Ásthildi Lóu fórnað fyrir Kristrúnu

Ef Ásthildur Lóa hefði ekki sagt af sér ráðherradómi hefði Kristrún orðið að víkja sem forsætisráðherra. Trúnaðarbrestur á skrifstofu Kristrúnar leiddi til falls barnamálaráðherra.

Kristrún fékk beiðni um viðtal 11. mars frá Ólöfu Björnsdóttur. Skýr og einfaldur tölvupóstur:

Góðan daginn, ég bið um stuttan fund með Kristrúnu Frostadóttur en það varðar Ásthildi Lóu Þórsdóttur, það er í góðu lagi að hún sitji líka fundinn, ef Kristrún vill það. Liggur á.

Fyrsti tölvupósturinn frá Ólöfu til Kristrúnar er tveim dögum eldri, frá 9. mars. Þar var ekki tekið fram að fundurinn yrði um Ásthildi Lóu. Ef tölvupósturinn, hvort heldur sá frá 9. eða 11. mars, hefði var tekinn alvarlega, en ekki litið á hann sem gabb eða óráð, var aðeins eitt að gera í stöðunni. Að spyrja sendanda nánar út í erindið og taka ákvörðun í framhaldi um hvort fundur yrði haldinn eða erindinu synjað. Þetta er heilbrigð skynsemi og vönduð stjórnsýsla.

En hvorki heilbrigð skynsemi né vönduð stjórnsýsla var viðhöfð heldur saumaklúbbsvinnubrögð þar sem lög og reglur voru virtar að vettugi. Aðstoðarmaður Kristrúnar sendi aðstoðarmanni Ásthildar Lóu allar upplýsingar um Ólöfu til að 

kanna hvort mennta- og barnamálaráðherra þekkti til sendanda eða mögulegs fundarefnis áður en afstaða yrði tekin til fundarbeiðninnar.

Kristrún forsætisráðherra fær beiðni frá almennum borgara um fund vegna fagráðherra. Hvorki Kristrún né aðstoðarmenn og ritari segjast hafa nokkra hugmynd um hvað það sé sem Ólöf vilji ræða um vegna Ásthildar Lóu. En Ólöf er ekki spurð heldur er lekið í Ásthildi Lóu og hún spurð um Ólöfu. Vinnulagið er eins og hjá klíku en ekki formlegu stjórnvaldi.

Eitt getur útskýrt vinnubrögðin 11. mars. Það er að eftir fyrsta tölvupóst Ólafar til Kristrúnar 9. mars hafi einhver á skrifstofu Kristrúnar áttað sig á hvað væri á ferðinni. Verkefni skrifstofu forsætisráðherra hafi eftir 9. mars fyrst og fremst verið að þykjast ekkert vita, þvo hendur sínar af málinu öllu og láta Ásthildi Lóu eina um að ganga plankann.

Víst er að þegar Ásthildur Lóa fær vitneskju um Ólöfu, þann 11. mars,  hefst atburðarás með tveim hápunktum, kvöldheimsókn ráðherrans til Ólafar og afsagnar ráðherrans.

Lekinn frá skrifstofu forsætisráðherra hratt atburðarásinni af stað.

Hvernig hefði mátt vinna þetta mál faglega og í samræmi við góða stjórnsýsluhætti?

Jú, að tala við Ólöfu og spyrja hana um hvað málið snerist. Aðstoðarmaður eða ritari hefðu gert þetta. Neiti Ólöf að svara nema hitta ráðherra væri annað tveggja að synja henni um fund og málið dautt hvað forsætisráðuneytið áhrærir eða hleypa uppljóstraranum inn í ráðuneytið til að segja allt af létta. Eftir að ráðuneytið fær upplýsingarnar, hvort heldur í síma/tölvupósti eða á fundi, yrði Ólöfu með kurteisum hætti þakkað að vekja máls á fortíð barnamálaráðherra en sagt að 35 ára gamalt ástarmál fagráðherra, þar sem enginn grunur væri um lögbrot eða stórkostlega ámælisverða háttsemi, kæmi forsætisráðherra ekki við. Skilaboð væru send á Ásthildi Lóu um að ónafngreindur einstaklingur hefði vakið upp fortíðardraug ráðherrans. Boltinn væri hjá ráðherranum.

Ásthildur Lóa hefði verið í þeirri stöðu að leggja spilin á borðið að eigin frumkvæði og taka fjölmiðlaumræðuna í kjölfarið. Eða beðið milli vonar og ótta að málið færi ekki lengra, þessi ónafngreindi aðili myndi ekki gera meira úr málinu. Báðir kostirnir slæmir, vissulega, en málin enn í höndum ráðherrans.

Kristrún og forsætisráðuneytið velja verstu hugsanlegu leiðina, haga sér eins og kjaftatíkur í saumaklúbbi með því að senda persónuupplýsingar Ólafar til Ásthildar Lóu. Ráðuneytið nánast sigar barnamálaráðherra á uppljóstrarann.

Viðbrögð í þjóðfélaginu, eftir afsögn barnamálaráðherra, sýna að vilji var til að líta á 35 ára gamalt ástarmál sem bernskubrek. En eftir óboðna kvöldheimsókn ráðherra til uppljóstrara var ekki aftur snúið. Heimsóknin var dómgreindarbrestur, sem og yfirlýsingin í kjölfarið að ráðherra hafi verið fórnarlamb eltihrellis fyrir hálfum fjórða áratug. Hvað dómgreind varðar er ekki úr háum söðli að detta fyrir Ásthildi Lóu, sem tapaði einkamáli fyrir dómi nýverið og fullyrti við það að dómskerfið væri ónýtt. Ráðherrar sem tala og haga sér eins og Ásthildur Lóa eru ekki á vetur setjandi.

Eftir að trúnaður var brotinn, með lekanum til Ásthildar Lóu um Ólöfu, hafði forsætisráðuneytið sambandi við Ólöfu. Í tímalínu ráðuneytisins segir:

Með tölvupósti 12. mars (kl. 14:12) var þess óskað að sendandi gerði nánari grein fyrir tilefni fundarbeiðninnar.

Trúnaðarbrotið fór fram daginn áður, 11. mars. Skaðinn var skeður. Eftir að Ásthildur Lóa fékk að vita að Ólöf væri uppljóstrarinn fór af stað atburðarás sem hlaut að valda pólitískum óskunda. Ásthildur Lóa tók skellinn en með réttu ætti það að vera Kristrún, sem braut trúnað og fór á svig við lög og reglur um góða stjórnsýslu.

Afsögn Kristrúnar hefði falið í sér fall ríkisstjórnarinnar. Móðursýkisleg viðbrögð í baklandi Kristrúnar (les: Össur Skarphéðinsson) um að þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Áslaug Arna, ætti hlut að máli sýnir að hollvinir forsætisráðherra og innvígðir samfylkingarmenn töldu hættu á endalokum valkyrjustjórnarinnar.

Valkyrjustjórnin líkist meira saumaklúbbi á hugvíkkandi efnum en ábyrgu stjórnvaldi. Partíið er búið en af tillitssemi við kvenpeninginn tilkynnir enginn fullorðinn að nú sé nóg komið.

 


mbl.is Fékk síma og heimilisfang frá aðstoðarmanni forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristrún og lögin um vernd uppljóstrara

Lög um vernd uppljóstrara tóku gildi fyrir fjórum árum. Forsætisráðuneytið fer með forræði málefnasviðsins. Lögin eru ætluð að vernda þá sem upplýsa um refsiverð brot eða siðferðislega ámælisverða háttsemi. Ólöf Björnsdóttir bað um fund með Kristrúnu til að upplýsa hana um háttsemi barnamálaráðherra. Í stað þess að bjóða Ólöfu á fund ákvað Kristrún að brjóta trúnað og senda barnamálaráðherra, Ásthildi Lóu, persónuupplýsingar Ólafar.

Lögin um vernd uppljóstrara eru skýr og ótvíræð hvað ábyrgð móttakanda áhrærir, í þessu tilfelli forsætisráherra: 

Móttakandi upplýsinga eða gagna [...] skal gæta leyndar um persónuupplýsingar sem honum berast um þann sem miðlar upplýsingum eða gögnum nema viðkomandi veiti afdráttarlaust samþykki sitt.

Kristrún braut trúnað, hún hafði ekki samþykki Ólafar að senda upplýsingarnar til barnamálaráðherra. Trúnaðarbrotið hafði afleiðingar. Ásthildur Lóa gerði Ólöfu óviðkunnanlega heimsókn að kvöldlagi.

Engum blöðum er um það að fletta að Ólöf er uppljóstrari. Hún kom á framfæri upplýsingum úr fortíð barnamálaráðherra, sem leiddu til afsagnar ráðherrans. 

Blaðamenn og samtök þeirra höfðu lengi barist fyrir lögum um vernd uppljóstrara. Hjálmar Jónsson formaður Blaðamannafélags Íslands fagnaði fyrir fjórum árum þegar lögin voru samþykkt á alþingi:

Ég fagna því að frum­varpið sé orðið að lög­um og tel að það sé mik­il­vægt skref til að auka gagn­sæi og aðhald í sam­fé­lag­inu. Það er mik­il­vægt að til séu form­leg­ir far­veg­ir fyr­ir upp­ljóstr­ara í sam­fé­lag­inu og með þess­ari laga­setn­ingu er það orðið að veru­leika.

Lög um vernd uppljóstrara heyra undir forsætisráðherra. Það gerir trúnaðarbrestinn alvarlegri, og var hann þó ekki léttvægur fyrir. Fordæmi Kristrúnar ómerkir verndina sem lögin veita uppljóstrurum. Ef æðsti handhafi framkvæmdavaldsins kemst upp með að afnema vernd uppljóstrara eru lögin í heild ómarktæk. Lögin verða dauður bókstafur með fordæminu sem forsætisráðherra setur; að lögin megi virða að vettugi. Það hafi engar afleiðingar að láta eins og lög um uppljóstrara séu ekki til.

Forsætisráðherra sem uppvís er að breyta í bága við lög og siðferði getur ekki vikist undan pólitískri ábyrgð á háttsemi sinni.

 


mbl.is Tímalína og trúnaðarsamskipti óljós
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leki Kristrúnar er ástæða hegðunar Ásthildar Lóu

Ólöf Björnsdóttir, konan sem upplýsti 35 ára gamlar samfarir barnamálaráðherra, þá 22 ára, og 15 ára stráks, lagði sig í líma að Kristrún forsætisráðherra fengi ein upplýsingarnar beint frá sér augliti til auglitis. Ólöf vildi ekki básúna málið um borg og bý. Hún skrifaði fáorðan tölvupóst, til að ekki yrði til neitt skriflegt um málsástæður sem gæti farið á flakk í stjórnarráðinu. Tölvupóstur Ólafar er svohljóðandi:

Góðan daginn, ég bið um stuttan fund með Kristrúnu Frostadóttur, en það varðar Ásthildi Lóu Þórsdóttur, það er í góðu lagi að hún sitji líka fundinn, ef Kristrún vill það. Liggur á.

Ólöf útskýrir í viðtali á RÚV að henni hafi ofboðið að Ásthildur Lóa væri barnamálaráðherra og vildi vekja athygli forsætisráðherra á fortíð ráðherra æskunnar. Nú má hafa margar skoðanir á samförum 23 ára og 15 ára og ein þeirra er að þær séu ekki tilhlýðilegar. Ólöf brást ekki við fyrr en Ásthildur Lóa varð barnamálaráðherra og vildi að oddviti ríkisstjórnarinnar yrði upplýstur. Kröfur um að Ólöf hefði átt að fyrirgefa Ásthildi Lóu bernskubrekin koma einkum frá fólki sem þekkt er af öðru en fyrirgefningarvilja.

Kristrún forsætisráðherra bauð Ólöfu ekki á sinn fund. Hún lét aðstoðarmann sinn, sem hafði heitið Ólöfu fullum trúnað, leka upplýsingunum til aðstoðarmanns Ásthildar Lóu. Það er hrein og klár pólitík og hreint og klárt trúnaðarbrot. ,,Ég lít algjörlega á þetta sem trúnaðarbrest," segir Ólöf í viðtali á Vísi.

Í framhaldi lekans gerir Ásthildur Lóa Ólöfu heimsókn klukkan tíu að kveldi og fer að stæla við uppljóstrarann. Kristrún viðurkennir að sú heimsókn sé ekki verjandi. Heimsóknin er þó bein afleiðing af lekanum frá skrifstofu forsætisráðherra. Enginn leki, engin ókurteis heimsókn. Augljóst er af orðalagi tölvupóstsins að Ólöf seldi Kristrúnu sjálfdæmi um hvort Ásthildur Lóa sæti fundinn sem óskað var eftir. Enginn fundur var haldinn með Ólöfu. Kristrún lét á hinn bóginn leka trúnaðarpósti Ólafar til Ásthildar Lóu. Uppljóstrarinn Ólöf var ekki spurð.

Í viðtengdri frétt segist Kristrún ekki bera ábyrgð á hegðun Ásthildar Lóu. En án lekans frá skrifstofu Kristrúnar hefði Ásthildur Lóa ekki sýnt af sér þá hegðun sem Kristrún játar að sé óverjandi. Ábyrgð Kristrúnar er augljós. Forsætisráðuneytið lak trúnaðarupplýsingum sem voru tilefni og forsenda fyrir óviðfelldinni kvöldheimsókn barnamálaráðherra á heimili uppljóstrara.

Hér er á ferðinni alvarlegt trúnaðarbrot forsætisráðherra gagnvart almennum borgara sem vildi persónulega koma upplýsingum til æðsta handhafa framkvæmdavaldsins um málefni fagráðherra. Forsætisráðherra brást trausti, tók pólitíska hagsmuni fram yfir vandaða stjórnsýslu.

Ásthildur Lóa hefur axlað pólitíska ábyrgð. Kristrún forsætisráðherra neitar að horfast í augu við sína ábyrgð.


mbl.is Hegðun Ásthildar ekki á ábyrgð Kristrúnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristrún braut trúnað

Kristrún forsætisráðherra var í gærkvöld á flótta undan fjölmiðlum vegna afsagnar Ásthildar Lóu barnamálaráðherra. Forsætisráðuneytið lak trúnaðarupplýsingum úr ráðuneytinu til Ásthildar Lóu sem raskaði heimilisfriði konu út í bæ sem bjó yfir upplýsingum er ekki þoldu dagsins ljós.

Leki á trúnaðarupplýsingum úr forsætisráðuneytinu stórskaðar trúverðugleika Kristrúnar sem forsætisráðherra. Enginn vafi er á að lekinn var gerður með vitund og vilja forsætisráðherra. Upplýsingarnar lágu í ráðuneytinu í nokkra daga áður en þeim var lekið af yfirlögðu ráði. Aðstoðarmenn leika ekki einleik í málum sem þessum.

Kristrún er æðsti handhafi framkvæmdavaldsins. Stóralvarlegt er að aðilar sem eiga samskipti við forsætisráðuneytið í trúnaði geti ekki treyst ráðuneytinu.

Tilgangurinn með lekanum var að gefa Ásthildi Lóu tækifæri til að þagga niður málið. Ásthildur Lóa mætti óboðinn á ókunnugt heimili til að freista þess að kæfa óþægilegt mál úr fortíðinni. Þetta segir Ásthildur Lóa í viðtali við RÚV.

Almennir borgarar sem eiga erindi við forsætisráðuneytið til að upplýsa málefni, sem þeir telja brýn, eiga ekki að þurfa þola trúnaðarbrest forsætisráðherra. Kristrún sýnir að henni er ekki treystandi. 

Ásthildur Lóa sagði af sér. Hvað gerir Kristrún?


mbl.is Hafna því að erindið hafi lekið úr ráðuneytinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kennedy og byrlunin, skilgreiningin á samsæri

Var Lee Har­vey Oswald einn um að myrða J.F. Kennedy eða komu fleiri við sögu? Ef Oswald var einn um verkið og vann það hjálparlaust er ekki samsæri. Til að um samsæri sé að ræða þarf skipulag þar sem tveir eða fleiri koma við sögu. 

Skilgreiningin á samsæri er þegar tveir eða fleiri ásetja sér að fremja ódæði og gera ráðstafanir til að ekki komist upp um hverjir stóðu að verki.

Byrlunar- og símamálið er samsæri. Rökin eru svo augljós að hvert barn skilur þau. Sama fréttin í tveim útfærslum, um meinta skæruliðadeild Samherja, birtist í tveim útgáfum, Stundinni og Kjarnanum, um klukkan átta að morgni 21. maí 2021. Í báðum tilvikum er vísað í gögn úr síma Páls skipstjóra Steingrímssonar. Hér er skipulag.

Skipstjóranum var byrlað 3. maí 2021. Byrlarinn, þáverandi eiginkona Páls, játar að hafa farið með símann á Efstaleiti, höfuðstöðvar RÚV, þar sem símtækið var afritað á síma í eigu RÚV með númerið 680 2140. Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks tók við símanum. Hér er verknaður.

Skráður höfundur fréttarinnar í Stundinni er Aðalsteinn Kjartansson. Hann var fréttamaður RÚV þangað til þremur dögum fyrir byrlun skipstjórans. Aðalsteinn skipti um vinnustað í hádeginu 30. apríl 2021. Hér er skipulag.

Gögn sýna regluleg samskipti Þóru við byrlara, þar sem Þóra m.a. hvetur byrlara til að breyta aðgangsorðum að síma og tölvu. Þá biður Þóra um að fá einkasíma byrlara að láni til að eiga við símtækið. Hér eru samantekin ráð að fela slóðina.

Þrjár ritstjórnir tók þátt í samsærinu: RÚV, Stundin og Kjarninn. Ásetningurinn var að afla með ólögmætum hætti gagna til að klekkja á aðila sem blaðamenn skilgreindu sem óvin sinn, Samherja. Brotaþolinn, Páll skipstjóri, hafði borið blak af vinnuveitanda sínum, Samherja, í harðri fjölmiðlaatlögu að fyrirtækinu, þar sem RÚV fór fremst í flokki, og kallast Namibíumálið. Sú atlaga hófst með Kveiksþætti í nóvember 2019 og gekk út á ásakanir ógæfumanns um mútugjafir í Afríkuríkinu.

Byrlunar- og símamálið er samsæri þar sem ríkisstofnun, RÚV, er miðlæg. Áhrifamikil öfl í samfélaginu beita öllum tiltækum ráðum að koma í veg fyrir að málið sé upplýst. Þingflokkur Samfylkingarinnar fundar reglulega með tveim blaðamönnum, Þórði Snæ Júlíussyni og Arnari Þór Ingólfssyni, sem eru skráðir höfundar fréttarinnar í Kjarnanum 21. maí 2021. Báðir eru í dag starfsmenn þingflokks Samfylkingar. Logi Einarsson Samfylkingarráðherra fer með málefni RÚV. Eiginkona hans er Arnbjörg Sigurðardóttir héraðsdómari. Hún dæmdi Aðalsteini Kjartanssyni í vil þegar hann kærði boðun til skýrslutöku hjá lögreglu. Landsréttur ómerkti úrskurð Arnbjargar, eiginkonu Loga ráðherra.

Samfylkingardjúpríkið á Íslandi ætlar að þagga niður samsærið gegn heilsu og friðhelgi Páls skipstjóra Steingrímssonar. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis hefur til meðferðar ósk Páls skipstjóra að rannsóknarnefnd þingsins fjalli um málið. Samfylkingin er stærsti þingflokkurinn á alþingi og fer með forsætisráðuneytið í ríkisstjórninni.

Tekst djúpríki Samfylkingar að koma í veg fyrir að byrlunar- og símamálið verði upplýst? 


mbl.is Trump hyggst opna Kennedy-skjölin á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögreglan: gyðingahatur í lagi, en ekki gagnrýni á trans í leikskólum

Í viðtengdri frétt kemur fram að maður hér á landi, Ibaa Ben Hos­heyeh, hafi birt

mynd af Face­book-síðu sinni þar sem hvatt er til drápa á gyðing­um hvar sem til þeirra næðist og lík þeirra sví­virt. Sagði hann þá af­kvæmi svína og apa ásamt því að ausa yfir þá sví­v­irðing­um af ýms­um toga.

Lögreglunni í Reykjavík datt ekki í hug að rannsaka til ákæru Ibaa Ben Hos­heyeh fyrir brot á gr. 233 a almennra hegningarlaga sem hljóðar svo:

Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

 

Tilfallandi þekkir vel til hvernig lögreglustjórinn í Reykjavík beitir umræddri lagagrein. Hann gagnrýndi transinnrætingu í leik- og grunnskólum og fékk óðara á sig ákæru frá lögreglustjóra höfuðborgarinnar. 

Gyðingahatur fyrir opnum tjöldum, manndrápshótanir og afmennskun, eru frjáls tjáning samkvæmt lögreglunni í Reykjavík. En vei þeim er andmæla transhugmyndafræðinni, þeir skulu sæta ákæru.

Tilfallandi veltir fyrir sér að skipta um nafn, skrá sig sem Múhameð Vilhjálmsson í þjóðskrá. Þannig er tryggð friðhelgi gagnvart valkvæðu ákæruvaldi lögreglunnar í Reykjavík.


mbl.is Lögreglustjóri gerður afturreka í þrígang
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veiðileyfi RÚV á einkasíma þingmanna og ráðherra

RÚV er ríkisstofnun, ekki fjölmiðill út í bæ. Árlega fær RÚV um 6,5 milljarða króna frá almenningi, fjárveitingu sem alþingi samþykkir. Stjórn RÚV er tilnefnd af alþingi. Ábyrgð alþingis á RÚV er hafin yfir vafa.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis hefur til meðferðar beiði Páls skipstjóra Steingrímssonar um að rannsaka hlut RÚV í byrlunar- og símamálinu. Skipstjóranum var byrlað, síma hans stolið og hann afritaður. Fréttir með vísun í gögn símans voru með leynd fluttar á milli fjölmiðla til að hylja slóðina.

Tvær staðfestingar liggja fyrir að RÚV tók við síma skipstjórans og afritaði. Í fyrsta lagi yfirlýsing Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra og Heiðars Arnar Sigurfinnssonar fréttastjóra RÚV að Þóra Arnórsdóttir hafi tekið við símanum. Í öðru lagi játning fyrrum eiginkonu skipstjórans, að hafa byrlað skipstjóranum og afhent símann Þóru þann 4. maí 2021.

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri hefur viðurkennt að sími skipstjórans var afritaður á síma í eigu RÚV með númerið 680 2140.

Ólögmætt er að afrita síma í heimildarleysi. Ef lögregla vill komast í símagögn þarf dómsúrskurð. Fjölmiðill fengi aldrei heimild dómara að afrita síma.

Ólögmæt afrituna á síma skipstjórans er ein af fjórum meginástæðum fyrir því að alþingi ætti að rannsaka aðkomu RÚV að byrlunar- og símamálinu.

Önnur meginástæðan er að RÚV frumbirti enga frétt með vísun í gögn úr síma skipstjórans. Í yfirlýsingu útvarpsstjóra og fréttastjóra, sem vikið er að hér að ofan, er fullyrt að fjölmiðlum sé heimilt að taka við 

upplýsingum í trúnaði án þess að þurfa að gera grein fyrir hvaðan eða frá hverjum þær stafi [...] Þá er ljóst að hafi gögn að geyma efni, sem eiga erindi til almennings og varða mál, sem styr hefur staðið um í þjóðfélaginu, er fjölmiðlum rétt að fjalla um slíkt, jafnvel þótt um sé t.d. að ræða einkagögn sem fjölmiðlum eru fengin

Ef gögnin úr síma skipstjórans áttu erindi til almennings, hvers vegna birti RÚV ekki fréttina? Það liggur fyrir að RÚV frumbirti enga frétt. Sími skipstjórans var afritaður á Efstaleiti 4. maí 2021. Fréttir með vísun í gögn símans birtust samtímis í Stundinni og Kjarnanaum þann 21.maí 2021. Engir aðrir en þessir tveir fjölmiðlar voru með fréttina. Það sýnir skipulag. Hver skipulagði?

Með því að fréttin sem varð til upp úr síma skipstjórans birtist ekki á RÚV er sú röksemd útvarpsstjóra og fréttastjóra ógild, að fjölmiðlum sé heimilt að taka við illa fengnum gögnum í almannaþágu. Þar fyrir utan eru gögn eitt og símtæki annað. Lögreglan þarf ekki dómsúrskurð til að skoða gögn sem henni berast við sakamálarannsókn, en lögreglan þarf dómsúrskurð til að skoða innihald símtækis. Í húfi er friðhelgi einkalífsins, mannréttindi sem lögreglan þarf að virða og enn frekar fjölmiðlar.

Þriðja meginröksemdin fyrir rannsókn á RÚV er að fyrir liggur að víðtæk samskipti voru yfir margra mánaða skeið á milli Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks á RÚV og þáverandi eiginkonu skipstjórans. Af hálfu Þóru fór samskiptin oftast fram í gegnum símanúmerið 680 2140, þ.e. númerið á afritunarsímanum, sem er skráð á RÚV og útvarpsstjóri hefur viðurkennt. Enn hefur ekki verið staðfest með gögnum hvort samskiptin hófust fyrir byrlun skipstjórans 3. maí 2021. Þóra á RÚV vissi þó að skipstjórinn notaði Samsung-síma og hafði til reiðu á Efstaleiti sams konar síma þann 4. maí 2021 - til að afrita síma skipstjórans.

Fyrrum fréttamaður RÚV og nú þingmaður, Sigmar Guðmundsson, segir í skoðanagrein að alþingi eigi ekki að skipta sér af fjölmiðlum. Nú þegar hefur alþingi rík afskipti af fjölmiðlum. RÚV fær 6,5 milljarða króna árlega og alþingi tilnefnir stjórn RÚV. Aðrir fjölmiðlar fá úthlutað af almannafé, s.k. fjölmiðlastyrkjum. Allt eru þetta afskipti af fjölmiðlum.

Rannsóknanefnd alþingis væri ekki að skipta sér af fréttaflutningi heldur aðkomu RÚV að byrlunar- og símamálinu þar sem RÚV frumbirti ekki eina einustu frétt. Efstaleiti var miðstöð gagnaöflunar og skipulags sem leiddi til fréttaflutnings á Stundinni og Kjarnanum. Lögbrot og leynd voru sannanlega hluti af skipulaginu.

Ef Sigmar er þeirrar skoðunar að RÚV sé heimilt að eiga aðild að byrlun, stuldi og afritun á símtæki óbreytts borgara og flytja afurðina á aðra fjölmiðla ætti hann að segja það upphátt. Það væri ígildi þess að gefa veiðileyfi á símtæki almennings. Fyrir fjölmiðla yrðu símar þingmanna og ráðherra sérstaklega áhugaverðir. Það er fjórða meginástæðan fyrir því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis ætti að rannsaka aðkomu RÚV að byrlunar og símamálinu.

Ef stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis aðhefst ekkert er komið fordæmi að fjölmiðli sé heimilt að afrita einkasíma. Páll skipstjóri er óbreyttur borgari. Þingmenn og ráðherrar eru opinberar persónur og njóta sem slíkar minni friðhelgi en óbreyttir borgarar. Ætlar þingheimur að samþykkja með aðgerðaleysi það fordæmi að fjölmiðlum sé heimilt að afrita einkasíma?

 


Solaris fékk 93 milljónir, grunur um peningaþvætti

Hjálparsamtök Palestínuaraba hér á landi, Solaris, fengu tæplega hundrað milljónir inn á bankareikning sinn. Tæpur helmingur fjárins kom inn á reikning samtakanna eftir að formlegri söfnun lauk. Solaris-samtökin eru grunuð um að þvætta illa fengið fé annars vegar og hins vegar að múta embættismönnum í Egyptalandi.

Múturnar voru greiddar til að auðvelda Palestínuaröbum að komast til Íslands og þiggja opinbera framfærslu hér á landi á kostnað skattborgara. Egyptar eiga landamæri að Gasa og hleypa ekki Palestínumönnum þar í gegn, af slæmri reynslu. Mútugjafir fá embættismenn til að sjá í gegnum fingur sér og brjóta egypsk lög. Tilfallandi fjallaði um mútugjafirnar í Egyptalandi í haust. Um 700 þús. íslenskar krónur kostaði að kaupa hvern einstakling yfir landamæri Gasa og Egyptalands.

Til að standa undir mútugreiðslunum hóf Solaris fjársöfnum hér á landi. Verkalýðsfélagið Efling gaf t.d. eina milljón króna. Markmið Solaris var að safna 50 milljónum króna. Söfnun hófst 7. febrúar 2024 lauk formlega 4. mars sama ár og höfðu þá safnast 50 milljónir króna. Í rökstuðningi ríkissaksóknara til lögreglunnar, um að sakamálarannsókn skuli haldið áfram, kemur fram að tugir milljóna króna hafi flætt inn á reikning Solaris í vikur og mánuði eftir að söfnun lauk.

,,Fram til 4. september 2024 söfnuðust 93.338.100 kr.," segir í greinargerðinni. Hvaðan komu rúmlega 43 milljónir króna inn á reikning Solaris, hálfum ári eftir að formlegri söfnun lauk og 50 milljón kr. markinu var náð? Allir sem þekkja til fjársafnana af þessum toga að eftir að söfnun lýkur kemur sáralítið ef nokkuð til viðbótar inn á söfnunarreikning. Í greinargerð ríkissaksóknara segir að ,,sætir það furðu" að Solaris hefði ,,viðvarandi innstreymi fjármagns."

Glæpahópar og hryðjuverkasamtök nota gjarnan góðgerðar- og mannúðarsamtök til að þvætta peninga. Söfnun á peningum frá almenningi er notuð til að gera illa fengið fé hreint. Ólögmætir peningar fara inn á reikninginn en út koma peningar sem hægt er að koma í umferð í þágu málefna á skjön við lög og reglur.

Solaris-samtökin eru með fullar hendur fjár og nota peninga m.a. til að kaupa sér hagfellda umfjöllun. Kolbeinn Tumi Daðason á Vísi er til þjónustu reiðubúinn og skrifar frétt sem gengur út á að yfirvöld ofsæki Solaris-samtökin. Þetta er kunnugleg vörn sakamanna. Blaðamanninum dettur ekki í hug að spyrja um mútur og peningaþvætti eða yfir höfuð spyrja gagnrýnna spurninga. Kolbeinn Tumi er almannatengill með blaðamennsku sem yfirvarp.

Afleiðingarnar af innflutningi fólks frá framandi menningarsvæðum sjást í Breiðholti þar sem óöld ríkir. Ofbeldishópar vaða uppi, sómakærir borgarar flýja. Lögleysa og gettó í boði Solaris og góða fólksins. Stjórnvöld sem líða starfsemi Solaris bjóða þeirri hættu heim að hér þrífist hliðarsamfélag sem virðir íslensk lög að vettugi, stundi mútugjafir og þvætti illa fengið fé.

 


mbl.is Solaris-kæran aftur á borð lögreglunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þórdís Kolbrún má skammast sín

Lokun íslenska sendiráðsins í Moskvu fyrir tveim árum með vísun í Úkraínustríðið var stórpólitískur afleikur Þordísar Kolbrúnar þáverandi utanríkisráðherra. Ísland eitt vestrænna ríkja lokaði sendiráðinu í Rússlandi og gaf upp sem ástæðu stríðið í Úkraínu. Tilfallandi bloggaði:

Diplómatísk stríðsyfirlýsing Þórdísar Kolbrúnar utanríkisráðherra er ekki í þágu íslenskra hagsmuna. Tilkynning um lokun sendiráðs Íslands í Moskvu er sett fram, og skilin í Rússlandi, sem ögrun.

Hvers vegna ætti Ísland að ögra Rússlandi? Samskipti þjóðanna hafa ávallt verið vinsamleg. Rússar opnuðu markaði sína á sovéttímanum þegar við áttum í landhelgisdeilu Breta, sem beittu okkur viðskiptaþvingunum.

Jú, kynni einhver að segja, Rússar réðust inn í Úkraínu. Síðan hvenær eru stríð í útlöndum rök fyrir lokun íslenskra sendiráða? 

Mistökin í Moskvu hafa fylgt Þórdísi Kolbrúnu. Hún hrökklaðist úr kjördæmi sínu fyrir síðustu kosningar og heykist á að bjóða sig fram til formennsku í Sjálfstæðisflokknum.

Í viðtengdri frétt býður Þórdís Kolbrún upp á eftiráskýringu, að íslensku sendiráðsfólki hafi verið ógnað í Moskvu. Það hafi verið ástæða lokunar sendiráðsins. Nú er Úkraínustríðið ekki lengur ástæðan heldur líf og limir íslenskra sendiráðsstarfsmanna.

Hvers vegna var þessara atvika ekki getið þegar lokunin var tilkynnt? Hver er skýringin á því að Rússar hafi valið sem skotmark litla Ísland?

Hér að öllum líkindum farið með ýkjur ef ekki hrein ósannindi. Það eykur ekki trúverðugleikann að núverandi utanríkisráðherra, Þorgerður Katrín, styðji í véfréttastil frásögn Þórdísar Kolbrúnar.

Ísland situr uppi með þá skömm að hafa eitt þjóðríkja lokað sendiráði sínu í Moskvu með þeirri röksemd að Úkraína og Rússland eigi í átökum. Ákvörðun sem einn ráðherra tók án umræðu.

Nær væri að Þórdís Kolbrún bæðist opinberlega afsökunar að hafa hlaupið á sig, látið tilfinningar ráða en ekki ígrundun á þjóðarhagsmunum. Verkefni sitjandi utanríkisráðherra er að biðja um gott veður í Moskvu og útskýra að sökum mannfæðar á Íslandi veljist stundum til forystu fólk sem ekki kann háttu og siðu á alþjóðavísu.

 


mbl.is Starfsfólki sendiráðsins í Moskvu var ógnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rannsóknarblaðamaður óttast rannsókn

Aðalsteinn Kjartansson er einn blaðamanna sem hafði stöðu sakbornings í byrlunar- og símamálinu. Þegar samskipti komust á milli byrlara og blaðamanna, í apríl 2021, var Aðalsteinn í góðu starfi á RÚV. Ásamt Þóru Arnórsdóttur og Helga Seljan sat Aðalsteinn í ritstjórn Kveiks. Þau kölluðu sig rannsóknablaðamenn.

Í blaða- og fréttamennsku verður starfsöryggið ekki meira en á RÚV. Ríkið fjármagnar reksturinn með 6,5 milljörðum króna á ári. Engin hætta á gjaldþroti og skyndilegum atvinnumissi.

Þau undur og stórmerki gerast 30. apríl 2021, þrem dögum fyrir byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar, að Aðalsteinn segir upp störfum á RÚV. Kveikur er í tilvistarvanda þegar Aðalsteinn hættir. Helgi Seljan hafði stuttu áður fengið á sig úrskurð siðanefndar RÚV að hafa alvarlega brotið siðareglur ríkisfjölmiðilsins. Uppsögn Aðalsteins var vantraust á Kveik, sem mátti þó alls ekki við slíkri yfirlýsingu. En annað bjó að baki. Það var komið skipulag, verkskipting, á fréttamáli sem skyldi rétta af orðspor Kveiks.

Aðalsteinn tilkynnir uppsögnina á Facebook þennan morgun, 30 apríl 2021. Starfsfélagar á öðrum fjölmiðlum ráku upp stór augu. Menn hætta ekki á RÚV nema annað tveggja af illri nauðsyn eða feitur biti sé í boði, til dæmis vel borgað almannatenglastarf. Í viðtali við Vísi þennan sama morgun segir Aðalsteinn:

Ég er ennþá starfsmaður RÚV, út daginn. Svo tek ég mér frí í næstu viku.

En bíðum við. Aðalsteinn var ekki starfsmaður RÚV ,,út daginn" þennan föstudag fyrir fjórum árum. Strax eftir hádegi kemur fréttatilkynning á Stundinni að Aðalsteinn sé orðinn blaðamaður þar á bæ. Systir Aðalsteins, Ingibjörg Dögg, ritstýrir Stundinni. Hæg eru heimatökin.

Hvers vegna skiptir Aðalsteinn um starf í hádeginu 30. apríl 2021, fer af RÚV yfir á hallærisútgáfu sem lifir á loftinu og ríkisstyrkjum og heitir ýmist Stundin, Heimildin eða Mannlíf?

Jú, Aðalsteinn, ætlaði sér aðeins að skreppa yfir á Stundina, vinna ákveðið verk og fá verðlaun. Búið var að ákveða að fréttaefni sem myndi skila sér á RÚV, úr stolnum skipstjórasíma, yrði ekki birt á Kveik heldur útvistað til tveggja annarra fjölmiðla, Stundarinnar og Kjarnans. Óráðlegt þótti að vettvangur glæpsins væri birtingarstaður afurðarinnar. Fjarlægð skyldi vera á milli ólögmætrar öflun gagna annars vegar og hins vegar fréttanna. Skipulagið var nákvæmt. Sama fréttin, um meinta skæruliðadeild Samherja, birtist samtímis í Stundinni og Kjarnanum. Engir aðrir fjölmiðlar höfðu þessa frétt. Verkaskiptingin var skýr. RÚV var aðgerðamiðstöðin en Stundin og Kjarninn leppuðu.

Að kvöldi föstudagsins 30. apríl 2021, þegar Aðalsteinn tilkynnti brotthvarf af RÚV, setti Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri RÚV eftirfarandi færslu á Facebook-vegg Aðalsteins:

Kærar þakkir fyrir eðal samstarf og þá frábæru vinnu sem þú vannst með okkur í Kveik. Þín verður sárt saknað en ég ætla að leyfa mér að vona að RÚV ,,pásan" verði stutt. ðŸ˜Š Gangi þér allt í haginn í nýjum verkefnum, veit að þú átt eftir að halda áfram að blómsta sem fréttamaður og samfélagsrýnir. ðŸ‘

 

Aðalsteinn fór í sérverkefni af RÚV yfir á Stundina vorið 2021. Meiningin var að hann kæmi til baka eftir hetjudáðina á Stundinni í skjóli systur sinnar. Og, auðvitað, verðlaunaður. Á þessum tíma var Aðalsteinn varaformaður Blaðamannafélagsins og verðlaunaði sjálfan sig fyrir að taka á móti frétt af RÚV og birta undir eigin nafni á Stundinni. Rakel fréttastjóri kallar Aðalstein ,,samfélagsrýni". Stór titill á manni sem mígur annarra manna hlandi og verðlaunar sjálfan sig fyrir afrekið.

Því er þessi saga rifjuð upp að Aðalsteinn skrifar í gær leiðara Heimildarinnar og kvartar undan að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis taki byrlunar- og símamálið á dagskrá. Á Aðalsteini er að skilja að byrlun, stuldur og afritun á einkasíma sé fullkomlega eðlileg blaðamennska. Einnig hitt að RÚV sé aðgerðamiðstöð er afli gagna með ólögmætum hætti en láti aðra fjölmiðla um að leppa ósómann. Vorið 2021 lá óbreyttur borgari milli heims og helju í hálfan fjórða sólarhring til að blaðamenn mættu hnýsast í einkasíma hans og afla sér frægðar og frama. 

Rannsóknablaðamenn Íslands hafa hingað til fagnað rannsóknum um stórt og smátt til að upplýsa þetta og hitt. En nú ber svo við að rannsókn og upplýsing málsatvika er talin hættuleg lýðræðinu. Byrlun, stuld og afritun á einkasíma má alls ekki rannsaka. Sannleikurinn í byrlunar- og símamálinu er ekki hættulegur lýðræðinu, - heldur rannsóknarblaðamönnum Íslands.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband