Ímyndarkreppa blaðamanna, fagna ekki fjölmiðlafrelsi

Afgerandi meirihluti Íslendinga, 57 prósent, telur fjölmiðlafrelsi mikið hér á landi, samkvæmt nýrri könnun. Aðeins 14 prósent landsmanna telja fjölmiðlafrelsi lítið. Tæpur þriðjungur telur frelsi fjölmiðla í meðallagi.

Á milli ára hækkar hlutfall þeirra sem telja þjóðina njóta mikils fjölmiðlafrelsis um 7 prósentustig, úr 50% í 57%. Maskína gerði rannsóknina.

Hvers vegna lítt eða ekkert sagt frá þessum tíðindum? Þjóðin er afgerandi ánægð með stöðu fjölmiðla hvað frelsi þeirra áhrærir en blaðamenn þegja þunnu hljóði. Ættu blaðamenn ekki að kætast opinberlega og ræða í frásögnum og viðtölum magnaða stöðu frelsis fjölmiðla í vitund almennings? Er ekki hlutverk blaðamanna að ,,setja fréttir í samhengi"? En hvorki er frétt né samhengi.

Þögn blaðamanna skýrist af ímyndarkreppu. Í rúm tvö ár, frá febrúar 2022, hafa blaðamenn hér á landi keppst við að telja almenning trú um að þeir sæti ofsóknum yfirvalda, sem sigi lögreglu á blaðamenn er hafi það eitt til saka unnið að segja fréttir. Blaðamenn sannfærðu sjálfa sig að þeir njóti ekki frelsis. En ófrelsið er innanmein blaðamennskunnar, ekki ytri skilyrði frjálsrar fjölmiðlunar. Blaðamenn sökktu sér fyrir rúmum tveim árum djúpt í eigin lygavaðal. Þeir eru ekki enn komnir upp úr kafinu. Vegna sakamáls tapaði blaðamannastéttin dómgreindinni, trúir lyginni en hafnar sannindum.

Hér er vitanlega átt við byrlunar- og símastuldsmálið. Það hófst vorið 2021 með byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar. Í febrúar 2022 fengu fjórir blaðamenn á þrem fjölmiðlum, RÚV, Stundinni og Kjarnanum (RSK-miðlum) stöðu sakbornings. Síðar bættist við fimmti blaðamaðurinn grunaður um glæp, Ingi Freyr Vilhjálmsson, áður á Stundinni/Heimildinni en nú á RÚV.

Blaðamenn ruku upp til handa og fóta þegar tilkynnt var um sakborningana. Blaðamannafélag Ísland fordæmdi að blaðamenn skyldu boðaðir í skýrslutöku hjá lögreglu. Að undirlagi blaðamanna efndu ungliðahreyfingar vinstriflokkanna til mótmæla á Austurvelli. Í fundarboði sagði

Fjölmennum á Austurvöll og sýnum samstöðu með frjálsum fjölmiðlum. Að lögreglan á Norðurlandi Eystra skuli kalla til yfirheyrslu fjölmiðlafólk fyrir gagnrýna umfjöllun með erindi til almennings er óásættanleg skerðing á tjáningarfrelsi

En almenningur er á allt annarri skoðun en blaðamenn. Hér á Íslandi er fjölmiðlafrelsi. Almenningur veit sem er að fjölmiðlafrelsi er eitt en alvarleg lögbrot annað. Sumir blaðamenn líta aftur svo á að blaðamennska veiti sérstaka heimild til siðleysis og lögbrota. Hvergi á byggðu bóli, nema Íslandi, gætir þessara sjónarmiða. Drep er komið í beinmerg blaðamennskunnar hér á landi.

Ímyndarkreppa íslenskra blaðamanna felst í því að forysta Blaðamannafélags Íslands og sakborningar í byrlunar- og símastuldsmálinu hafa klappað þann stein í rúm tvö ár að hér á landi séu saklausir blaðamenn ofsóttir. Aðrir blaðamenn ljúga í meðvirkri þögn með sakborningum. Engum blaðamanni eða fjölmiðli dettur í hug að skera upp herör gegn ósómanum og upplýsa aðild þriggja fjölmiðla að byrlun og þjófnaði vorið 2021. Blaðamenn véluðu andlega veika konu til verksins. Greinargerð lögreglu frá 23. febrúar 2022 staðfestir aðild blaðamanna og óverjandi framkomu þeirra gagnvart veikum einstaklingi. En það er ekkert að frétta. 

Afleiðingin er að gjá er staðfest á milli blaðamanna og almennings. Gjáin birtist í skringilegum skilaboðum, svo vægt sé til orða tekið, frá forystu blaðamanna. Þannig skrifar Sigríður Dögg formaður Blaðamannafélags Íslands í síðasta tölublað Heimildarinnar: 

Blaðamannafélag Íslands skorar hér með á tekjuhæsta hóp landsmanna að sýna samfélagslega ábyrgð og styðja duglega við fjölmiðla landsins og stuðla þannig að öflugri blaðamennsku sem skiptir samfélagið máli. Til þess eru margar leiðir, svo sem að fyrirtæki kaupi áskriftir að fjölmiðlum handa hverjum einasta starfsmanni, ...

Auðmenn eiga sem sagt að halda uppi starfandi fjölmiðlum, kaupa áskrift að fjölmiðlum þótt enginn sé áhuginn, segir formaður félags blaðamanna. Hvers konar skilaboð eru þetta? Er það í þágu almannahagsmuna að auðmenn ráði ferðinni í fjölmiðlum? Falbýður formaðurinn blaðamenn til hæstbjóðenda? Tilboð formanns BÍ er í hæsta máta siðlaust. Fjölmiðlar eiga að vaxa og dafna eigi þeir erindi til almennings en lélegir miðlar deyja drottni sínum. Fjölmiðlafrelsi tryggir að hver sem er getur stofnað miðil. 

Sigríður Dögg er hluti af ímyndarkreppu blaðamannastéttarinnar. Hún er skattsvikarinn sem heldur fram að það sé einkamál hvort og hve mikið stolið er frá samneyslunni. Með Sigríði Dögg sem formann blaðamanna er hræsnin gerð formleg. Blaðamenn þýfga mann og annan um hitt og þetta ósiðlegt eða ólöglegt en formaður þeirra er skattsvikari og kemst upp með það.

Blaðamenn verða sjálfir að vinna sig úr siðferðilegri kreppu sem hægt en örugglega grefur undan tiltrú og trúverðugleika stéttarinnar. Þeir ættu að taka sér til fyrirmyndar Fríðu Björnsdóttur, handhafa blaðamannaskírteinis númer eitt. Fríða er á níræðisaldri, orðin sjóndöpur. En hún hefur skýra sýn á kjölfestuna sem blaðamennska getur ekki verið án. Kallast heiðarleiki. Blaðamenn eiga ekki að brjóta lög, hvorki með byrlun, þjófnaði eða skattsvikum. Þeir eiga heldur ekki að misþyrma andlega veiku fólki og fá það til óhæfuverka. Skrítið að þurfa segja þetta, en svona er komið fyrir blaðamannastéttinni á Íslandi.


Verðbólga, DNA og krónan

Seljandi vöru og þjónustu hækkar verðið í trausti þess að kaupendur kippi ekki að sér höndunum. Kaupendur, sem hafa ekkert að selja nema vinnuaflið, hækka launataxta til móts við verðlagshækkun. Með verkföllum ef ekki vill betur.

Fyrirkomulagið, sem lýst er hér að ofan, kallast víxlhækkun og var við lýði á Íslandi öll lýðveldisárin og fram að þjóðarsáttinni 1990. Víxlhækkun verðlags og launa er í erfðamengi íslenska vinnumarkaðarins, eins og Sigurður Ingi fjármálaráðherra vakti athygli á og fékk bágt fyrir, einkum frá vinstrimönnum.

Þjóðarsáttin 1990 þurrkaði ekki upp verðbólguerfðamengið, það tekur tíma. 34 ár eru ekki langur tíma í hagsögunni.

Heimska er ríkari erfðaþáttur í samfélaginu en verðbólga. Viðreisn og margir í Samfylkingu vilja skipta út íslensku krónunni til að ná niður verðbólgu. Skipta út víxlhækkun verðlags og launa fyrir víxlhækkun launa og atvinnuleysis. 


Menningarkristni og vísindi

Menningarstríðið er komið á það stig að jafnvel vantrúaðir á vesturlöndum halla sér að kristni. Vitfirrta vinstrið er komið svo langt inn í vúdú (manngert loftslag og trans) að gamaldags trú á föðurinn, soninn og heilagan anda er jarðbundin í samanburði.

Frægasti trúleysingi samtímans er án efa líffræðingurinn Richard Dawkins. Hann hefur í áratugi í bókum, greinum og fyrirlestrum herjað á trú almennt og kristna trú sérstaklega. Dawkins er síðdarwinisti, útskýrir jarðlíf og mennsku út frá þróunarkenningu Darwin. Ef einhver einn er ábyrgur fyrir vísindalegu guðleysi seinni ára er það Dawkins.

Dawkins er kominn á níræðisaldur og man tímana tvenna. Á sokkabandsárum hans og fram undir nýliðin aldamót var í menningu okkar gengið að vísu að sitthvað væri huglæg reynsla, s.s. tilfinningar, og annað hlutveruleiki. Menn geta fundið hitt og þetta í huga sér, sumt svarar til ytri veruleika en annað ekki. Maðurinn er þannig gerður, getur ímyndað sér hluti sem eru ekki. Vísindin voru, á uppvaxtarárum Dawkins, kirfilega á bandi þeirra sem sögðu að staðhæfingar um heiminn yrðu annað tveggja að vera röklega réttar, t.d. tveir plús tveir eru fjórir, eða staðfestar í ytri veruleika, með athugunum eða tilraunum, til að staðhæfingarnar teldust sannar.

Dawkins hefur áður komið við sögu í tilfallandi athugasemdum:

Hann afgreiðir trans-menninguna með þeim orðum að segist karl vera kona geti hann allt eins sagst vera hundur, þá líklega rakki fremur en tík.
Dawkins segir trans jaðra við geðveiki. Í viðtalinu vill hann ekki útiloka að í heila karls gætu leynst kvenlegir drættir. En að karl geti hoppað úr sínu líffræðilega kyni í andstætt kyn með tilfinningunni einni saman sé brjálæði.

Guðleysi Dawkins er byggt á vísindum hlutveruleikans, stundum kölluð náttúruvísindi. En nú segist Dawkins orðinn kristinn. Ekki persónulega trúaður á frelsarann og heilaga ritningu en kristinn engu að síður.

Dawkins segist menningarkristinn.

Hvað á líffræðingurinn við? Jú, menningarkristinn er sá sem telur trúarlegan grunn vestrænnar menningar mikilvægan. Fyrir fimm árum var haft eftir Dawkins að kristni, og trú almennt, væri ómissandi þáttur í siðferði samfélagsins. 

Dawkins er sem sagt menningarlega og siðferðilega kristinn. En líklega ekki vísindalega kristinn. Enda er það enginn maður með öllum mjalla. Eða svo skyldi ætla.

En bíðum við. Frumkvöðlar vísindanna, Descartes og Newton, svo aðeins tveir séu nefndir, voru kristnir í merkingunni trúðu á guð. Einstein hafnaði ekki guði. Hugmyndin að vísindi og kristni samrýmist ekki er ný af nálinni.

Guðstrú og vísindi eru falskar andstæður. Vísindi fást við hlutveruleikann. Vísindin starfa í heimi röklegra sanninda annars vegar og hins vegar hlutlægra sanninda. Guð, samkvæmt skilgreiningu, er hvorki röklegur né hlutlægur.

Sannindi vísindanna eru alltaf með þeim fyrirvara að við vitum ekki betur. Fyrirvarinn er forsenda vísindalegra framfara. Vísindalegt guðleysi er aðeins þeirra sem sannfærðir eru um endanlegan sannleika. Það er trúarlegt sjónarhorn, ekki vísindalegt.

Efi og óvissa er hlutskipti mannsins. Fyrrum sefaði trúin en nú sækja menn líkn í vísindin. Skurðgoðadýrkun heitir sú iðja. 

 


Kúrsk blekking, Krím markmiðið?

Úkraínuher sækir fram í Kúrsk-héraðinu í Rússlandi. Samvkæmt DPA-rásinni er víglínan fljótandi. Frumkvæðið í höndum Úkraínuhers en Rússar elta. Vestrænir meginstraumsmiðlar vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga: flýtir Kúrsk-aðgerðin falli Úkraínu eða er hún snjallasta herbragð seinni tíma stríðssögu og færir Selenenskí og félögum sigur yfir Pútín og Kremlarherrum?

Þýska útgáfan Die Welt er dæmi um tvísagnir af Kúrsk-aðgerðinni. Um hádegisbil í gær birtist fréttaskýring sem sagði aðgerðina flýta ósigri stjórnarhersins. Vitnað er í sérfræðinga sem draga upp dökka mynd af möguleikum Úkraínuhers í Kúrsk. Meginniðurstaða er að Úkraínu skorti mannskap og vestræn hergögn til að knýja fram sigur í Kúrsk og leggja undir sig rússneskt land svo nokkru nemi.

Síðdegis í gær birtist í sömu útgáfu, þ.e. Die Welt, fréttaskýring, einnig með vísanir í hernaðarsérfræðinga, er segir Kúrsk-aðgerðina í norðri líklega blekkingu af hálfu stjórnarinnar í Kænugarði. Raunverulegt markmið er leifturárás í suður, til að ná aftur Krímskaganum, sem Rússar hertóku fyrir áratug. Málsmetandi sérfræðingar virðast trúa að Úkraínuher sé í stakk búinn að stríða samtímis í norðri og suðri með árangri. En sami her gefur eftir á meginvíglínunni í Austur-Úkraínu.

Rússar ná síðustu daga verulegum landvinningum á austurvígstöðvum, á Donbass-svæðinu. Sé Kúrsk blekking og Krím næst á matseðlinum verður árangur í norðri og suðri keyptur með tapi í austri. Ef, og það er stórt ef, þetta sé raunveruleg áætlun Úkraínu. 

Fréttir eru af stórfelldum liðssafnaði í Hvíta-Rússlandi, bandamanni Rússlands, við landamæri Úkraínu vestur af Kúrsk-héraði. Hersveitirnar í Hvíta-Rússlandi gætu verið rússneskar. Sé það tilfellið eru uppi áform um sókn að Kænugarði, höfuðborg Úkraínu.

Stríðsþoka er hugtak úr hernaðarfræðum. Átt er við að kvik staða á vígvellinum geri ómögulegt að spá um úrslit. Stríðsþoka virðist hafa lagst yfir stríðið í heild sinni síðustu daga. Tilfallandi skoðun er að Kúrsk sé ekki blekking og það verði engin árangursrík leifturárás á Krímskaga. Kúrsk-aðgerðin mun ekki skila niðurstöðunni sem vænst var, að Rússar flyttu herlið í stórum stíl frá Donbass til að verja móðurlandið. Kúrsk-hérað er ekki hernaðarlega mikilvægt svæði. Rússar hafa efni á að láta Úkraínuher leika þar lausum hala um hríð. Úkraína, aftur, hefur ekki efni á að tapa Donbass, austurvígstöðvunum. Eftir sigur þar er Rússum leiðin greið að Dnjepr-fljóti sem klýfur Úkraínu í tvennt.

 


mbl.is Drónaárásir á báða bóga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigríður Dögg: byrlun, bruðl og skattsvik

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, þá fréttamaður á RÚV, var frambjóðandi RSK-miðla til formennsku Blaðamannafélags Íslands vorið 2021. Hún fékk sigur. RSK-bandalagið, RÚV, Stundin og Kjarninn, réðu ferð íslenskra fjölmiðla. Ferðalagið er markað lögbrotum og siðleysi.

Sigríður Dögg fékk kjör í lok apríl 2021. Fáeinum dögum síðar hófst byrlunar- og símastuldsmálið. Það er framhald af Namibíumálinu, ásökunum RSK-miðla að Samherji hafi stundað stórfelldar mútugjafir í Afríkuríkinu. Páli skipstjóra Steingrímssyni var byrlað í byrjun maí, síma hans stolið og hann afritaður á RÚV. Stundin og Kjarninn birtu 21. maí skáldskap með vísun í gögn skipstjóra Samherja.

Sigríður Dögg, nýkjörinn formaður Blaðamannafélagsins, fékk það hlutverk að ljá herferð RSk-miðla trúverðugleika. Þrem vikum eftir að Stundin og Kjarninn birtu falsfréttirnar um ,,skæruliðadeild" Samherja hélt Sigríður Dögg norrænt málþing um fjölmiðlafrelsi á Íslandi. Ein meginspurning málþingsins var eftirfarandi:

Hafa blaðamenn á hinum Norðurlöndunum upplifað viðlíka árásir á fréttamenn og Samherji hefur ástundað?

Samherja gerði aldrei eina eða neina árás á fjölmiðla. Úr slitrum í síma Páls skipstjóra bjuggu blaðamenn til tröllasögur. Samræmdur málflutningur RSK-miðla bjó til þá ímynd að Samherji hefði öll ráð fjölmiðla í hendi sér. Veruleikinn var allur annar. Samherji var skotmark RSK-miðla. Á málþinginu voru heiðraðir tveir RSK-liðar, Helgi Seljan og Þórður Snær Júlíusson. 

Ef eitthvað væri hæft í ásökunum um að Samherji væri gerandi á fjölmiðlamarkaði, eða sæti færis að gera blaðamönnum skráveifu ættu að liggja fyrir heimildir um það. Að frátöldum RSK-uppspuna er engin heimild til um að Samherji stundi ,,árásir á fréttamenn." En sé logið nógu oft með samræmdum hætti á nokkrum fjölmiðlum verður til frásögn sem stór hluti almennings trúir. Til að auka trúverðugleikann eru manneskjur eins og Sigríður Dögg þénugt verkfæri, sama gildir um þingmenn Pírata og Samfylkingar.

Byrlunar- og símastuldsmálið felldi ekki Sigríði Dögg sem fréttamann RÚV. Tilfallandi fékk upplýsingar sumarið 2023 um að Sigríður Dögg hefði verið staðin að skattsvikum. Heimildin var traust en fór fram á nafnleynd. Fyrsta bloggið um skattsvik Sigríðar Daggar birtist 4. júlí. Ritstjórn Morgunblaðsins fékk áhuga á fjármálum formanns Blaðamannafélagsins tveim mánuðum síðar og birti frétt 11. september 2023. Í framhaldi játaði Sigríður Dögg skattsvik. En hún neitaði að tjá sig frekar, sagði sín skattsvik einkamál.

En skattsvik eru óvart opinbert fréttamál eins og fjöldinn allur af fréttum fjölmiðla um stærri og smærri skattaundanskot vitna um. Stefán Eiríksson útvarpsstjóri ræddi við Sigríði Dögg í september 2023. Í framhaldi var ákveðið að hún léti af störfum á fréttastofu RÚV um áramótin síðustu. Látið var heita að fréttamaðurinn þyrfti að sinna betur formennsku Blaðamannafélags Íslands. Í raun þurfti Sigríður Dögg nýtt starf. RÚV treysti sér ekki til að hafa skattsvikara á launaskrá. Kemur frekar illa út að ríkisfjölmiðill fjármagnaður með skattfé sem með á mála fréttamann af sort Sigríðar Daggar. Kallar RÚV þó ekki allt ömmu sína í þeim efnum.  Tilfallandi blogg frá 12. janúar í ár útskýrir:

Stefán gæti hafa sagt eitthvað á þessa leið við Sigríði Dögg: Eins og þú veist er fréttamönnum sjaldnast sagt upp þegar staða þeirra er faglega óverjandi. Það kemur illa út í fjölmiðlaumræðunni að fréttamenn séu reknir. Þá er í leiðinni viðurkennt að RÚV hafi orðið á mistök. Það viljum við ekki. En vegna skattsvikamálsins vil ég að þú takir þér til fyrirmyndar Rakel, Helga og Þóru sem tóku pokann sinn þegar öllum var ljóst að faglega var ótækt að þau störfuðu áfram á fréttastofu sem vill halda í trúverðugleika sinn.

Hafi Stefán sagt eitthvað á þessa leið varð Sigríður Dögg að leita sér að starfi. Ekki gat hún orðið blaðamaður á öðrum fjölmiðli með óuppgert skattsvikamál á bakinu. Ekkert fyrirtæki eða stofnun gæti gert hana að talsmanni sínum af sömu ástæðu. Sigríður Dögg hafði áður starfað sem almannatengill.

Hvað var þá eftir?

Jú, staða framkvæmdastjóra Blaðamannafélags Íslands. Eitt vesen þó. Fyrir á fleti er Hjálmar Jónsson. Í fyrradag var málið leyst. Sigríður Dögg rak Hjálmar úr starfi og settist sjálf í volgan stólinn og fær strax beinan aðgang að fjármunum félagsmanna. Sér til halds og trausts við brottreksturinn hafði Sigríður Dögg varaformann sinn, Aðalstein Kjartansson, sakborning í byrlunar- og símastuldsmálinu.

Hjálmur Jónsson átti að baki tveggja áratuga flekklausan feril sem framkvæmdastjóri og áður formaður Blaðamannafélagsins. Hvernig gat Sigríður Dögg réttlætt að víkja honum úr starfi? Jú, hún fór í smiðju RSK-miðla og skáldaði ávirðingar á Hjálmar. Til að gera ávirðingarnar trúverðugar keypti formaðurinn þjónustu lögfræðinga og endurskoðenda. Fjármunum félagsins var bruðlað til að réttlæta tilhæfulausan brottrekstur Hjálmars. Sigríði Dögg er ekkert heilagt, ekki frekar en öðrum RSK-liðum.

Fríða Björnsdóttir blaðamaður og félagi í Blaðamannafélaginu í 62 ár, já sextíu og tvö ár, gjörþekkir félagið. Hún er í fyrirsvari 26 félagsmanna sem vilja ekki láta gott heita að Sigríður Dögg fari með stéttafélag blaðamanna eins og skattsvikin; þetta er mitt einkamál.

Í viðtengdri frétt er haft eftir Sigríði Dögg að hún vilja ,,tryggja að vel sé hugsað um eign­ir fé­lags­manna og að sjóðir þeirra séu sjálf­bær­ir." Skattsvikarar eru auðvitað best til þess fallnir að gæta fjár annarra.

Þorri blaðamanna lætur sér vel líka að skattsvikari sé formaður þeirra. Aðeins tveir fjölmiðlar segja fréttina af andófi Fríðu Björnsdóttir og félaga. Morgunblaðið, samanber viðtengda frétt, og Mannlíf. Aðrir fjölmiðlar ljúga með þögninni.

 

 

 


mbl.is Félagar í BÍ krefjast svara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigríður tekur sér ráðherravald, Guðrún á aðeins einn kost

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari tók fram fyrir hendur dómsmálaráðherra er hún krafðist að Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari skilaði lyklum og vinnutölvu. Sigríður beindi til Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra fyrir þrem vikum að Helga Magnúsi yrði vikið tímabundið frá störfum. 

Að krefjast lykla og vinnutölvu af Helga Magnúsi jafngildir uppsögn. Helgi Magnús kemur úr sumarfríi eftir þrjá daga. Sigríður ríkissaksóknari vildi útiloka að Helgi Magnús kæmist í vinnuna, láta þar með dómsmálaráðherra standa frammi fyrir orðnum hlut.

Fyrir hefur Sigríður viðurkennt að það sé ekki á hennar valdi að víkja vararíkissaksóknara úr starfi. Ekki einu sinni tímabundið. Vararíkissaksóknari er skipaður af ráðherra og Sigríður óskaði eftir við ráðherra að honum verði vikið tímabundið úr starfi. En á meðan ráðherra ígrundar tekur Sigríður ákvörðum, rekur Helga Magnús með kröfu um að hann afhendi lykla og vinnutölvu. Afturköllun Sigríðar á kröfunni er ígildi þess er þjófur skilar þýfi. Þjófur samt. 

Stjórnsýsla Sigríðar er sjálftekt: ég á embætti ríkissaksóknara og má gera það sem mér sýnist.

Upphaflegt álitamál í deilu Sigríðar og Helga Magnúsar var hvort hann hefði látið orð falla í opinberri umræðu sem samrýmdust ekki starfi hans. 

Deilan snýst ekki lengur um orð Helga Magnúsar heldur athafnir Sigríðar. Ríkissaksóknari þverbrýtur lög og sýnir skýra og ótvíræða eineltistilburði gagnvart embættismanni. 

Sjálftaka Sigríðar á ráðherravaldi skilur Guðrúnu dómsmálaráðherra eftir með aðeins einn kost. Ef Guðrún víkur Helga Magnúsi úr starfi samþykkir ráðherra að æðstu embættismenn taki lögin í sínar hendur og stundi geðþóttastjórnsýslu. Fordæmið er skelfilegt fyrir réttarríkið - hér á í hlut ríkissaksóknari. Guðrún getur ekki annað en hafnað þriggja vikna gamalli beiðni Sigríðar um að víkja Helga Magnúsi tímabundið frá störfum. 

Ef Sigríði ríkissaksóknara er annt um lög og rétt í landinu segir hún af sér. 


mbl.is „Hún getur ekki svipt mig starfinu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kúgun kvenna og múslímar

Ríkisstjórn Verkamannaflokksins í Bretlandi hyggst grípa til aðgerða gegn vaxandi kvenfyrirlitningu og kúgun kvenna. Um fjórar milljónir múslíma búa í Bretlandi og eru næst stærsta trúarhreyfingin.

Múslímaríki samþykkja ekki mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Mannréttindaskrá íslamskra ríkja kallast Kaíró-yfirlýsingin. Í sjöttu grein hennar segir að eiginmaðurinn sé ábyrgur fyrir velferð og afkomu fjölskyldunnar.

Yfirvald karls yfir konu, hvort heldur eiginkonu, dóttur, móður eða systur í múslímskri trúarmenningu birtist í mörgum myndum og ekki hægt að alhæfa um öll samfélög múslíma. En kjarninn í trúarmenningu íslam er skýr. Konan á fyrst og fremst að sinna heimilinu. Á opinberum vettvangi á konan helst að vera í fylgd náins karlættingja. Í öfgafyllstu myndum birtist kvenkúgunin í svokölluðum ærumorðum. Í þeim tilvikum er systir eða dóttir myrt fyrir að hlýða ekki feðraveldinu í vali á maka.

Í leiðbeiningum um hvernig eiginmaður skuli tjónka við eiginkonu sem krefst sjálfræðis er fyrst mælt með harðri áminningu, síðan að neita að sænga með konunni og loks leggja á hana hendur, láti hún ekki segjast.

Á vestrænan mælikvarða er jafnaðarmerki milli íslam og kúgunar kvenna. Múslímar hafa eflaust aðra sögu að segja og færa rök íslamskrar trúarmenningar fyrir því að fjölskyldan skuli ekki tvíhöfða þurs, með jafnræði milli eiginmanns og eiginkonu. Sú hugsun er andstæð vestrænum gildum sem kveða á um jafnræði kynjanna og birtist í stjórnarskrám vestrænna ríkja sem og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Eflaust nýtur fjöldi múslímskra kvenna í Bretlandi vestræns jafnréttis. En jafnvíst er að margar múslímskar fjölskyldur þar í landi heiðra trúarmenningu sem setur konur skör lægri en karla.

Ef ríkisstjórn Bretlands hyggst segja kvenfyrirlitningu og kúgun kvenna stríð á hendur verður óhjákvæmilegt að skoða stöðu múslímskra kvenna þar í landi. Það verður aftur þrautin þyngri. Trúarleg helgun íslam á sifjareglum stendur þar andspænis vestrænu jafnrétti.

 

 


mbl.is Kvenfyrirlitning verði skoðuð sem öfgar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grafarró og salernisfriður í menningarstríðinu

Tvær fréttir af vígstöðvum menningarstríðsins í liðinni viku eru að kirkjugarðar og krossinn skulu út af sakramentinu annars vegar og hins vegar að konur eru sviptar friðhelgi á opinberum salernum.

Á yfirborðinu ekki þungavigtarmál en bæði taka til rótgróinna siða. Venjur og siðir móta samfélagið og taka hægum breytingum. Nema þegar niðurrifsöfl ráða ferðinni.

Frá kristnitöku fyrir þúsund árum eru menn jarðsettir í kirkjugarði og þar á krossinn heima. Kross og kirkjugarður er hluti af menningu okkar. Þeir fáeinu sem ekki sætta sig við greftrunarsiði samfélagsins eiga sem hægast að fara aðra leið, láta brenna sig eða husla utan garðs. 

Salerni hafa verið kynjaskipt á veitingahúsum, stærri vinnustöðum og opinberum byggingum. Venjan er einkum til hagræðis fyrir konur. Þorri karla lætur sér litlu skipta hvar vatni er kastað. Kynjaskipt salerni varða öryggi kvenna. Salernum má loka og læsa eins og kvenkyns þingmaður Pírata auglýsti rækilega síðasta vetur. Fyrir afnám kynskiptra salerna var karl á bannsvæði á kvennaklósetti. Pervertareglur veita nú körlum frjálsan aðgang að einkarýmum sem áður voru kvenna einna.

Hvers vegna er grafarró raskað og konum gert að sjá af sjálfsögðum réttindum?

Jú, barátta stendur yfir um skilgreininguna á okkur sem einstaklingum og samfélaginu sem við búum í. Tvö öfl takast á, hefð og niðurrif. Hefðin er til hægri, niðurrifið til vinstri.


Flótti frá Heimildinni, uppreisn meðal hluthafa

Enn einn blaðamaður hættir á Heimildinni. Alma Mjöll Ólafs­dótt­ir verður fram­kvæmda­stjóri þing­flokks Vinstri grænna, segir í viðtengdri frétt. Í vor hættu tveir blaðamenn, Freyr Rögnvaldsson og sakborningurinn Ingi Freyr Vilhjálmsson. Fyrir þrem vikum lét af störfum annar tveggja aðalritstjóra útgáfunnar, Þórður Snær Júlíusson, eftir átök í hluthafahópnum.

Heimildin varð til í byrjun árs 2023 með samruna Stundarinnar og Kjarnans. Byrlunar- og símastuldsmálið knúði á um sameininguna. Fjórir blaðamenn, tveir af hvorum miðli, hafa stöðu sakbornings. Fimmti á ritstjórn Helgi Seljan rannsóknaritstjóri tengist málinu þótt ekki hafi hann formlega réttarstöðu, að því best er vitað. Sóknarfæri voru talin í að sameina sakborninga og gera úr þeim fórnarlömb. Það tókst ekki. Ástæðan er tvíþætt.

Í fyrsta lagi hroki. Aðalsteinn Kjartansson, Arnar Þór Ingólfsson, Þórður Snær Júlíusson og Ingi Freyr Vilhjálmsson sýndu af sér yfirlæti, töldu sig sem blaðamenn hafna yfir landslög. Í öðru lagi höfðu blaðamennirnir enga frásögn af atburðunum vorið 2021 þegar Páli skipstjóra Steingrímssyni var byrlað, síma hans stolið og hann afritaður á RÚV að undirlagi Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks á RÚV. Fréttir úr símanum birtust ekki á RÚV heldur í Stundinni og Kjarnanum. Hvernig gat það gerst? Jú, með skipulagi. Glæpurinn gegn skipstjóranum var unninn í samráði þriggja fjölmiðla, RSK-miðla: RÚV, Stundarinnar og Kjarnans. Þessi frásögn liggur fyrir. Til að vinda ofan af henni urðu RSK-miðlar að bjóða upp á aðra frásögn, sem útskýrði málið. En þeir höfðu enga. Þórður Snær reyndi að gaslýsa en tókst ekki.

Við sameiningu fengu fyrrum hluthafar Kjarnans um 40 prósent í Heimildinni en Stundareigendur um 60 prósent. Samanlagt tap miðlanna tveggja, Stundarinnar og Kjarnans, síðasta starfsár þeirra, árið 2022, var rúmar 50 milljónir króna. Ekki hefur verið gefið upp hver útkoman var á síðasta ári, 2023. Hitt er vitað að Heimildin tapar jafnt og þétt lesendum. Síðasta mæling Gallup sýndi Heimildina með tæplega níu þúsund netnotendur vikulega. Til samanburðar er Mannlíf með 30 þúsund vikunotendur.

Heimildin er með um 25 starfsmenn en Mannlíf 6. Engin leið er að endar nái saman í útgáfunni. Þórður Snær, fráfarandi ritstjóri, reyndi hallarbyltingu í útgáfufélagi Heimildarinnar í sumar. Með um 40 prósent hluthafa á bakvið sig, gamla Kjarnahópinn, reyndi Þórður Snær að sannfæra valda hluthafa gömlu Stundarinnar að ganga í lið með sér og aðferðafræðinni sem hann vildi nota. Gaslýsing Þórðar Snæs var að 

neita stans­laust allri sök, afvega­leiða, setja fram mót­sagn­ir, ljúga upp á fólk afstöðu, hengja sig í öll auka­at­riði og hanna nýja atburða­rás eftir á sem hentar mál­stað þess sem er að verja sig.

Þórður Snær hafði reynt aðferðina frá nóvember 2021, þegar hann skrifaði leiðara um að byrlunar- og símastuldsmálið væri glæpur í höfði Páls Vilhjálmssonar. Gaslýsing ritstjórans gerði það eitt að renna stoðum undir grun um að blaðamennirnir höfðu eitthvað að fela, þorðu ekki að segja sannleikann.

Í sumar nenntu ekki einu sinni hluthafar að hlusta á óráðshjal Þórðar Snæs. Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir ritstjóri og maki hennar, framkvæmdastjórinn Jón Trausti Reynisson (Traustasonar ritstjóra Mannlífs) náðu vopnum sínum og komu í veg fyrir yfirtöku Þórðar Snæs.

Hluthafar sem studdu Þórð Snæ ráða yfir um 40 prósent hlutafjár. Þeir munu ekki setja nýtt hlutafé í Heimildina. Eftir standa hluthafar gömlu Stundarinnar. Samkvæmt hlutahafaskrá er aðeins einn þeirra nógu fjáður til að spýta inn fjármagni til að halda útgáfunni á floti. Höskuldur Höskuldsson heitir hann og efnaðist á að selja Landsspítalanum lækningavörur. Höskuldur gæti gert útgáfuna að einkafyrirtæki sínu en þá situr hann uppi með eitrað peð íslenskrar fjölmiðlunar og botnlausan taprekstur í ofanálag. Til að leggja í þann leiðangur þurfa menn að segja sig frá hvorutveggja, siðviti og fjármálaviti.

Fall Heimildarinnar er fyrirsjáanlegt. Stofnað var til útgáfunnar til að fela glæp. Byrlun og gagnastuldur er ekki hlutverk fjölmiðla. Blaðamenn og eigendur fjölmiðla sem ekki skilja þau einföldu sannindi eiga ekkert erindi á opinberan vettvang. 


mbl.is Alma Mjöll nýr framkvæmdastjóri þingflokks VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Moggi ergo sum

DV sendir skeytin á Hádegismóa. DV er í eigu sömu aðila og gáfu út Fréttablaðið sáluga og halda einnig úti stjórnmálaflokki, Viðreisn. DV-flokkurinn berst núna gegn íslensku krónunni en þegir um ESB-aðild - í þeirri von að almenningur láti blekkjast.

Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins er skotmark DV-manna. Fundið er að þeirri venju Davíðs að tala við fólk. DV heldur yfirlit yfir aldur ritstjórans og vill gjarnan að hann fari á eftirlaun. Líklega er það af góðsemi. Eftirlaunaþegar eiga hægara um vik að ræða við mann og annan en launaþrælar.

Í annarri frétt gerir DV því skóna að pólitísk áhrif Mogga fari þverrandi, væntanlega þar sem ritstjórarnir eyði meiri tíma í samskipti við fólk en hollt teljist. Meint pilla er lítt dulin lofrulla um áhrifavald Morgunblaðsins. Kallaður er til vitnis um léttvigt Morgunblaðsins foringi Sósíalistaflokksins, Gunnar Smári Egilsson. Samkvæmt Gunnari Smára fréttir hann núorðið seint og um síðir af sínum málum í blaði allra landsmanna. Af sem áður var er tíðindin bárust Smáranum snemmendis.

Gunnar Smári segist hafa hitt mann í kjörbúð. Og um hvað ræddu þeir þá örskotsstund sem menn hjala við búðarrekka? Jú, hversu hratt þeim bærist til eyrna að hafa verið nefndir í Staksteinum. Menn hittast á förnum vegi og metast hvort nöfn þeirra komist í Davíðsannála. Tilvísun tryggir tilvist. Í anda Descartes; Moggi ergo sum.

Á Hádegismóum hljóta menn að una glaðir við að DV leggi sig í líma að útmála sterka stöðu Morgunblaðsins. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband