Fjórmenningarklíkan á Glæpaleiti

Fjórir starfsmenn RÚV véluðu helst með stolin gögn Páls skipstjóra Steingrímssonar. Fimmti starfsmaðurinn, tæknimaður, er í aukahlutverki. Sá sjötti er utanaðkomandi, verktakinn sem sá um stuldinn og byrlaði Páli eitur.

Síma Páls var stolið aðfaranótt þriðjudagsins 4. maí eftir að hann veiktist skyndilega á Akureyri. Á Efstaleiti voru gerðar ráðstafanir föstudaginn 30. apríl, 4 dögum fyrr. Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður á Kveik, fréttarskýringarþætti RÚV, var fluttur yfir á Stundina, sem systir hans stýrir og er eigandi.

Fyrir hádegi 30. apríl var Aðalsteinn starfsmaður RÚV en eftir hádegi var hann orðinn blaðamaður á Stundinni. Eftir hádegi var Aðalsteinn enn á launaskrá RÚV en í vinnu hjá Stundinni. Tilgangurinn með þessum æfingum var að fela aðild RÚV að væntanlegu fréttaefni sem yrði fengið með glæpsamlegum hætti. Hér er þrátt fyrir allt um ríkisfjölmiðil að ræða sem á að heita vandur að virðingu sinni.

Næsti yfirmaður Aðalsteins er Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks. Aðalsteinn var hægri hönd Helga Seljan í Namibíumálinu gegn Samherja sem hófst í nóvember 2019. Yfirmaður þremenninganna er Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri.

Verktakinn á Akureyri hafði beinan aðgang að Páli skipstjóra. Lögreglurannsókn leiðir í ljós hvort RÚV-arar höfðu samband við verktakann að fyrra bragði eða hvort Efstaleiti gekk að tilboði. Allt er á huldu um umbun verktakans, eins og gefur að skilja.

Skipulagið fól í sér að verktakinn stæli símanum og kæmi tækinu á Efstaleiti þar sem snjallsíminn yrði afritaður. Verktakinn skyldi skila símanum aftur til Páls sem átti að vera grunlaus þangað til hann yrði þýfgaður daginn fyrir birtingu ,,fréttaskýringa" í Stundinni og Kjarnanum um aðild að svokallaðri skæruliðadeild Samherja.

Páll skipstjóri þurfti að vera óvígur í 48 klukkustundir til að ráðrúm gæfist að stela símanum á Akureyri, afrita í Reykjavík og skila tilbaka norður. RÚV-arar máttu vita að fullfrískur karlmaður verður ekki meðvitundarlaus í tvo sólarhringa án þess að ,,fá hjálp" til þess. Páll veiktist svo heiftarlega að hann var fluttur með sjúkraflugi suður í gjörgæslu, líklega án símans sem ferðaðist á almennu farrými. Þegar skipstjórinn komst vonum seinna til meðvitundar var búið að skila snjallsímanum.

Úr gögnunum var vinsað á Efstaleiti. Hluti gagnanna fór til Stundarinnar þar sem Aðalsteinn vann úr þeim. Annar hluti fór á Kjarnann, til Þórðar Snæs Júlíussonar ritstjóra. Sá sem deildi út gögnunum til samstarfsmiðlanna hlaut að gerþekkja málið. Böndin berast að Helga Seljan sem varð að fara huldu höfði með nýfallinn siðadóm á herðum sér. Helgi vappaði milli deilda þessa vordaga og lét lítið fyrir sér fara opinberlega.

Unnið var úr gögnunum í 17 daga. Daginn fyrir birtingu höfðu Aðalsteinn og Þórður Snær samband við málsaðila til að fá viðbrögð. Með svona skömmum fyrirvara var ekki hægt að bregðast við af hálfu Páls og annarra Samherjamanna t.d. með lögbanni.

Aðalsteinn birti sína frétt kl. sex að morgni 21. maí en Þórður Snær Kjarnafréttina tveim klukkustundum síðar, kl. 07:52. Birtingatími er samræmdur af miðstöðinni á Efstaleiti til að fá hámarksathygli. Fréttastofan RÚV var virkjuð í framhaldi til að endurbirta valda stubba úr Stundinni og Kjarnanum. Með þessu var enn reynt að hylja slóðina og láta líta svo út að Stundin og Kjarninn hefðu fyrir tilviljun og án vitundar RÚV fengið gögn af himnum ofan. Fólk trúir almennt því sem Efstaleiti ber á borð.

Klíkunni urðu á þrenn afdrifarík mistök, eins og rakið hefur verið.

Nú dregur að lokakafla sögunnar. Boðað er að niðurstaða lögreglurannsóknar liggi fyrir í næstu viku. Þaðan fer málið til ákæruvaldsins.

Pálsmál Steingrímssonar er með tvær hliðar. Önnur er lagaleg og fær réttarfarslega meðferð. Hin er siðferðileg og fjölmiðlapólitísk. Aldrei í sögu vestrænnar fjölmiðlunar, og allra síst þegar í hlut á ríkisfjölmiðill, hefur það gerst að almennur borgari verður fyrir skipulagðri lífshættulegri atlögu og þjófnaði til að fjölmiðill fái fréttaefni. Að slíkt skuli gerast á Íslandi segir þá sögu að ríkisfjölmiðillinn líkist fremur skipulögðum glæpasamtökum en fréttamiðli. Hvernig gat það gerst að glæpaiðja varð ráðandi ritstjórnarstefna RÚV?

Efstaleiti sagði sigri hrósandi 27. maí að Skæruliðadeild Samherja er ekki þáttur á Netflix. Rétt er það. Ekkert merkilegt er að starfsmenn komi fyrirtæki sínu til varnar þegar ósvífin fjölmiðlaherferð herjar á lifibrauðið.

Fjórmenningarklíkan á Glæpaleiti stendur aftur á barmi heimsfrægðar og gæti orðið sjónvarpsefni. Þegar erlendir fjölmiðlar sannfrétta að útvarpsstjóri er fyrrverandi lögreglustjóri er einboðið að úr verði svört kómedía. Glæpakvendin tvö, fréttahvolpar á Deild og Stund ásamt löggunni utangátta. Sennilega kaupir RÚV ekki sýningarréttinn. Ef gamla gufan verður þá enn í rekstri. 

Verðandi menntamálaráðherra, sem fær Pálsmál RÚV í fangið, er vorkunn. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Hrikalegt mál.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 26.11.2021 kl. 12:34

2 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Ætli Kastljós taki þetta mál fyrir???

Sigurður I B Guðmundsson, 26.11.2021 kl. 17:08

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Þú ert beittur Páll.

Það eina sem afsannar tilgátu þína er að hinn meinti þriðji aðili stígi fram, og upplýsi alþjóð, og vonandi lögregluna líka (sem er alls ekki sjálfgefið, þöggun í gegnum lögreglu er þekkt vopn kerfisins sem Rúv er hluti af) um tilurð þess að hann fékk upplýsingar úr síma Páls.

Ég las áðan tilvitnaða frétt þína, og í ljósi skrifa þinna þá skar í augu að lesa þessi orð; "Í umfjöllun Kjarnans um samskipti skæruliðadeildarinnar kemur fram að umrædd gögn hafi borist frá þriðja aðila. Þá er tekið fram að fjöldi fordæma séu fyrir því að fjölmiðlar birti gögn sem eigi erindi við almenning án þess að hafa upplýsingar um hvernig þeirra var aflað." (Skæruliðadeild Samherja er ekki þáttur á Netflix).

Kannski meinlaus þá en í ljósi þess að Páll endaði á gjörgæslu, þá vakna fleiri spurningar en gífuryrðin sem félagi Guðmundur vitnaði samviskusamlega í, fá svarað. 

Hvorki andmæli Aðalsteins eða forystugrein Kjarnans.

Þú ert sagður spinna, en hví er sú spinning ekki afhjúpuð með upplýsingu frá hinu meinta þriðja aðila.

Þekkt skýring er að hann heiti Bára og sé öryrki.

Eiginlega eru það ekki skrif þín Páll sem vekja mann til umhugsunar, þekktar blekkingar þínar til dæmis i loftslagsmálum hafa fyrir löngu gert út um trúverðugleika þinn, heldur holur hljómur þeirra sem telja að sér vegið, og hafa snúist til varnar með atlögu að persónu þinni, en ekki kjarna skrifa þinna.

Hins vegar held ég að við getum gleymt því að löggan geri eitthvað.

Það væri þá eitthvað nýtt.

Eins og við værum komin í nýja sögu um Ástrík og Steinrík, og lokins upplifði Aðalsteinn höfðingi martröð sína, að himnarnir væru í alvöru að hrynja.

Það þótti jafnvel of ótrúlegt í teiknimyndasögu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 26.11.2021 kl. 18:29

4 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Verður Baltasar leikstjóri og framleiðir fyrir Netflix eftir handriti PV og PS?

Heimir Lárusson Fjeldsted, 26.11.2021 kl. 21:38

5 Smámynd: Þröstur R.

Algjörlega Reyfara kennd lesning hjá þér Páll og svo virðist vera að það verði algjör sprengja í Efstaleiti þegar þetta mál verður gert opinbert.

Ég virðist hinsvegar staldra aftur og aftur yfir þeirri tilhugsun að einhver hafi virkilega flutt símann frá Akureyri alla leið til Rvk frekar en að senda tæknimann norður í bed and breakfast.

Velti því fyrirmér líka hvort það hafi verið þessi þriðji aðili sem stakk upp á því?  En Líklega eitthvað sem kemur í ljós fljótlega.

Skák og mát RÚV.

Þröstur R., 28.11.2021 kl. 00:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband