Mánudagur, 7. ágúst 2023
Oftæknivædd ungmenni
Viðtengd frétt segir frá áhyggjum íslenskra foreldra á snjalltækjanotkun barna sinna. Frétt á visir.is hermir að stofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, leggi til að snjallsímar verði bannaðir í grunnskólum.
Þótt rök og rannsóknir segi snjallsímanotkun trufla einbeitingu ungmenna og valda vanlíðan og kvíða er hæpið að boð og bönn leysi vandann. Þó ekki sé nema vegna þess að margir foreldar nota símann til að hafa stafrænt auga með ungviðinu.
Góðu fréttirnar eru vísbendingar um að unglingarnir sjálfir telja nóg komið af tæknivæðingunni. Í fréttinni á vísi.is segir að
samkvæmt nýlegum fréttum danska ríkisútvarpsins virðist sem unglingar sæki í auknum mæli eftir því að kaupa farsíma sem einungis er hægt að nota til símtala og sms-sendinga.
Símtöl og einföld textaskilaboð eru minni streituvaldur og síðri tímaþjófur en sítenging við alnetið, svo mikið er víst.
![]() |
Helmingur verji of miklum tíma í snjalltækjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 6. ágúst 2023
Skoðanalöggan, veiðileyfið og minnihlutafrekjan
,,Svo verður ekki horft fram hjá því að það er stórhættulegt hvernig skoðanalöggur halda umræðunni í heljargreipum. Þess vegna er svo margt sem erfitt er að ræða; allt frá íslenskri tungu yfir í kristindóminn og allt þar á milli. Þegar við bætist að fjölmiðlum fækkar þá verðum við að tala og tala hátt og ekki láta þessa skoðanakúgun stjórna umræðunni."
Ofanritað er tilvitnun í orð Kristrúnar Heimisdóttur í spjalli við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í Helgarmogga.
Skoðanalöggur gefa aldrei upp nafn og númer. Tilfallandi man ekki eftir neinu dæmi um að einhver hafi gengist við skoðanalöggæslu. Enginn hreykir sér af iðjunni, enda er hún lítilmótleg og einkum tíðkuð af hugleysingjum sem fela sig í fjöldanum.
Skoðanalöggæsla fer þannig fram að einhver fær gefið út á sig veiðileyfi fyrir að segja eitthvað um heilagar kýr, s.s. samfélagshópa eða tískuskoðanir. Veiðileyfið er virkjað með því að fleiri fjölmiðlar taka undir, fréttir endurunnar á samfélagsmiðlum og stjórnmálamenn og umræðufrægir taka undir.
Í virkjuðu veiðileyfi kemst skotspónninn ekki að í umræðunni sem gengur út á að kaffæra það sem raunverulega var sagt en leggja út á versta veg skrumskælda útgáfu. Flestum er annt um álit samborgaranna á sér og taka nærri sér umtalið. Menn biðjast afsökunar eða fara í felur, verða hræddir. Til þess er leikurinn líka gerður.
Mörg veiðileyfi eru gefin út en aðeins fáein virkjuð. En þau eru nógu mörg til að halda fólki í þögn, segja ekki upphátt hugsanir sínar af ótta við að veiðileyfi verði gefið út og það virkjað. Mannorð og stundum atvinna er í hættu.
Skoðanalöggur starfa í tveim deildum. Efri deildin er skipuð fólki úr starfstétt fjölmiðlamanna, stjórnmálamanna og álitsgjafa, sem kallaðir eru umræðufrægir hér að ofan. Þessi deild er fámenn og lagskipt, samtals kannski 150 manns, gróft reiknað. Neðri deildin er fjölskrúðugri og greinist í fjölmarga undirhópa sem eiga þó flestir sameiginlegt að vera á vinstri væng stjórnmálanna. Í fjölda er neðri deildin tí- eða tvítugföld efri deild.
Verkaskiptin milli efri og neðri deilda skoðanalöggæslu er að efri deildin gefur út veiðileyfi en neðri deildin virkjar leyfið.
Skoðanalöggæsla starfar í menningarástandi sem kallast má-ekki-bjóða-þér-að-brjálast og er í grunninn frjálslynd afstæðishyggja. Ef mér finnst eitthvað hlýtur það að vera rétt og þeir sem andmæla mér særa tilfinningar mínar og eru vont fólk sem ætti að missa æru og helst líka lifibrauðið.
Þeir sem hallir eru undir þetta viðhorf eru blindir á að réttur einstaklingsins til persónulegrar sannfæringar getur aldrei vegið þyngra en málfrelsi þeirra sem eru andstæðrar skoðunar. En, nei, tilfinningar skulu trompa bæði andstæðar skoðanir og staðreyndir. Móðgist einhver gróflega er það talið til marks um heilsteyptan málflutning. Grátur með móðgun neglir niðurstöðuna.
Sagnfræðingurinn Eric Hobsbawm kom auga á þessa þróun í uppgjöri við 20stu öld. Um miðjan tíunda áratug liðinnar aldar skrifaði hann að andfélagsleg einstaklingshyggja tröllriði húsum, bæði sem opinber og óopinber hugmyndafræði, jafnvel hjá þeim sem hörmuðu afleiðingar hennar.
Um helgina mátti lesa frásögn karlmanns sem gerðist kona á fimmtugsaldri. Karlkonan sagðist hafa áttað sig á því fjögurra ára, segi og skrifa 4 ára, að hafa fæðst í röngum líkama. Allir sem vita eitthvað um lífið vita það tvennt að ekki er hægt að fæðast í röngum líkama og hitt að fjögurra ára barn veit fjarska lítið um sjálft sig og enn minna um lífið almennt. Karlkonan hefði allt eins getað sagt: ég vissi fyrir fæðingu að mér yrði úthlutað röngum líkama. Í hugmyndafræði andfélagslegrar einstaklingshyggju eru augljóslega vitfirrtar skoðanir teknar góðar og gildar sem trúverðug frásögn um veruleikann.
Einstaklingar haldnir einni eða annarri útgáfu af andfélagslegri einstaklingshyggju rotta sig iðulega saman og smíða sér minnihlutahóp vilja helst fá sérstökum dögum úthlutað á almanaksárinu. Sérviska þeirra andfélagslegu þarf áróðursstöðu og sýnileika. Í krafti þess að vera kúgaður minnihlutahópur gerir sérviskan sig gildandi í samfélagi sem býr ekki lengur að siðferðislegri kjölfestu, sbr. það sem áður sagði um frjálslynda afstæðishyggju, heldur er upp á náð og miskunn sérvitringahópa með skoðanalöggur á sínum snærum.
Í viðtalinu við Kolbrúnu kemur Kristrún inn á frekju minnihlutahópana (án þess að nota orðasambandið) og segir
Það var sagt að ekki mætti innræta börnum neitt. Ef við horfum í kringum okkur þá er fjöldinn allur af aðilum sem hafa frítt spil til að innræta börnum allt mögulegt. Spurningin sem stendur eftir er: Af hverju í ósköpunum mega börn ekki vita eitthvað um Jesúm Krist? Af hverju er það svona hættulegt? Menn þurfa að svara þeirri spurningu.
Tilfallandi amen á eftir efninu.
![]() |
Undarleg þögn um Jesúm Krist |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Laugardagur, 5. ágúst 2023
Frosið Úkraínustríð, en langt í frið
Pútín verður að ósk sinni, frystir Úkraínustríðið. Fyrirsögnin og fréttaskýring er úr bresku útgáfunni Telegraph, sem þekkt er fyrir einarðan stuðning við Úkraínu. Frostið vísar til þess að tveggja mánaða gagnsókn Úkraínuhers skilar nánast engu í landvinningum.
Fréttaskýringu Telegraph lýkur með þeim orðum að líklega verði Selenskí forseti Úkraínu að semja við Pútín.
Stríðið stendur núna um hver ræður frásögninni, segir í úttekt bandarísku NBC-útgáfunnar sem eins og Telegraph er fjarska hlynnt málstað Úkraínu. Gildir raunar um flesta vestræna meginstraumsfjölmiðla.
Frásagnastríð er eitt, vígvöllurinn annað. Sigur í orustu fæst ekki með snjallri frásögn. Tvær mælistikur eru lagðar á framvindu átakanna á sléttum Garðaríkis. Landvinningar og mannfall. Upplýsingar um breytingar á víglinu liggja fyrir, nánast í rauntíma. Þar er staðan svotil óbreytt í tvo mánuði. Dýpra er á tölum um mannfall. Sókn tapar nær alltaf meira en vörnin. Áætlaðar tölur um mannfall Úkraínu í tvo mánuði liggja á bilinu 30 til 40 þúsund.
Gagnsókn Úkraínu átti að knýja Rússa, ef ekki til uppgjafar, þá til að fallast á niðurlægjandi friðarsamninga.
Nú þegar bakhjarlar Úkraínu viðurkenna að gagnsóknin er misheppnuð vaknar spurningin hvað gerist næst. Stjórnin í Kænugarði og vesturlönd vildu ná frumkvæðinu en tókst ekki. Litlar líkur er á að Rússar láti gott heita, telji sig hólpna að halda víglínunni eftir tveggja mánaða harða hríð andstæðingsins.
Stríð hefjast með röngu mati annars stríðsaðila, þess sem bíður lægri hlut. Misskilningurinn stafar oftast af ofmati á eigin getu og vanmati á andstæðingnum. Til að ljúka stríði með friðarsamningum, en ekki uppgjöf, þarf sá aðili sem stendur höllum fæti að viðurkenna dómgreindarleysi og éta ofan í sig fyrri yfirlýsingar. Sú viðurkenning felur oftar enn ekki í sér valdhafaskipti. Tregða til að kannast við hlutlægan veruleika og trúa frásögn óskhyggju er skiljanleg sé haft i huga hvað er í húfi.
Friðarsamningar eru ekki á dagskrá á meðan víglínan er frosin. Til að friður verði ræddur af alvöru þarf annar hvor stríðsaðilinn að horfa í byssuhlaup andstæðingsins og biðja um samninga.
Handverksmenn í hernaði, t.d. bandaríski ofurstinn Douglas Macgregor, segja að úrvinnslan sé eftir og velti mest á hve stóran hluta Úkraínu Rússar ætli sér. Óvænt atriði, bein aðild Pólverja og Litháa, gætu sett strik í reikninginn en skriftin sé á veggnum.
Næsta leik á vígvellinum eiga Rússar. Hvort það verði breið sókn stórra herja eða hægfara mulningsvél er óvíst. Úkraínustríðið er dauði og eyðilegging sem hefði mátt afstýra með samningum. Það verður viðurkennt í stríðslok.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 4. ágúst 2023
Jöklar, loftslagsbreytingar og dólgafræðin
Rómverska hlýskeiðið varði frá um 250 f. Kr. til jafnlengdar eftir fæðingu frelsarans, eða í 500 ár. Hernaðarleg og menningarleg útþensla heimsveldisins náði nyrst til Skotlands. Kuldaskeið í kjölfarið varði til um 900 en þá hófst miðaldahlýskeiðið er stóð til um 1300.
Á miðaldahlýskeiðinu byggðist Ísland og Grænland norrænum mönnum og keltneskum sem stunduðu búfjárbúskap og kornrækt lík og í heimahögum. Litla ísöld er tímabilið um 1300 til 1850, sumir segja 1900. Norræn byggð á Grænlandi lagðist af, en inúítar héldu velli. Stappaði nærri, í lok 18. aldar, að Ísland yrði talið óbyggilegt - móðuharðindin.
Nýja hnitmiðaða samantekt, með tenglum, um þróun veðurfars á líftíma mannsins hér á jörð, má nálgast hér.
Texti, jafnvel byggður á heimildum, er eitt og handfastur veruleiki annað. Jöklarnir á Íslandi og Evrópu hopa í hlýindum eftir lok litlu ísaldar, fyrir 150 árum eða svo. Yfirlætislaus frétt á RÚV segir þá sögu að er jöklarnir skreppa saman opinbera þeir mannvistir fyrri tíðar, t.d. á landnámsöld Íslands. Jöklar voru minni, jafnvel alls engir, á miðaldahlýskeiðinu en sóttu í sig veðrið á litlu ísöld sem beit hvað grimmast um miðja 17. öld.
Sú öld er í evrópskri sögu kölluð galdraöld. Helvíti er heitt, segir kenningin, og kannski ekki voðalegur staður fyrir fólk sem dó unnvörpum úr kulda og vosbúð. Gamanlaust varpar galdraöldin ljósi á mátt kennisetninga. Á Íslandi, þar sem fátt var um eldivið, var dýrmætum sprekum fórnað til að kveikja í fólki sem auðveldlega mátti farga í flæðarmálinu eða drekkja í tjörn. En, nei, dólgafræðin mæltu um líflát á báli. Nú segja viðtekin fræði yfirvaldsins að sé drepið á bensín- og díselvélum geri svalara veður og það forði okkur frá jarðnesku helvíti. Svo á að heita að við lifum á upplýstum tímum án hindurvitna.
Jöklarnir sýna svo ekki verður um villst að veðurfar sveiflast náttúrulega. Engir mannlegir kraftar, eða athafnir mannsins, breyta að veðursaga jarðarinnar býður upp á hlýskeið og tímabil kulda. Ekki er einhugur um ástæðurnar. Upplýstar ágiskanir eru m.a. að virkni sólar sé hluti skýringarinnar.
En svo eru þeir sem trúa að náttúrulegt veður sé hægt að leiðrétta með pólitískri stefnumótun. Einn slíkur var til sjónvarps nýlega. Spyrillinn, kona með prýðilega jarðtengingu, sagði manninn lifa í fábjánalandi. Nokkur eftirspurn virðist eftir þeim heimkynnum, jafnvel frá fólki sem ætti að vita betur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 3. ágúst 2023
Þjóðverjar herða frávísun hælisleitenda
Þýsk stjórnvöld hyggjast herða reglur um frávísun hælisleitenda sem ekki hafa fengið dvalarleyfi í Þýskalandi. Lögreglu verður heimilt að halda þeim sem vísa á úr land i varðhaldi í allt að 28 daga, en var áður tíu dagar.
Hert löggjöf í Þýskalandi er til að létta á álagi við móttöku hælisleitenda og vinsa úr þá sem leita hælis á fölskum forsendum, segir Die Welt. Refsingar eru gerðar hælisleitendum sem veita engar upplýsingar um sig, líka þeim er gera ranga grein fyrir sjálfum sér eða veita ófullnægjandi upplýsingar.
Umboðsmaður hælisleitenda á alþingi, Arndís Anna, er jöfnum höndum selur flóttamönnum lögfræðiþjónustu og veitir þeim ríkisborgararétt sem þingmaður, segir í fréttum RÚV að Ísland ætti að taka Þýskaland sér til fyrirmyndar í málefnum hælisleitenda.
Þá liggur það fyrir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 2. ágúst 2023
Tilfinningar, málfrelsi og vestræn þjáning Svía
Sænska ríkið stendur frammi fyrir meiri ógn en nokkru sinni frá seinna stríði, segir sjálfur forsætisráðherra landsins Úlfur Kristersson.
Stór orð um ástand mála í rómuðu friðarríki Norður-Evrópu.
Ógnin er ekki ein heldur samverkandi þættir. Innflytjendaofbeldi vex, óvissa er um framgang Svía í Nató; leyniþjónustan afhjúpar hryðjuverkaáform íslamista.
Ógnin sem fær flestar fyrirsagnir er þó kóranabrennur á opinberum vettvangi. Kóraninn er helgirit múslíma. Þjóðir sem lífa eftir kenningum spámannsins krefjast aðgerða stjórnvalda gegn guðlastinu.
Sænska hefðin er sú vestræna. Guðlast er leyfilegt. Réttur til tjáningar trompar virðingu fyrir helgisiðum. Í múslímaríkjum er þessu öfugt farið, guðlast er dauðasök.
Brennumenn kóransins i´Svíþjóð eru tveir, já tveir, segir sænski ríkisfjölmiðillinn, SVT. Báðir eru aldir upp í íslamskri trúarmenningu, koma frá Írak.
Tvímenningarnir heita Salwan Momika og Salwan Najem. Salwan Momika kom til Svíþjóðar frá árið 2015. Salwan Najem er líka flóttamaður, kom til Svíþjóðar 1998 og fékk ríkisborgararétt 2005. Sá fyrri er hvatamaður en hinn hjálparhella.
Svíar rata í ógöngur með tjáningarfrelsið þegar múslímskir flóttamenn, sem fá hæli í Svíþjóð, taka upp á íkveikjum á kóraninum og valda milliríkjadeilu milli Svíþjóðar og múslímaríkja.
Ég hætti ekki bókabrennum fyrr en Svíar banna kóraninn, segir Salwan Momika í viðtalinu við sænska ríkisfjölmiðilinn og krefst lögregluverndar þar sem hann iðkar tjáningarfrelsið undir líflátshótunum.
Woke-hugmyndafræðin vestræna leyfir afturköllun mannréttinda og réttlætir atvinnu- og ærumissi þegar í hlut á einstaklingur sem særir tilfinningar annarra. Aðgerðasinnar beita woke og dæmi eru um að opinberir dómstólar taki undir, samþykki að móðgun eins réttlæti mannréttindamissi annars.
Sænsk stjórnvöld gætu í samstarfi við OIC, samtök múslímskra ríkja, tekið woke á Salwan Momika og framselt hann til múslímaríkis. En það verður vitanlega ekki gert þar sem dauðrefsing liggur við guðlasti í trúarmenningu íslam.
Einkaframtak tveggja múslíma í Svíþjóð bregður vandræðalegu ljósi á þróun vestrænnar menningar síðustu áratuga.
![]() |
Kristersson sýnir klærnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 31. júlí 2023
Lævís Svandís þrífst á spillingu fjölmiðla
Spilltir fjölmiðlar, með RÚV í fararbroddi, hafa samfellt í áratug hamrað á spillingu í sjávarútvegi. Seðlabankamálið, Namibíumálið, Sjólamálið og skæruliðadeildin eru stikkorð í raðfréttalygi RÚV og samstarfsmiðla frá 2012.
Skálduð spilling er hvergi til nema í hugarheimi fréttamanna á ríkislaunum að segja ósatt. Seðlabankamálið fór fyrir öll dómsstig, engin spilling. Namibíumálið leiddi ekki einu sinni til ákæru. Sjólamálið var fellt niður eftir 12 ára málarekstur. Engin spilling. Í skæruliðamálinu kom á daginn að fréttamenn misþyrmdu andlega veikri konu, sem að undirlagi fjölmiðla byrlaði Páli skipstjóra Steingrímssyni, stal síma hans og færði blaðamönnum til afritunar. Spillingin var öll hjá blaðamönnum.
Inn í spilltan heim fjölmiðla stígur Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og lætur gera fyrir sig skoðanakönnun um heiðarleika í sjávarútvegi. Sigri hrósandi skrifar Svandís innlegg í Morgunblaðið
Sérstaka athygli vakti að mikill meirihluti almennings telur íslenskan sjávarútveg spilltan, raunar taldi einungis einn af hverjum sex landsmönnum sjávarútveg vera heiðarlegan.
Hvaðan fá landsmenn upplýsingar um spillingu í sjávarútvegi? Jú, vitanlega úr fjölmiðlum. Svandís er enginn fáráðlingur. Hún er önnur kynslóð af stjórnmálamönnum sem kunna að nýta sér spillta fjölmiðla, er segja hvítt svart.
Vilji Svandís uppræta spillingu ætti hún að byrja á RÚV.
![]() |
Óásættanlegt að sjávarútvegur teljist spilltur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 1.8.2023 kl. 08:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 31. júlí 2023
Afhelgun, íslam og kristið umburðalyndi
Múslímar taka það heldur óstinnt upp er teikningar eru birtar af spámanninum og þegar helgur texti trúarinnar, kóraninn, er brenndur opinberlega.
Í vestrinu tekur ekki að brenna biblíuna á götum og torgum, enginn kippir sér upp við það. Ekki heldur þá Jesú er sýndur transkona. Kallast umburðarlynd veraldarhyggja að láta sér fátt um finnast helgispjöllin.
Nú leita norræn ríki úrræða að koma í veg fyrir að íslömsk trúartákn séu vanvirt. Háttvís hugsun en böggull fylgir skammrifi.
Ef lög vernda múslímsk trúartákn en ekki kristin er íslömsk trúarmenning sett skör hærra en sú kristna. Ef krossinn og kristni fá sömu lagavernd og kóraninn og spámaðurinn er hoggið að rótum málfrelsis.
Engin eftirspurn er á vesturlöndum, almennt séð, eftir takmörkunum á rétti til tjáningar af tillitssemi við trúarsannfæringu.
Meginmunur á kristin eftir frönsku stjórnarbyltinguna annars vegar og hins vegar íslam er sá að trú er einkamál í síðkristni. Múslímar á hinn bóginn eru þeirrar hyggju að trú sé hornsteinn samfélags, tryggi góða siðu og háttu í samskiptum manna. Líkt og kaþólska kirkjan taldi á miðöldum.
Í lok viðtengdrar fréttar er eftirfarandi efnisgrein:
Sádi-Arabía og Írak hafa boðað til fundar, sem búist er við að haldinn verði á morgun, með samtökum um íslamska samvinnu, OIC, í Jeddah til að ræða afhelgun Kóransins bæði í Svíþjóð og Danmörku.
Samtök íslamskra ríkja, OIC, skrifa ekki upp á mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem er arfur amerísku og frönsku byltinganna á 18. öld. Samtök íslamskra ríkja samþykktu fyrir rúmum 30 árum sérstaka trúar- og mannaréttindayfirlýsingu, kennd við borgina Kairó. Í Kairó-yfirlýsingunni er mannréttindum sett trúarlegar skorður.
Jafnrétti kynjanna er t.d. ekki á dagskrá. Sjötta grein kveður að konan skuli njóta virðingar en karlmaðurinn sé höfuð heimilisins og beri ábyrgð á velferð fjölskyldunnar.
Afhelgun kristni hófst við lok miðalda. Múslímar telja ekki tímabært að feta sömu slóð. Þeir eru ekki sannfærðir að vestrænn áttaviti siðagilda vísi rétta veginn og halda nokkuð fast í opinberun spámannsins.
Umburðalyndið, sem vestrið státar af, er kristin einstaklingshyggja. Hún verður til með ávarpi uppreisnarmunksins Marteins Lúter 18. apríl 1521. ,,Hér stend ég, annað er mér ekki fært, svo hjálpi mér guð. Amen." Einstaklingurinn í fyrsta sæti, guð í öðru.
Framvindan er ekki á reikning helsta kennimanns mótmælendatrúar en þó afleiðing uppreisnar gegn kennivaldi miðlægs almættis. Nú er sérhver sinn eigin guð. Karlkyns í dag, kvenkyns á morgun og fertugasta kynið daginn eftir. Skurðgoðadýrkun í augum múslíma. Verkefni spámannsins á sjöttu og sjöundu öld eftir Krist var að kveða skurðgoðadýrkun í kútinn.
Trú og vantrú fá ekki samræmst nema undir formerkjum kristinnar einstaklingshyggju.
![]() |
Leita leiða til að koma í veg fyrir Kóranbrennur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 30. júlí 2023
Vísindi, ýkjur og vinsældir
Óopinbert leyndarmál er að vísindi þrífast á vinsældum. Án vinsælda er erfitt að fá fjármang í rannsóknir. Vísindi eru að stórum hluta ritrýndar greinar í fagtímaritum.
Tvær meginleiðir eru til vinsælda. Í fyrsta lagi að fá tilvitnun í sína grein frá öðrum vísindamönnum. Í öðru lagi að meginstraumsfjölmiðlar gerir frétt úr rannsóknaniðurstöðum.
Helkuldi á norðurslóðum er boðaður innan tveggja ára í vísindagrein í Nature, sem þykir virt fagrit, og verður að uppslætti í fjölmiðlum, samanber viðtengda frétt.
Ráðandi frásögn af veðri er að hamfarahiti sé handan við hornið, en ekki manndrápskuldi. Hitamet slegið á Norður-Atlantshafi, segir tveggja daga gömul frétt.
Talsmenn ráðandi frásagnar eru líka fljótir að slá út af borðinu vísindagrein sem boðar langvinnt kuldakast. Breska veðurstofan, sem er í herbúðum þeirra sem trúa á manngerða hlýnun, gaf út yfirlýsingu um að kuldagreinin i Nature væri ekki góð vísindi. Álíka og kaþólska kirkjan gerði á miðöldum þegar einhverjum varð á í messunni og trúði röngu.
Ýkjurnar þarf að samræma, til að ráðandi frásögn haldi vatni og skaffar peninga í rannsóknir og stöðuveitingar. Manngerðar hitabylgjur er kennisetningin. Til að hún virki þarf samræmt göngulag handhafa rétttrúnaðarins.
Þumalfingursregla fyrir leikmenn sem lesa vísindi sér til ánægju og skemmtunar er að taka fremur mark á gömlum vísindamönnum en þeim yngri. Gamlingjarnir nenna ekki vinsældakapphlaupi metnaðarfullu ungmenanna sem vilja breyta heiminum með tískuvísindi að vopni.
Tilfallandi vitnar stundum til manna eins og Judith Curry, William Happer, Richard Lindzen, John Christy og Roy Spencer. Allt fólk á eftirlaunaaldri er lætur sér fátt um finnast bernskar ýkjur og veraldarbrölt aðgerðasinna á öllum aldri. Vísindi eru þekking í huga þeirra gamalreyndu en ekki verkfæri til valda og áhrifa í samfélagi líðandi stundar.
Einn til er Svíinn Lennart Bengtsson. Hann segir að eftir hundrað ár tali enginn lengur um veðrið í samhengi við loftslagsvá. Þangað til skemmtum við okkur yfir ýkjuvísindum með trúarívafi.
![]() |
Boða stöðvun hafstrauma við Ísland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 29. júlí 2023
Skytt-ævintýri sakborninga RSK-miðla
Fimm blaðamenn RÚV, Stundarinnar og Kjarnans, RSK-miðla, eru sakborningar í lögreglurannsókn á byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans. Sakborningarnir réðu Danann Lasse Skytt til að skrifa fréttir fyrir sig í norræna fjölmiðla.
Skytt auglýsir sig sem textahöfund, blaðamann og almannatengil, er skrifar fagalegan texta í þágu verkkaupa. Íslenska orðið um þessa starfsemi er leigupenni. Á götumáli: lygari til leigu.
Sakborningarnir keyptu Skytt til að segja þá sögu í fréttaformi að íslenskir blaðamenn væru ofsóttir af lögreglu fyrir að afhjúpa síðnýlenduglæpi Samherja í Namibíu.
Skytt gekk til verks samkvæmt forskrift sakborninga. Hann endurvann ásökunarfréttir RSK-miðla og fékk tvær útgáfur sömu fréttar birtar í danska fagblaðinu Journalisten annars vegar og hins vegar í norsku útgáfunni Innsikt-Aftenposten.
Fréttin í norsku útgáfunni var ítarlegri og efnismeiri. Hún birtist í febrúarhefti Innsikt á þessu ári. En þá kom babb í bátinn. Ritstjóra Innsikt var gert aðvart að ekki væri allt með felldu í grein danska leigupennans og hóf sjálfstæða rannsókn á tilurð fréttarinnar. Skytt var krafinn um heimildir sem staðfestu frásögnina. En hann hafði ekkert í höndunum nema framburð sakborninga í glæparannsókn.
Ritstjóri Innsikt-Aftenposten sá sig knúinn að birta ítarlega afsökun á að hafa birt texta Skytt sem frétt. Tilfallandi fjallaði um afsökunina:
Í marsútgáfu Innsikt er löng afsökunarbeiðni þar sem raktar eru margar villur og rangtúlkanir í grein Skytt. Íslensku blaðamennirnir útveguðu Skytt aðgang að Jóhannesi Stefánssyni, svokölluðum uppljóstrara. Jóhannes talar aðeins við þá blaðamenn sem gleypa frásögn hans hráa og fjalla ekki um hve vafasöm heimild uppljóstrarinn er.
Í afsökunarbeiðni Innsikt er tekið fram að útgáfan hafi ekki séð neinar trúverðugar heimildir um að Jóhannes hafi fyrir hönd Samherja mútað embættismönnum í Namibíu. ,,Það hefði átt að koma fram í greininni," segir Innsikt, ,,að Jóhannes er einn til frásagnar um að hafa stundað mútur."
Skytt hafði ekki samband við Samherja þegar hann undirbjó greinina. Enda var Skytt í vinnu hjá RSK-miðlum til að ófrægja Samherja. Aldrei stóð til sjónarmið annarra en RSK-miðla kæmust á framfæri. Afsökunarbeiðni Innsikt segir: ,,Verkferlar hjá okkur brugðust. Grunnatriði blaðamennsku er að ásakanir séu bornar undir þá sem þær beinast að. Það var ekki gert í þessu tilviki."
Innsikt biðst einnig afsökunar á að í grein Skytt séu yfirheyrslur lögreglu yfir blaðamönnum tengd Namibíumálinu. Umfjöllun um skýrslutöku lögreglu af blaðamönnum átti ekki heima í umfjöllun um Namibíumálið, segir í yfirlýsingu Innsikt. Blaðamennirnir eiga aðild að byrlun, gagnastuldi og brot á friðhelgi. Það er sjálfstætt mál kennt við Pál skipstjóra.
Skytt-ævintýri RSK-miðla var ekki lokið. Í júlíútgáfu Innsikt-Aftenposten ítrekar ritstjórnin afsökun um að hafa birt frétt Skytt. Það er gert inngangi að yfirlýsingu Eiríks S. Jóhannessonar stjórnarformanns Samherja.
Lykilsetning í yfirlýsingu Eiríks er að Namibíumál RSK-miðla hafi ekki verið ,,leit að sannleikanum heldur markviss árás með rætur í íslenskri pólitík."
Sakborningarnir fimm, íslensku blaðamennirnir, eru einstaklingar. Á bakvið þá stendur RÚV, ríkisfjölmiðillinn sem er aðgerðamiðstöð í pólitískum árásum á einstaklinga og fyrirtæki. Útvarpsstjóri hefur ekki gert grein fyrir þessu sérstaka hlutverki RÚV.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)