Föstudagur, 7. júlí 2023
Lindarhvoll: hver er glæpurinn?
Skýrslan um Lindarhvol er samantekt um sölu ríkiseigna árin 2016-2018. Eigurnar fékk ríkið úr slitabúum föllnu bankanna. Einn maður, lögmaðurinn Steinar Þór Guðgeirsson, var í raun Lindarhvoll. Hann tók að sér í verktöku að selja ríkiseigurnar og gerði það frá lögmannsstofu sinni á Túngötu. Félagið Lindarhvoll ehf. var stofnað af ríkinu en hafði engan starfsmann, aðeins þriggja manna stjórn.
Steinar Þór var valinn þar sem hann þótti hafa staðið sig vel í fyrri uppgjörum hrunmála. Traustir menn óflekkaðir af subbuskap útrásar og hruns voru ekki á hverju strái.
Skýrslan gerir ýmsar athugasemdir um hvernig staðið var að skipulagi og umsýslu Lindarhvols og við fyrirkomulag sölu á einstökum ríkiseigum. Fjöldi eigna var 51, í flestum tilfellum hlutafé í starfandi fyrirtækjum. Andvirði eignanna var tæpir 400 milljarðar króna. Ekki smápeningar.
Í skýrslunni kemur fram að upplýsingagjöf til höfundar, Sigurðar Þórðarsonar setts ríkisendurskoðanda, hafi ekki verið sem skyldi - sem gefur til kynna einhvern feluleik.
Lindarhvoli var falið að selja ríkiseigur hratt án þess að setja þær á brunaútsölu. Ekki er hægt að ráða í af lestri skýrslunnar hvers vegna áhersla var á að hraða sölunni. En með því að stjórnvöld, alþingi meðtalið, vildu losna greiðlega við eigurnar er hætt við að sumir hafi gert hagkvæm kaup á kostnað almannahags, sé til lengri tíma litið.
Árin sem salan fór fram, 2016-2018, einkenndust af tvennu. Í fyrsta lagi pólitískri upplausn, falli ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs og skammlífri ríkisstjórn Bjarna Ben. Í öðru lagi kröftugri uppsveiflu í efnahagslífinu. Það segir sig sjálft að við þessar kringumstæður er ekki auðvelt að gæta hags ríkissjóðs, sem á öngvan vin en hrægammar, allt frá iðjulausum pírötum upp í stórkapítalista, sitja um nótt sem nýtan dag.
Af fyrsta yfirlestri skýrslunnar er ekki hægt að ráða að skipulögð brotastarfsemi hafi verið höfð í frammi við að koma ríkiseigum til valinkunnra á undirverði. Sigurður hefur vísað málinu til saksóknara sem líklega þýðir að hann telji að lögbrot hafi verið framin. Skýrslan sjálf tekur ekki af tvímæli.
Tilfallandi niðurstaða, eftir einn lestur, vel að merkja, er að mistök hafi verið gerð en trauðla alvarleg afbrot.
![]() |
Gagnrýnir verklag við umsýslu Lindarhvols |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 6. júlí 2023
Beinagrindur í skápum fjölmiðla
Blaðamennirnir líta á það sem persónulega árás á sig ef maður skrifar um þetta mál. Tilfallandi bloggari fékk þetta svar frá gamalreyndum blaðamanni snemma í vor er byrlunar- og símastuldsmálið var rætt á tveggja manna tali.
Í byrlunar- og símastuldsmálinu eru fimm blaðamenn sakborningar í yfirstandandi lögreglurannsókn. Páli skipstjóra Steingrímssyni var byrlað og síma hans stolið. Alvarleg afbrot en fátt að frétta.
Í fyrradag sagði tilfallandi frá þekktum blaðamanni sem stakk undan skatti. Í gær var sett meira kjöt á beinin. Blaðamaðurinn fékk sérmeðferð hjá skattinum þrátt fyrir undanskot upp á tugi milljóna króna.
Allar ritstjórnir landsins vita hver blaðamaðurinn er en enginn þýfgar hann um vantöldu leigutekjurnar frá Airbnb og hvers vegna hann slapp svona billega, fékk að endurgreiða í gegnum einkahlutafélag með 25 prósent álagi. Aðrir i sömu sporum fengu á sig opinbera ákæru. Réttvísi sem hyglar fréttamanni á kostnað almannahags vekur spurningar um jafnræði fyrir lögum. En það er ekkert að frétta.
Blaðamenn vilja ekki styggja vini og kunningja í stéttinni, síst af öllu þá sem eiga eitthvað undir sér og hafa bein og óbein völd yfir starfsframa einstaklinga í fámennri starfsstétt. Blaðamaðurinn leikur lausum hala og fer með hlut af dagskrárvaldi fjölmiðla eins og fínn pappír. Sem hann er ekki.
Illa er komið fyrir starfsstétt þar sem forræði mála er í höndum óvandaðra. Í þokkabót er þrotaforystan drekkhlaðin verðlaunum fyrir ill verk og samviskulaus.
Réttmæt spurning frá tilfallandi lesendum er hvers vegna bloggari gengur ekki fram fyrir skjöldu, birtir nafn blaðamannsins og upplýsingarnar til grundvallar umfjölluninni?
Ástæðan er eftirfarandi.
Tilfallandi fékk upplýsingar um afbrot þekkta blaðamannsins frá heimildamanni. Ef tilfallandi útskýrir hvernig hann fékk upplýsingarnar, eða varpar frekari ljósi á eðli þeirra, brýtur hann trúnað.
En má ekki afhjúpa nafn þekkta blaðamannsins?
Því er til að svara að fréttamenn RSK-miðla hafa í þrígang stefnt tilfallandi bloggara. Líkur eru töluverðar að bloggara yrði stefnt ef hann upplýsir nafn loddarans er útdeilir sekt og sýknu daginn út og inn en er sjálfur brotamaður á bakvið tjöldin. Fyrir rétti stæði tilfallandi frammi fyrir tveim slæmum kostum. Að brjóta trúnað gagnvart heimildamanni eða leggja ekki fram þau gögn sem staðfesta frásögnina og fá dóm fyrir meiðyrði.
Hvorugur kosturinn er góður. Nafn þekkta blaðamannsins verður að sinni ekki opinberað í tilfallandi athugasemd.
Á hinn bóginn er þess að geta að í haust eru líkur á að mál blaðamannsins verði upplýst. Þangað til hringlar í þekktu beinagrindinni í skáp fjölmiðlanna, - ásamt beinagrindunum fimm í byrlunar- og símastuldsmálinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 5. júlí 2023
Þekktur blaðamaður á flótta
Blaðamaður í fullu starfi og með trúnaðarstörf á sínum herðum að auki skilaði ársskýrslu til Fyrirtækjaskrár árið 2021 með sjö milljón króna hagnaði á einkahlutafélagi sínu. Árin á undan var engri skýrslu skilað.
Blaðamaðurinn varð uppvís að víðtækum skattsvikum í tengslum við útleigu á íbúðum í gegnum Airbnb. Um árabil leigði blaðamaður ferðamönnum húsnæði en gaf tekjurnar ekki upp til skatts. Tilfallandi athugasemd greindi frá í gær að blaðamanni var gert að greiða vangoldinn skatt með 25% álagi.
Skattrannsóknastjóri fékk upplýsingar um útleigu fasteigna Íslendinga árin 2015-2018 í gegnum vef og greiðslukerfi Airbnb. Alls var um að ræða leigutekjur upp á 25 milljarða króna.
Fréttastofa RÚV birti frétt um málið á sínum tíma. Fréttin hefur verið tekin niður, án skýringa.
Skattrannsóknastjóri vísaði stærri undanskotsmálum til héraðssaksóknara en afgreiddi minni háttar mál með endurálagninu og 25% álagi. Þau mál sem fóru til héraðssaksóknara urðu sjálfkrafa opinber.
Skattaundanskot blaðamannsins er ekki minni háttar, nema tugum milljóna króna. Blaðamaðurinn fékk sérmeðferð hjá skattayfirvöldum. Hann fékk leyfi til að setja útleiguna í einkahlutafélag sitt sem skilaði sjö milljón króna hagnaði árið 2021. Skattaundanskotin árin á undan stundaði blaðamaðurinn á eigin kennitölu.
Af þekkta blaðamanninum er ekkert að frétta. Hann er á flótta. Svarar hvorki síma né tölvupóstum. Er hann þó í krafti trúnaðarstarfa þekktur fyrir að koma fram í fjölmiðlum og krefur aðra um svör án undanbragða.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 4. júlí 2023
Þekktur blaðamaður sveik undan skatti
Þekktur blaðamaður sveik tugi milljóna króna undan skatti með því að gefa ekki upp leigutekjur af húsnæði er auglýst var til leigu á Airbnb. Blaðamaðurinn er áberandi í faglegri umræðu um fjölmiðla og gegnir trúnaðarstöðu.
Skatturinn, áður skattrannsóknastjóri, fékk fyrir þremur árum upplýsingar frá höfuðstöðvum Airbnb um leigutekjur íslenskra leigusala. Blaðamaðurinn hafði í áravís leigt út húsnæði til ferðamanna í gegnum Airbnb án þess að telja leigutekjurnar fram til skatts. Eftir að upp komst færði blaðamaðurinn útleiguna í hlutafélag.
Fjárhæðin sem stungið var undan skatti nemur tugum milljóna króna.
Blaðamanninum var gert að endurgreiða vangoldinn skatt með 25 prósent álagi.
Eins og tilfallandi lesendur vita segja fjölmiðlar ekki fréttir af afbrotum blaðamanna, allra síst er í hlut eiga ritstjórnir RSK-miðla.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 3. júlí 2023
Laupur og lyga í stað afa og ömmu
Samtökin 78 óska eftir nýyrðum yfir föður- og móðurforeldra sem fyrrum nefndust amma og afi. Ein tillaga er að amma verði lyga og afi laupur.
Maður segði si svona ´ég ætla að skreppa í kleinur og kaffi hjá lygu´. Og ´laupur, lestu fyrir mig sögu´.
Hinsegin hugmyndafræðin boðar kynjaflæði. Maður getur verið karl að morgni en kerla að kveldi. Um miðjan daginn eitthvað þess á milli. Gera má ráð fyrir að ömmur/lygur vilji stundum vera afar/laupar og öfugt. Nýyrðin tvö gera ráð fyrir þessum möguleika. Þeim er einfaldlega slegið saman í eitt samsett orð.
Lygalaupur.
![]() |
Leita að kynhlutlausu amma og afi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Sunnudagur, 2. júlí 2023
Kristrún skilgreinir spillingu
Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingar skilgreindi spillingu í þingræðu 30. mars 2022, rúmri viku eftir að sala á hlutabréfum ríkisins í Íslandsbanka fór fram. Gefum Kristrúnu orðið:
Einn aðili keypti fyrir 55 millj. kr., annar 27, sá þriðji fyrir 11. Þetta er bara það sem við vitum út af tilviljanakenndum upplýsingum. Eru þetta langtímafjárfestar? Eru þeir að taka á sig umtalsverða markaðsáhættu fyrir almenning til að koma þessum banka á markað? Ég frábið mér þann málflutning að þetta sé einhvers konar eðlilegt fyrirkomulag. Það er það ekki. Tilgangurinn með tilboðsfyrirkomulaginu var ekki að leyfa nokkrum fagfjárfestum sem eru að fjárfesta fyrir sitt persónulega bókhald að fá smá afslátt. Svona upphæðir, litlar upphæðir sem vekja minni athygli, geta nefnilega oft gefið til kynna að um spillingu sé að ræða. (undirstrik. pv)
Víkur nú sögunni að persónulegu bókhaldi Kristrúnar. Hún starfaði sem aðalhagfræðingur Kviku fjárfestingabanka í þrjú ár, 2018-2021, en hætti til að verða þingmaður Samfylkingar og formaður flokksins.
Launakjör eru almennt góð hjá fjárfestingabönkum. Auk hárra launa fékk Kristrún kauprétt í hlutabréfum Kviku undir markaðsverði, líkt og tíðkaðist við sölu á ríkishlutnum í Íslandsbanka.
Kristrún keypti hlutafé í Kviku fyrir þrjár milljónir á þriggja ára starfstíma, eina milljón á ári. Kaupauki formanns Samfylkingar er á kostnað hluthafa og viðskiptavina Kviku fjárfestingabanka, segir Vilhjálmur Bjarnason fjárfestir og fyrrverandi þingmaður. Löglegt en siðlaust, eins og frægur íslenskur jafnaðarmaður orðaði það á síðustu öld.
Þriggja milljón króna kaupauki Kristrúnar varð að 101 milljón króna hagnaði þar sem hlutabréf Kviku hækkuðu skarpt. Mál manna var að Kvika fjárfestingabanki myndi eignast Íslandsbanka með samruna. Sem þingmaður og formaður Samfylkingar var Kristrún hlynnt yfirtöku Kviku á Íslandsbanka.
Hlutabréf Kviku fjárfestingabanka hækkuðu m.a. vegna væntinga um að Kvika myndi eignast Íslandsbanka, sem er viðskiptabanki. Við þekkjum ferlið úr aðdraganda hrunsins. Viðskiptabankar geta búið til miklu meiri peninga en fjárfestingabankar. Hluthafar fá ofsagróða i skamman tíma en þjóðin tapar stórkostlega til lengri tíma. Formaður Samfylkingar er með í leiknum og fær sinn hlut refjalaust. Vill þó ekki borga skattinn sinn, líkt og launaþrælarnir Jón og Gunna.
Þegar Kristrún taldi fram til skatts 101 milljón króna hagnað sinn af kaupaukanum hjá Kviku borgaði hún 22 prósent skatt, eins og um fjármagnstekjur væri að ræða. En hagnaðurinn var hluti af launakjörum Kristrúnar hjá Kviku fjárfestingabanka og átti að bera 46,25 prósent skatt.
Formaður Samfylkingar sparaði sér persónulega 25 milljónir króna með röngu skattframtali. Kristrún er með sín persónulegu fjármál á gráu svæði sem kallast skattasniðganga.
Gefum formanni Samfylkingar aftur orðið á alþingi Íslendinga. Svona talar Kristrún 16. nóvember 2022:
Áframhaldandi skortur á trausti almennings gagnvart stjórnmálunum er á ábyrgð hæstv. ríkisstjórnar. Hæstv. ríkisstjórn hefur alið á uppgjöf og ég er hrædd um að fólk sé orðið ansi dofið fyrir þessu prinsippleysi. Í skjóli þessa doða stjórnar ríkisstjórn hæstv. Katrínar Jakobsdóttur. Væntingarnar til þeirra eru engar þegar kemur að málum sem þessum. Ég spyr því hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra: Eru engin prinsipp? Snýst þetta allt um persónur, ráðherrastóla og pólitíska leiki fremur en traust til embætta og stofnana sem hér eru undir?
Jæja, Kristrún. Nú fær formaður Samfylkingar tækifæri til að sýna að hann stendur fast á prinsippum og axlar ábyrgð á spillingunni þegar upp um hana kemst.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 1. júlí 2023
Birna, Kristrún og sala Íslandsbanka
Fjárfestingabankinn Kvika ætlaði að eignast ráðandi hlut ríkisins í Íslandsbanka. Til að viðskiptin mættu ganga eftir varð að tryggja stuðning tveggja hagaðila. Í fyrsta lagi urðu æðstu stjórnendur Íslandsbanka að vera hlynntir yfirtöku Kviku.
Birna bankastjóri og Finnur Árnason stjórnarformaður eru oddvitar yfirstjórnar bankans. Þau samþykktu formlega yfirtöku Kviku í febrúar síðastliðnum, undir formerkjum samruna.
Ráðandi stjórnmálaöfl eru hinn hagaðilinn sem varð að blessa yfirtöku á Íslandsbanka. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, og þar með ríkisstjórnin, voru tilbúin að láta samruna Kviku og Íslandsbanka ganga fram. Frjálshyggjusjónarmið frá fyrir hrun, um að ríkið ætti ekki að stunda fjármálastarfsemi, réðu mestu. Sjónarhornið tekur ekki mark á þeirri lexíu að á meðan allir bankar á Íslandi voru ríkisreknir stóðum við aldrei frammi fyrir þjóðargjaldþroti. Eftir að einkaaðilar eignuðust bankakerfið um aldamótin voru aðeins átta ár í hrun. Einkaaðilar á Fróni ráða ekki við freistnivandann sem fylgir rekstri viðskiptabanka.
Eina pólitíska aflið sem er í færum að setja fram valkost við yfirtöku Kviku á Íslandsbanka er Samfylkingin. En þar er formaður Kristrún Frostadóttir fyrrum aðalhagfræðingur Kviku og handhafi 100 milljón króna hagnaðar af hlutabréfaviðskiptum með Kviku-bréf. Hún er enn í liðinu sem gerði hana sterkefnaða á aðeins þremur árum.
Eftir að samrunaferli Kviku og Íslandsbanka var kynnt í febrúar þagði Kristrún þunnu hljóði. Með þögninni samþykkti formaður Samfylkingar að fyrrum atvinnuveitandi eignaðist Íslandsbanka. Auðvelt hefði verið að gera pólitík úr málinu og bjóða upp á þann valkost að ríkið eigi áfram hlut í bankakerfinu á meðan fjármálamenn ná þroska til að ráða við umsýslu viðskiptabanka. En Kristrún var Kvikubundin og þagði.
Þar með var allt klappað og klárt.
Allt breyttist á mánudag síðast liðinn. Skýrsla er birt um forsölu ríkishluta í Íslandsbanka. Lög voru brotin og farið illa með eigur almennings. Útvaldir fengu sérmeðferð við hlutafjárkaup, alþýðan horfði á sjónarspilið úr fjarlægð. Aðfaranótt miðvikudags varð Birna bankastjóri að segja af sér vegna óróa í samfélagsumræðunni.
Enn var þó pólitísk samstaða um að Kvika eignaðist Íslandsbanka. En svo gerðist það á fimmtudagsmorgun að Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingar játaði skattasniðgöngu með 100 milljón króna hagnað sinn af Kviku-bréfum. Um leið opinberast að Kristrún er pólitískt fyrirbrigði sem grunnt er á í Samfylkingunni en kemur alltaf fram í dulargervi smælingjasamúðar. Frjálshyggjujafnaðarmaður sem græðir á daginn og skattasniðgengur á kvöldin. Heiðarlegir frjálshyggjumenn grilla á kvöldin eftir dagsverk á markaði, eins og Hannes Hólmsteinn minnti á fyrir margt löngu.
Síðdegis á fimmtudag varð Kvika banki að játa sig sigraðan. Baklandið brast, bæði í Íslandsbanka, með afsögn Birnu, og í pólitíkinni með afhjúpun á skattasniðgöngu formanns Samfylkingar. Engin pólitísk sátt, engin yfirtaka Kviku-manna á Íslandsbanka. Tilkynningin um slit á samrunaferli er loðin og teygjanleg. Talað er um ,,umræðuna" sem er annað orð yfir pólitískar aðstæður og látin í ljós von um að seinna meir mætti taka upp þráðinn að nýju.
Á bakvið tjöldin er allt á fleygiferð þótt fæst sé gert opinbert. Það sást til stjórnarmanns Íslandsbanka stika stórum fyrir framan heimili sitt og tala í farsíma, líklega til að trufla ekki heimilisfriðinn. Maðurinn sem var að nóttu til gerður að bankastjóra Íslandsbanka fór að kvöldlagi á fimmtudag á fund forstjóra Fossa fjárfestingabanka, sem er ráðgjafi um sölu á eignahlut ríkisins í Íslandsbanka. Er spurðist út að allsherjarklúðrið ylli ekki enn meiri óskunda en orðið var tók hlutabréfamarkaðurinn kipp í gær og sýndi grænt eftir erfiða viku. Enn er opin spurning hvort sakamálarannsókn verði opnuð vegna lögbrota stjórnenda Íslandsbanka. Markaðurinn þolir það.
Viðskiptalífið kyngdi og lætur gott heita í bili. Stjórnmálaheimurinn er annars eðlis. Þar tekur lengri tíma að skilaboð samfélagsins sökkvi niður á það dýpi, að ekki sé sagt fen, þar sem póltíkin ræður ríkjum.
Á vinstri væng stjórnmálanna eru menn með böggum hildar. Vonarstjarnan Kristrún Frostadóttir er afhjúpuð sem skattasniðgangari. Leiðin liggur niður á við fyrir fylkinguna með bestu mælinguna í skoðanakönnunum síðustu misseri. Grein Vilhjálms Bjarnasonar fyrrverandi þingmanns er aðeins byrjunin. Fjölmiðlakonan Snærós Sindradóttir missti það út úr sér á Rás 2 í gærmorgun (1:12:30) að líklega væri ekki heppilegt að jafnaðarmenn hefðu á sínum snærum ,,auðkonu í stjórnmálum." Snærós er dóttir Helgu Völu þingmanns Samfylkingar.
Vikan var aftur hagfelld íhaldsmönnum sem vilja stíga ofurvarlega til jarðar við sölu á hlut ríkisins í fjármálakerfinu. Íhaldsmenn muna hrunið betur en frjálshyggjujafnaðarmenn og búa að siðferðislegri kjölfestu sem ekki er mæld í krónum og aurum.
![]() |
Kvika slítur samrunaviðræðum við Íslandsbanka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 30. júní 2023
Skattasniðganga Kristrúnar, herferð RSK-miðla
Formaður Samfylkingar, Kristrún Frostadóttir, er sek um skattasniðgöngu, ef ekki alvarlegri brot. Kristrún notaði RSK-miðla til að koma játningu sinni á framfæri klukkan tíu í gærmorgun. Tilgangurinn er að gera lítið úr skattamisferlinu, halda Kristrúnu á floti sem stjórnmálamanni.
Tilfallandi blogg vakti athygli á því fyrr um morguninn að Kristrún ein formanna allra starfandi stjórnmálaflokka hafði ekki sagt aukatekið orð um Íslandsbankamálið. Grunsamlegt enda þekkt að formaður Samfylkingar tekur til máls af lítilfjörlegustu tilefnum, t.d. viðveru ráðherra á alþingi. Hlédrægni Kristrúnar stafaði af skattasniðgöngunni. Hún þorði ekki að blanda sér í Íslandsbankaumræðuna af ótta við að upp kæmist um strákinn Kviku-Tuma með krumlurnar á kafi í skattabrellum til að borga ekki í sameiginlega sjóði landsmanna. Kristrún er upptekin af hugrekki. Hún sakaði Bjarna Benediktsson um hugleysi í fjölmiðlasviðsetningu RSK-miðla í vetur.
Kristrún og ráðgjafar hennar voru tilbúnir með játningu í samstarfi við RSK-miðla. Heimildin reið á vaðið, RÚV kom í kjölfarið. Blaðamaðurinn sem skrifaði fyrstu fréttina er Arnar Þór Ingólfsson, sakborningur í byrlunar- og símastuldsmálinu. Fréttin var ekki skrifuð í gærmorgun til birtingar klukkan tíu. Fréttin var tilbúin en beið eftir réttri tímasetningu. RSK-miðlar sérhæfa sig í verklaginu. Þegja sumar fréttir, möndla með aðrar og gera þess á milli fimm hænur úr einni fjöður.
Eitt einkenni siðlausra fjölmiðla er að þeir starfa eins og almannatenglar. Birta fréttir samkvæmt hagsmunum verkkaupa. Í tilfelli Kristrúnar er RSK-miðlum umhugað að koma sér upp talsmanni sem er formaður stærsta stjórnmálaflokksins, samkvæmt fylgiskönnunum, og líklegur til ríkisstjórnarsetu. Spillingin í opinberri umræðu hér á landi er fyrirsjáanleg. RSK-miðlar vilja halda stjórnmálamanni á floti sem gæti orðið næsti dómsmálaráðherra, yfirmaður lögreglunnar.
RÚV notaði sömu fyrirsögn og Heimildin. Kristrún er sögð hafa fengið ,,tilmæli" frá Skattinum um að hún væri í skuld með opinber gjöld. Tilfellið er að Kristrún taldi rangt fram, kom sér undan að borga skatt.
Þegar aðrir fjölmiðlar tóku við fréttahönnun RSK-miðla var Kristrún komin með sterka stöðu í umræðunni, þökk sé fréttahönnun RSK-miðla. ,,Málinu er lokið fyrir mína parta," segir hún með þjósti við Morgunblaðið. Kristrún ætlast til að eftir fréttahönnun RSK-miðla sé málinu lokið. Nú á að þegja.
Skattasniðganga Kristrúnar felst í að hún greiddi fjármagnstekjuskatt en átti að greiða tekjuskatt, sem er meira en helmingi hærri. Formaðurinn vildi spara sér um 25 milljónir króna á kostnað almennings.
Kristrún er staðin að ósannindum um hlut sinn í Kviku með játningu sinni í Heimildinni í gær. Fyrir síðustu kosningar sagði formaðurinn:
Því eftir að ég flutti heim úr námi og hóf störf í Kviku setti ég stóran hluta af persónulegum sparnaði mínum og mannsins míns í réttindi fyrir hlut í bankanum. Upphæð sem okkur munaði mjög mikið um. Þarna erum við hjónin nýkomin úr námi og vinnu, með lítið á milli handanna, en tókum þá ákvörðun um að leggja í þessa fjárfestingu.
Ef Kristrún hefði í raun og sann keypt hlutafé í Kviku fyrir sparnað sem hún átti fyrir hefði hún ekki þurft að greiða tekjuskatt. Það vita allir sem hafa keypt hlutbréf. Maður greiðir fjármagnstekjuskatt af hagnaði af hlutabréfum. Venjulegir launaþrælar hafa áður greitt tekjuskatt af launatekjunum sem mynduðu sparnaðinn. Forréttindafólkið hefur aftur aðra möguleika en alþýðan að maka krókinn.
Það sem gerðist í raun er að Kristrún fékk dulda launahækkun í formi réttinda til að kaupa hlut í Kviku á ákveðnu gengi, oftast lægra en markaðsgengi. Hún var innherji og bjó að upplýsingum sem aðrir fjárfestar hafa ekki. Vissi að hverju hún gekk og það hafði ekkert með heppni að gera.
Í stað þess að játa að hún sé hluti af fjármálaelítunni vill Kristrún fá almenning til að trúa að hún hafi tekið af brauðpeningum fjölskyldunnar og sett í áhættufjárfestingu. ,,Svo datt ég í lukkupottinn," segir formaðurinn til að útskýra 100 milljón króna hagnað sem hún í ofanálag vildi ekki greiða af rétta skattprósentu.
Kaupin í Kviku voru bæði með belti og axlaböndum, ekki áhættufjárfesting heldur öruggur hagnaður, aðeins spurning hve mikill. Lukkupottur formanns Samfylkingar er fjölmiðlaherferð RSK-miðla sem vilja eiga greiða inni hjá væntanlegum ráðherra.
Fjárfestingin var ,,upphæð sem okkur [hjónunum] munaði mjög mikið um" segir Kristrún í tilvitnun hér að ofan. Til að komast undan ámælum vegna skattasniðgöngu segist formaður Samfylkingar vera áhættufíkill er leggur heimilið undir með hlutabréfabraski. Síðan hvenær var heppilegt að áhættufíklar færu með landsstjórnina? RSK-miðlar vilja aftur sjá áhættufíkla sem ráðherra, einkum þá sem þeir eiga hönk upp í bakið á.
Misgjörð Kristrúnar gæti verið alvarlegri en skattasniðganga. Kristrún og Heimildin birta engin gögn máli formanns Samfylkingar til staðfestingar, aðeins munnlegan framburð geranda.
Birna á miðvikudag. Hvenær Kristrún?
![]() |
Málinu er lokið fyrir mína parta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 29. júní 2023
Kvika og þögn Kristrúnar um Íslandsbanka
Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingar segir fátt um Íslandsbankamálið, ólíkt formönnum allra annarra stjórnmálaflokka. Ástæðan er Kvika, fjárfestingabanki, sem hyggst ná eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka með samruna.
Kristrún var þar til fyrir skemmstu aðalhagfræðingur Kviku. Hún hagnaðist um 100 milljónir króna á kaupréttarsamningum.,,Ég datt í lukkupottinn," sagði Kristrún.
Íslandsbankamálið, sem nú er til umræðu, er aðeins undanfari að yfirtöku Kviku á Íslandsbanka. Til að samrunaferli Kviku og Íslandsbanka þarf að þegja um hvað sé á ferðinni - ríkiseigum komið yfir á einkaaðila á útsöluprís.
Samfylkingin hefur frá stofnun verið fimmta herdeild auðmanna. Með formennsku Kristrúnar er innvígð og smurð auðkona í kjörstöðu að hjálpa baklandi sínu að ,,detta í lukkupottinn."
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Miðvikudagur, 28. júní 2023
Finnur fórnar Birnu, verður Íslandsbanka stolið?
Finnur Árnason stjórnarformaður Íslandsbanka knúði Birnu bankastjóra til að segja upp störfum klukkan fjögur í nótt. Þjófnaður Kviku á Íslandsbanka, kallaður samruni, er í húfi. Með því að fórna Birnu vonast Finnur til að fá frið til að koma Íslandsbanka í hendur Kviku.
Samrunaferli milli Kviku og Íslandsbanka hófst í vetur leið. Viðskiptablaðið birt frétt um málið:
Forstjóri Kviku telur samruna bankans við Íslandsbanka vera tækifæri til að auka samkeppni á markaðinum.
Kvika er froðufélag líkt og mörg fyrir hrun. Kvika stendur ekki fyrir rekstur heldur stækkun, eins og tifallandi rakti í vetur. Bankamenn trúa eigin blekkingum, það gefur svo vel í aðra hönd. Fákeppni er samkeppni.
Lögbrot Íslandsbanka við sölu á hlut ríkisins er smápeningur miðað við fyrirhugaðan þjófnaðarsamruna.
Tökum forstjóra Kviku á orðinu og látum Landsbankann yfirtaka Íslandsbanka. Öflugur ríkisbanki myndi stórauka samkeppni á fjármálamarkaði. Spyrjið bara Marinó Örn Tryggvason forstjóra Kviku.
![]() |
Birna segir upp störfum og Jón Guðni tekur við |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)