Miðvikudagur, 31. júlí 2024
Mannréttindi, móðgun og ráðherra
Tjáningarfrelsið er hornsteinn mannréttinda. Réttur manna að tjá hug sinn er meiri og mikilvægari en meintur réttur til að verða ekki fyrir móðgun. Í viðtengdri frétt segir frá tveim aðilum, Semu Erlu og Samtökunum 78, sem móðguðust vegna ummæla Helga Magnúsar vararíkissaksóknara.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra er með á sínu borði tilmæli yfirmanns Helga Magnúsar að honum verði víkið frá störfum fyrir ummæli sem aðilar út í bæ tóku til sín sem móðgun. Öðrum, tilfallandi til dæmis, fannst Helgi Magnús mæla af skynsemi almælt tíðindi; að sumir hælisleitendur eru afbrotamenn og að einhverjir hælisleitendur ljúga upp á sig eiginleikum, s.s. samkynhneigð, til að fá landvist og velferð.
Ráðherra ætti að hafa í huga við úrlausn málsins að embættisferill Helga Magnúsar er ekki einn undir heldur meginréttur allra landsmanna, að tjá hug sinn.
Guðrún ráðherra sendi afar slæm skilaboð út í þjóðfélagið ef hún tæki mark á kæru Semu Erlu og tilmælum Sigríðar ríkissaksóknara og leysti Helga Magnús frá störfum. Frjáls orðræða er ekki sérviska heldur undirstaða siðmenntaðs samfélags.
Segir Helga Magnús ekki hafa bætt ráð sitt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Þriðjudagur, 30. júlí 2024
Sigríður ýjar að vanhæfi Guðrúnar ráðherra
Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari óskar eftir að Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra leysi frá störfum Helga Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknara. Helgi Magnús sagði frá þeirri reynslu sinni að innflytjandinn Múhameð Kourani hefði í áravís hótað honum og fjölskyldu lífláti. Í framhaldi kærði Sema Erla Serðugla vararíkissaksóknara fyrir að upplýsa um útlendingamál.
Með ósk um að Helgi Magnús verði leystur frá störfum ýjar Sigríður ríkissaksóknari að vanhæfi þeirra sem upplýsa almenning um að innflytjendur og hælisleitendur eru ekki allt fróm fermingarbörn.
Þar hittir Sigríður fyrir sjálfan dómsmálaráðherra sem á dögunum upplýsti að þrír af hverjum fjórum sem hnepptir voru í gæsluvarðhald á Íslandi á síðasta ári eru útlendingar. Í frétt á mbl.is af upplýsingum ráðherra eru hlutirnir settir í samhengi, líkt og Helgi Magnús gerir. Þar segir m.a.
Ef skoðað er hversu margir voru búsettir á landinu af þessum fyrrnefndu ríkisföngum í desember árið 2023, miðað við gögn frá þjóðskrá, kemur í ljós að Albanir, Georgíumenn, Palestínumenn og Spánverjar voru hlutfallslega margfalt líklegri til þess að vera úrskurðaðir í gæsluvarðhald en til dæmis Íslendingar og Pólverjar.
Útlendingar, aðrir en Pólverjar, eru sem sagt ,,margfalt líklegri" til vera hnepptir í varðhald vegna afbrota en Íslendingar, er haft eftir dómsmálaráðherra.
Mun Sigríður ríkissaksóknari láta til skarar skríða, lýsa dómsmálaráðherra vanhæfan? Eða bíður hún eftir kæru frá Semu Erlu?
Helgi verði leystur frá störfum tímabundið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 29. júlí 2024
Kennarar, menntun og siðareglur
Kennari menntar nemendur, sagði í fyrstu grein siðareglna kennara. Greinarnar voru tólf og tíunduðu meginhlutverk stéttarinnar. Siðareglunum var breytt fyrir tveim árum, haustið 2022.
Nýju siðareglurnar eru tuttugu undir fjórum kaflaheitum. Verðbólgan í regluverkinu er ekki til að auka gæðin heldur skrifa inn í siðareglur viðhorf sem eru andstæð menntun.
Kennari ,,menntar og stuðlar að alhliða þroska" segir í nýju útgáfunni. Menntun er stórt orð en hefur í skólasamhengi hefðbundna merkingu. Aftur er ,,alhliða þroski" til muna víðtækara og býr ekki að sömu hefð og ,,menntun." Orð með óljósa merkingu hafa þann kost að þau má nota út og suður.
Nýju reglunar leggja meira á kennara að því er virðist. Það er eitt að mennta en annað að ,,stuðla að alhliða þroska". Ef um væri að ræða sama hlutinn væri hann ekki tvítekinn. Það er ekki háttur kennara að leggja á sig meiri vinnu án þess að ræða fyrst kaup og kjör. Hér liggur fiskur undir steini.
Markmiðið er ekki að hlaða aukinni ábyrgð á axlir kennara. ,,Alhliða þorski" er þvert á móti afsláttur af menntun. Kennari getur tekið hvaða efni sem er til kennslu undir formerkjum ,,alhliða þroska." Til þess er leikurinn gerður. Menntun er gjaldfelld en hugdettur leiddar í öndvegi.
Í nýju siðareglunum kemur orðið ,,fjölbreytileiki" tvisvar fyrir en aldrei í þeim eldri. Þar kemst upp um strákinn Tuma. Fjölbreytileiki er annað orð yfir lífsstílskennslu sem er allt annað en menntun. Lífsstíll er einn í dag en annar á morgun; lestur og reikningur breytast ekki dag frá degi.
,,Alhliða þroski" og ,,fjölbreytileiki" eru orð ættuð úr hugarheimi aðgerðasinna sem hafa að markmiði að bjarga heiminum. Menntun er aftur möguleiki einstaklingsins að bjarga sjálfum sér, verða maður meðal manna. Heimsbjörgin hefur fyrir sið að fórna einstaklingnum í þágu æðra markmiðs. Útkoman er alltaf ömurleg.
Grunnskólakennarar standa höllum fæti í umræðunni. Ástæðan er bág frammistaða íslenskra nemenda í alþjóðlegum samanburði. Einboðið er að þegar forysta kennara vinnur skipulega að stefnubreytingu, sem innleiðir hugdettur og lífsstílskennslu á kostnað menntunar, verður árangurinn ekki upp á marga fiska.
Kennarar ættu að einbeita sér að menntun en láta lönd og leið hugdettu- og lífsstílskennslu. Kennarar sem ætla sér að bjarga heiminum eru vanalega fangar sérvisku sem tekur takmarkað tillit til mennsku og mannlífs.
Hér er skjal með siðareglum kennara. Eldri siðareglur eru neðst í skjalinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 28. júlí 2024
Orð, hugsun, gervigreind og tapað fé
Gervigreind skilur orð, en ekki hugsun. Ótaldir milljarðar dollara skilja á milli. Þeir sem veðjuðu á að gervigreind skilaði ofsagróða verða fyrir vonbrigðum, segir Telegraph. Vísindagyðjan Sabína Hossenfelder tekur í sama streng.
Smá ves í gervilandi. Fyrirheit um að gervigreind kæmi í stað manna á ótal sviðum efnahagslífsins fá ekki fullnustu. Gervigreind er dýr í framleiðslu og svo kemur á daginn að drjúgt kostar að halda henni við. Hugsun er síkvik og lifandi en forritin dauður bókstafur, skrifaður í runu með núll og einum.
Nýmælið keppir því verr við mennskuna sem launataxtinn er lægri. Gervill sem svarar síma eða tölvupósti getur ekki enn keppt við mennskan starfskraft. Það þarf ekki Einstein til að svara í síma, útskýra verð á vöru og þjónustu og leiðbeina með uppsetningu og smávandamál. Með tilsögn gæti jafnvel kjósandi Samfylkingar innt starfið af hendi. Ódýrt, sem sagt.
Orð eru eitt en hugsun annað. Merkilegt að fluggáfaða fólkið sem seldi okkur vonarland gervigreindara áttaði sig ekki á þessu. Kannski ekki að undra. Menning sem trúir að karl breytist í konu með hugdettu og náttúrlegt lofslag sé manngert er trúandi til að halda hugsun núll og einn. Gervi og ekta er ekki sami hluturinn.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 27. júlí 2024
Trump, Jerúsalem og Gasa
Arabaheimurinn fékk flog þegar Trump á fyrri forsetatíð viðurkenndi Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels árið 2017. Í áratugi var ekki hægt að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels með þeim rökum fylgismenn spámannsins yrðu æfir.
Trump viðurkenndi, arabar tóku móðursýkiskast og Bandaríkin fluttu sendiráðið til höfuðborgar frelsarans. Afgreitt mál.
Yfirstandandi átök á Gasa snúast um að Ísrael hyggst koma lögum yfir þá Hamas-liða sem frömdu fjöldamorð í Suður-Ísrael 7. október í fyrra. Fjöldamorðin voru glæpur gegn mannkyni og stríðsglæpir. Hryðjuverkamennirnir fela sig á bakvið almenna borgara og njóta auk þess víðtæks stuðnings meðal vinstrimanna á vesturlöndum.
Gasa-átökin sem nú standa yfir renna sitt skeið, með eða án atbeina Trump. Það er engin lausn í sjónmáli í deilum araba og Ísrael. Hamas vilja tortíma Ísrael. Á meðan Hamas fær stuðning, innan arabaheimsins og utan, er ófriður.
Átökin Ísraels og araba eru milli tveggja menningarheima. Gyðingdómur og kristni eru á öðrum vængnum en hinum íslam. Margar frásagnir reyna að dylja raunveruleikann. En kjarni málsins er veraldarhyggja byggð á gyðingdómi og kristni stendur andspænis múslímskri trúarhyggju.
Trúarmenningarstefið er ekki síst áberandi hjá stuðningsmönnum Hamas á vesturlöndum. Fallinn Palestínuarabi er margfalt hryggður á við fallinn Sýrlending eða Húta. Dánartölur eru pólitískt verkfæri. Hamasliðar í vestrinu sýna trúarlega ákefð að útrýma Ísraelsríki.
Trump lofaði að binda enda á átök á Gasasvæðinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Föstudagur, 26. júlí 2024
Selenskí opnar á friðarsamninga
Til skamms tíma hafnaði Selenskí Úkraínuforseti öllum friðarviðræður við Rússa. Annað hljóð er komið í strokkinn. Glenn Diesen, norskur stjórnmálafræðingur, sem gerir sér far um að fylgjast með stríðinu, telur mögulegt að friðarsamningar komist á dagskrá.
Friðarvilji í Kænugarði eykst í hlutfalli við æ erfiðari stöðu Úkraínuhers á vígvellinum. Í allt sumar hopar stjórnarherinn víglínuna sem er um þúsund km löng. Undanhaldið er ekki hratt og enn sem komið skipulagt en gæti orðið hratt og óskipulagt með skömmum fyrirvara.
Áður en haustið gengur í garð er raunhæft að Rússar komist að ánni Dnjepr sem sker Úkraínu í tvennt. Tilgáta er að Rússar ætli sér allt land austan ár. Önnur tilgáta er að Pútín hafi augastað á Úkraínu með manni og mús. Þegar hafa Rússar gert fimm héruð í Austur-Úkraínu stjórnskipulega rússnesk. Óhugsandi er að þessi héruð verði á ný úkraínsk í friðarsamningum, nema kannski vesturhluti Kherson sem enn er á valdi stjórnarhersins.
Rússar þvertaka ekki fyrir friðarsamninga en setja sterka fyrirvara. Peskov talsmaður Pútín segir að enn sé óljóst hvort vestrænir bakhjarlar Selenskí vilji í raun frið. Úkraína og Rússland höfðu náð saman um meginatriði friðarsamnings í mars 2022 en Bandaríkin, Bretland og Nató beittu í raun neitunarvaldi, sögðust yfirgefa Selenskí skrifaði hann undir. Rússar bíða eftir skilaboðum úr vestrinu um friðarvilja.
Rússar munu ekki flýta sér að samningaborðinu á meðan þeim gengur flest í vil á vígvellinum. Selenskí á einnig óhægt um vik. Sterk öfl í Úkraínu vilja ekki undir nokkrum kringumstæðum gefa Rússum eftir úkraínskt land.
Það eykur ekki baráttuþrek úkraínska hersins að forsetinn þreifi fyrir sér um frið. Herskyldan er ekki vinsæl í Garðaríki, margur verður nauðugur dáti. Til hvers að fórna lífinu núna ef uppgjafarfriður er á næsta leyti?
Úrslitavaldið um friðarsamninga liggur í Washington. Ástandið þar er aftur hlaðið óvissu sem kenna má við þrjú nöfn, Biden-Harris-Trump. Bandarísk leiðsögn verður bæði mótsagnakennd og ótrúverðug fram yfir forsetakosningarnar í nóvember og ekki traustvekjandi fyrr en eftir embættistöku nýs forseta í ársbyrjun 2025. Opin spurning er hvort úkraínski herinn hafi úthald til áramóta.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 25. júlí 2024
Sema Erla og Kourani draga dár að þjóðinni
Múhameð Kourani skiptir um nafn til að fela afbrotsögu sína; Sema Erla Serðugla kærir tölfræði um afbrotahneigð íslamskra hælisleitenda. Múslímsku skötuhjúin gera gys að íslenskum lögum og reglum.
Viðtengd frétt útskýrir nafnaflakk Múhameðs Kourani. Í annarri frétt mbl.is er sagt frá kæru Semu Erlu og einkafélags hennar, Solaris. Sá kærði er Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari sem áravís mátti sitja undir líflátshótunum Múhameðs Kourani. Helgi Magnús vann sér til óhelgi, samkvæmt Semu Erlu, að setja í orð þekkta tölfræði um afbrotahneigð íslamskra hælisleitenda.
Í reynd er Sema Erla að kæra tölfræði og þekktar upplýsingar sem auðvelt er að nálgast á netinu.
Nokkur dæmi:
Palestínumenn brjóta þrisvar sinnum oftar af sér en Pólverjar.
BBC segir múslímar, sem gefa sig að hryðjuverkum, eigi oft þann sameiginlega bakgrunn að byrja ferilinn á unga aldri sem smáglæpamen.
Múslímar 2,5 til 3,5 sinnum líklegri til að stunda glæpi en Meðal-Daninn.
Af 321 Palestínuaraba sem fengu hælisvist í Danmörku árið 1992, samkvæmt sérlögum, voru 270 enn í Danmörku árið 2019. Alls 204, tveir þriðju, höfðu komist í kast við lögin, þar af var 71 með fangelsisdóm á bakinu. Tölfræðin lýgur ekki.
Múslímar mergsjúga vestræna velferð, 392% munur er á þeim og öðrum hópum.
Helgi Magnús klæddi í eigin orð vel þekktar staðreyndir. Sema Erla segir það fela í sér ,,rógburð og smánun vegna þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna" að kynna almenningi upplýsingar.
Hvorki nafnalögin íslensku né almenn hegningarlög voru sett til að auðvelda einstaklingum og hópum að sigla undir fölsku flaggi inn í íslenskt samfélag og setjast upp á velferðarþjónustuna án þess að greiða krónu í samneysluna. Múhameð Kourani hefur verið hér í sjö ár og aldrei stundað vinnu. Íslendingar eru teknir í þurrt ... bakaríið og Sema Sólaris krefst áframhaldandi opingáttarstefnu gagnvart miðausturlöndum.
Túlkar að verið sé að gera gys að þjóðinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 24. júlí 2024
Vilhjálmur fjárfesti í málssókn en tapaði fyrir lýðræðinu
Helsti eigandi Heimildarinnar, áður Kjarnans, Vilhjálmur Þorsteinsson auðmaður, fjármagnaði tvo starfsmenn sína, Þórð Snæ ritstjóra og Arnar Þór blaðamann, til að stefna tilfallandi bloggara fyrir að skrifa um byrlunar og símastuldsmálið.
Auðmaðurinn og blaðamennirnir höfðu betur í héraðsdómi en töpuðu í landsrétti, sjá blogg og frétt. Dóminn í heild má lesa hér.
Vilhjálmur skrifar Facebook-færslu um málið og telur að lýðræðið hafi tapað með sýknudómi yfir tilfallandi. Það eru öfugmæli sem þarf að leiðrétta.
Í dómnum eru blaðamennirnir tveir, Þórður Snær og Arnar Þór, meðhöndlaðir sem opinberar persónur. Þeir sem koma fram á opinberum vettvangi, t.d. í fjölmiðlum, og segja sína meiningu frammi fyrir alþjóð eru sjálfkrafa opinberar persónur. Gildir einu hvort um er að ræða fréttir, leiðara eða skoðanapistla. Blaðamenn eru í valdastöðu, fara með dagskrárvald opinberrar umræðu og hafa meira að segja en aðrar starfsstéttir hvaða tíðindi eru sögð almenningi.
Lykilefnisgrein í færslu Vilhjálms er eftirfarandi:
Þegar hugtakinu "opinber persóna" er hins vegar snúið yfir á blaðamenn í störfum sínum, og vernd þeirra minnkuð á þeim forsendum, þá er verið að beita þessu öfugt: gegn lýðræðinu en ekki til verndar því.
Vilhjálmur leggur að jöfnu blaðamenn og lýðræði. Það er fásinna. Engin starfsstétt, hvort heldur blaðamenn, stjórnmálamenn eða lögmenn, svo dæmi séu tekin, er verðugri en önnur í lýðræðisríki. Lýðræði er fyrirkomulag jafnræðis þegnanna. Meginregla er að borgararnir eigi jafnan rétt fyrir lögum.
Í dómsmálinu sem Vilhjálmur fjárfesti í og tapaði var tekist á um hvort tilfallandi bloggara væri heimilt að tjá sig um byrlunar- og símastuldsmálið og aðild blaðamanna. Í krafti peningavalds sem Vilhjálmur ræður yfir átti að kæfa tjáningarfrelsi bloggara. Það tókst ekki. Lýðræðið hafði betur gegn fjármagnsvaldi Vilhjálms og félaga.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 23. júlí 2024
Formaður KÍ: miðlægt trans er ok, ekki samræmd próf
Kennarasamband Íslands, undir formennsku Magnúsar Þórs Jónssonar, tekur undir miðlægan transáróður um að hægt sé að fæðast í röngu kyni og að kynin séu ekki tvö heldur einhver ótilgreindur fjöldi. Miðstýrð transumræða er af hinu góða en miðstýrð próf, kölluð samræmd, eru af hinu illa, segir formaður KÍ.
,,Íslenskir skólar hafa á undanförnum árum haft sömu markmið og gildi að leiðarljósi og Hinsegin dagar," skrifar Magnús Þór í fyrra á heimasíðu KÍ. Hinsegin hugmyndafræðin elur á ranghugmyndum að líffræðileg kyn séu fleiri en tvö og að sumir fæðist í röngum líkama.
Ranghugmyndirnar rökstyður Magnús Þór með umburðalyndi. Samstaðan með fjölbreytileiknum eru þó takmörk sett. Kennarar sem ekki eru sammála formanni KÍ eiga að þegja, skrifaði Magnús Þór í Vísisgrein. Þarna er formaðurinn á kunnum vók-slóðum. Þeir sem gagnrýna fáviskuna skulu settir út af sakramentinu.
Greinin í Vísi er fávís á mannlífið. Helst mætti halda að þar skrifi maður sem aldrei hefur verið í umgengni við börn. Magnús Þór skrifar:
Börn eiga að fá að vera nákvæmlega eins og þau eru og njóta stuðnings skólafélaga sinna og samfélagsins alls.
Jæja, Magnús Þór, hver yrðu viðbrögð þín ef barn segðist hundur? Tilfallandi bjó ekki dæmið til heldur líffræðingurinn Richard Dawkins. Trans kennir að stúlka geti verið drengur og öfugt, drengur stúlka. Hvers vegna ekki að skilgreina sig sem hund? spyr Dawkins. Ef börnum er kennt að ómöguleiki sé raunhæfur og að ímyndun standi ofar hlutlægum veruleika er hætt við að margur ómöguleikinn verði talinn sjálfsögð mannréttindi. Til dæmis að maður geti skipt um tegund rétt eins og kyn. Transarar eru þegar komnir í dýraríkið, nota bangsa til að kenna fræðin. Muntu gelta, Magnús Þór?
Víkur þá sögunni að miðlægu námsmati, samræmdum prófum. Þá kemur allt annað hljóð í strokkinn hjá Magnúsi Þór. Í RÚV segir formaðurinn:
Krafan um samræmt miðlægt námsmat er vísun til [liðins] tíma [...] enginn sem er að vinna á gólfinu með börnum [er] tilbúinn að horfa til þess að við förum aftur þangað
Hvers vegna er Magnús Þór hlynntur miðlægum transáróðri en mótfallinn miðlægu námsmati? Jú, miðlægt trans veitir svigrúm til að kenna hvaða bábilju sem er, ímyndun er allt en hlutlægur veruleiki aukaatriði. Trans og skert dómgreind haldast í hendur. Miðlægt námsmat myndi afhjúpa árangurinn. Það kæmi í ljós að börn sem trúa að kynin séu þrjú, fimm eða seytján og hægt sé að fæðast í röngum líkama eru ólæs og fákunnandi. Ranghugmyndir fá auðveldari útbreiðslu í skólasamfélagi sem spyr ekki gagnrýnna spurninga.
Markmið og gildi skóla ætti að vera menntun, ekki samstaða með fávísi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 22. júlí 2024
Pútín felldi Biden
Má ég kynna fyrir ykkur Pútín, forseta Úkraínu, sagði Biden Bandaríkjaforseti á leiðtogafundi Nató fyrir viku er hann bauð velkominn Selenskí, sem enn er forseti Úkraínu. Eftir mismælin fór af stað atburðarás sem leiddi til atburða gærdagsins, er Biden kvaðst ekki sækjast eftir endurkjöri. Opin spurning er hvort hann haldi út sem forseti til áramóta.
Mismælin voru tekin sem heilabilun Bandaríkjaforseta. Pólitíkin bilaði áður, löngu áður. Biden er handhafi sextán ára gamallar Úkraínustefnu Bandaríkjanna. Á leiðtogafundi Nató í Búkarest í Rúmeníu 3. apríl 2008 var Úkraína boðin velkomin í hernaðarbandalagið. Tilboðið var innheimta á sigurlaunum kalda stríðsins. Líkt og í frásögnum af mafíunni gat Úkraína ekki neitað tilboðinu. Með Úkraínu í Nató yrði Rússum settir úrslitakostir. Gerist vestræn hjálenda ellegar knésetjum við ykkur með góðu eða illu. Alþjóðastjórnmál 101.
Kalda stríðið felldi Sovétríkin og kommúnismann. Eftir stóð Rússland, sem hvorki var kommúnískt né auðveld bráð. Elítan í Bandaríkjunum var á annarri skoðun. Rússland er bensínstöð sem þykist þjóðríki, sagði öldungadeildarþingmaðurinn John McCain er Úkraínudeilan komst á annað og hættulegra stig með stjórnarbyltingu veturinn 2014.
Er Úkraínudeilan varð að fullveðja stríði fyrir hálfu þriðja ári var Biden kominn í Hvíta húsið. Hendur hans voru bundnar, stefnan mörkuð löngu áður en hann tók við embætti.
Aumingja Biden var settur í þá stöðu að fara með rulluna um að Úkraína væri bólverk vestræns lýðræðis og menningar og að sá illi Pútín stefndi að heimsyfirráðum. Ekkert er fjarri sanni. Úkraína sat í efstu sætum yfir spilltustu ríki veraldar norðan miðbaugs. Pútín er hvorki með metnað né herstyrk til að leggja undir sig víðáttur. Rússaher hefur yfirhöndina í Úkraínu en ekki má miklu muna. Stríð við Nató-ríkin væri rússneskt sjálfsmorð. Fyrir Úkraínudeiluna var ekkert talað um útþenslustefnu Pútín. En sjálfsagt telur Pútín Rússland eitthvað merkilegra en bensínstöð er bíði eftir yfirtökutilboði. Lái honum hver sem vill.
Í bandarískum stjórnmálum er Úkraínustríðið sem slíkt ekki stórmál. Aftur er stórmál vestra hvert bandarískir hermenn eru sendir til að deyja og í þágu hvaða málstaðar. Úkraína er víti til að varast. Bandarískir hagsmunir eru ekki í húfi svo neinu nemi. Afleiðingin er að stuðning við stjórnina í Kænugarði er erfitt að selja bandarískum almenningi.
Úkraínustefnan, sem Biden sat uppi með og varð honum myllusteinn um háls, er komin í þrot. Næsta verkefni er að koma á friði. Í framhaldi að smíða bandaríska utanríkisstefnu, og þá um leið vestræna, sem ekki gerir ráð fyrir landvinningum og temur sér hóf í stað hroka. Verðugt verkefni næsta Bandaríkjaforseta.
Vilja að Biden segi af sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)