Atkvæði Trump á Íslandi - netlýðræðið

Melania Trump, eiginkona Donald Trump forsetaframbjóðanda í Bandaríkjunum, beitti ritstuldi á ræðu Michelle Obama, eiginkonu sitjandi forseta, til að tryggja ítarlega umfjöllun um sig í helstu fjölmiðlum í nokkra daga.

Áróðursbragðið heppnaðist fullkomlega. Jafnvel á Íslandi, þar sem Trump á ekki mörg atkvæði, fær Melania ítarlega, og að mestu leyti jákvæða, umfjöllun í útbeiddasta miðli landsins, mbl.is

Trump keyrir forsetaframboð sitt á þeim forsendum að betra sé að veifa röngu tré en öngu og hagfelldara sé að vera alræmdur en óþekktur.

Christiane Amanpour á CNN, þessi sem felldi forsetaframboð Ólafs Ragnars Grímssonar, átti viðtal við sagnfræðinginn Ken Burns um Trump. Burns talar um siðlausa netmiðla sem flytja lygar Trump þrisvar í kringum hnöttinn áður en sannleikurinn kæmist á fætur. Viðtalið er samfelld árás á Trump en gerir ekki annað en að undirstrika að pólitísk orðræða hverfist um Trump. Og það er einmitt markmið eiginmanns Melaniu.

Kanadíski fræðimaðurinn Marshall MacLuhan var frumkvöðull kenninga um raffjölmiðla. Fyrir meira en hálfri öld, löngu fyrir daga netmiðla, kynnti hann hugtakið ,,miðillinn er merkingin", The medium is the message. Hugtakið þýðir að ráðandi fyrirkomulag fjölmiðlunar, sjónvarp á dögum MacLuhan en netmiðlar í dag, ræður merkingu innihaldsins.

Netmiðlar eru siðlausir, líkt og Ken Burns segir. Þeir gera engan greinarmun á réttu og röngu. Alger þvættingur fær sömu útbreiðslu og ígrunduð orðræða; það þekkjum við úr umræðunni hér á landi.

Donald Trump er holdgervingur netfjölmiðlunar. Þess vegna mun hann sigra í nóvember og verða forseti í krafti netlýðræðisins.


mbl.is „Ég stend styrkum fótum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er mótsögn að gagnrýna fjölmiðla fyrir að hafa skoðanir og gagnrýna þá líka fyrir að hafa ekki skoðanir. 

Ómar Ragnarsson, 25.7.2016 kl. 07:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband