Frelsi, farsótt og samfélag

Mótmæli eru víða á vesturlöndum gegn sóttvörnum yfirvalda. Það sem ber á milli er frelsi einstaklinga annars vegar og hins vegar ábyrgð yfirvalda á lýðheilsu. Sóttvarnir fela í sér margvíslegar skerðingar á frelsi s.s. útgöngubann, lokanir á atvinnustarfsemi og ferðabann, bæði innanlands og milli ríkja.

Frelsið er einskins virði ef ekki er hægt að ferðast að vild, segir dálkahöfundur Telegraph og grípur þar utan um kjarna málsins, að áliti þeirra sem efast um eða andmæla yfirvöldum.

Séð frá sjónarhóli yfirvalda snýst sóttvörn um þá frumskyldu ríkisvaldsins að verja líf og heilsu borgaranna.

Ráðandi hugmyndir á vesturlöndum um frelsi eru að stofni ættaðar frá upplýsingunni á 18. öld um frelsi til orða og athafana. Útgáfan af þessum frelsishugmyndum, sem flest vestræn ríki búa við, má kenna við frjálslyndi 68-kynslóðarinnar sem kölluð var hippar.

Hippafrelsið felur í sér að sérhver einstaklingur er friðhelgur og hefur fullt leyfi til að skilgreina sjálfan sig á hvern þann veg er honum sýnist og haga sér í samræmi við eigin óskir og hugdettur. Hlutverk yfirvalda, samkvæmt hippafrelsinu, er að sjá til þess að einstaklingurinn njóti þessa frelsis og fái helst í kaupbæti þægilega innivinnu vel borgaða.

Hippafrelsið virkar í almennri velmegun þegar engin ógn steðjar að. Það er ekki tilviljun að 68-kynslóðin er fædd í eða við lok seinni heimsstyrjaldar. Velferð og velmegun eftirstríðsáranna bjó til þessa kynslóð. Í stríði er ekkert pláss fyrir hippa. Þeir eru skotnir á færi.

Farsóttin sem spratt af Kínaveirunni er ekki stríð. En líkt og stríð er farsóttin tilvistarógn við samfélög sem hún herjar á. Ef yfirvöld tryggja ekki líf og heilsu borgaranna hverfur lögmæti yfirvalda, rétt eins og lögmæti þeirra yfirvalda sem tapa stríði. 

Líkur standa til þess að yfirstandandi farsótt hnígi, bæði vegna bólusetninga og þó mest með því að farsóttir eiga sinn líftíma, um 2-4 ár.

Eftir farsótt verða hugmyndir okkar um frelsi breyttar. Stóri meirihlutinn hefur samþykkt og látið yfir sig ganga stórfelldar skerðingar á einstaklingsfrelsi, hippa-útgáfunni, á meðan fámennir hópar mótmælenda halda dauðahaldi í veröld sem var.

Þegar fólk áttar sig á að það eru lífsgæði, s.s. að vera laus við farsótt, sem frjálslynt hippafrelsi veitir ekki, heldur þegnskapur við samfélagsleg gildi á borð við samstöðu og samhjálp, er kominn vísir að nýjum skilningi á frelsi. 

Í þessum nýja skilningi á frelsi kemur til sögunnar hugtak sem gleymdist á vegferðinni frá upplýsingunni til 68-kynslóðarinnar. Hugtakið er ábyrgð. Án ábyrgðar er einstaklingsfrelsið einungis leyfi til að haga sér eins og apaköttur. Eins og flestir vita eru apakettir hafðir í búri í siðuðum samfélögum.


mbl.is Sóttvarnaaðgerðum og vottorðaskyldu mótmælt víða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Góður.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.7.2021 kl. 11:17

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Samkvæmt nýrri skýrslu FAO hafa "sóttvarnir" leitt til þess að 120 milljón manns hafa lent undir hungurmörkum, til viðbótar við það sem fyrir var.

En það er vitanlega óábyrg krafa um einstaklingsfrelsi að ætlast til að hinir sótthræddu drepi ekki milljónir manna úr hungri, eða hvað? Frelsið til að lifa af er auðvitað engu merkilegra en frelsið til að fara á útihátíð samkvæmt hinum sálsjúku?

Væl höfundar um að sá viðbjóður sem gengið hefur yfir heiminn af mannavöldum undanfarin misseri, það algera skeytingarleysi um líf þeirra sem minnst mega sín, sé merki um "samstöðu og samhjálp" er svo sjúklegt að manni verður ómótt!

Þorsteinn Siglaugsson, 25.7.2021 kl. 11:41

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Bann við aðskilnaðarstefnu bólusetjara strax.

Guðmundur Ásgeirsson, 25.7.2021 kl. 14:48

4 Smámynd: Kristinn Bjarnason

Núna eru hliðaráhrif sóttvarna að byrja að láta að sér kveða. Það er orðinn verulegur vöruskortur í heiminum og lítur út fyrir að fara versnandi með brjálæðislegum hækkunum. Það verður augljóslega minna til skiptanna og mikill skortur víða með ófyrirséðum afleiðingum. Það kemur fljótlega í ljós hvort eitthvert vit er í þessum sóttvarnaraðgerðum. 

Kristinn Bjarnason, 27.7.2021 kl. 15:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband