Skæruliðadeildin herjaði á stjórnendur Samherja

Hugtakið skæruliðadeild kom fyrir í ,,tveggja manna spjalli innanhússlögmanns Samherja og skipstjóra á forritinu Whatsapp því þeim fannst stjórnendur Samherja, stjórnarmenn fyrirtækisins, og utanaðkomandi ráðgjafar, eins og ég, ekki gera nóg til að svara gagnrýni á fyrirtækið í fjölmiðlum."

Tilvitnunin hér að ofan er úr Fjölmiðlapistli Arnar Arnarsonar í Viðskiptablaðinu í gær. Skæruliðadeild Samherja er sem sagt tveir starfsmenn sem herja á yfirstjórn fyrirtækisins og ráðgjafa fyrir að verja ekki vinnustaðinn fyrir árásum fjölmiðla.

Í meðförum RSK-miðla, RÚV, Stundarinnar og Kjarnans, er skæruliðadeildin aftur á móti hluti af skipuriti Samherja og beitt á blaða- og fjölmiðlamenn. Það er falsfrétt, tilbúningur, skáldskapur.

Örn furðar sig á RSK-falsfréttinni um skæruliðadeildina og spyr hvers vegna hún hafi orðið almannarómur. Jú, vegna ruðningsáhrifa RSK-miðla á fjölmiðlamarkaði. Ósannindi endurtekin nógu oft í margvíslegu samhengi í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum verða viðtekin sannindi. Göbbelsfræði í stafrænni útfærslu á 21stu öld.

Þannig vinna RSK-miðlar. Þeir eru áróðursvélar, ekki fjölmiðlar. Fyrst lugu þeir upp á Samherja með fölsuðu skjali, Seðlabankamálið, síðan með fyllibyttu, fíkli og stórtækum vændiskaupanda, Namibíumálið. Loks með glæpnum gegn Páli skipstjóra, sem var byrlað eitur og síminn stolinn af honum meðvitundarlausum. Gögnin sögðu þá sögu, samkvæmt Erni, að skæruliðarnir herjuðu á yfirstjórn Samherja. Falsfréttir RSK-miðla sneru öllu á haus.

Blaðamenn RSK-miðla misnotuðu andlega veika konu í atlögunni að Páli skipstjóra. Fjórir blaðamenn eru sakborningar í lögreglurannsókn og eiga yfir höfði sér opinbera ákæru. Almannatenglar, sem kalla sig blaðamenn, reyna að bera í bætifláka fyrir ósómann.

Einn sakborninganna er Þórður Snær ritstjóri Kjarnans. Í gær skrifar hann frétt um að óviðkomandi hafi lesið tölvupósta Sólveigar Önnu formanns Eflingar. Stórt fréttamál að áliti Þórðar Snæs. Sólveigu Önnu var ekki byrlað, síma hennar ekki stolið, hún sætti ekki stafrænu kynferðisofbeldi og enginn andlega veikur nákominn formanninum var misnotaður. Þórður Snær treystir því að lesendur sínir sé fífl sem sjái ekki siðblindu ritstjórans.   

Allir fjórir sakborningar eru margverðlaunaðir fyrir að tilhæfulausar falsfréttir um Samherja um árabil. Segir nokkra sögu um hvers konar fyrirbrigði íslensk blaðamennska er nú um stundir. Starfsstétt sem verðlaunar falsfréttir, glæpi og níðingsverk er samfélaginu til óþurftar.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Er blaðamennska að verða skammaryrði?

Heimir Lárusson Fjeldsted, 7.10.2022 kl. 07:22

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Vandamálið er að þjóðin hefur ekki lengur húmor. 

Ragnhildur Kolka, 7.10.2022 kl. 17:14

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ragnhildur Kolka,þarf ekki mörg orð til að lýsa ástandi bugaðri þjóð! 

Helga Kristjánsdóttir, 8.10.2022 kl. 02:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband