Réttindalausir blaðamenn á mannorðsveiðum

Allir geta kallað sig blaðamenn, starfið er ekki lögverndað. Ekkert eftirlit er með starfi blaðamanna og þeir þurfa ekki að uppfylla neinar faglegar kröfur. Samfélagið hefur áhyggjur af réttindalausum kennurum; enginn verður lögfræðingur án menntunar og sama gildir um sálfræðinga, félagsráðgjafa og flestar aðrar starfsstéttir.

En blaðamaður getur hver sem er verið án þess að uppfylla eina einustu formlega kröfu. Það gerir blaðamenn hvorki hófstillta né vandvirka. Öðru nær. Blaðamenn vaða inn í líf fólks, fótum troða friðhelgi heimilisins og stunda mannorðsveiðar af léttúð. 

Blaðamaður myndar sér skoðun, kallar það frétt og birtir sem sannleika. Á bakvið stendur iðulega trúgjarn og dómgreindarlaus einstaklingur sem kallar sig blaðamann í skjóli þess að hver sem er má nota starfsheitið.

Félagsráðgjafi stundar ekki fjölskylduráðgjöf án tilskilinnar menntunar. En blaðamaður gengur borubrattur inn í einkalíf manns og annars og útdeilir sekt og sýknu. Blaðamaðurinn er ákærandi og dómari fyrir dómstóli samfélagsmiðla. Sá dæmdi fær aðeins að taka til máls fyrir náð og miskunn blaðamannsins, sem einatt ritskoðar sakborninginn. Vanmenntun blaðamannsins gerir hann hrokafullan, valdið er hans.

Nýlega voru blaðamenn 365-miðla dæmdir fyrir að vega að æru tveggja ungra manna. Stundin stendur frammi fyrir málssókn vegna ærumeiðingar, sbr. viðtengda frétt. Vörn blaðamanna er í báðum tilvikum sú sama. ,,Við höfum rétt sem blaðamenn að fella dóma og meiða fólk ef okkur sýnist," er efnislegt svar þeirra.

Réttindalausir blaðamenn hafa hvorki lögvarinn rétt né siðferðilegt umboð til að opinbera einkalíf fólks og fella dóma. Réttarríkið starfar eftir þeirri meginreglu að hver maður er saklaus uns sekt er sönnuð. Réttindalausir blaðamenn setja sig ofar réttarríkinu þegar þeir útdeila sekt og sýknu á opinberum vettvangi.  


mbl.is Krafðist 1,5 milljóna af Stundinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband