Þriðjudagur, 3. nóvember 2015
Góðærið; rétt pólitík og röng
Þökk sé traustum innviðum, skynsemi þjóðarinnar, sem kaus af sér vinstristjórn, og nokkurri aðstoð að utan er komið bullandi góðæri.
Ríkisstjórnin, einkum Framsóknarflokkurinn, getur þakkað sér stóra hluta góðærisins. Rétt stefna í afnámi hafta og traust úrvinnsla skilar okkur vaxtaskeiði sem gæti varað í þrjú til fimm ár.
Verkefni ríkisstjórnarinnar næstu misseri er að útskýra fyrir þjóðinni að hvergi nærri sé sjálfsagt að svo hafi farið sem fór. Vinstriflokkarnir voru hættulega nálægt því að svipta þjóðina sjálfsforræðinu og leiða yfir okkur varanlega eymd.
Pólitík meðalhófsins er farsælust undir núverandi kringumstæðum. Ríkisstjórnin, sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn, má ekki falla í þá gryfju að gefa hugmyndafræði lausan tauminn. Þjóðin fær grænar bólur þegar sjálfstæðismenn tala um einkavæðingu á þessu og hinu. Einkavæðing og græðgi leiddu til hrunsins.
Víðtækt samkomulag er um markaðshagkerfi með velferðarþjónustu. Ríkisstjórnin á að byggja á þessu samkomulagi og nota tímann fram að næstu þingkosningum að sannfæra þjóðina að miðhægristjórn sé rétta stjórnarmynstrið.
![]() |
Keypt fyrir 40 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 2. nóvember 2015
Vinstriflokkarnir vildu Ísland í gjaldþrotaferli ESB
Samfylking og Vinstri grænir töldu Ísland fjárhagslega og pólitískt gjaldþrota eftir hrun og vildu land og þjóð inn í gjaldþrotaferli er lyki með aðild að Evrópusambandinu.
Sannfæring vinstriflokkanna um ónýta Ísland var meginástæðan fyrir ákefð þeirra að Íslendingar skyldu axla ábyrgðina á skuldum einkabanka, Icesave, og að stjórnarskrá lýðveldisins skyldi fargað fyrir nýtt vinstraplagg stjórnlagaráðs.
Höggið sem Ísland fékk á sig haustið 2008 gerði þjóðina vankaða. Vinstriflokkarnir nýttu sér taugaáfall þjóðarinnar og keyrðu áfram popúlistapólitík um að ESB-aðild væri töfralausn.
Strax eftir kosningasigur vinstriflokkanna vorið 2009 var hafist handa við að knésetja þjóðina með Icesave-skuldunum. Tvær þjóðaratkvæðagreiðslur, fyrir atbeina forseta, hnekktu Icesave-ánauðinni. Atlagan að stjórnarskránni hélt áfram allt kjörtímabilið og rann endanlega ekki út í sandinn fyrr en á útmánuðum 2014.
Það kom í hlut ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að endurreisa sjálfstraust þjóðarinnar og setja stopp á gjaldþrotaferlið inn í ESB.
![]() |
Ísland lent í greiðsluþroti innan ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 2. nóvember 2015
Stefán um mistök Samfylkingar gegn Framsókn
Samfylkingin skaut sig í fótinn með því að velja Framsóknarflokkinn sem höfuðandstæðing sinn. Með árásum á Framsóknarflokkinn, sem að upplagi er hægfara miðjuflokkur, málaði Samfylkingin sig út í horn.
Flokkur í stjórnarandstöðu verður að eiga sem mesta fræðilega möguleika á landsstjórn til að skapa sér trúverðugleika. Brjálæðislegar árásir Samfylkingar á Framsóknarflokkinn útilokuðu að þessir flokkar næðu saman í fyrirsjáanlegri framtíð. Þá var hrunstjórnarmynstrið eitt eftir, Samfylking og Sjálfstæðisflokkur, sem ekki var söluvænlegt - og er raunar ekki enn.
Stefán Ólafsson orðar mistök Samfylkingarinnar á varfærinn hátt
Framsókn varð kröftugur talsmaður velferðarstefnu og bættrar afkomu heimilanna, sem hún vildi setja í forgang. Að þessu leyti hefði Framsókn átt að eiga meiri samleið með vinstri og miðju flokkunum en raun varð á.
Samfylkingin fjandskapaðist sérstaklega í garð Framsóknar og boðaði fyrst og fremst aðild að ESB, sem allsherjarlausn á öllum vanda Íslendinga. Það voru stór mistök og flokkurinn galt afhroð í kosningunum. Framsókn myndaði stjórn með Sjálfstæðisflokki...
Með Árna Pál í brúnni hjá Samfylkingu er ekki líklegt að hatrinu á Framsóknarflokknum linni í bráð. Og með hverri vikunni sem líður næst næstu þingkosningum minnka líkur að Samfylkingin verði stjórntæk.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 2. nóvember 2015
Pírati gerist frjálshyggjumaður, býst við lækkandi fylgi
Þingmaður Pírata um samhengi hlutanna í Viðskiptablaðinu:
Helgi Hrafn Gunnarsson, formaður og þingmaður Pírata, segir að frelsi einstaklingsins og sjálfsákvörðunarréttur hans sé sér mjög hugleikinn. Hann segir þingstörf byggja í veigamiklum atriðum á forgangsröðun, vegna þess að aldrei gefist tími eða tæki til að gera allt sem mann langi til að gera. Hann segir að sín persónulega skoðun sé að það sé ekki réttlætismál að jafna tekjur milli fólks í samfélaginu og að hann hafi alltaf gert ráð fyrir því að fylgi flokksins muni lækka á ný.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 2. nóvember 2015
Samfylkingarmaður: sigur Framsóknarflokksins útskýrður
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins, var eini stjórnmálamaðurinn sem sagði fyrir síðustu kosningar að Ísland væri í færum að ganga að þrotabúum föllnu bankanna til að verja stöðugleika efnahagskerfisins.
Á þessa leið skrifar Stefán Ólafsson prófessor og samverkamaður Jóhönnu Sigurðardóttur til margra ára. Stefán vísar í viðtal við Sigmund Davíð máli sínu til staðfestingar.
Framsóknarflokkurinn vann stórsigur í síðustu kosningum vegna þess að fólk treysti málflutning formannsins og taldi farsælast að veita framsóknarmönnum umboð til að fara með landsstjórnina.
Undir forsæti Framsóknarflokksins rétti Ísland úr kútnum. Skuldir heimilanna voru leiðréttar og höftin eru afnumin. Hér á landi er full atvinna og hagvöxtur; í nágrannaríkjum er atvinnuleysi og samdráttur.
Grein Stefáns leggur drög að útskýringum á sigri Framsóknarflokksins í næstu þingkosningum, vorið 2017.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 1. nóvember 2015
Ný rök fyrir ríkisvæðingu banka
Samtök fjármálafyrirtækja lögðu í gær fram nýja röksemd fyrir því að ríkið ætti sem stærstan hlut í bankakerfinu. Líkur eru á að ríkið ráði tveim bönkum, Íslandsbanka og Landsbanka.
Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, færir fram þá röksemd í frétt RÚV að vegna röskleika ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs að skattleggja banka þá komi erlendir aðilar í auknum mæli og veiti bankaþjónustu hér á landi. Í frétt RÚV segir
Framkvæmdastjóri samtakanna segir að erlend fjármálafyrirtæki nái í vaxandi mæli viðskiptum af íslenskum fjármálafyrirtækjum
Og þetta er einmitt sem við þurfum. Vandi Íslands er að einkaframtakið kann ekki að reka banka. Það sýndi hrunið svart á hvítu. Þess vegna á ríkið að halda Íslandsbanka og Landsbanka í sinni eigu og skapa þar með rými fyrir fjölbreyttari bankaþjónustu, m.a. erlendis frá.
Þegar Samtök fjármálafyrirtækja játa stöðu mála á hreinskilinn hátt hlýtur ríkisstjórnin að taka mið af því og móta stefnu sem gerir ráð fyrir að ríkið eigi Íslandsbanka og Landsbanka til langs tíma.
![]() |
Arðgreiðslur banka hærri en talið var |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 1. nóvember 2015
Hallgrímur, bestu börnin og aumingjamenningin
Óttar Guðmundsson geðlæknir skrifar hugvekju um aumingjahátt í samfélagsumræðunni. Hugvekjan kemur í kjölfar pistils Guðbergs Bergsonar um aumingjajátningu Hallgríms Helgasonar sem auglýsir áratugagamla nauðgun í jólabók þessa árs.
Hallgrímur er ekki ókunnur endurvinnslu hugmynda og skrifar reglulega um þjóðfélagsmál. Þekktasta framlag Hallgríms er greinin Baugur og bláa höndin sem hann skrifaði haustið 2002 þegar auðmenn voru þess albúnir að leggja undir sig landið.
Hallgrímur formælti þeim sem stóðu í vegi auðmanna, sem hann mærði með orðskviðum eins og þessum:
Við sem heima sitjum skiljum ekki hvers vegna guðfaðir nýja hagkerfisins [þ.e. Davíð Oddsson] snýst gegn bestu börnum þess. Við skiljum ekki hvers vegna sjálfstæðismenn beita öllu sínu gegn sjálfstæðustu mönnum landsins.
Þegar ,,bestu börnin" reynast ómerkileg skítseiði, ef ekki rétt og slétt glæpahyski, er skiljanlegt að eitthvað bresti í brjóstum þeirra sem hossuðu ,,bestu börnunum".
Hvað er þá betra en að lýsa sjálfan sig ráðlausan aumingja og væla til sín samúð?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)