Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálft ESB

Evrópusambandið er félagsskapur án framtíðar, óháð hvort Bretar segja nei eða já við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu í sumar. Evrópusambandið er sögulegur misskilningur, byggir á arfsögn um nauðsyn stórvelda.

Arfsögnin verður til á útþensluskeiði Evrópu sem hófst með kristnu bandalagi Franka og páfans i Róm á níundu öld og lauk með guðlausum nasisma um miðbik 20stu aldar. Á fyrsta skeiði útþenslunnar gleypti Evrópa Norðurlönd og dró upp óformleg landamæri austan við Ungverjaland (sem kristnuðust sama ár og Íslendingar, árið 1000).

Annar kafli hófst með krossferðum til Landsins helga og lauk með uppstokkun kristni í veraldlega sinnaða mótmælenda í Norður-Evrópu og íhaldstrúmenn i suðurhluta álfunnar.

Þriðji hlutinn er 500 ára tímabilið frá Kólumbus til Hitler. Evrópa lagði undir sig fjórar heimsálfur; Norður-Ameríku, Suður-Ameríku, Ástralíu og Afríku. Tvisvar reyndi Evrópa að sigra Rússland, Napoleón 1812 og Hitler 1941, en var gerð afturreka í bæði skiptin.

Allan tíma útþensluskeiðsins, sem nær yfir 1200 ár, eru innbyrðis átök í Evrópu. Löndin sem afkomendur fyrsta keisara Vestur-Evrópu, Karlamagnúsar, skiptu með sér í Verdun á níundu öld verða stofn stórvelda meginlandsins, Frakklands og Heilaga rómverska keisaradæmisins/Þýskalands. Þriðja stórveldið, England, fær svip sinn og einkenni með valdaráni fransk-norrænna riddara Vilhjálms sigurvegara um miðja 11.öld. Afkomendur riddaranna háðu hundrað ára stríð á franskri grundu um konungdæmi Franka. Kaþólsk stelpa, Jóhanna af Örk, var áhrifavaldur á lokaspretti stríðsins og fyrir vikið þjóðardýrlingur Frakka.

Eftir brottrekstur Englendinga af meginlandi Evrópu gerði eyþjóðin sér far um að tryggja að ekkert ríki yrði allsráðandi í Evrópu. Englendingar studdu Þjóðverja gegn Napóleón en Frakka gegn Þjóðverjum í fyrri og seinni heimsstyrjöld.

Evrópa var að niðurlotum komin um miðbik síðustu aldar. Tvö stórveldi uxu Evrópu yfir höfuð, Bandaríkin og Sovétríkin. Stofnun Evrópusambandsins var varnarviðbragð við þverrandi mætti Evrópuríkja.

Háleitt markmið embættismanna í Brussel að búa til Stór-Evrópuríki úr Frökkum, Englendingum, Ítölum, Þjóðverjum, Norðurlöndum, Balkanþjóðum, Pólverjum og slövum var aldrei framkvæmanlegt. ESB-sinnar lásu einfaldlega rangt í sögulega þróun. Stórveldi, sem sigruðu seinna stríð, Sovétríkin og Bandaríkin, stóðust ekki nema í fáeina áratugi. 

Bandaríkin fengu lexíu í Víetnam 1975 og Sovétríkin liðuðust í sundur á tíunda áratug síðustu aldar. Vanmáttur stórvelda er augljós, bæði í Úkraínu og miðausturlöndum. Stórveldi stjórna ekki heiminum eftir eigin höfði, líkt og stórveldi Evrópu gerðu fram á 20 öld. Bandaríkin kynntust því nú síðast í Írak.

ESB sem Stór-Evrópa gengur ekki upp. Meginástæðan er að Stór-Evrópa getur ekki starfað í samvinnu við það póliska afl sem mestu skiptir nú á dögum, en var aukaatriði lengst af í sögunni. Þetta afl er almenningur.

Í Evrópu er ekki til neitt sem heitir evrópskur almenningur. Almenningurinn á meginlandinu kennir sig við þjóðríki og þaðan af minni samfélög, héruð eða landshluta.

Án almennings verður Brussel eins og Versalir á dögum Lúðvíks 16 og Maríu Antoinette. Á meðan veislan stendur yfir tekur enginn eftir umboðsleysi valdhafanna. En þegar harðnar á dalnum verða þeir sóttir til saka sem bera ábyrgð. Höfðingjarnir í Brussel eru höfundar evrunnar, sem skapar eymd og volæði víða um álfuna, og Schengen-landamæranna sem eru opinn krani fyrir flóttamannastraum múslíma.

Embættismennirnir í Brussel verða ekki gerðir höfðinu styrttri eins og Lúðvík og María. En draumurinn þeirra um Stór-Evrópu fer sömu leið og hugsjón Leníns; á öskuhaug sögunnar.


mbl.is Telja úrsögn úr ESB verða dýrkeypta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband