Krónan á öngvan vin

Íslenska krónan er vinafá þessa dagana. Leikir og lærðir keppast að hallmæla henni og renna sér þar í fótspor útrásarvíkinganna sem sáu í krónunni ákjósanlegan blóraböggul þegar halla tók undan fæti á síðasta ári. En vegna krónunnar er hér ekki 30-40 prósent atvinnuleysi og fjöldagjaldþrot einstaklinga og fyrirtækja. Krónan tekur á sig fallið.

Líkt og sumir Íslendingar tóku Ungverjar, Pólverjar og Búlgarar lán í evrum þegar það þótti hagstætt. Heimagjaldmiðill þessara landa féll í haust og menn sitja með sárt ennið.

Dálkahöfundur Daily Telegraph, Ambrose Evans-Pritchard, víkur að umræðunni um evru í dag vegna orða Barroso aðalritara framkvæmdastjórnarinnar í Brussel um að þjóðir nær og fjær sækjast eftir skjóli evrunnar.

Breska pundið hefur fallið um 30 prósent gagnvart dollar í haust og um fimmtung gagnvart evru. Og það er ljómandi, segir Evans-Pritchard, þannig á gjaldmiðill að vinna, taka höggið.

Hann segir að ef Bretland hefði evruvæðst væri vandinn meiri en hann nú þegar er. Lágvaxtastefna Seðlabanka Evrópu tók á síðustu árum mið af þörfum Þjóðverja á meðan Bretar þurftu hærri vexti, til að hemja þensluna hjá sér. Evrópskir lágvextir hefðu verið olía á eld breskrar eignaverðbólgu, skrifar dálkahöfundurinn.

Evans-Pritchard segir aðalritara framkvæmdastjórnarinnar haldinn óskhyggju um að Bretar muni í nálægri framtíð sækja um aðild að sameiginlegri mynt.

Krónan hefur tekið stærri dýfu en pundið enda úr hærri söðli að detta. Enginn mælir óstöðugu gengi bót. Þeir sem vilja farga krónunni ættu samt sem áður að útskýra fyrir almenningi hvað það þýðir fyrir efnahagslífið og atvinnu fólks þegar sveigjanleikinn hverfur sem krónan veitir okkur. En kannski er bara frekja að krefja hagfræðinga um hreinskilni.


mbl.is Ísland ekki einangrað til frambúðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakkir til Páls Vilhjálmssonar fyrir góðan pistil 

 
Ónýtir gjaldmiðlar (framhaldssaga í nokkrum þáttum)
 

Árið er 2000 og nú er það evran sem er "ónýtur" gjaldmiðill því evran hefur fallið um 30% gagnvart dollara. 

 

Sérfræðingur: Ben Strauss gjaldeyrissérfræðingur hjá Bank Julius Baer í New York: "stemmingin er algerlega neikvæð. Enginn vill eiga neina evrópska gjaldmiðla". 

 

Almenningur á evru-svæðinu: "þetta er handónýtur gjaldmiðill. Við hefðum aldrei átt að taka þátt í þessu evru-rugli".

 

Danir: þetta evru-drasl er að draga dönsku krónuna niður til helvítis. Hvar endar þetta, ég spyr bara".

 

Tik tak tik tak - núna er komið árið 2008 og nú er það dollarinn sem er algera-draslið því hann hefur fallið svo mikið gagnvart evru. 

 

Sérfræðingar: dollarinn er of lágur og evran er of há.

 

Almenningur í Evrópu: dollarinn er svo ódýr að við höldum sumarfríið í Ameríku, og við pöntum tölvurnar okkar beint frá Ameríku. "Mundu að láta Mette kaupa fimm iPhones, þeir kosta ekki neitt þarna yfir hjá þeim".

 

Íslendingar: Íslenska krónan er svo mikið drasl að við verðum að fá evru eða bara eitthvað annað. 

 



Allt í einu er það, sem fyrir einungis 7 árum var kallað "draslið frá Evrópu", orðið að musteri allra lausna - gullna hliðið blasir nú við. Þetta getur ekki gengið nógu hratt fyrir sig. Gerum eitthvað, bara eitthvað, strax !

 vantraust2

  

stækka mynd

 

Núna er draslið sem sagt flutt yfir til Ameríku - það er að segja - allir halda það, og þeir halda einnig að draslið verði þar áfram að eilífu. En því miður kæru Íslendingar - dollarinn er kominn á kreik á ný, og já, jafnvel þó svo að stýrivextir hjá ECB séu miklu hærri en hjá honum þyrlu-Ben Bernanke í henni Ameríku. Núna mun það ske að draslið mun fara á hreyfingu aftur. Það mun fljóta á móti straumnum, á móti peningastraumnum.  

 

En hvoru draslinu viljið þið halda kæru Íslendingar? Draslinu frá Þýskalandi eða draslinu frá Ameríku?  En hvað með að halda bara fast í ykkar eigið drasl? Er það ekki gáfulegra? Að halda fast í þetta drasl sem er þarna mitt á milli himnaríkis og helvítis, þarna úti í miðju Atlantshafinu?  Bland beggja vega?

 

Sjálfur held ég að það væri það lang gáfulegasta sem hægt sé að gera, og einnig það einfaldasta og það langsamlega besta fyrir Ísland og fyrir framtíðar efnahag ykkar, barna ykkar og barnabarna ykkar. Að halda áfram fast í eigið drasl.

 

Enginn annar gjaldmiðill hefi þolað þá meðferð sem lögð hefur verið á íslensku króuna frá því að hún var sett frjálst fljótandi árið 2001. Stöðugleiki er langhlaup en ekki spretthlaup.  

 

Áður birt þann 12. júlí 2008: Ónýtir gjaldmiðlar

 

Mæli einnig með:

Gengið á gullfótum yfir silfur Egils

Hindrar evra atvinnusköpun ?

Lenín verðbólga 

 

Bestu kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 2.12.2008 kl. 20:49

3 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Þetta er allt spurning um orsök og afleiðingar.  Er krónan örsök vandans, hluti vandans, eða afleiðing?

Vandinn er efnahagsstjórnunin og stærð gjaldmiðilsins.  Ef það væri hægt að breyta hvoru tveggja þá gæti hugsanlega verið hægt að notast við krónuna.

Lúðvík Júlíusson, 2.12.2008 kl. 22:58

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þetta er eins og Páll segir. Það er ekki boðið uppá hlaðborð í kreppum því þá væru þær ekki kreppur heldur einungis verkefni í daglegum rekstri þjóðfélagsins. Ef gengið getur ekki tekið höggið þegar allt bankakerfið legst á hausinn ofaná krónuna þá þarft þú, þið og við að taka höggið í 20-40% atvinnuleysi og félagslegri hrollvekju.

Svo núna er því að takast á við raunveruleikann og hætta meiri fíflagangi eftir að þjóðin var höfð að fíflum með samfylkingarbönkunum og vinum þeirra í Evrópusambandinu þar sem bankarnir fóru á hausinn. Draumaráðningum greiningadeilda er lokið. Við höfum verið höfð að fíflum nógu lengi, og það ofaní kaupið af sérfræðingum á mjög háum launum.

Svo núna ættu allir að styðja jafndyggilega undir gjaldmiðil Íslands eins og þeir dýrkuðu bankakerfið á sínum tíma og sem svo launaði Íslendingum með því að leggjast gjaldþrota ofaná þessa góðu mynt okkar. Farið hefur fé betra en þetta samfylkingarbanka drasl

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 3.12.2008 kl. 08:09

5 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

'samfylkingabanka' ?  Ég hélt það hefðu verið Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn sem hófust handa við að grafa undan stöðugleika efnahagslífsins og krónunnar árið 2003.

(td. héldu Framsóknarmenn að þeir gætu 'búið til ný störf' með því að hleypa verðbólgunni af stað... það er barnalegt í miðri þenslu)

Ég hef oft fjallað um kosti fljótandi gengis en hún þarf aðhalds og aga sem stjórnvöld hafa ekki sýnt frá því krónunni var fleytt.

Þeir sem styðja sjálfstæða krónu ættu einnig að sýna hvernig stjórnvöld geta á trúverðugan hátt stutt hana.  Þar þarf einnig að ræða lagasetningar sem takmarka völd manna til 'seðlaprentunar' og sem gera kröfu um að ríkið skili að öllu jöfnu 'þensluhlutlausum' fjárlögum.

 Krónan hefur aldrei haft neina vini... þeir sem hún hélt að væru vinir hennar, notuðu hana í pólitískum tilgangi og skiluðu henni útjaskaðri og ónýtri í ræsinu.

Hún þarf betri vini en þá sem ætla sér að nota hana einungis til að ná sér í skammtíma ávinning.

Lúðvík Júlíusson, 3.12.2008 kl. 09:08

6 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Hún þarf betri vini en þá sem ætla sér að nota hana einungis til að ná sér í skammtíma ávinning.


Já svo sannarlega. Gjaldmiðill íslenska lýðveldisins á betra skilið en þetta.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 3.12.2008 kl. 09:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband