1917-augnablik, eða 1918

Rússland eða Úkraína, fer eftir hver talar, nálgast hratt 1917-augnablikið er viðkvæði álitsgjafa um Úkraínustríðið.

1917-augnablikið kemur þegar önnur hvor þjóðin, rússneska eða úkraínska, segir hingað og ekki lengra. Atburðarásin verði sambærileg októberbyltingunni fyrir 106 árum. Stríðsþreytt þjóð varpar af sér okinu, krefst nýrra stjórnarhátta er tryggja frið og brauð.

Af ýmsum ástæðum er harla ólíklegt að komi til byltingar í öðru hvoru ríki stríðsaðilja. Fyrir það fyrsta eru fáar vísbendingar um stríðsþreytu. Í öðru lagi er hvergi að sjá pólitíska andstöðu í hvoru ríki um sig, sem eitthvað kveður að. Í þriðja lagi lifa íbúar utan átakasvæða tiltölulega hversdagslegum lífi. Eldsneyti byltingar er af skornum skammti. 

Meiri líkur eru á 1918-augnabliki. Snemma hausts 1918 tilkynnti þýska herráðið Vilhjálmi keisara að stríðið í landamærahéruðum Frakklands og Belgíu væri tapað. Stuttu síðar óskuðu þýsk stjórnvöld eftir vopnahléi og fengu það klukkan 11 þann 11.11. 1918. Fyrri heimsstyrjöld lauk þar með.

Á nýafstöðum leiðtogafundi Nató-ríkja í Vilníus var Selenskí forseta Úkraínu tilkynnt, herma óstaðfestar fregnir, að verði víglína Rússa í Saparosjíja ekki brotin á bak aftur í nóvember næstkomandi muni vesturlönd ekki vera Úkraínumönnum jafn rausnarleg og hingað til.

Síðustu daga ber á staðhæfingum um þrátefli á vígvellinum. Kurteist orðalag um að úkraínska sóknin sem hófst 4. júlí sé í ógöngum. Á tímalínu stríðsaðgerða er nóvember handan við hornið.

Klukkan glymur Kænugarði fyrr en Kreml. 

 


Stafrænt kynferðisofbeldi og fjölmiðlar, íslenskir og breskir

Fréttamaður BBC, Huw Edwards, er ásakaður um að kaupa kynferðislegar ljósmyndir af ungum stúlkum. Breskir fjölmiðlar fjalla ítarlega um málið í raðfréttum daginn inn og daginn út.

Starfsfélagar Huw Edwards hjá BBC tóku jafnvel til við að upplýsa ásakanir um stafrænt kynferðisofbeldi fjölmiðlamannsins. Yfirstjórn ríkisfjölmiðilsins BBC fær á linnulausa gagnrýni fyrir að grípa ekki í taumana.

Breska lögreglan segir enga rannsókn standa yfir af sinni hálfu. Hér er aðeins um ásakanir að ræða.

Á Íslandi stendur yfir virk lögreglurannsókn á byrlun, gagnastuldi, stafrænu kynferðisofbeldi og brot á friðhelgi. Fimm blaðamenn á Heimildinni (áður Stundin og Kjarninn) og RÚV eru sakborningar.

Fréttirnar af lögbrotum íslensku blaðamannanna eru fáar og strjálar. Ekki er setið um Stefán Eiríksson útvarpsstjóra og hann spurður um afritun á stolnum síma á Efstaleiti. Liggur þó fyrir óbein játning; útvarpsstjóri lét starfsmanninn fara sem keypti Samsung-síma til að afrita tæki norðlensks skipstjóra.

Stórvinir RSK-miðla, Hallgrímur Helgason til dæmis, hafa lögbrot og siðleysi blaðamanna í flimtingum, segja að endurtaka mætti byrlun og ofbeldi, þjóni það réttum málstað.  

Raunar er það helst að frétta af fimm fræknum sakborningum RSK-miðla að þeir eru árlega drekkhlaðnir verðlaunum frá Blaðamannafélagi Íslands hvers formaður stundar útleigu á Airbnb er kallaði á skattrannsókn.

Netflix-serían Fimm fræknir sakborningar og Airbnb-drottningin gæti orðið áhugaverð. Drög að handriti liggja fyrir í haust. 


Eldgosið tvöfaldar CO2-losun hagkerfisins

Koltvísýringur, CO2, er náttúruleg lofttegund kennd við gróðurhúsaáhrif. Samkvæmt tískukenningu stjórnar magn koltvísýrings í andrúmslofti veðurfari á jörðinni. Til að auðvelda skattlagningu er útblástur hagkerfa, þ.e. mannleg losun á CO2, reiknuð.

Íslenska hagkerfið losar árlega 6500 kílótonn (eitt kíltonn er þúsund tonn) af koltvísýringi, CO2, í andrúmsloftið, samkvæmt Hagstofunni. Deilt á daga ársins gerir það rúm 17 kílótonn á dag.

Mælingar vísindamanna á losun eldgossins við Litla-Hrút gefa til kynna að eldgosið losi allt að 15 kílótonn daglega af koltvísýringi, CO2.

Litla eldgosið á Reykjanesskaga stendur daglega fyrir nálega jafn mikinn útblástur koltvísýrings og allt íslenska hagkerfið.

Munurinn er einkum sá að auðvelt er að skattleggja hagkerfið. Innheimtan er aftur erfiðari neðra. Ástæðan er kannski að stjórnmálamennirnir eru flestir ættaðir þaðan. 


mbl.is Vísindamenn unnu langt fram á nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Biden býður Rússum Austur-Úkraínu

Biden forseti Bandaríkjanna segir Úkraínu fá aðild að Nató eftir friðarsamninga við Rússa. Hér talar Biden eins og blaðafulltrúi Pútín forseta Rússlands.

Rússar hófu stríðsaðgerðir gegn Úkraínu þegar landið var á hraðferð inn í Nató. Úkraínski herinn var og er fjármagnaður og þjálfaður af Nató. Aðeins formsatriði að sippa landinu inn í vestræna hernaðarbandalagið.

Eftir að Rússar hófu hernaðaraðgerðir fyrir hálfu öðru ári var ekki hægt að kippa Úkraínu inn í Nató án þess samtímis að lýsa stríði á hendur Rússlandi.

Krafa Rússa er að Úkraína verði hlutlaust ríki á milli Rússlands og Nató-ríkja. Næst skásti kostur Rússa er að leggja undir sig suður- og austurhluta Úkraínu. Afgangurinn af Úkraínu gæti orðið Nató-ríki, Rússar væru komnir með varnarbelti. Vestur-Úkraína væri lítið ríki, fátækt af náttúruauðlindum. Til lengri tíma litið væru Rússar með álíka áhyggjur af Vestur-Úkraínu og Finnlandi.

Friðarsamningar munu taka mið af stöðunni á vígvellinum í Garðaríki. Sumarsókn Úkraínu er runnin út í sandinn. Rússar eiga næsta leik.

Afstaða Biden er nánast tilboð til Rússa að yfirtaka þá hluta Úkraínu sem þeir telja sig þurfa en leyfa Vestur-Úkraínu að ganga í Nató. Pútín tekur tilboðinu enda er það rausnarlegt.


mbl.is Engin NATO-aðild meðan stríð geisar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Selenskí játar veikleika

Í tísti segir forseti Úkraínu að óvissa sé veikleiki og vill fá tryggingu fyrir inngöngu landsins í Nató. Tryggð innganga jafngildir aðild sem nánast sjálfkrafa fæli í sér stríð Nató gegn Rússlandi. Ekki er vilji til þess hjá Nató-ríkjum.

Fyrir nokkrum vikum átti leiðtogafundur Nató í Vilníus að setja Rússum afarkosti. Hugmyndin var að sókn Úkraínu í Saparosía væri um það bil að kljúfa i tvennt hernámssvæði Rússa og ógnaði Krímskaga er Rússar hernumdu 2014. 

Sumarsókn Úkraínuhers hófst 4. júlí en skilar ekki árangri. Síðustu fréttir af vígvellinu í Saparosíja og Donbass sýna rússneskan ávinning en ekki úkraínskan. Annar mælikvarði á framgang Úkraínu er fáar fréttir. Þeir eru margar þegar Úkraína sækir fram.

Tíst Selenskí, sjá hlekk í fyrstu málsgrein hér að ofan, nefnir samningaviðræður við Rússa. Samningar og afarkostir eru ólíkir hlutir.

Tal Selenskí forseta um samninga við núverandi kringumstæður er meiri veikleiki en óvissan um inngöngu Úkraínu í Nató. Ekki fyrir löngu sögðust ráðamenn í Kænugarði fyrst semja við Pútín er úkraínskar hersveitir stæðu við borgarhlið Moskvu. Í dag er talað um samninga á meðan Rússar stjórna þriðjungi Úkraínu.

Úkraínustríðinu lýkur með samningum, vonandi fyrr en seinna. Líkur standa til að þeir samningar verði á rússneskum forsendum fremur en úkraínskum.

 

 


mbl.is Liðka fyrir aðild Úkraínu að NATO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mesta eldgos frá upphafi mælinga

Nýhafið eldgos við Litla-Hrút er það mesta á Reykjanesi frá upphafi mælinga.

Og?

Er það merkilegt?

Nei, svona álíka og viðtengd frétt um að ,,fyrsta vikan í júlí var sú heitasta síðan mælingar hófust."

Náttúruferlar, hvort heldur jarðhræringar eða veðurfar, eru aðeins eldri en mælitæki manna. Það munar sirka 4,5 milljörðum ára.

Ef eitthvað er mest í náttúrunni hlýtur að vera til minnst. Á milli mest og minnst ætti að vera kjörstaða.

Hver er þá kjörhiti jarðar?

Kjörhiti jarðar er ekki til. Ekki frekar en kjörfjöldi eldgosa.

Fréttin um ,,heitustu viku frá upphafi mælinga" er merkingarlaus. Alveg eins og fyrirsögnin á þessu bloggi.

 


mbl.is Heitasta vikan frá upphafi mælinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvika í vandræðum, lánshæfi lækkað

Moody‘s lækkar lánshæfismat Kviku, ólíkt staðhæfingu í fyrirsögn viðtengdrar fréttar. Í meginmáli kemur fram að Moody‘s hafi í þann veginn verið að hækka lánshæfismat Kviku fjárfestingabanka, í tilefni af samrunaferli við Íslandsbanka, en afturkallað hækkun á lánshæfismati er ekkert varð úr samruna.

Íslandsbankamálið, misheppnuð sala á hlut ríkisins, stöðvaði samrunaferlið sem var langt komið. Komið var að því að ákveða skiptihlutföll í nýju hlutafélagi.

Kvika fjárfestingabanki er yfirtöku- og samrunafélag. Frá stofnun árið 2015 sameinast eða yfirtekur Kvika eitt félag á ári og rúmlega það. Samruninn við Íslandsbanka átti að verða tíunda stækkunin. Stækkun, ekki rekstur, er sérgrein Kviku.

Stöðug stækkun færir hluthöfum Kviku ríkulegan ábata, eins og Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingar getur vitnað um. Á síðustu fimm árum hafa hlutabréf Kviku hækkað um tæp 130 prósent. Meðaltalshækkun tíu stærstu fyrirtækjanna á íslenskum hlutabréfamarkaði er 46 prósent á sama tímabili.

Fjárfestingabanki sem jafn hraðan vöxt og Kvika tileinka sér væntingar um meira af svo góðu. Þær væntingar taka ekki mið af raunhagkerfinu heldur Excel-skjölum með skáldskap um framtíðina. 

Pólitískar forsendur eru ekki lengur fyrir samruna Kviku og Íslandsbanka. Dýr sátt vegna sölu á ríkishlutafé í Íslandsbanka sá til þess. 

Til er einföld leið að ná breiðri pólitískri samstöðu um að losa hlut ríkisins í Íslandsbanka. Hún er að selja árlega eitt prósentustig af eignarhlut ríkisins í bankanum. Ríkið myndi þynna út eignarhlut sinn niður i núll á rúmum 40 árum.

Kristrún Frostadóttir og aðrir slíkir áhættufjárfestar dyttu ekki í lukkupottinn ef þessi aðferð væri notuð. Sumir halda að hlutverk ríkisins sé að skapa áhættufjárfestum skyndigróða. Svo er ekki.

 

 

 

 


mbl.is Moody's staðfestir lánshæfi Kviku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhann kemur við Kviku Kristrúnar

Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar situr í fjárlaganefnd alþingis. Hann vill að nefndin fundi um Íslandsbankamálið. Kristrún formaður flokksins er aftur ekki spennt fyrir háværri Íslandsbankaumræðu. 

Tilfallandi nefndi þögn Kristrúnar Samfylkingarformanns fimmtudagsmorguninn 29. júní, fyrir rúmri viku. Tveim klukkutímum síðar kom skýring á fámæli Kristrúnar. Hún játaði skattasniðgöngu á 100 milljóna króna hagnaði af nýlegum hlutabréfaviðskiptum.

Hagnaður Kristrúnar af hlutabréfum í Kviku fjárfestingabanka er viðkvæmt mál. Kvika var í samrunaferli með Íslandsbanka með samþykki og velvilja Kristrúnar en hún var aðalhagfræðingur Kviku, hætti þar gagngert til að verða þingmaður Samfylkingar. 

Kristrún er innvígður og munstraður talsmaður stórkapítalista sem sækja stíft í ríkiseigur. Eftir að hún náði kjöri sem formaður Samfylkingar haustið 2022 óx vegur flokksins í skoðanakönnunum. Áfram gakk í átt að hægristjórn til að liðka fyrir stórvesírum fjármálageirans. Þeir eru svo snjallir að búa til ímynduð verðmæti, sem eru froða þegar að er gáð. Kristrún kallar froðuæfinguna að detta í lukkupottinn

Formaður sem skaffar fylgi, þótt ekki sé nema kannanafylgi, getur skipað málum að vild innan flokks. Kristrún jaðarsetti Jóhann Pál og Helgu Völu, sem fannst fátt til nýstirnisins koma og hugnaðist ekki hægrislagsíðan. Sumum þingmönnum, ekki síst á vinstri vængnum, líður betur með mikil völd í litlum flokki en lítil í stórum. Neitunarvald er vanmetinn þáttur í pólitík, er oftar en ekki virkjað á bakvið tjöldin.

Skattasniðganga Kristrúnar gefur Jóhanni Páli og Helgu Völu tækifæri til að veikja pólitík formannsins án þess að mikið beri á. Það gera þingmennirnir með hávaða um Íslandsbankamálið sem kemur við Kvikuna á Kristrúnu.

Formaðurinn getur illa beitt sér, kysi helst rólegt pólitískt sumar til að vera ekki krafin um nánari skýringar á skattauppgjöri vegna 100 milljón króna hagnaðar af hlutabréfaviðskiptum. Samtímis getur formaður Samfylkingar ekki lagst gegn atlögu að Sjálfstæðisflokknum og fjármálaráðherra þegar skotmörkin eru í dauðafæri.

Í orði kveðnu er Samfylkingin jafnaðarmannaflokkur en ekki þriðja hjólið undir vagni fjármálaelítunnar. Kristrúnarleiktjöldin eru hönnuð til að viðhalda ímynd um að jöfnuður fáist með ójöfnuði. Kristrún er í pólitík það sem fyrrum yfirmaður hennar, Marinó Örn Tryggvason, er í fjármálum. Samkeppni, sagði forstjóri Kviku, eykst með fákeppni. Kristrúnarpólitík er að jöfnuður aukist með ójöfnuði. Hvítt er svart og svart hvítt. 

Pólitíkin í Íslandsbankamálinu er í grunninn hvort það sé áfram gakk í átt að nýrri hrunstjórn eða ekki. Neitunarvaldið er í höndum liðsfélaga Kristrúnar Frostadóttur formanns Samfylkingar. Sjálf er Kristrún löngu skattasniðgengin í 100 milljóna króna björg.


RÚV finnur vafasamar 20 milljónir, en ekki hjá Sigríði Dögg

Fréttastofa RÚV fann í Lindarhvolsskýrslu eitt dæmi um að ríkissjóður gæti hafa orðið af 20 milljónum króna er ríkiseign var seld fyrir sex árum. Þetta eina dæmi er nefnt í tveim fréttum RÚV um skýrsluna.

Fyrri fréttin

Sigurður gerir einnig athugasemd við það að söluverð á hlutabréfum í Vörukaupum hafi verið lækkað úr 151 milljón í 131 milljón

Seinni fréttin

Vafasöm 20 milljóna króna lækkun kaupverðs á grundvelli óundirritaðs minnisblaðs frá Deloitte

Ef fréttastofa RÚV ber hag ríkissjóðs fyrir brjósti og telur 20 m.kr. stórfé ætti Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður Blaðamannafélags Íslands að vera nærtækt viðfangsefni. Samkvæmt Fréttinni er Sigríður Dögg þekkti blaðamaðurinn sem viðurkenndi skattalagabrot upp á tugi milljóna króna fyrir tveim árum en fékk að fela brotið sjónum almennings.

Formaður Blaðamannafélags Íslands taldi ekki fram tekjur af íbúðum sem hann leigði ferðamönnum í skammtímaleiga í gegnum Airbnb. Sigríður Dögg endurgreiddi vangoldinn skatt með 25 prósent álagi í gegnum einkahlutafélag sitt. Fyrir tveim árum skilaði einkahlutafélagið sjö milljón króna hagnaði, samkvæmt Fyrirtækjaskrá. Árin þar á undan var engum ársreikningum skilað.

Formaður stéttafélags blaðamanna fékk sérmeðferð hjá skattayfirvöldum. Aðrir í sömu sporum fengu á sig opinbera málssókn frá saksóknara. Sigríði Dögg var leyft að gera upp vantaldar leigutekjur í gegnum einkahlutafélag, gagngert til að blettur félli ekki á starfsheiður formanns Blaðamannafélags Íslands.

Það ættu að vera hæg heimatökin á fréttastofu RÚV að grennslast fyrir um undanskot formanns Blaðamannafélags Íslands og torkennileg samskipti við skattayfirvöld. Ásamt formennskunni er Sigríður Dögg í fullu starfi á RÚV - sem fréttamaður. 


Lindarhvoll: hver er glæpurinn?

Skýrslan um Lindarhvol er samantekt um sölu ríkiseigna árin 2016-2018. Eigurnar fékk ríkið úr slitabúum föllnu bankanna. Einn maður, lögmaðurinn Steinar Þór Guðgeirsson, var í raun Lindarhvoll. Hann tók að sér í verktöku að selja ríkiseigurnar og gerði það frá lögmannsstofu sinni á Túngötu. Félagið Lindarhvoll ehf. var stofnað af ríkinu en hafði engan starfsmann, aðeins þriggja manna stjórn.

Steinar Þór var valinn þar sem hann þótti hafa staðið sig vel í fyrri uppgjörum hrunmála. Traustir menn óflekkaðir af subbuskap útrásar og hruns voru ekki á hverju strái.

Skýrslan gerir ýmsar athugasemdir um hvernig staðið var að skipulagi og umsýslu Lindarhvols og við fyrirkomulag sölu á einstökum ríkiseigum. Fjöldi eigna var 51, í flestum tilfellum hlutafé í starfandi fyrirtækjum. Andvirði eignanna var tæpir 400 milljarðar króna. Ekki smápeningar. 

Í skýrslunni kemur fram að upplýsingagjöf til höfundar, Sigurðar Þórðarsonar setts ríkisendurskoðanda, hafi ekki verið sem skyldi - sem gefur til kynna einhvern feluleik.

Lindarhvoli var falið að selja ríkiseigur hratt án þess að setja þær á brunaútsölu. Ekki er hægt að ráða í af lestri skýrslunnar hvers vegna áhersla var á að hraða sölunni. En með því að stjórnvöld, alþingi meðtalið, vildu losna greiðlega við eigurnar er hætt við að sumir hafi gert hagkvæm kaup á kostnað almannahags, sé til lengri tíma litið.

Árin sem salan fór fram, 2016-2018, einkenndust af tvennu. Í fyrsta lagi pólitískri upplausn, falli ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs og skammlífri ríkisstjórn Bjarna Ben. Í öðru lagi kröftugri uppsveiflu í efnahagslífinu. Það segir sig sjálft að við þessar kringumstæður er ekki auðvelt að gæta hags ríkissjóðs, sem á öngvan vin en hrægammar, allt frá iðjulausum pírötum upp í stórkapítalista, sitja um nótt sem nýtan dag.

Af fyrsta yfirlestri skýrslunnar er ekki hægt að ráða að skipulögð brotastarfsemi hafi verið höfð í frammi við að koma ríkiseigum til valinkunnra á undirverði. Sigurður hefur vísað málinu til saksóknara sem líklega þýðir að hann telji að lögbrot hafi verið framin. Skýrslan sjálf tekur ekki af tvímæli. 

Tilfallandi niðurstaða, eftir einn lestur, vel að merkja, er að mistök hafi verið gerð en trauðla alvarleg afbrot.

 

 


mbl.is Gagnrýnir verklag við umsýslu Lindarhvols
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband