Frænkur Þórðar Snæs, byrlunin og rannsóknin

Í ársuppgjöri Samstöðunnar, sem Sósíalistaflokkurinn rekur fyrir ríkisfé, mættu blaðamenn til að gera upp fjölmiðlaárið. Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Heimildarinnar, Jakob Bjarnar á Vísi og Lára Ómarsdóttir RÚV-ari heimsóttu Gunnar Smára og Sigurjón bróður hans.

Byrlunar- og símastuldsmálið ber á góma. Skoðanaskiptin (21:08) eru eftirfarandi, lítillega stytt:

Gunnar Smári: Þórður Snær rekur flóttamannabúðir fyrir RÚV-ara. Er það ekki?

Þórður Snær: Jú, ég er með þá tvo sem báru hitann og þungann af Samherjamálinu [Helgi Seljan og Aðalsteinn Kjartansson, innskot pv] En það verður að segjast eins og er að við erum undir gríðarlegri ágjöf. Þjóðmál ráðast á okkur, við erum undir lögreglurannsókn einvörðungu fyrir að skrifa fréttir. Það er það eina sem okkur er gefið að sök.

Gunnar Smári: Það er mjög sótt að fjölmiðlum á Íslandi.

Jakob: Grimmilega.

Þórður Snær: Það eru nytsamir sakleysingjar, sem heita flestir Páll, sem hamra á sömu hlutunum. Þeir fá pláss í meginstraumsmiðlum,  Í bítinu, í Mogganum, á mbl.is, á DV, á Mannlífi, hjá Reyni Trausta og Frosta [Logasyni á Brotkasti] og maður þarf að svara fyrir. Þetta eru ásakanir sem eru bara til í höfðinu á einum manni. Maður fer í fjölskylduboð og fær spurningar frá frænkum: af hverju voruð þið að eitra fyrir honum Páli [Steingrímssyni], af hverju misnotuðu þið konu hans, af hverju stáluð þið síma. Er það blaðamennska? En lögreglan getur ekki sýnt fram á neitt sem hún lagði upp með, hvorki með gögnum né vitnisburði. Ég er búinn að sjá öll rannsóknargögnin.  Málið er búið, eini tilgangurinn er að draga það á langinn svo við þurfum að sitja undir þessu áfram. Það er mjög alvarlegt, bæði fyrir okkur og fjölmiðla almennt.

Þórður Snær vill ekki umræðu um byrlunar- og símastuldsmálið. Í þeim örfáu tilvikum sem ritstjórinn, einn fimm sakborninga en fjórir þegja enn fastar en Þórður Snær, fer hann með rangt mál. Í tilvitnuninni hér að ofan eru tvær alvarlegar rangfærslur feitletraðar.

Þórður Snær segir ,,við erum undir lögreglurannsókn einvörðungu fyrir að skrifa fréttir." Þetta er rangt. Lögreglurannsóknin beindist fyrst að meðferð blaðamanna á einkagögnum Páls skipstjóra Steingrímssonar. Blaðamennirnir sendu sín á milli, og til annarra, stolin gögn. Þeir gerðu einnig miska Örnu McClure, enda er hún brotaþoli ásamt skipstjóranum. Ekki liggur fyrir hvert sakarefnið er gagnvart Örnu. 

Þegar leið á rannsókn lögreglu beindist athygli að samskiptum blaðamanna við byrlara Páls, þáverandi eiginkonu hans, sem er alvarlega veik andlega. Páli var byrlað 3. maí 2021 af konunni. Á meðan Páll var á gjörgæslu og barðist fyrir lífi sínu fór veika konan með síma Páls á Efstaleiti, höfuðstöðvar RÚV, þar sem símtækið var afritað. Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks hafði keypt Samsung-síma, samskonar og Páls, í apríl 2021, fyrir byrlun og þjófnað. Hvernig vissu blaðamenn fyrirfram að þeir myndu fá síma skipstjórans? Þóra og RÚV birtu ekkert upp úr símanum. Það gerðu aftur Þórður Snær á Kjarnanum og Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni. Þeir birtu samtímis efni 21. maí 2021. Hvaða líkur eru á því að tilviljun ráði að tveir fjölmiðlar, sem eiga að heita sjálfstæðir, birti sama morguninn sama fréttaefnið úr sama símanum án skipulags og samráðs? Nánast engar.

Lögreglan fór fram á gögn, m.a. frá Google og Facebook, til að varpa ljósi á samband blaðamanna við þáverandi eiginkonu skipstjórans áður en byrlun fór fram. Upplýsingar úr símtalaskrám staðfesta að samskipti fóru fram, blaðamenn áttu símtöl við veiku konuna í apríl. Texti um hvað byrlara og blaðamönnum fór á milli mun upplýsa hvort og hvernig blaðamenn lögðu á ráðin um að komast yfir síma skipstjórans.

Þórður Snær segir ,,Ég er búinn að sjá öll rannsóknargögnin." Nei, Þórður Snær hefur ekki séð öll rannsóknargögnin. Þau gögn sem eru í umferð, hjá brotaþolum og sakborningum, eru elst frá ágúst 2021. Gögn sem varða tímabilið apríl og maí, þegar byrlun og símastuldur var skipulagður og framkvæmdur, eru ekki komin í hendur sakborninga og brotaþola. Ekki heldur gögn frá júní og júlí, þegar blaðamenn reyndu að fela verksummerki og eyða tölvupóstum.

Þriðja atriðið, sem vert er að veita athygli í málsvörn Þórðar Snæs, er að öll áhersla sakborningsins er á hvað lögreglan getur sannað. Ekki hvað í raun gerðist í sakamálinu. Páli skipstjóra var byrlað, síma hans var stolið og gögn símans urðu tilefni frétta í Stundinni og Kjarnanum, nú Heimildinni. Þórður Snær og fjórir aðrir sakborningar búa að upplýsingum um atburðarásina. En allir sakborningar ljúga, mest með þögninni, bæði gagnvart almenningi og lögreglu. Eiga blaðamenn ekki að upplýsa stór mál og smá? Er það ekki megintilgangur blaðamennsku, að segja sem réttast frá mikilsverðum tíðindum?    

Frænkur Þórðar Snæs, þær sem hann gerir að umtalsefni, vita meira um blaðamennsku en ritstjóri Heimildarinnar. Frænkurnar vita að ekki má byrla og stela undir yfirskini fréttaöflunar. Þær vita líka að maður á að segja satt, bæði almennt en ekki síst þegar gefin er skýrsla til lögreglu. Hvorugt stundar Þórður Snær. Hann hagar sér eins og atvinnumaður í annarri starfsgrein en blaðamennsku. 

 


Bloggfærslur 3. janúar 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband