Tyrkland með heimsveldaáform

Tyrkir ætla að senda herlið til Líbýu, sem er klofið land eftir misheppnaða tilraun frjálslyndra á vesturlöndum að skipa þar málum eftir sínu höfði. Tyrkir herja jafnframt á byggðir Kúrda í Sýrlandi með það fyrir augum að færa landamæri ríkjanna á kostnað Sýrlands.

Austurhluti Miðjarðarhafs liggur á milli Tyrklands og Líbýu. Guardian segir markmið Tyrkja efnahagsleg. Þeir ætli að tryggja sér rétt til vinnslu á gasi og olíu á svæðinu. Áður höfðu Grikkir, Egyptar, Kýpverjar og Ísraelsmenn samið sín á milli um vinnslu á hafsvæðinu.

Jerusalem Post setur hernaðarafskipti Tyrkja í samhengi við heimsveldi Ottómana sem féll í fyrri heimsstyrjöld. Í framhaldi voru landamæri fyrir botni Miðjarðarhafs dregin af gömlu evrópsku nýlenduveldunum, Bretum og Frökkum.

Eftir fall Ottómana byggðu Tyrkir upp veraldlegt þjóðríki undir forystu Atatürk. Á seinni árum færist Tyrkland í átt múslimaríkis undir leiðsögn Erdogan forseta. Á meðan veraldleg pólitík réð ferðinni í Tyrklandi sóttust þeir eftir aðild að Evrópusambandinu en var hafnað.

Heimsveldaáform Tyrkja á austurhluta Miðjarðarhafs kalla á viðbrögð Evrópuríkja sem og annarra sem eiga hlut að máli. Tyrkland ásamt Katar og Ítalíu styðja Trípólí-stjórnina í Líbýu á meðan Egyptar, Frakkar og Rússar styðja stríðsherrann Haftar.

Deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafs voru flóknar fyrir. Heimsvaldastefna Tyrkja mun ekki einfalda þær.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband