Sæunn Axels

Á mánudag fyrir viku var jarðsungin frá Ólafsfjarðarkirkju Sæunn Axelsdóttir. Ég hitti hana einu sinni, dagspart, fyrir þrjátíu árum og tók við hana viðtal. Sæunn festist í minni.

Hún var á gólfinu þegar mig bar að garði, að pakka saltfiski. Við röltum um plássið og skoðuðum fiskverkunina sem hófst með trilluútgerð hennar og þriggja sona, - sá fjórði var þriggja ára.  Móðirin þurfti nýja áskorun. Útgerðin byrjaði sem tómstundagaman rétt fyrir kvótakerfið. Í höndum Sæunnar og fjölskyldu varð gamanið að myndarlegu fyrirtæki.

Eftir á að hyggja er annað ólíklegt en að Sæunni hafi a.m.k. öðrum þræði litið svo á að tómstundaverkefnið væri tilhlaup að öðru og stærra en að drepa tímann. Í henni hefur blundað að standa á eigin fótum. Líkt og margar konur af hennar kynslóð fór hún ung í húsmæðraskóla. Eftir það voru það afgreiðslustörf ásamt heimilisrekstri. Bóndinn var fyrirvinna. 

Ekki var dútlað við færin. Þegar aflaðist ekki á heimamiðum fóru Sæunn og strákarnir út undir Kolbeinsey en þangað er átta tíma stím. Þá var fiskað við Grímsey. Útilegan gat verið þetta tveir þrír dagar. Tómstundaiðjan var ekki stunduð með hangandi hendi. Aflann verkuðu þau sjálf og þar var metnaður Sæunnar síst minni en við handfærin.

Á þessum tíma var SÍF nær einrátt í útflutningi á saltfiski. Sæunn lenti upp á kant við stjórnendur og hóf útflutning á eigin vegum. Þrátt fyrir hrakspár gekk dæmið upp. En það var líka allt lagt í sölurnar. Dirfsku þurfti til og af henni átti Sæunn meira en margur.

Sæunn var í mínum huga kvenkynsútgáfa Bjarts í Sumarhúsum. Sjálfstæðið jaðraði við einþykkni. Ólíkt Bjarti var það ekki hlutskipti Sæunnar að stunda búhokur ævina á enda. Sjálfstæðið færði henni ekki aðeins lífsfyllingu heldur einnig verðmæti sem aðrir nutu góðs af. Manneskjur eins og Sæunn verða hryggjarstykkið í samfélögum sem njóta viðveru þeirra. En ábyggilega er sambandið stundum strítt.

Hún tók tilverunni mátulega hátíðlega. Sagði við mig á þá leið að ef þetta heppnaðist ekki mætti alltaf snúa sér að einhverju öðru. Eftir kynni af Sæunni, þótt stutt væru, sannfærðist maður að áræðni og atorka er ekki alltaf nóg til að framtakið lukkist. Glettni þarf með, til að tvísýnar aðstæður bugi mann ekki.

Blessuð sé minning Sæunnar Axels.

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Sigurjónsson

Þetta hefur verið kvenskörungum mikill og synd að hafa ekki heyrt af henn fyrr en nú.  Góðir þakki fyrir að segja okkur frá henni.

Kristinn Sigurjónsson, 26.9.2022 kl. 07:14

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Sæunn var einstök, kynntist henni aðeins. Valkyrja.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 26.9.2022 kl. 09:44

3 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Tek heilshugar undir með Kristni. 

Ragnhildur Kolka, 26.9.2022 kl. 10:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband