Dauði lýðræðisins - frjálshyggju kennt um

Lýðræðið er að deyja og flestum virðist standa á sama, skrifar rithöfundurinn og álitsgjafinn Paul Mason í Guardian. Hann tíundar dæmi frá Bandaríkjunum, Tyrklandi, Kína, Rússlandi, Venesúela, Póllandi og Ungverjalandi um hnignandi lýðræði.

Meginástæðuna fyrirsjáanlegs dauða lýðræðisins, segir Mason, er markaðsfrjálshyggja sem mælir mannréttindi með stiku hagfræðinnar. Gegn frjálshyggju teflir Mason fram hugmyndinni um algild og óframseljanleg náttúruleg mannréttindi.

Röksemdafærsla Mason er einfeldningsleg. Fyrir það fyrsta er markaðsfrjálshyggja ekki ráðandi í neinu þeirra ríkja sem hann nefnir, nema e.t.v. í Bandaríkjunum.

Verstu mistökin í rökfærslunni eru samt þau að Mason gefur sér að lýðræði sé eitt sniðmát. Svo er ekki. Lýðræði óx fram við sérstakar sögulegar kringumstæður í afmörkuðum heimshluta, sem við köllum vesturlönd. Jafnvel innan vesturlanda er útfærslan á lýðræði með ólíkum hætti. Frakkland og Bandaríkin búa að miðstjórnarhefð í gegnum forsetaembættið en hlutur þingsins er stærri í Bretlandi og Þýskalandi - þó á gangólíkum forsendum.

Sameiginlegt einkenni lýðræðisins er að það svarar vilja þess almennings sem það á að þjóna. Til að það gangi eftir þarf einhver lágmarkssamheldni að ríkja meðal viðkomandi almennings. Tungumál, saga og menning mynda samheldnina.

Til að hugmyndin um algild mannréttindi nái fram að ganga þarf alheimsstjórn, alheimslýðræði, alheimstungumál og alheimsmenningu. En engu slíku er til að dreifa og verður ekki í fyrirsjáanlegri framtíð. En það er hægt að auka samheldni samfélaga, og þar byrjum við heima hjá okkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband