Hættulegt að ferðast. Punktur.

Öll staðfest kórónuveirusmit hér á landi eru í Íslendingum nýkomnum frá útlöndum. Aðeins eina ályktun er hægt að draga af þeirri staðreynd: það er hættulegt að ferðast.

Önnur ályktun, sem er nærtæk, en þó röng, er að við gætum lokað landinu til að koma í veg fyrir smit. Tvær ástæður útiloka þá leið. Í fyrsta lagi þýddi lokun landsins efnahagslegar hamfarir af mannavöldum. Kórónuveiran er hættuleg en ekki bráðdrepandi. Aðgerðir verða að hæfa tilefninu.

Í öðru lagi segir sagan okkur að einangrun frá umheiminum er engin trygging fyrir útilokun pestarfaraldra. Á 14. öld herjaði svarti dauði á Evrópu en Ísland slapp. Þangað til í byrjun 15. aldar að Einar nokkur Herjólfsson kom til landsins frá útlöndum. Hann er talinn hafa borið með sér pestina sem drap líklega hálfa þjóðina.

Lokun landsins gæti fræðilega tafið smit af kórónuveirunni. En kæmi hún síðar, þegar umheimurinn væri búinn að mestu að hrista hana af sér, yrði Ísland sett í sóttkví af alþjóðasamfélaginu. Og ekki yrði það vel gott. Í þessu tilfelli er sameiginlegt skipbrot kostur.

En það er hættulegt að ferðast. Punktur.


mbl.is Skilgreina nánast allan heiminn sem „gult svæði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Páll.

Það er líka til heimskuvírus, líka bráðsmitandi.

Að loka á smitsvæði er ekki það sama og að hætta að ferðast, við værum ekki sýkt í dag ef það hefði verið gert.

Þessa leið völdu yfirvöld í Singapúr og þau ráða við veiruna.

Drepsóttir drápu á miðöldum, og þá var gripið til sóttkvía.

Þær dugðu ekki þar sem flær með nagdýr sem hýsil fluttu smit, en þær dugðu gagnvart ytra smiti sem barst á milli manna.

Þekkt söguleg staðreynd, en jú, heimskuvírusinn getur afneitað.

Heimskast af öllu er samt að halda því fram að óheft ferðalög fólks séu forsenda hagkerfa okkar og það að stöðva slík ferðalög, sé ávísun á efnahagslegar hamfarir, eiginlega getur stökkbreyttur heimskuvírus ekki útskýrt slíkar fullyrðingar.

Einu sinni, fyrir ekki svo margt löngu, ferðaðist fólk aðeins á sumarleyfistímanum, og jafnvel í þunglyndislegustu sænsku eða frönsku kvikmyndum frá þeim tímum má ekki sjá eyðimörk mannlífs eða miðaldamyrkur efnahagsstarfseminnar.

Að stöðva ferðalög til sýktra svæða er sóttvörn, ekki ávísun á myrkar miðaldir.

Ég vona að það sé til pensilín við þessari veiru.

Ekki fyrir síðuhafa, heldur fyrir fólk sem les svona bull dag eftir dag, og trúir.

Það er alveg nóg að glíma við kórónavírusinn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.3.2020 kl. 13:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband