Björn hittir naglann á höfuðið

,,Það er rík tilhneiging að heimfæra menn og málefni úti í stóra heiminum hingað í afskekkta fámennið. Vandinn er hins vegar að oftast er um algjörlega ósambærilega hluti að ræða," skrifar Björn Bjarnason fyrrverandi menntamálaráðherra.

Tilefnið eru tvö dæmi um glærur í kennslu í framhaldsskólum sem taka orð og hugmyndir erlendis frá og heimfæra upp á íslenskar aðstæður. Af glærunum að dæma er Sigmundur Davíð sálufélagi Hitlers og að Sjálfstæðisflokkurinn sé fylgjandi útrýmingu kynþátta.

Til viðbótar atriðinu, sem Björn nefnir. Í síbyljuumræðu alnetsins er óskyldum hugtökum, einstaklingum og atburðum slengt saman, stundum af þeim sem vita betur en geta ekki á sér setið að slá pólitískar keilur.

Stjórnmálafræðiprófessor kemur í viðtal hjá RÚV og gerir því skóna að Sigmundur Davíð sé þjóðernissinni í einhverjum öðrum skilningi en saklausum. Tilgangurinn er að vekja grun um að flagð sé undir fögru skinni. Síbyljan tekur málið fyrir, klæðir Gróufrétt í búning staðhæfinga, og úr verður kennsluglæra.

Hugtakið þjóðernissinni hlýtur, þegar grannt er skoðað, að eiga við alla íslenska stjórnmálamenn. Þeir koma til kjósenda reglulega og segjast ætla að vinna þjóðinni gagn. Söguleg merking orðsins er aftur nátengd hugmyndastefnu í Evrópu á fyrri hluta síðustu aldar. Umræðusíbyljan gerir engan greinarmun á þessu tvennu. Guð vors lands fær sömu meðferð og Die Fahne hoch. Þjóðleg gildi og helförin verða einn og sami hluturinn.

Umræðan er eins og hún er, óróleg og hávaðasöm. Lítið við því að gera, orðið er frjálst. En það má gera kröfu til fjölmiðla að þeir starfi ekki sem fóðurstöðvar fyrir fleipur, ýkjur og ósannindi.

Það stendur upp á kennara að skilja hismið frá kjarnanum, meðhöndla ekki ýkjur og útúrsnúninga sem viðtekin sannindi. Glærurnar tvær eru vonandi fátíð afbrigði frá meginreglunni um vandaða kennslu.

Á hitt er einnig að líta að háskólar, sem mennta kennara, eru ekki jafn traustar stofnanir og þeir fyrrum voru. Hér áður mátti gefa sér að þótt nemendur væru pólitískir aðgerðasinnar var háskólanámið á fræðilegum grunni. Nú ber svo við að frá háskólum koma skoðanir að líffræðileg kyn séu ekki lengur tvö, heldur þrjú, fimm eða seytján, og að maðurinn stjórni veðurfari jarðkringlunnar.

Bábiljufræðin ku eiga sér frjóastan jarðveg í hug- og félagsvísindadeildum. Það eru deildirnar sem mennta sögu-, stjórnmálafræði- og félagsfræðikennara.

 


mbl.is Glæran í Versló ekki einsdæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Dásamlegt "fóðurstöðvar fyrir fleipur" 

Ragnhildur Kolka, 15.1.2023 kl. 12:23

2 Smámynd: rhansen

"Forðurstöðvar fyrir óhroður um menn og málefni"   Dásamlegt orð yfir ósómann i mennta og menningarmálum sem kanski byrja i skólunum , en  lapin upp af fjölmiðlum ? 

rhansen, 15.1.2023 kl. 14:24

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Minnir á -Söru Steady! Góða nótt.   

Helga Kristjánsdóttir, 15.1.2023 kl. 19:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband