Föstudagur, 22. nóvember 2024
Viðreisn kyndir undir innanlandsófriði
Atkvæði greitt Viðreisn er stuðningur við að Ísland gangi í Evrópusambandið, ESB. Þorgerður Katrín formaður Viðreisnar mun setja ESB-aðild á dagskrá stjórnarmyndunarviðræðna eftir kosningar. Deilur smáþjóðar um utanríkismál eru svæsnar og langvinnar. Nægir þar að vísa í ófriðinn á Sturlungaöld og árin eftir seinna stríð er lá við borgarastríði um bandaríska hersetu og Nató-aðild.
Til skamms tíma var Viðreisn með um tíu prósent fylgi. Flokkurinn er sá eini á alþingi með yfirlýsta stefnu að Ísland skuli ganga í Evrópusambandið. Enginn hefur áhyggjur af smáflokki með sérvisku. Grunnt er á sömu stefnu hjá Samfylkingunni, þótt flokkurinn segi í orði kveðnu að ESB-aðild sé ekki á dagskrá - í bili.
Í skoðanakönnunum mælast Viðreisn og Samfylking með um 20 prósent fylgi, hvor flokkur. Flokkabandalag með um 40 prósent fylgi getur haft afgerandi áhrif á þróun íslenskra stjórnmála næstu misseri og ár.
Síðast þegar reynt var að véla Ísland inn í ESB, í tíð vinstristjórnar Jóhönnu Sig. 2009-2013, logaði samfélagið í ófriði. Tvennt kom til, afleiðingar hrunsins annars vegar og hins vegar ESB-umsóknin sem vinstristjórnin sendi til Brussel sumarið 2009.
Langsótt var að Ísland yrði ESB-ríki fyrir fimmtán árum. Evrópusambandið er félagsskapur meginlandsríkja Evrópu. Ísland er eyríki á miðju Atlantshafi. Eftir að Bretland gekk úr ESB, með Brexit 2016, varð enn fjarlægara að Ísland ætti erindi í félagsskapinn.
Evrópusambandið er á samdráttarskeiði, ólíkt því sem var um aldamótin. Aðild Íslands komst á dagskrá þegar ESB-sniðmátið virtist ætla að sigra álfuna. Stefnt var á Stór-Evrópu, með eina stjórnarskrá, ein lög, einn gjaldmiðil og sameiginlega pólitíska framtíð. Svo er ekki lengur, fjarri því.
Úkraínustríðið, sem hófst um miðjan síðasta áratug, en varð fullveðja með innrás Rússa fyrir bráðum þrem árum, markar vatnaskil í Evrópu. Rússland verður stærsta verkefni ESB næstu ára og áratuga - óháð úrslitum Úkraínustríðsins. Ef Rússland skyldi tapa, sem er afar ólíklegt, myndi ESB glíma við vanda sem fylgir að næsti nágranni er kjarnorkuvopnaveldi í upplausn. Sigri Rússland, sem er sennilegt, er komið á þröskuld ESB stórríki, hernaðarlega og efnahagslega máttugt og með ólíka pólitíska dagskrá.
Hagsmunum Íslands er best borgið fjarri þeirri orrahríð sem fyrirsjáanleg er næstu ár og áratugi í Evrópu. Ekki eigum við aðild að átökunum og engir lífsnauðsynlegir hagsmunir Íslands eru þar í húfi.
Bandaríkin munu ekki styðja Evrópusambandið í austurvíkingi. Bandaríkin, einkum og sérstaklega undir Trump, líta ekki svo á að lífsnauðsynlegir bandarískir hagsmunir séu undir í Úkraínustríðinu. Trump-stjórnin mun leggja kapp friðarsamninga og stríðslok. Gangi það eftir skapast nýjar aðstæður í samskiptum ESB og Rússland. Verulega langur tími mun líða, mældur í áratugum, áður en nýtt jafnvægi næst á milli ESB og Rússlands. Bandaríkin líta á það sem evrópskt vandamál.
Ísland er með tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin. Vegna legu landsins á miðju Atlantshafi líta stjórnvöld í Washington á Ísland sem útvörð í austurátt. Er Evrópa verður látin finna leið til að lifa með sterku Rússlandi eykst mikilvægi Íslands í augum Bandaríkjamanna. Þetta er ekki nýleg þróun. Fyrir sex árum gerði Stephen M. Walt, í bókinni The Hell of Good Intentions (2018), skilmerkilega grein fyrir að Bandaríkin eru hvorki siðferðislega né hernaðarlega megnug að leggja línurnar í alþjóðastjórnmálum líkt og þau voru áratugina eftir seinna stríð.
Bandaríkin verða æ fráhverfari fyrri stefnu að starfa sem alþjóðlegt lögregluvald. Þau líta aftur á Ísland sem nærsvæði sitt og láta sér annt um að hér á landi séu stjórnvöld er fylgja stefnu og anda varnarsamningsins frá 1951. Ísland sem ESB-ríki yrði sjálfkrafa hluti af eljaraglettum Evrópusambandsins og Rússlands næstu áratuga. Ísland sem ESB-aðild er komið á tvöfalt áhrifasvæði. Í einn stað Bandaríkjanna en Evrópusambandsins í annan stað.
Smáríki sem verður bitbein stórveldahagsmuna fær undantekningalaust slæma útreið. Óeining innanlands er fylgifiskur. Hér á landi yrðu einhverjir hallir undir forsjá ESB á meðan aðrir kysu að Ísland yrði á bandarísku áhrifasvæði. Stórveldin, hvort í sínu lagi, kæmu sér upp innlendum leppum. Saga smáríkja sem stórveldi þjarka um er víti til varnaðar. Gefum ekki færi á okkur.
Að svo mikið sem íhuga ESB-aðild er andstætt íslenskum hagsmunum í bráð og lengd. Fullkomlega ábyrgðalaust er að styðja ævintýramennsku Viðreisnar í utanríkismálum. Í þingkosningunum eftir átta daga er Viðreisn slæmur kostur. Mjög slæmur.
Aðildarviðræður við ESB kannski skilyrði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 21. nóvember 2024
Namibía: hvenær koma Íslendingarnir aftur?
Namibískir sjómenn sem störfuðu á skipum Samherja bjuggu við betri kjör og höfðu hærri hásetahlut en þeir hafa í dag. ,,Hvenær koma Íslendingarnir aftur?" er spurt í Namibíu, samkvæmt gögnum sem tilfallandi fékk í hendur. Veruleg launalækkun, um 60 prósent, er hlutskipti sjómanna eftir að Samherji hætti útgerð.
Samherji var með rekstur í Namibíu 2012 til 2019. Eftir að Jóhannes uppljóstrari Stefánsson skildi eftir sig sviðna jörð árið 2016 var farið í að finna kaupendur. Útgerðinni var endanlega hætt í árslok 2019.
Síðasta skipið sem Samherji gerði út var Heinaste. Skipið var um tíma kyrrsett vegna þríhliða deilu Samherja, viðskiptafélaga og namibíska ríkisins. Í byrjun árs 2020 var kyrrsetningu aflétt. Skipið var selt og fékk nafnið Tutungeni og siglir undir namibískum fána.
Tilfallandi fékk heimildir um breytt kjör áhafnar Heinaste eftir að skipið skipti um eigendur og nafn. Í tíð Samherjaútgerðarinnar hafði áhöfnin aðgang að internetinu út á sjó. Það var slökkt á þeirri þjónustu eftir að nýir eigendur tóku við skipinu. Þegar Íslendingar voru með forræðið borðuðu hásetar og yfirmenn saman. Nú er komin stéttskipting þar sem menn eru flokkaðir í æðri og óæðri í matsal. Meira máli skiptir þó hásetahluturinn sem er kaup sjómanna.
Í Samherjaútgerðinni var hásetahluturinn reiknaður um borð. Í dag sér skrifstofa í landi um útreikninginn. Ólíkar reikniaðferðir gefa ólíka niðurstöðu, og munar þar verulegu. Uppgjöri á einum túr Tutungeni var borið saman hvað sjómenn hefðu fengið greitt samkvæmt uppgjöri Samherja. Í Tutungeni-útgerðinni var hásetahluturinn 7 000 namibískir dalir, eða 55 þús. íslenskrar krónur. Uppgjör samkvæmt Samherja/Heinaste-útgerðinni hefði gert hásetahlut upp á 17 000 namibíska dali eða 135 þús. íslenskar krónur. Hásetahluturinn lækkar um 60 prósent.
Samherji fór eftir bókinni í útgerðinni þar syðra. Þegar kurlin voru öll komin til grafar skilaði Samherji til namibísks samfélags yfir 20 milljörðum íslenskra króna. Útgerðin í Namibíu var Samherja ekki gullnáma, líkt og RSK-miðlar halda fram. Félagið tapaði einum milljarði króna á starfseminni.
Íslendingar eru ekki líklegir til að hefja útgerð í Namibíu í bráð, þótt það yrði eflaust til hagsbóta fyrir Afríkumenn. Hér á Íslandi háttar málum þannig að ríkisfjölmiðillinn, RÚV, rekur í samstarfi við jaðarmiðla mannorðsmorðvél sem hrekkur í gang af engu tilefni. RÚV nýtti sér, og nýtir sér enn, að Íslendingar þekkja lítið sem ekkert til namibískra málefna. Mannorðsmorðvélin matreiðir þvætting ofan á bull og kallar fréttir. Undirferli og lævísi er beitt til að fólk trúi upplognum ásökunum.
Svo dæmi sé tekið af nýjustu afurð RÚV skrifar Ingi Freyr Vilhjálmsson fréttamaður og sakborningur eftirfarandi:
Skýrslan var unnin fyrir spillingarlögregluna í Namibíu sem rannsakaði málið. Hún er tæplega 500 blaðsíðna löng og sýnir í smáatriðum flæði peninga frá Samherja til namibísku áhrifamannanna sem eru sakborningar í málinu.
Takið eftir að Ingi Freyr notar ekki orðið mútur. Hann ætlar lesendum að draga ályktun um mútur af orðunum ,,flæði peninga frá Samherja til namibísku áhrifamannanna". Peningaflæðið sé þekkt ,,í smáatriðum". Lævíst orðalag sem ætlað er að skapa hugrenningartengsl við ólögmæta starfsemi. Fréttamaðurinn gefur sterklega til kynna, en segir ekki berum orðum, að lögreglan hafi sannanir fyrir mútum. Í viðskiptum skipta peningar um hendur oft og iðulega og þykir ekki tiltökumál. Annars væru menn á steinaldarstigi, stunduðu vöruskipti.
Skýrslan, sem Ingi Freyr vísar til, er samin af Deloitte endurskoðendum og er frá árinu 2020 þótt ekki komi það fram í fréttinni. Látið er í það skína að um nýlega skýrslu sé að ræða, en svo er ekki. Búið væri að ákæra Samherja fyrir mútugjafir, bæði á Íslandi og í Namibíu, ef legið hefði fyrir í fjögur ár að mútur hefðu verið greiddar. Skýrslan frá Deloitte segir ekkert um ólögmætt flæði peninga frá Samherja til namibískra áhrifamanna. Í réttarhöldunum, sem standa yfir þar syðra er enginn tengdur Samherja ákærður. Hér heima stendur enn yfir rannsókn héraðssaksóknara sem síðustu tvö ár er sögð á lokametrunum. En það er ekkert sem varðar ,,flæði peninga" sem út af stendur.
Hvorki lögregluyfirvöld í Namibíu né á Íslandi sjá neitt athugavert við greiðslur sem Samherji innti af hendi. Ingi Freyr talar digurbarkalega um 500 blaðsíðna skýrslu Deloitte. Skýrslan geymir engar upplýsingar um lögbrot Samherja. Við getum slegið því föstu af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi er Samherji ekki á ákærubekk þar syðra. Í öðru lagi hefur Skatturinn á Íslandi yfirfarið allt bókhald Samherja frá þessum árum. Ekki fannst arða af mútufé. En samt mallar mannorðsmorðvélin áfram, gerir því skóna að fjögurra ára skýrsla sýni ólögmæta viðskiptahætti, mútugjafir. Þvættingur matreiddur ofan á eldra bull og selt sem fréttir.
Namibískir sjómenn sem urðu fyrir 60 prósent launaskerðingu við brotthvarf Samherja ættu að senda reikninginn á Glæpaleiti.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 20. nóvember 2024
RÚV: sakborningur segir fréttir um sjálfan sig og bróður sinn
RSK-miðlar, þ.e. RÚV, Stundin og Kjarninn, sem heita nú Heimildin, eiga aðild að tveim óuppgerðum sakamálum. RSK-miðlar eru upphafsaðilar beggja mála. Í öðru málinu, kennt við Namibíu, eru blaðamenn ásakendur. Í hinu tilvikinu, byrlunar- og símamálinu, eru blaðamenn sakborningar. Fréttamaður RÚV, Ingi Freyr Vilhjálmsson, er ásakandi í öðru málinu en sakborningur í hinu. Ríkisfjölmiðillinn lætur gott heita að sakborningur segi fréttir af sjálfum sér og bróður sínum.
RÚV hélt í gær upp á fimm ára afmæli Namibíumálsins með því að láta einn sakborninginn í byrlunar- og símamálinu, Inga Frey Vilhjálmsson, fjalla um Namibíumálið. Á Efstaleiti teljast það fagleg vinnubrögð fréttamaður segir fréttir af sakamáli sem nátengt er réttarstöðu hans sem sakbornings.
Bróðir Inga Freys, Finnur Þór Vilhjálmsson, er fyrrum saksóknari í Namibíumálinu. Hann varð dómari í héraðsdómi og gerði alla dómara þar vanhæfa til að úrskurða í kærumáli Örnu McClure, sem er sakborningur í Namibíumálinu. Í þeim úrskurði sagði að Finnur Þór sé
vanhæfur til að fara með rannsókn málsins vegna tengsla sóknaraðila [héraðssaksóknari/Finnur Þór] við rannsókn á máli lögreglustjórans á Norðurlandi eystra þar sem bróðir hans [byrlunar- og símamálið/Ingi Freyr] hefur réttarstöðu sakbornings og varnaraðili [Arna McClure] hefur stöðu brotaþola
Eins og nærri má geta segir Ingi Freyr fréttamaður RÚV ekkert frá fyrri aðkomu sinni að málinu, né heldur af þætti bróður hans. Ingi Freyr er bullandi vanhæfur til að fjalla Namibíumálið, jafnvel enn frekar en Finnur Þór bróðir hans sem gerði þó heilan dómstól vanhæfan. Tilfallandi skrifaði um samkrull bræðranna á þriggja ára afmæli Namibíumálsins og sagði: ,,Bræðurnir eiga þá sameiginlegu hagsmuni að finna sekt hjá Samherja."
Namibíumálið verður, í höndum Inga Freys og RÚV í gær, að gaslýsingu á málavöxtum. Aðalpunkturinn í fréttaskýringunni er að Samherji skuldi þeim lífsviðurværi sem unnu hjá útgerðinni. Samherji hætti mest allri starfsemi í Namibíu 2016, og endanlega 2019, eftir að stöðvarstjórinn þar, maður að nafni Jóhannes Stefánsson, keyrði starfsemina í þrot. Jóhannes gat ekki stjórnað eigin lífi, er áfengissjúklingur, fíkill og illskeyttur.
Þremur árum eftir að Jóhannes sigldi Namibíuútgerðinni í strand kynntu RSK-miðlar hann sem uppljóstrara. Jóhannes hafði í frammi stórar ásakanir um mútugjafir í Namibíu árabilið 2012-2016. Engin gögn fylgdu sem studdu gífuryrðin, aðeins framburður fíkniefnaneytanda. Upphaflegar ásakanir birtust í Kveíksþætti á RÚV í nóvember 2019. Erlendir fjölmiðlar, t.d. Aftenposten Innsikt, vekja athygli á að Jóhannes sé einn til frásagnar um mútugjafir. RSK-miðlar höfðu hönd í bagga að norska útgáfan birti ásakanir Jóhannesar. Aftenposten Innsikt baðst afsökunar að hafa gert það og sagði m.a.:
Greinin hafði að geyma fjölda staðhæfinga og ekki kom nægilega vel fram að umræddar staðhæfingar væru einhliða frásögn uppljóstrarans Jóhannesar Stefánssonar af málsatvikum. [...]
Afenposten Innsikt hefur enga stoð fyrir þeirri fullyrðingu að Jóhannes Stefánsson hafi komið fram fyrir hönd Samherja í mútum til manna í Namibíu né að samningur um eitthvað slíkt hafi verið gerður á milli Samherja og namibískra aðila. Um er að ræða ásakanir Jóhannesar Stefánssonar...
Erlendir blaðamenn taka ekki góða og gilda frásögn ógæfumanns eins og Jóhannesar. RSK-miðlar hafa á hinn bóginn í fimm ár haldið á lofti ásökunum uppljóstrarans. Ingi Freyr, blaðamaður Stundarinnar, síðar Heimildarinnar, á að baki marga tugi frétta um að Jóhannes sé trúverðug heimild og taka beri orðum hans sem heilögum sannleika. Erlendir blaðamenn, sem hafa kynnt sér málið, eru ekki sama sinnis. Ingi Freyr og félagar á RSK-miðlum stunda ásakanablaðamennsku sem skeytir engu um trúverðugleika heimilda eða sannindi máls. Magn og tíðni ásakana er keppikeflið, ekki hlutlægar upplýsingar.
Ingi Freyr kallar gaslýsta RÚV-afurð sína í gær fréttaskýringu. Afurðin er fyrst og síðast fréttahryðjuverk gegn sannleikanum. Í lok hryðjuverksins segist Ingi Freyr hafa haft samband við Samherja sem ,,vildi ekki tjá sig." Tilfallandi skal éta hatt sinn upp á það að þarna ljúgi fréttasakborningurinn eins og hann er langur til. Annað tveggja hefur Ingi Freyr ekki haft samband við Samherja eða fengið það svar, hafi hann beðið um álit að norðan, að heiðarlegt fólk hafi annað við tíma sinn að gera en að ræða við vanhæfan raðlygara á Glæpaleiti.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 19. nóvember 2024
Þórður Snær og afleiðingar afneitunar
Árið 2007 tókst Þórði Snæ að svindla sig frá afleiðingum eigin gjörða. Hann skrifaði undir dulnefni ljótt um Rannveigu Rist forstjóra. Þegar það var borið upp á hann neitaði Þórður Snær að vera höfundur skrifanna.
Árið 2021 átti Þórður Snær beina eða óbeina aðild að byrlun Páls skipstjóra, stuldi á síma hans og afritun. Þórður Snær neitaði, höfðaði mál gegn tilfallandi fyrir að fjalla um málið en tapaði. Afneitun Þórðar Snæs á veruleikanum 2021 gekk lengra. Hann beinlínis fullyrti að skipstjóranum hefði ekki verið byrlað. Líkt og 2007 komst Þórður Snær upp með svindlið.
Árið 2024 ætlar Þórður Snær að svindla enn á ný, víkjast undan að axla ábyrgð á eigin orðum. Fyrstu viðbrögð hans eftir Spursmálsþáttinn með Stefáni Einari, þar sem vísað var í kvenfyrirlitningartexta Þórðar Snæs, voru þau að afsaka sig með þeim orðum að svona hafi ,,menningin" verið fyrir nokkrum árum. Nú sé hann annar og betri maður.
En, nei, Þórður Snær er sami maðurinn og hann alltaf hefur verið. Hann er staðinn að svindli 2007, 2021 og 2024. Á þessu árabil gat Þórður Snær sér orð fyrir blaðamennsku sem gekk út á að ásaka og ofsækja. Á hæpnum forsendum, stundum alls engum, hafði þessi tegund blaðamennsku tekið menn niður. Iðulega höfðu blaðamenn samstarf sín á milli að velja sér skotmörk. Illræmdasta bandalagið var RSK-miðlar, RÚV, Stundin og Kjarninn.
Ástæðan fyrir því að svindlið tókst ekki núna er að Þórður Snær fór fram á að heill stjórnmálaflokkur ábyrgðist orð hans. Ritstjórinn fyrrverandi stóð í þeirri trú að, líkt og RSK-bandalagið, myndi Samfylkingin slá skjaldborg um óhæfuna sem hann varð uppvís að. Í 4 daga tókst Þórði Snæ að halda stuðningi Samfylkingar. Á þeim tíma kynntu flokksmenn sér sögu Þórðar Snæs og lásu fréttir um fyrri skrif þingmannsefnisins. Þeim ofbauð.
Þórður Snær útskýrði aðferðafræðina sem hann stundaði í leiðara Kjarnans árið 2017:
Tæknin sem beitt er kallast á ensku gaslighting, eða gaslýsing, og er þekkt pólitískt bragð. Í henni felst að neita stanslaust allri sök, afvegaleiða, setja fram mótsagnir, ljúga upp á fólk afstöðu, hengja sig í öll aukaatriði og hanna nýja atburðarás eftir á sem hentar málstað þess sem er að verja sig.
Leiðarinn var skrifaður til að halda á lofti þeirri kenningu þáverandi ritstjóra Kjarnans að Sjálfstæðisflokkurinn væri hlynntur barnaníði. RSK-bandalaginu var í mun að selja almenningi kenninguna. Í ljósi eldri bloggskrifa Þórðar Snæs er hann þarna að varpa eigin hvatalífi yfir á aðra. Fyrirbærið, að skrifa á aðra eigin kenndir, er þekkt í sálfræði.
Í viðtengdri frétt fjallar almannatengill um fall Þórðar Snæs. Valgeir Magnússon gerir því skóna að hefði þingmannsefnið sjálft lagt ,,beinagrindurnar" á borðið væri honum fyrirgefningin vís. Valgeir gleymir tvennu. Í fyrsta lagi að beinagrindur Þórðar Snæs hefðu fyllt líkhúsið. Í öðru lagi að Þórði Snæ er tamara að ásaka og ofsækja en að játa. Til að komast hjá játningu segir Þórður Snær ósatt, það er einfaldlega hans háttur. Gerði það 2007 og aftur 2021. Þegar hann reyndi ósannindi í síðustu viku voru ekki nógu margir til að trúa. Of margir vissu hvaða mann Þórður Snær hafði að geyma.
Af hverju endaði Þórður Snær með því að slaufa sjálfum sér? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 18. nóvember 2024
Trump, trans og Ísland
Sigur Trump í forsetakosningunum var ekki sértækur heldur altækur. Hann fékk ekki aðeins afgerandi meirihluta kjörmanna heldur hreinan meirihluta atkvæða bandarísku þjóðarinnar. Trump var sakaður um að vera rasisti en fékk stuðning minnihlutahópa sem þekkja á eigin skinni kynþáttafordóma, s.s. blökkumenn og innflytjendur frá Rómönsku-Ameríku.
Forsetakosningarnar vestra snerust að hluta um hefðbundna pólitík eins og stöðu efnahagsmála. Annað deiluefni var opin landamæri. Þriðja stórmálið var vitundarpólitík eða vók. Í nafni mannréttinda er krafist að sjálfsvitund einstaklinga sé tekin umfram hversdagsleg sannindi. Karl sem segist kona fær aðgang að kvennarýmum, t.d. búningsklefum kvenna, kvennasalernum og kvennaíþróttum. Eina sem karlinn þarf að segja er að honum liði eins og konu, sjálfsvitundin trompar handfastan og áþreifanlegan veruleika.
Hugsanafrelsi eru mannréttindi og náskyld tjáningarfrelsinu. Vitundarpólitík vinstrimanna tekur þessi sjálfsögðu mannréttindi og gerir úr þeim lögbundna skyldu að einn skal trúa ranghugmynd annars. Út á það gengur vitundarvókið. Mannréttindi eru ekki að bábilja eins skuli sannfæring annars. Réttur eins til að skilgreina sjálfan sig nær aðeins til sjálfsins, ekki til annarra sem kunna að greina á milli ímyndunar og veruleika. Sigur Trump liggur ekki síst í andstöðu hans við vók.
Enginn karl getur orðið kona. Karlar eru með XY-litninga en konur XX-litninga. Karlar geta þóst vera konur og öfugt, kona sagt sig karl. En að þykjast og vera er tvennt ólíkt. Sjálfsblekking og reynd er sitthvað. Vitundarpólitík vinstrimanna sópaði þessum sannindum til hliðar, sagði þau ómarktæk andspænis rétti hvers og eins til að skilgreina sjálfan sig. Skilgreiningarrétturinn fær meira vægi en heilbrigð dómgreind.
Ef veruleikinn er gerður ómarktækur opnast hlið fáránleikans upp á gátt. Fertugur maður getur sagst þriggja ára stúlkubarn, skráð sig í leikskóla og krafist viðeigandi þjónustu. Fimmtugur maður gæti sagt að sér liði eins og sjötugum og krafist greiðslu úr lífeyrissjóðum og almannatryggingum til samræmis við upplifun sína. Áfram mætti tefla fram dæmum um afleiðingarnar ef hversdagslegum sannindum, um kyn og aldur, er varpað fyrir róða. Í stuttu máli verður samfélagið óstarfhæft.
Vitundarpólitík vinstrimanna er menningarsjúkdómur samfélags allsnægtanna í einn stað. Í annan stað er stökkbreyting í miðlun upplýsinga ástæða brenglunarinnar. Velferð á færibandi skapar svigrúm fyrir ranghugmyndir. Sannanlega rangar hugmyndir fá sjálfstætt líf í heimi samfélagsmiðla í krafti margfeldisáhrifa sem gera engan greinarmun á sannindum og ósannindum. Lífsbarátta, mæld í brauðstriti, setur takmörk á fáránleikann sem hægt er að bjóða fólki upp á. Engin tilviljun er að vitundarpólitík vinstrimanna, sem ættuð er að stórum hluta frá háskólaborgunum í Bandaríkjunum, á síður upp á pallborðið í Austur-Evrópu en vesturhluta álfunnar. Í Austur-Evrópu muna menn enn efnahagslega örbirgð og pólitískan rétttrúnað sósíalismans. Vestrænar vitundarfirrur fá ekki framgang meðal þjóða sem kunnugar eru brauðstriti og gjalda varhug veraldlegu trúboði eftir slæma reynslu.
Trump er með tilbúna áætlun gegn kynbreytingu á börnum sem heggur að rótum vitundarpólitík vinstrimanna síðustu tveggja áratuga. Verði áætluninni hrint í framkvæmd er börnun forðað frá því að vera leiksoppar fullorðinna með ranghugmyndir. Hægrimenní Bandaríkjunum eru ekki einir um að afþakka transmenninguna. Nýr leiðtogi Íhaldsflokksins í Bretlandi er sömu skoðunar, eins og sagði í nýlegu bloggi:
Barn getur ekki verið trans, sagði Badenoch í kappræðum vegna leiðtogakjörs Íhaldsflokksins, samkvæmt Telegraph. Hún var áður jafnréttisráðherra og vann að endurskoðun löggjafar til að tryggja rétt kvenna til kynaðgreindra rýma. Í ráðherrastarfi sagðist Badenoch hafa séð sterkar sannanir fyrir því að ungmennum sem eru samkynhneigð eða glíma við geðraskanir sé talin trú um að þau séu trans.
Skýtur skökku við að íslenskir stjórnmálamenn, sem gorta sig af að vera í hinum eina sanna hægriflokki, skuli gera sér far um að misþyrma móðurmálinu með transtungutaki.
Trump-áhrifin á íslensk stjórnmál verða að litlu leyti efnahagslegs eðlis. Menningaráhrifin verða þeim mun meiri. Veitir ekki af. Hér á landi er lífskoðunarfélögum eins og Samtökunum 78 hleypt inn í leik- og grunnskóla til að kenna þá firru að sumir fæðist i röngum líkama. Vitundarpólitík vinstrimanna hér á landi er komin á það stig að þeir sem andmæla skaðlegri starfsemi Samtakanna 78 í leik- og grunnskólum fá á sig opinbera ákæru. Mál er að linni og heilbrigð skynsemi verði tekin fram yfir bábiljur sem valda skaða á líkama og sál.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 17. nóvember 2024
Viðreisn, ESB-óreiðan og ónýta Ísland
Viðreisn boðar aðild að Evrópusambandinu fái flokkurinn kjörfylgi og aðild að ríkisstjórn. Eina hreina vinstristjórn lýðveldisins, ríkisstjórn Jóhönnu Sig. 2009-2013, samþykkti þann 16. júlí 2009 að sækja um ESB-aðild - á afmælisdegi Tyrkjaránsins.
Svik og undirferli voru undanfari aðildarumsóknarinnar 2009. Vinstri grænir lofuðu kjósendum sínum ESB-andstöðu þá um vorið. Flokkur forsætisráðherra, Samfylkingin, svindlaði á flokksmönnum þegar þeir voru beðnir að samþykkja að gera ESB að stefnumáli um aldamótin.
Áramótin 2012/2013 var umsóknin lögð til hliðar. Ríkisstjórnin sá ekki fram á að þjóðin myndi samþykkja framsal fullveldis til embættismannaveldis á erlendri grundu. Stjórnarflokkarnir, Samfylking og Vinstri grænir, guldu afhroð í þingkosningum vorið 2013. Síðan er fátt að frétta af ESB-daðri.
Þangað til núna.
Óopinbert slagorð Samfylkingar eftir hrun var ónýta Ísland. Ástandið var svo óbærilegt að nýja stjórnarskrá þurfti, nýjan gjaldmiðil og gott ef ekki nýja þjóð í landið. Stóra endurræsingin var ESB-aðild.
Á síðustu árum lærði Samfylkingin sína lexíu og tónaði niður orðfærið sem flokknum var tamt í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sig. En þá stekkur Viðreisn til og tileinkar sér pólitíkina um ónýta Ísland.
Með sjálfa hrundrottninguna í farþegasætinu og grínista undir stýri endurvekur Viðreisn bábiljuna að ESB-aðild bjargi Íslandi. Sagan frá 2009 endurtekur sig sem farsi í kosningabaráttunni en gæti endað í harmleik 30. nóvember fái Viðreisn meðbyr kjósenda.
Viðreisn krefst aðildarviðræðna við ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 16. nóvember 2024
Þrjú vistkerfi Þórðar Snæs, Ingibjörg Sólrún afturkallar stuðning
Frambjóðandi Samfylkingar, Þórður Snær Júlíusson, hefur gert sig gildandi í þrem vistkerfum. Á þrítugsaldri í bloggvistkerfi þar sem verðandi þingmannsefni fór fremstur meðal jafningja að rægja konur, einkum konur í ábyrgðarstöðum i samfélaginu.
Þórður Snær hlutgerði konur og lagði sérstaka fæð á konur sem komust til áhrifa. Í hugarheimi Dodda á þrítugsaldri áttu konur að vera til brúks fyrir karla eins og hann, ekki annað.
Tíu árum eða svo eftir að Þórður Snær lagði nótt við nýtan dag að níða skóinn af sjálfstæðum konum söðlaði hann um og tók að sér forystuhlutverk í vistkerfi góða fólksins. Þá orðinn ritstjóri fékk Þórður Snær sér sæti í stjórn UN Women. Í vistkerfi góða fólksins varð Doddinn hatrammur andstæðingur alls þess lyktaði af minnstu fordómum. Hann gerðist siðameistari góðs og ills og hundelti mann og annan er vék af vegi rétttrúnaðarins.
Vistkerfi fjölmiðla er þriðji áfangastaður þingmannsefnis Samfylkingar. Þar reis sól Þórðar Snæs hæst vorið 2021. RSK-blaðamenn (RÚV, Stundin og Kjarninn) skipulögðu aðför að skipstjóra, sem var byrlað, síma hans stolið og hann afritaður á RÚV. Þaðan fór efnið á Stundina og Kjarnann, sem Þórður Snær ritstýrði. Til verksins var notuð vanheil eiginkona skipstjórans. Á þrítugsaldri hugsaði Doddinn konur sem verkfæri til að þjóna lund sinni. Á fimmtugsaldri hrinti hann æskuhugsjóninni í framkvæmd, réðst á garðinn þar sem hann var lægstur.
Ástæða atlögunnar var að blaðamönnum var í nöp við vinnuveitanda skipstjórans, norðlenska útgerð. Í eftirmála nutu sín vel hæfileikar Þórðar Snæs að gera svart hvítt. Hann afneitaði bláköldum staðreyndum, sagði skipstjóranum ekki byrlað og enn síður var stolinn sími afritaður.
Þrátt fyrir hetjulega baráttu Dodda gegn sannleikanum trúðu honum æ færri. Hratt fjaraði undan trúverðugleika hans. Sérhæfing ritstjórans er gaslýsing, sem hann lýsir svo:
Tæknin sem beitt er kallast á ensku gaslighting, eða gaslýsing, og er þekkt pólitískt bragð. Í henni felst að neita stanslaust allri sök, afvegaleiða, setja fram mótsagnir, ljúga upp á fólk afstöðu, hengja sig í öll aukaatriði og hanna nýja atburðarás eftir á sem hentar málstað þess sem er að verja sig.
,,Tilgangurinn," útskýrir Þórður Snær, er að fá almenning ,,til að efast um eigin dómgreind." Ritstjórinn er þaulæfður í aðferðinni.
Í sumar fékk Þórður Snær sparkið á Heimildinni. Tilfallandi bloggaði um brotthvarfið. Í niðurlagi bloggsins, sem skrifað er 1. ágúst síðast liðinn segir:
Gaslýsing Þórðar Snæs bitnaði að lokum á honum sjálfum. Almenningur keypti ekki þvaður um að ritstjórinn og RSK-miðlar væru þolendur í byrlunar- og símastuldsmálinu. Á flóttanum tapaði ritstjórinn áttum, sökk æ dýpra í sjálfsblekkingu. Kæmi ekki á óvart að Þórður Snær reyndi næst fyrir sér á vettvangi Samfylkingar. Hann er þannig týpa.
Og viti menn, það gekk eftir. Þórður Snær varð í lok október þingmannsefni Samfylkingar, skipar 3ja sætið í Reykjavík norður, á eftir Kristrúnu formanni og Degi borgarstjóra. Samfylkingin verður fjórða vistkerfið þar sem Doddinn lætur til sín taka.
Konur mæta í röð á RÚV að þvo hendur sínar af eyðingaraflinu sem leggur í rúst vistkerfin er það sækir heim. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrum formaður Samfylkingar lýsti yfir stuðningi við Þórð Snæ í fyrradag. Í athugasemd seint í gær á Facebook-síðu Kristrúnar afturkallar Ingibjörg Sólrún stuðning sinn við þingmannsefnið:
Verð að endurskoða afstöðu mína í þessu máli. Því meira sem birtist af gömlum færslum Þórðar því erfiðara er að sætta sig við hann fyrir 20 árum. Hann þarf að hreinsa þetta almennilega upp til að endurheimta trúverðugleika sinn.
Þórður Snær ætti að taka vinsamlegum ábendingum og leggja á hilluna áform um að verða fulltrúi á þjóðþinginu. Hann á ekki innistæðu fyrir þeirri vegsemd.
Hálfgerð martröð fyrir kosningastjóra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 15. nóvember 2024
Bað Þórður Snær Rannveigu, Guðmund Karl og Kolbrúnu fyrirgefningar?
Þórður Snær frambjóðandi Samfylkingar skrifaði á opinberan vettvang rætinn texta um konur almennt. Hann skrifaði einnig um nafngreinda einstaklinga. Þingmannsefnið hefur allan sinn feril sýnt af sér sömu stílbrigðin og hann tamdi sér sem ungur maður.
Um Rannveigu Rist forstjóra skrifaði þingmannsefnið:
Stundum get ég verið hamingjusamur. Og bersýnileg eiturlyfjaneysla Rannveigar Rist, álfrúarinnar, gleður mig óendanlega mikið. Eða ég gef mér að hún sé undir áhrifum hennar vegna því annars daðrar hún líklega við að vera þroskaheft.
Undir sömu færslu er að finna mynd af Rannveigu skera sneið af tertu. Í myndatexta segir orðrétt: Álfrúin sker sér sneið af contalgen tertu.
Færslurnar um Rannveigu rötuðu á borð siðanefndar Blaðamannafélags Íslands. Þegar kæra Rannveigar var borin undir Þórð Snæ vildi hann ekki kannast við höfundarverk sitt. Á Vísi er haft eftir ritstjóranum:
Þórður Snær Júlíusson kom af fjöllum í kvöld þegar Vísir ætlaði að bera undir hann úrskurð siðanefndarinnar. Hann sagðist ekki hafa haft hugmynd um að þetta mál og þessi bloggfærsla væri til umfjöllunar hjá siðanefndinni.
Hann sagði að fjölmargir aðilar skrifuðu á umrædda síðu og einkennilegt væri að honum væri eignuð hin umdeildu skrif um Rannveigu Rist.
Þegar upp komst um rætinn verðandi ritstjóra greip hann til ósanninda, þetta var ekki ég heldur einhver annar, líklega heimildarmaður sem ekki má nafngreina.
Um Guðmund Karl Brynjarsson sóknarprest og Kolbrúnu Bergþórsdóttur blaðamann skrifaði Þórður Snær:
Annar sambýlismaður minn var með kærustuna sína í heimsókn frá BNA hér um daginn. Hún leit út eins og afkvæmi Gumma-Kalla og Kolbrúnar Bergþórsdóttur. Hún var eins og leirklumpur standandi á tveimur mars-stykkjum. Hún var ekki með brjóst, samt með vömb, stóran rass, stuttar lappir, gróft hár og þrútið andlit
Siðfræðingur segir á Vísi að Þórður Snær ,,þyrfti jafnvel að biðja fólk fyrirgefningar, því það eru þarna nafngreindir einstaklingar."
Sjálfur er Þórður Snær fljótur að krefja aðra um að biðja sig afsökunar, sé orði á hann hallað. Ritstjórinn krafði bloggara um afsökun þegar tilfallandi sagði Þórð Snæ eiga aðild að refsimáli þar sem hann var sakborningur og er enn. Tilfallandi varð ekki við kröfu Þórðar Snæs sem hóf málssókn og heimtaði 1,5 m.kr. fyrir æru sína. Þingmannsefnið hafði sigur í héraðsdómi og sagði þá þessi fleygu orð:
það má ekki segja hvað sem er um hvern sem er, hvenær sem er, hvar sem er
Ritstjórinn er fjarska meðvitaður, að ekki sé sagt hörundssár, um eigið orðspor. En hann telur sig hafa heimild til illvígrar atlögu að orðspori annarra, bæði með rætnum bloggfærslum undir dulnefninu ,,þýska stálið" og í fréttum sem fremur eru byggðar á skáldskap en traustum heimildum. Landsréttur ómerkti héraðsdóminn; það má gagnrýna menn af sauðahúsi Þórðar Snæs.
Þórður Snær á aðild að byrlunar- og símamálinu, er þar sakborningur. Tilfallandi byrjaði að skrifa um málið haustið 2021 og var einn um að setja aðfarir blaðamanna í samhengi við byrlun Páls skipstjóra, stuldi á síma hans og afritun. Ritstjórinn skrifaði leiðara 18. nóvember 2021 undir fyrirsögninni Glæpur í höfði Páls Vilhjálmssonar. Þar valdi hann bloggara hin verstu nöfn, ,,skítugur maður með rætna bloggsíðu sem hann notar til að ljúga upp á fólk og gera þeim upp meiningar." Þórður Snær klykkti út með ósannindum: ,,Til að taka af allan vafa: það er enginn blaðamaður til rannsóknar". En það var lögreglurannsókn á Þórði Snæ og félögum, fyrsta yfirheyrsla fór fram í byrjun október 2021. Í febrúar 2022 fengu blaðamenn stöðu sakborninga, ritstjórinn þar á meðal. Ritstjórinn fór enn og aftur með vísvitandi ósannindi þegar hann fullyrti að engin lögreglurannsókn stæði yfir.
Stílbrigði Þórðar Snæs haustið 2021 eru þau sömu og þegar hann níddist nafnlaust á Rannveigu Rist, Guðmundi Karli og Kolbrúnu Bergþórs. Enda skrifar sami maðurinn textann. Enginn flýr sjálfan sig.
Vandamál Þórðar Snæs er hugarfarið. Drífa Snædal bendir á að ,,iðrandi karlar með kvenhatur á samviskunni þurfi að gera meira en að biðjast bara afsökunar og gera lítið úr kvenhatri sínu og krefjast þess að málinu sé lokið. Stærra uppgjör þurfi til." Aðferð Þórðar Snæs er að ásaka aðra. Hann kærði Pál skipstjóra fyrir að hóta sér ofbeldi. Kæran var uppspuni frá rótum. Með kærunni vildi gerandi breyta sér í brotaþola.
Þórður Snær er snöggur upp á lagið að gera siðferðiskröfur til annarra. Hann ætti að byrja á sjálfum sér í einrúmi. Það er lítt stórmannlegt að draga heilan stjórnmálaflokk niður í eigið svínarí. Ritstjórinn fékk sæti á framboðslista Samfylkingar á fölskum forsendum, sýndi sig annan en hann í raun er. Hvað viðtengda frétt áhrærir: þarf að segja meira?
Klúr skrif beindust einnig gegn börnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 14. nóvember 2024
Þórður Snær með Kristrúnu undir hælnum
Þórður Snær Júlíusson situr áfram á framboðslista Samfylkingar, þrátt fyrir afhjúpun gærdagsins um viðhorf hans til kvenna. Stjórnmálaflokkur sem kennir sig við femínisma lætur gott heita að karlframbjóðandi flokksins segi konur ,,lævísar, undirförlar tíkur" og ræðst á nafngreinda konu í áhrifastöðu með þeim orðum að hún sé ,,þroskaheft". Spurningin vaknar hvort ráði ferðinni í Samfylkingunni Kristrún formaður eða Þórður Snær kvennaljómi.
Víst er að áhrifavald Þórðar Snæs og bakhjarla hans í flokkseigendafélagi Samfylkingar er gríðarlegt. Til að rýma fyrir ritstjóranum í þriðja sæti listans í Reykjavík norður var sitjandi þingkona, Dagbjört Hákonardóttir, látin víkja sæti til að Þórðar Snær kæmist á þjóðarsamkunduna með boðskap sinn. Kona út, kvenfyrirlitning inn er óopinber stefna Samfylkingarinnar fyrir kosningarnar 30. nóvember.
Eftir afhjúpun gærdagsins er Þórður Snær myllusteinn um háls Samfylkingar. Fyrrum samherjar hans á Heimildinni snúa við honum baki. Ingibjörg Dögg ritstjóri segir þingmannsefnið gervi-femínista sem skortir auðmýkt. Kvenfjandsamleg sannfæring Þórðar Snæs lifir fram á kjördag eftir hálfan mánuð og gott betur nú þegar Kristrún blessar textaperlur Dodda. Dæmi:
Feminsimi er partíorð yfir kynja-fasisma, hugmyndafræði sem er ætlað að tryggja konum undirtökin í samfélaginu með því að leika hlutverk fórnarlambs
þú verður ekkert graður við það að tala við áhugaverða, en sót-ljóta konu, það er nokkuð borðliggjandi.
meirihluti kvenkyns viðurkennir ekki að þær séu jafn graðar og við og nota kynlíf til að stjórna körlum.
Það er klámi að þakka að konur stjórna nú heiminum því það sýndi líka fram á hvað konur eru raunverulega megnugar til að framkvæma í svefnherberginu, hvernig er hægt að teygja þær og snúa þeim.
Annar sambýlismaður minn var með kærustuna sína í heimsókn frá BNA hér um daginn. Hún leit út eins og afkvæmi Gumma-Kalla og Kolbrúnar Bergþórsdóttur. Hún var eins og leirklumpur standandi á tveimur mars-stykkjum. Hún var ekki með brjóst, samt með vömb, stóran rass, stuttar lappir, gróft hár og þrútið andlit
Esteban og Heiðveig eru svo sannarlega mitt fólk. Næst þegar ég sé hana á förnum vegi ætla ég að segja henni aftur að mig langi að ríða henni. Og jafvel Esteban líka
Þórður Snær reyndi að afsaka sig með ,,menningu" sem fékk hann til að skrifa ljótt um konur. Í raun var það ekki hann sjálfur sem sló á lyklaborðið heldur einhver óskilgreind ,,menning." Hvaða erindi á alþingi á maður sem ekki er sjálfs sín ráðandi? Er Samfylkingin orðinn pólitískur vettvangur óbeislaðra frumhvata sem lúta ekki siðalögmálum?
Kristrún formaður veit að Samfylkingin getur ekki boðið kjósendum upp á lista með Þórð Snæ Júlíusson. Hún vissi það strax í gærmorgun en lætur daginn líða án þess að bregðast við en lætur svo undan og blessar kvenfyrirlitningu. Gerendameðvirkni Kristrúnar lýtur ekki pólitískum lögmálum. Aðrar og myrkari ástæður liggja að baki. Þórður Snær virðist hafa þau tök á formanni Samfylkingar að ekki verði við honum hróflað. Á ellefta tímanum í gærkvöldi staðfestir Kristrún að Þórður Snær sé áfram þingmannsefni Samfylkingar. Áður hafði hún talað við ritstjórann sem sagðist ekki ætla að víkja af lista flokksins. Karlinn er ráðandi, konan víkjandi á Samfylkingarheimilinu.
Þórður Snær fékk þriðja sætið í Reykjavík norður á lista Samfylkingar þrátt fyrir að vera sakborningur í byrlunar- og símamálinu. Stórundarlegt er að maður grunaður um glæp í refsimáli skuli fá sæti á framboðslista til þingkosninga. Tilfallandi skoðaði fyrri samskipti Kristrúnar formanns og Þórðar Snæs ritstjóra og taldi að þar væri komin skýring á heljartaki er hann hefur á Kristrúnu. Niðurlag bloggsins:
Þórður Snær gerir ekkert ókeypis. Hann fékk loforð frá Kristrúnu um stuðning við þingmennsku. Ritstjórinn fyrrverandi er undirförull; sést á því að hann reyndi að sölsa undir sig yfirráð yfir Heimildinni á bakvið tjöldin. Upp komst og Þórði Snæ var sparkað. Eftir ráðabruggið vorið 2023, til að bjarga pólitísku lífi formanns Samfylkingar, er Þórður Snær kominn með upplýsingar sem hann getur hvenær sem er lekið til vinveittra blaðamanna. Þar með yrði saga Kristrúnar formanns öll. Kristrún er vel meðvituð um stöðu sína gagnvart ritstjóranum sem einskins svífst til að koma ár sinni fyrir borð.
Þórður Snær er sakborningur í alvarlegu refsimáli, byrlunar- og símamálinu. Enginn stjórnmálaflokkur með réttu ráði teflir fram til þingsetu manni sem grunaður er um glæp. En það gerir Samfylkingin. Skýringin er sú að formaðurinn þar á bæ sætir pólitískri fjárkúgun vegna skattsvika.
Með því að halda hlífiskildi yfir Þórði Snæ eftir að hann var afhjúpaður illa haldinn kvenfyrirlitningu staðfestir Kristrún að hún er undir hælnum á ritstjóranum. Þegar Þórður Snær sagði konur ,,lævísar, undirförlar tíkur" var hann að tileinka sér vinnubrögð og lífsviðhorf sem hann þóttist vita að kæmu sér vel er hann fetaði framabrautina.
,,Ég hef rætt við Þórð. Hann skammast sín djúpt fyrir skrifin," skrifar Kristrún til varnar ritstjóranum. Þroskasaga Þórðar Snæs sýnir hugsanir hans í framkvæmd. Í byrlunar- og símamálinu var andlega veik kona gróflega misnotuð af blaðamönnum. Hún er fengin til að byrla eiginmanni sinum, stela síma hans og færa blaðamönnum til afritunar. Þórður Snær taldi sig og félaga sína í fullum rétti að ráðast að fjölskyldu með veikan hlekk, konu sem gengur ekki heil til skógar. Ritstjóranum er ekkert heilagt. En Kristrún formaður segir Þórð Snæ skammast sín. Byrlunar- og símamálið hófst vorið 2021, fyrir rúmum þrem árum. Þórður Snær skammast sín ekki fyrir kvenfyrirlitninguna; stundar hana enn.
Kjósendur þurfa ekki að fara í grafgötur með hvað Þórður Snær og Samfylkingin standa fyrir. Atkvæði greitt Samfylkingu er stuðningur við kvenfyrirlitningu.
Þórður má og á að skammast sín | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 13. nóvember 2024
Helgi Seljan og njósnir Black Cube
,,Blaðamaðurinn Helgi Seljan er hættur í starfi hjá Heimildinni," sagði í frétt Mbl.is fyrir tæpum mánuði. Í frétt Mbl.is, sem er frá 18. október, segir í framhaldi:
Hann [Helgi Seljan] segir í samtali við mbl.is að hann sé ekki með neitt í hendi hvað atvinnu varðar. Þó sé aldrei að vita nema hann komist á sjóinn í afleysingar ef svo bæri undir.
Ég ákvað að taka mér bara pásu allavega, segir Helgi spurður um hvort að ákvörðunin hafi haft sér langan aðdraganda.
Helgi kvaðst hættur á Heimildinni fyrir rúmum mánuði en hann er ásamt Aðalsteini Kjartanssyni höfundur fréttar í Heimildinni sem birtist í fyrradag. Fréttin er afurð njósnastarfsemi þar sem sonur Jóns Gunnarssonar þingmanns var skotmark. Tálbeita frá huldufyrirtækinu Black Cube þóttist vera fjárfestir og hafði að yfirvarpi að kaupa eignir af syni Jóns, sem er fasteignasali. En tilgangurinn var að veiða upplýsingar um pabba fasteignasalans.
Upplýsingarnar sem tálbeitan aflaði rötuðu aðeins á einn fjölmiðil, Heimildina. Þar unnu Helgi og Aðalsteinn frétt upp úr hlerunum tálbeitunnar. En Helgi sagðist hættur störfum á Heimildinni í síðasta mánuði.
Hér fer ekki saman hljóð og mynd.
Black Cube hóf blekkingarleikinn gagnvart syni Jóns þegar í september. Í bloggi gærdagsins var rætt um að aðgerð huldufyrirtækisins gæti ekki verið bundin við Jón Gunnarsson og fjölskyldu hans. Meira lægi að baki. Einnig er deginum ljósara að íslenskir aðilar eru í nánu samstarfi við Black Cube. Það kemur enginn útlendingur upp úr þurru til Íslands að leggja snöru fyrir son alþingismanns og skipuleggur fréttaflutning til að hafa áhrif á þingkosningar hér á landi.
Enginn fjölmiðill spyr Helga hver skýringin sé á því að hann er höfundur fréttar á fjölmiðli sem hann starfar ekki á. Enginn fjölmiðill reynir að hafa upp á íslenskum samstarfsaðilum Black Cube.
Ekki-blaðamaður Heimildarinnar, Helgi Seljan, og skráður blaðamaður fjölmiðilsins, Aðalsteinn Kjartansson, eru höfundar fréttar sem fengin var með njósnum og blekkingum. Þeir tveir eru ekki spurðir hverjir séu raunverulegir atvinnuveitendur þeirra.
Hér er ekki lítið í húfi. Erlendir aðilar og íslenskir samverkamenn reyna að hafa áhrif á niðurstöðu lýðræðislegra kosninga hér á landi. Fjölmiðlar hafa spurt spurninga af minna tilefni.
Sleginn yfir grófri framkomu gegn fjölskyldunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)