Evrópa, flóttamenn og nýlendustefna

Frakkar og Ítalir eru komnir í hár saman vegna flóttamanna. Austur-Evrópa neitar að taka við þeim. Aðalhöfundur flóttamannastefnunnar, Angela Merkel kanslari Þýskalands, er kominn í minnihluta á heimavígstöðvunum.

Kjósendur í Evrópu snúa unnvörpum bakinu við opingáttarstefnu gagnvart flóttamönnum frá Norður-Afríku og miðausturlöndum. En samt halda þeir áfram að koma í leit að betri lífskjörum.

Flóttamenn verða ekki stöðvaðir á Miðjarðarhafi, það er fullreynt. Ítalir hafa reynt að gera samninga við uppreisnarhópa í Líbíu um að takmarka strauminn og orðið nokkuð ágengt.

Fyrr heldur en seinna horfast Evrópuríki í augun við þann veruleika að án skipulagðra inngripa í samfélög í norðurhluta Afríku og í miðausturlöndum verður flóttamannastraumurinn ekki stöðvaður.

Innrás í anda 19. aldar nýlendustefnu, sbr. Íraks-tilraun Bandaríkjanna 2003, er útilokuð. Reynslan sýnir að síðnýlendustefna leysir ekki vandann heldur eykur hann. 

Fjölhliða samvinna á sviði stjórnmála, öryggishagsmuna og efnahagsmála milli Evrópuríkja og nágranna þeirra í suðri og suðaustri er eina raunhæfa lausnin.

En til að koma á slíkri samvinnu þarf að vera vísir að pólitískum stöðugleika i heimalöndum flóttafólksins. Og þar skortir nokkuð á. Tveir kostir eru í stöðunni. Að Evrópuríki bíði þolinmóð eftir því að Eyjólfur hressist. Það gæti tekið áratugi. Í öðru lagi að taka upp hernaðarsamvinnu við skástu ofbeldisseggina til að koma á friði með valdi.

Engin samstaða er í Evrópu um hvernig skuli taka á vandanum vegna flóttamanna. Skýrir kostir taka ekki á sig mynd fyrr en vandamálið verður yfirþyrmandi. Ekki er enn komið að þeim tímapunkti.   


mbl.is Ítölsk stjórnvöld saka Frakka um hræsni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Vandamálið með hömlulausa móttöku flóttamanna er evrópska kerfið.  Sem hefur áratugum saman hert að eigin einstaklingum samfélagsins og vill vita allt um þá, frá vöggu til grafar.  Hérlendis þekkjum við þetta sem skilum skattframtölum til RSK.  Sem fyrirfram hafa verið samin af kerfinu - og aðeins þarf að ýta á "enter" á tölvunni. 
Málið vandast með tug- eða hundruðum þúsunda lausagöngumanna.  Af hverju ættu þeir ekki að lúta sömu reglum og innfæddir?  Eða þá, af hverju ættu innfæddir ekki að lúta sömu reglum og lausagöngumenn? 
Er ekki jafnræði skilyrt í íslenskum lögum?

Kolbrún Hilmars, 13.6.2018 kl. 15:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband