málamiðlanir og gat, á meðan hún sat í forsæti, breitt yfir ágreining, bæði innan flokks og milli samstarfsflokka. Er Katrín hvarf af vettvangi og Svanhof kom í stað brast stíflan.

Á meðan Katrínar naut hafði sérviskan vingjarnlegt yfirbragð. Sérviska er aftur þess eðlis að hún er með óþol gagnvart heilbrigðri skynsemi. Sérviskan kann sér ekki hóf, verður öfgafyllri er frá líður, vill meira, sést ekki fyrir. Litlar þakkir fékk Katrín frá trans- og loftslagsliði fyrir að greiða götu þess langt umfram það sem eðlilegt gat talist. Þvert á móti, öfgaliðið valdefldist og heimtaði meira. Transarar kröfðust að málfrelsi yrði takmarkað. Gagnrýni á trans yrði skilgreind sem hatursorðræða. 

Bakslagið kom í nýliðnum þingkosningum. Tveir sérviskuflokkar, Píratar og Vinstri grænir, þurrkuðust út af þingi. Sá þriðji, Sósíalistaflokkurinn, fékk ekki framgang.

Meðalhófið er farsælast. Óþol sérviskunnar leiðir til hörmunga, einatt mestar fyrir handhafana sjálfa.     

 


mbl.is Katrín: „Ég upplifði bara raunverulega sorg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Binni plokkar fjaðrirnar af Viðreisn

Viðreisn er eini flokkurinn á alþingi sem boðar ESB-aðild og upptöku evru. Helstu rök Viðreisnar eru að með ESB-aðild og evru lækki vexti á Íslandi, verði evrópskir. Viðreisn reynir nú að mynda ríkisstjórn með Flokki fólksins og Samfylkingu og heldur eflaust fram ágæti roðans í austri.

Sigurgeir B. Kristgeirsson framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, yfirleitt kallaður Binni, gerir okkur þann greiða að taka saman rauntölur um vexti á Íslandi annars vegar og hins vegar í Evrópusambandinu. Niðurstaðan:

  • Í fyrsta lagi verða vextir Vinnslustöðvarinnar á yfirstandandi ári af erlendum lánum (aðallega evrum) ríflega 8%.
  • Í öðru lagi verða vextir erlendra lána (aðallega dollara) í fiskvinnslu í Eyjum sem ég þekki til um 11%.
  • Í þriðja lagi verða vextir dótturfélags Vinnslustöðvarinnar í Portúgal af lánum þess í ár um 6%, en lánin eru öll í evrum.
  • Í fjórða lagi eru óverðtryggðir vextir nákomins ættingja míns liðlega 8% af húsnæðisláni í íslenskum krónum.

Binni notar rauntölur, vaxtatölur sem fyrirtæki og einstaklingar standa frammi fyrir. Ekki verður með nokkru móti sagt að vextir á evrusvæðinu séu eða gætu orðið ástæða fyrir Íslendinga að svo mikið sem íhuga ESB-aðild.

Þegar við bætist að Íslendingar myndu lítil sem engin áhrif hafa í Evrópusambandinu, eins og Hjörtur J. Guðmundsson stjórnmálafræðingur er óþreytandi að benda okkur á, blasir við fásinna þeirra sem vilja framselja fullveldi og sjálfsstjórn til Brussel.

ESB-aðild er bæði í bráð og lengd óhagstæð Íslendingum. Evrópusambandið er félagsskapur meginlandsríkja og tekur fyrst og síðast mið af hagsmunum stórþjóða, s.s. Þýskalands og Frakklands. Eyríki á miðju Atlantshafi er betur sett utan ESB.

Viðreisn þarf að átta sig á að þótt sérviska sé leyfileg í pólitík, líkt og í samfélaginu almennt, er óráð að beita yfirgangi til að þvinga sérviskuna ofan í kok annarra. Það hefnir sín.

 


Inga vill eyða, Kristrún sýna aðhald, Tobba Kata þegir

Í fyrradag sagði Inga Sæland formaður Flokks fólksins að daginn eftir yrði rætt um skiptingu ráðuneyta í væntanlegri ríkisstjórn með Viðreisn og Samfylkingu, sem yrði líklega mynduð fyrir jól. Aftur sagði Kristrún formaður Samfylkingar í gær að ekki væri byrjað að ræða ráðherradóm og nefndi áramótin sem fæðingardag nýrrar stjórnar.

Smávegis misræmi er á milli formannanna um dagskrá viðræðna og hvenær þeim ljúki. Þriðji formaðurinn sem á aðild, Þorgerður Katrín í Viðreisn, segir ekkert síðustu tvo daga. Fæst orð bera minnsta ábyrgð.

Í viðtalinu við Ingu, sem vitað er í hér að ofan, veltir hún fyrir sér jólagjöfum sem hún geti fært ,,fólkinu sínu", eins og henni er tamt að tala. Til dæmis að gera tekjur undir 450 þús. skattfrjálsar. Inga segist trúa á mátt kærleikans, sem er falleg hugsun, en borgar ekki skuldir, hvorki ríkissjóðs né annarra. Kristrún, í viðtengdri frétt, segist hafa áhyggjur af ríkisfjármálum. Hagfræðingurinn ögn raunsærri en kærleikskonan.

Ef gefið er, sem þó er alls ekki víst, að formennirnir haldi þingflokkum sínum upplýstum um framgang viðræðna eru 30 manns með eyrun nærri vettvangi. Þingmönnum, bæði gömlum og nýjum, finnst gaman að kjafta, - annars væru þeir ekki stjórnmálamenn. En samt fréttist ekkert hvað konurnar þrjár ræða. Meira hvað ekki er rætt; ekki Evrópumál, ekki skipting ráðuneyta, ekki útlendingamál.

Tilfallandi hefur sterkan grun um að fiskur liggi undir steini. Verið er að kaupa tíma með viðræðuleikriti án innihalds. Eftir sniðugheit um valkyrjurnar þrjár í svefngalsa kosninganætur sest inn alvara hversdagsins. Samfylkingarmenn hafa vara á popúlískum eyðsluflokki, sem gæti fyrirvaralaust slitið stjórnarsamstarfi í kærleiksríku tilfinningaflóði. Kristrún veit að tapi hún tiltrú í ríkisfjármálum er endursköpun flokksins síðustu ára farin í hundana. Þorgerður Katrín kynntist völtu veraldargengi meirihluta er Björt framtíð sprengdi ríkisstjórnina 2017, eftir átta mánaða samstarf. Sporin hræða.

Ekki brutust út fagnaðarlæti er tilkynnt var um viðræður stallsystranna. Engin mótmæli þó enda ósiður að andæfa niðurstöðum lýðræðislegra kosninga. Þá daga sem stjórnarmyndun hefur staðið yfir er ekki merkjanleg eftirspurn eftir valkyrjustjórn. Allt síast þetta inn vitund þeirra sem um véla. Komi til stjórnarsáttmála verða engin hátíðarhöld en hugað verður að vetrarforðanum. Þeir einir fyllast bjartsýni sem eru á framfæri annarra.

Frestun Kristrúnar í gær á myndun ríkisstjórnar til áramóta gefur ráðrúm til að skoða aðra möguleika en samstjórn Flokks fólksins, Samfylkingar og Viðreisnar. Þær athuganir fara ekki fram í kastljósi fjölmiðla en gætu verið efnisríkari en viðræðuleikritið.

 

 


mbl.is Stefnt að stjórn fyrir áramót: Ráðuneytum fækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband