Pútín, Trump, þjóðernishyggja og vestræn alþjóðahyggja

Hvað vill Pútín í raun? er spurt í fréttaskýringu New York Times. Rússlandsforseti er sakaður um að stýra niðurstöðum kosninga í Bandaríkjunum og Evrópu, Bandarískir fjölmiðlar, ekki síst New York Times, hafa haldið lífi í þeirri bábilju að Pútín sé á góðri leið með að verða lávarður heimsins með vélabrögðum gagnvart sjálfum sér sundurþykknum vesturlöndum.

Fréttaskýringin dregur upp aðra mynd af Pútín. Forsetanum og valdhöfum í Moskvu almennt er meinilla við óreiðu, bardak á rússnesku, og vill fremur skipulag, jafnvel þótt það sé með harðri hendi. Ofnæmi fyrir óreiðu vex eftir því sem hún færist nær landamærum Rússlands, t.d. í Úkraínu.

Samkvæmt fréttaskýringunni er Pútín aðeins að gæta lögmætra hagsmuna þjóðar sinnar í hvikulum heimi þar sem hættur leynast við hvert fótmál. Pútín vill í raun og veru ekkert annað en að tillit sé tekið til rússneskra hagsmuna.

Pútín rekur ekki háværa rússneska þjóðernisstefnu á alþjóðavettvangi. Hann er raunsær, veit að rússneska þjóðarsálin á aðeins eitt heimili, þ.e. í Rússlandi. Á alþjóðavettvangi kýs Pútín skipulag fyrst og fremst og harmar óreiðu.

Trump forseti Bandaríkjanna er hávær þjóðernissinni. ,,Make America great again," var slagorð hans í kosningabaráttunni 2016. Trump ætlaði að byggja Bandaríkin upp innan frá, t.d. með því að loka landamærunum fyrir óæskilegum útlendingum, einkum fátæklingum frá Suður-Ameríku og múslímum. Þá knúði Trump bandarísk fyrirtæki til að láta af þeirri stefnu að flytja framleiðsluna til láglaunasvæða og auka hagnaðinn með svokölluðum frjálsum viðskiptum. Þetta er einn angi nýfrjálshyggju sem hagfræðingurinn Joseph Stiglitz kennir við Clinton og Blair og telur feiga.

Trump tók í arf frá forverum sínum vestræna alþjóðahyggju sem mælir fyrir um að heimurinn skuli gerður vestrænn. Þessi tegund alþjóðahyggju verður til við fall kommúnismans. Merkisberar hennar eru forsetarnir Bush yngri, Clinton og Obama annars vegar og hins vegar Evrópusambandið.

Vestræn alþjóðahyggja er uppspretta stríða og hörmunga í Írak, Afganistan, Sýrlandi, Líbýu og Úkraínu. Múslímavæðing Vestur-Evrópu er önnur afleiðing sömu stefnu.

Trump sýnir tilburði að hefta vestræna alþjóðahyggju. Hann kallaði bandarískt herlið frá Sýrlandi og lét ekki freistast í stríð í Venesúela. Deilur hans við Írak og Norður-Kóreu er vegna kjarnorkuvopna sem ógna heimsfriðnum en ekki verkefni til að vesturlandavæða múslíma eða Asíubúa.

Lágvær þjóðernishyggja Pútín og háværa útgáfan hjá Trump eru margfalt betri kostir en gengdarlausa ruglið sem fellur undir vestræna alþjóðahyggju. Stofninn í liðinu sem ber fram vestræna alþjóðahyggju eru vinstrimenn af ýmsum sortum og frjálslyndir sem fleyta rjómann af alþjóðavæðingunni og á kostnað almennings.

Pútín og Trump hittust fyrir tæpum tveim vikum. Það fór vel á með þeim.

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Kristinsson

Takk fyrir þennan pistil Páll! hann er snilld.

Okkur vantar leiðtoga á Alþingi með Bein í nefi en ekki Marglittu.

Kv að Sunnan

Óskar Kristinsson, 7.7.2019 kl. 11:57

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Pútin og Trump, hvort það fór vel á með þeim! Beittu síðan hárfínum humor um meirapróf Pútins í kosningaútkomu USA.

Helga Kristjánsdóttir, 7.7.2019 kl. 23:33

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Trump hefur einnig kallað heim rúmlega helming heraflans frá Afganistan og vill semja ströng skilyrði við Talibana áður en hann hyggst kalla restina heim.

Rússar reyndu vissulega að hafa áhrif á kosningar í bandaríkjunum rétt eins og bandaríkjamenn reyna að hafa áhrif á kosningar víða um heim, m.a. Í rússlandi. Skripalmálið í bretlandi var t.d. líkleg viðleitni bandamanna til að hafa slík áhrif.

Hinsvegar höfðu rússar ekkert samráð við Trump í aðdraganda kosningar eins og tveggja ára rannsókn Muellers saksóknara komst að. Clinton borgaði fyrir skítaklepra á Trump um pissupartý með léttlyndum konum í russlandi m.a. Þetta keypti Clinton kosningabandalagið af Steele nokkrum, sem er flugumaður með meint tengsl við rússa. Ekkert reyndist hæft í drullumakeríinu. Það var samráðsviðleitni demókrata sem í raun var málið og mun það rannsakað í kjölinn hvernig þessi ófrægingarherferð byrjaði.

Ekki er ég mikill aðdáandi persónu Trump, en rétt skal vera rétt. Tveggja ára lygaherferð fjölmiðla og demókrata gufaði upp og hann hefur því fullt tilefni til að væna menn um falsfréttir. Demókratar snúa þessu hinsvegar öllu á haus.

Jón Steinar Ragnarsson, 8.7.2019 kl. 00:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband