Trump, Jónas frá Hriflu og bilaður samtími

Jónas Jónsson frá Hriflu var sagður bilaður á geði. Í febrúar 1930 gerði Jónas litla bændablaðið Tímann að metsölublaði þegar hann skrifaði frægustu blaðagrein síðustu aldar, Stóru bombuna, sjálfum sér til varnar.

Donald Trump er bæði sagður bilaður og að hafa boðið sig fram til forseta, ekki til að sigra, heldur búa til vörumerki í fjölmiðlum.

Valdamenn, allt frá dögum rómverska lýðveldisins, eru reglulega sagðir geðveikir. Og líklega þarf einhvers konar geðveiki til að sækjast eftir völdum. Ekki síst þegar yfirlýstur tilgangur er að umbylta ríkjandi fyrirkomulagi.

Eftirspurn eftir biluðum byltingarmönnum vex í hlutfalli við vandræðaástand þeirra samfélaga sem í hlut eiga. Á millistríðsárunum var Ísland nýfrjálst ríki í umbreytingarferli. Jónas frá Hriflu var höfundur stjórnmálakerfis sem átti að taka við gamla kerfi sjálfsstæðisstjórnmála. Á einu og sama árinu, 1916, kom Jónas að stofnun tveggja stjórnmálaflokka, Alþýðuflokks og Framsóknarflokks, sem urðu höfuðandstæðingar. Jónas ætlaði hið gagnstæða, Alþýðuflokkurinn skyldi verða jafnaðarflokkur á mölinni en Framsókn sveitaútgáfa sömu stjórnmálastefnu. Það er auðvitað bilað.

Donald Trump er milljarðamæringur sem ætlar að bjarga bandarísku láglaunafólki frá auðhringum. Hann afturkallar alþjóðlegar skuldbindingar Bandaríkjanna, sem hafa gert landið að mesta heimsveldi er sögur fara af, undir því yfirskini að Bandaríkin verði máttug á ný. Hvorttveggja er bilað.

Biluð kerfi þurfa bilaða menn. Stóra í sniðum.

 


mbl.is Trump segist snillingur í góðu jafnvægi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Demókratar eru brjálaðir út í Trump fyrir að afnema allar þessar tilskipanir Obama sem stjórna daglegu lífi þjóðarinnar í smáatriðum. En Trump er bara að færa valdið aftur til ríkjanna. Til fólksins.

”Stórfrétt” RÚV að einhver Yale prófessor telji Trump geðbilaðan og stórhættulegan fær mann til að rifja upp aðferðafræði Sóvet-Rússlands þegar koma þurfti “óvinum” ríkisins úr umferð. Þá komu freramýrar Síberíu að góðu gagni sem geymslustaður “geðsjúklinga.”

það má segja að ofstjórnaráráttan er alltaf söm við sig.

Ragnhildur Kolka, 7.1.2018 kl. 14:26

2 Smámynd: Hörður Þormar

Rétt er að vandræðaástand getur kallað á vandræðamenn.

Ég hef stundum spurt sjálfan mig að því, hver afstaða mín hefði verið til Hitlers, hefði ég haft kosningarétt til Reichstags árið 1932. Ég get ekki svarað þeirri spurningu, en sennilega hefði mér ekki verið farið að lítast á blikuna þegar líða tók á árið 1933. Maður verður svo oft vitur eftir á.  

Ég vil ekki líkja Donald Trump við einn eða neinn, en vissulega er hann ólíkindatól, ég get verið sammála honum um sumt, (maður verður jú líka að muna að Hitler lét framkvæma marga ágæta hluti), en maður veit aldrei hverju hann kann að taka upp á næst.

Vonandi hefur bandaríkst stjórnkerfi burði til að koma í veg fyrir að forsetinn geri einhver afglöp, sem verða ekki aftur tekin. 

Hörður Þormar, 7.1.2018 kl. 15:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband