Tilgangsleysi veldur starfsleiða

Sérfræðingar hjá ríkinu vinna oft tilgangslaus störf. Tvær meginástæður eru fyrir því. Í fyrsta lagi er innbyggður hvati í ríkiskerfinu að búa til tilgangslaus störf. Forstöðumenn og millistjórnendur fá hærra kaup eftir því sem undirmönnum þeirra, sérfræðingum, fjölgar.

Ráðuneyti og ríkisstofnanir búa ekki við aga markaðarins um að skila tiltekinni afkomu. Óljós viðmið eru um hve marga starfsmenn þarf til að vinna tiltekið verk og yfir höfuð hvort verkefnin séu nauðsynleg. Heilar stofnanir eru settar á laggirnar með óljósan tilgang, t.d. Ferðamálastofa, eða í algjöru tilgangsleysi, sbr. Fjölmiðlanefnd.

Í öðru lagi er vaxandi hluti starfa sérfræðinga hjá ríkinu fjármagnaður með erlendum styrkjum, einkum frá sjóðum Evrópusambandsins. Þangað fara milljarðar af íslensku skattfé árlega og koma tilbaka í formi styrkja. Þessi þróun hófst um aldamótin. Margar stofnanir eru með sérfræðinga í fullu starfi að skrifa umsóknir um þessa styrki. Þá er ekki spurt hvort verkefnið sé mikilvægt heldur hvort peningar fáist frá útlöndum til að fjármagna laun sérfræðinga. Og því fleiri sérfræðingar sem ráðnir eru til vinnu hjá stofnun því sterkari rök eru fyrir kauphækkun millistjórnenda og forstöðumanna.

Heilbrigðir einstaklingar með eðlilegan metnað að sinna starfi sem skiptir máli geta auðveldlega orðið starfsleiða að bráð þegar þeir horfa upp á tilgangsleysið í kringum sig.

En við getum étið hattinn okkar upp á það að Þórunn, foringi sérfræðinganna, mun ekki komast að þeirri niðurstöðu, eftir rannsókn, að einhver hluti sérfræðistarfa hjá ríkinu sé tilgangslaus og ætti að leggja niður. Líklegri niðurstaða er að tillaga komi fram um nýja ríkisstofnum er hafi eftirlit með andlegri heilsu sérfræðinga á ríkisstofnunum.


mbl.is Álag á sérfræðingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Þarna er mannauðurinn m.a.samankominn sem lítur ekki við fiskvinnslu eða álíka störfum, ágætt að flytja inn útlendinga til að sullast í frumgreinum þjóðfélagsins. 

Helga Kristjánsdóttir, 7.9.2017 kl. 08:46

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Kannski eru væntingarnar um gildi háskólamenntunar of miklar. Nám er síbreytilegt, þú ert alltaf að fást við eitthvað nýtt. Vinnumarkaðurinn gerir hins vegar gjarnan út á að þú sért að gera eitthvað eitt vel. Viðskiptafræðingur sem sér um innheimtumál fyrirtækis bjóst við meiru út úr menntun sinni. Kennarar sjá fyrir sér endalausa röð af fyrstubekkingum eða það sem verra er áttundubekkingum. Þeir velja frekar sérkennslu eða námsráðgjöf. Og hjúkrunarfræðingar og læknar kikna undan álaginu. 

Margir velja sér nám sem skilar þeim öruggum tekjum. Þeir hafa ekki ímyndunarafl til að gera sér starfið skemmtilegt og ekki áræði til að finna sér eitthvað betra. Ergo- brenna út.

Ragnhildur Kolka, 7.9.2017 kl. 11:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband