Bandaríkin: dauðastríð lýðveldis fremur en stórveldis

Bandaríkin eru hernaðarstórveldi og bandarísk tækni ræður stafrænu heimsbyggðinni. En í bandarískri stjórnmálamenningu stendur yfir illvíg borgarastyrjöld. 

Að hluta snýst innanlandsófriðurinn um hlutverk Bandaríkjanna í alþjóðasamfélaginu. Fram til 2016 var ráðandi stefna að bandaríkjavæða heimsbyggðina. Hernaðarstefna í miðausturlöndum og Austur-Evrópu (Georgíu og Úkraínu) ásamt opingáttarstefnu í utanríkisviðskiptum og óhindruðu flæði fólks og fjármagns var birtingarmynd bandarískrar alþjóðahyggju. Að ógleymdri loftslagspólitík, sem réttlætti lögregluhlutverk Bandaríkjanna á alþjóðavísu. Stóru flokkarnir, Demókratar og Repúblikanar, voru meira og minna samstíga.

Kjör Trump 2016 fól í sér stefnubreytingu. Bandaríkin fyrst, sagði Trump, og myndaðist til að afturkalla hernaðarpólitísku ævintýrin í útlöndum, lokaði landamærunum og hætti meðvirkni með loftslagsglópum.

Trump missti völdin í janúar 2021. Gamla stefnan gekk þó ekki í endurnýjun lífdaga átaklaust. Þungt og erfitt uppgjör við Trumptímann sýnir að ráðandi öfl í Washington eru hvergi nærri samstíga um hvað taki við.

Trump beitti forsetatilskipunum til að knýja fram stefnumál sín. Biden heldur uppteknum hætti og bætir um betur. Forsetatilskipanir Trump urðu samtals 220 en Biden er kominn með 29 á einum mánuði í embætti.

Í bandarísku borgarastyrjöldinni glittir í endalok lýðveldisins fremur en að veldissól stórveldisins hnígi hratt. Forsetaræði eykst en völd þingsins minnka, enda hver höndin upp á móti annarri í borgarastríðinu á þinghól alríkisins.


mbl.is Vill sams konar nefnd og eftir 11. september
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband