Netspor, sálfræði og stjórnmál

Notendur samfélagsmiðla eins og Facebook skilja eftir sig netspor, upplýsingar um hvaða netsíður eru skoðaðar og viðbrögð s.s. meðmæli eða ,,like". Notandi sem mælir með krulluðum frönskum kartöflum og Sephora snyrtivörum upplýsir persónueinkenni sín.

Upplýsingar af þessu tagi, ásamt gagnagrunni sem varð til með því að notendur Facebook fengu greitt fyrir að svara persónuleikaprófi, voru notaðar til að hanna pólitísk skilaboð í 11 lykilríkjum í bandarísku forsetakosningunum. Skilaboðin birtust á tölvuskjáum notenda sem líklegir voru til að greiða Donald Trump atkvæði, segir í samantekt Guardian.

Á bakvið flókið ferli er einföld hugmynd. Kjósendur taka afstöðu til stjórnmála á persónulegum grunni. Almenn notkun samfélagsmiðla gefur færi á að flokka stóra hópa fólks niður í einstaklinga og sérhanna skilaboð, hvort heldur til að auglýsa vöru eða frambjóðanda, sem líkleg eru til að fólk kaupi vöru eða greiði atkvæði.

En það er ekki nóg að skilgreina persónueinkenni kjósenda og tryggja sér aðgang að tölvuskjáum þeirra. Frambjóðandinn/stjórnmálaflokkurinn þarf að komast í þá stöðu að verða raunverulegur valkostur. Donald Trump tókst um áramótin 2015/2016 að sannfæra nógu marga Bandaríkjamenn að hann væri rétti maðurinn í forsetaembættið. Kosningabaráttan var endataflið eftir að staðan á taflborðinu var byggð upp.

Þrátt fyrir netspor, samfélagsmiðla og sérhönnuð skilaboð byggð á sálfræði kjósenda eru stjórnmál þau sömu í dag og á dögum Rómverja. Sá sem ætlar sér frama á þeim vettvangi verður að kunna að segja einfalda sögu. Og hún er þessi: ég er besti maðurinn til að tryggja hagsmuni ykkar.

 

 


mbl.is Nýttu persónuupplýsingar á Facebook
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Fræðandi, gott.

Egilsstaðir, 18.03.2018  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 18.3.2018 kl. 10:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband