Frosti og bankar sem spilavíti

Á meðan bankar búa til peninga í formi útlána er viðvarandi freistnivandi, sem felst í því að afkoma bankafólks ræðst af veltu. Því meiri velta því hærri laun. Freistnivandi bankafólks er sá sami og manns sem gengur inn í spilavíti vitandi að hann getur framleitt peninga ef hann tapar veðmálum.

Bankafólk kemst upp með leikinn svo lengi sem fjármálakerfið hrynur ekki. Og ef illa fer er alltaf hægt að kenna öðrum um, t.d. fjármálaeftirlitinu, líkt og gerðist hér á landi í kjölfar hrunsins. Í öðru lagi veit bankafólk að án starfandi banka er raunhagkerfið dauðadæmt.

Frosti Sigurjónsson þingmaður Framsóknarflokksins er manna duglegastur hér á landi að kynna kosti fyrirkomulag sem heitir á ensku ,,full reserve banking" og byggir á þeirri hugmynd að seðlabankar eigi einir að gefa út peninga. Viðskiptabankar starfi á  þeim grunni að útlán skuli ekki hærri en innlán.

Fjármálakreppan síðasta er hvati til að skoða ofan í kjölinn kosti og ókosti kerfis sem felur í sér stöðugleika en gæti á hinn bóginn hamlað vexti. Kapítalisminn er eyðandi afl, eins og Karl Marx benti á, en nýsköpun sprettur úr áburðinum sem eyðileggingin skilur eftir sig.


mbl.is Bönkum bannað að búa til peninga?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Rétt er að benda á í tengslum við þessa umfjöllun að þær tillögur sem Frosti Sigurjónsson setti fram í skýrslu sinni um endurbætur á peningakerfinu ganga ekki út á svokallað "full reserve banking" heldur þjóðpeningakerfi. Til þess að útskýra muninn á þessu tvennu er best að draga fram þau meginatriði sem hvor hugmynd um sig byggist á:

Heildarforðakerfi (e. full reserve banking) felur aðeins í sér eina grundvallarbreytingu frá núverandi brotaforðakerfi (e. fractional reserve banking) sem er sú að hækka bindiskyldu upp í 100%. Það myndi þýða að í stað núgildandi 0-2% bindiskyldu myndu bankar þurfa að binda allt innlánsfé með því að leggja það inn á bindiskyldureikninga í seðlabankanum. Með þessu væri samt áfram viðhaldið tvöföldu kerfi, annarsvegar "bankapeningum" sem almenningur notar og hinsvegar "seðlabankapeningum" sem aðeins bankar mega nota í viðskiptum við seðlabankann. Bankar nytu því áfram sérstöðu.

Þjóðpeningakerfi (e. sovereign money, þ. vollgeld) felur í meginatriðum í sér afnám tvöfalda kerfisins með því að færa alla peningamyndun aftur til seðlabankans, sem myndi svo skipta seðlabankapeningunum út fyrir venjulega peninga sem seðlabankinn gefur út hvort sem í formi seðla, myntar eða rafrænna innstæðna í kerfinu. Þannig yrðu allir peningar venjulegir peningar og bankar myndu nota þá sömu peninga og allur almenningur í viðskiptum sínum. Afleiðingin yrði sú að bankar myndi ekki lengur njóta þeirrar sérstöðu að geta búið til peninga úr engu, heldur yrðu þeir að starfa eins og öll önnur venjuleg fyrirtæki. Þeir þyrftu semsagt að eignast peninga fyrst til þess að geta svo lánað þá út, en ekki öfugt eins og í núverandi kerfi. Þar sem breytingin snýr eingöngu að bankastarfsemi myndi almenningur ekki finna neinn mun, heldur einfaldlega halda áfram að nota sömu peninga í sömu formum og venjulega þ.e. seðla, mynt og rafrænar innstæður.

Eitt það athyglisverðasta við hugmyndina um þjóðpeningakerfi er að hún felur í raun ekki í sér neitt öðruvísi bankakerfi en það sem lýst er í flestum kennslubókum í þjóðhagfræði. Í þeim bókum er hinsvegar hvergi fjallað um brotaforðakerfið sem útskýrir sennilega hversu illa hefur gengið að reyna að beita þeirri hagfræði til aða takast á við bankakrísur undanfarinna ára. Það er einfaldlega vegna þess að þá er verið að reyna að laga kerfi sem er ekki til og á meðan þá lagast raunverulega kerfið ekki neitt.

Hér má nálgast skýrslu Frosta um peningakerfið þar sem er lagt til að tekið verði upp þjóðpeningakerfi á Íslandi: https://www.forsaetisraduneyti.is/frettir/afhenti-skyrslu-um-endurbaetur-a-peningakerfinu

Frosti hefur ekki látið þar við sitja, heldur náð saman hópi þingmanna úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokki, sem standa saman að tillögu til þingsályktunar um umbætur á fyrirkomulagi peningamyndunar: http://www.althingi.is/altext/145/s/0171.html

Til frekari fróðleiks má vísa á heimasíðu svissnesku þjóðpeningahreyfingarinnar: http://www.vollgeld-initiative.ch/

Hér er jafnframt heimasíða íslensku hreyfingarinnar Betra peningakerfi: http://betrapeningakerfi.is/

Guðmundur Ásgeirsson, 25.12.2015 kl. 20:33

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Hvernig stendur á því að bankar geta seilst í viðskipti, sem samsvara hundrað sinnum innlögnum á innlánsreikninga?  Það er eitthvað skelfilega mikið að í svona kerfi. Banki og þá ekki síst stjórnendur hans, sem telja sig umkomna að lána hundrað sinnum meira en liggur á bókum bankans, eiga heima á Kvíabryggu, enda stefnir í að banksterar heltaki þá lúxusstofnun. Verði þeim að góðu, þessum andskotum. Það er til fólk sem gleymir ekki og þó þessar landbleyður hafi hlotið dóma og telji sig sloppna að þeim afplánuðum, skulum við barasta sjá til. Það munu höfuð fjúka.

Halldór Egill Guðnason, 26.12.2015 kl. 03:51

3 Smámynd: sleggjuhvellur

 Erum menn byrjaðir að vinta í Karl Marx??   Ég hélt að þetta væri hægri blogg? En grímarn er greinilega fallinn.

Í fyrsta lagi eru þessa "hugmyndir" frosta eldgamlar og mjög langsótt að telja að þessi enska skýrsla sem Frosti lét gera hafi ratað til Sviss. Algjörlega galið að halda það.

Ég er hættur að botna í Frosta. Hann vill ofurtolla á matvæli og vildi halda 60% tolla á snakki á kostnað almennings.

Hann vill ríkisvætt bankakerfi og þetta "betra peningakerfi" er í raun verri peningakerfi og mun valda miklum búsyfjun. Þessi skýrsla sem hann gaf frá sér var á ensku vegna þess að hann vildi ekki að hún sem aðgeng almenningi á Íslandi enda var hún peningaeyðsla og bull frá upphafi til enda.

Þetta peningakerfi mun valda hörmung og draga úr velferð ef hún fær að viðgangast. Ef Sviss samþykkir þetta þá getur Frosti séð það með berum augum hvernig þetta kerfi fer með fólk.
Þá mun hann Frosti loksins viðurkenna mistök... þó hann mun vera í sjálfsblekkingu lengi.

Vanfundinn er sá Alþingismaður sem er með minni hagfræðilegan skiling en hann Frosti Sigurjónsson.

sleggjuhvellur, 26.12.2015 kl. 12:52

4 Smámynd: Starbuck

Vandfundinn er sá bloggari sem hefur minni hagfræðilegan skilning en hann sleggjuhvellur

Starbuck, 26.12.2015 kl. 13:56

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

sleggjuhvellur:

Í fyrsta lagi eru þessa "hugmyndir" frosta eldgamlar og mjög langsótt að telja að þessi enska skýrsla sem Frosti lét gera hafi ratað til Sviss. Algjörlega galið að halda það.

Það er svo sannarlega rétt að hugmyndir um þjóðpeninga eru ekki nýjar af nálinni. Bandaríkjadalur var til að mynda gefinn út með því fyrirkomulagi á árunum 1862–1865 í valdatíð Abaraham Lincoln. Enginn hefur reynt að halda því fram að þetta sé glæný hugmynd, heldur hefur þvert á móti verið vísað til þess í umræðu um hana að hún eigi sér sögulegar fyrirmyndir.

Í öðru lagi, þá er það ekki langsóttara en svo að ætla að svissnesku samtökin hafi kynnt sér skýrslu Frosta, að hér er frétt um hana á heimasíðu þeirra: http://www.newsletter-webversion.de/?c=0-5wjc-0-q6y

Á síðu þeirra yfir ítarefni má einnig finna tengil á skýrsluna á vef forsætisráðuneytis Íslands: http://www.vollgeld-initiative.ch/nc/vertiefung/

Í þriðja lagi, þá skiptir engu máli hvort Frosti eða aðrir hafi skilning á svokallaðri hagfræði, því eins og áður sagði hefur hagfræðin engan skilning á peningakerfinu. Þess vegna er hagfræði og þekking á henni jafn gagnslaus mælikvarði í peningamálum eins og að reyna að mæla hraða með hitamæli.

Galið eða ekki þá er þetta einfaldlega bara raunveruleikinn. Að þér skuli finnast hann galinn er alfarið þitt vandamál sleggjuhvellur.

Að þjóðpeningakerfi muni "valda hörmung" og "draga úr velferð" eru svo bara fullyrðingar sem eru hvorki studdar neinum rökum né gögnum.

Hinsvegar er auðvelt að benda á fjölmörg dæmi um að núverandi brotaforðakerfi hafi haft nákvæmlega þessi áhrif. Mestu fjármálahörmungar sem dunið hafa yfir vesturlönd hafa orðið undir brotaforðakerfinu. Misnotkun bankamanna á því kerfi hefur ekki aðeins dregið úr velferð heldur beinlínis stuðlað að algjörum velferðarmissi stórra þjóðfélagshópa. Þetta eru einfaldlega empirísk sönnungargögn sem hafa fallið til á meðan sú hagfræðitilraun hefur staðið yfir með okkur öll sem tilraunadýr. Hún hefur leitt í ljós svo ekki verður um villst að brotaforðakerfi er ósjálfbært.

Þess vegna er í fyrsta lagi snargalin hugmynd að halda áfram með brotaforðakerfið, það myndi jafngilda því að halda áfram að berja hausnum við steininn á meðan manni blæðir út af sárunum sem við það myndast. Í öðru lagi er útilokað að neitt annað kerfi geti haft verri áhrif, því jafnvel þó það myndi skilja eftir sig sviðna jörð væri það ekki verri reynsla en af brotaforðakerfinu. Þess vegna er sá möguleiki að annað kerfi gæti reynst betur, fullkomlega góð ástæða til að láta að minnsta kosti reyna á það.

Að afneita því að skynsamlegt geti verið að prófa aðrar aðferðir er takmarkandi hugsunarháttur af sama toga og ef við værum ennþá að nota kolaknúin farartæki vegna þess að við hefðum fyrirfram myndað okkur þá skoðun að aðrir orkugjafar myndu valda hörmungum og draga úr velferð. Með slíkum hugsunarhætti gætu aldrei orðið neinar framfarir, og þá færum við á mis við alla velferðaraukningu sem þær nýjungar gætu fært okkur. Sem betur fer áttar flest skynsamt fólk sig á þessum einföldu sannindum.

Guðmundur Ásgeirsson, 26.12.2015 kl. 15:33

6 Smámynd: Ómar Gíslason

Takk fyrir góða og ítarlega umfjöllum Guðmundur

Ómar Gíslason, 27.12.2015 kl. 11:08

7 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Aðal málið er að laga nýja peningakherfið í rauntíma,

svo að það þjóni tilgangi sínum, að nýta

mannauð og náttúruauðlindir.

Muna að peningur er bókhald.

Hafa bókhaldið einfalt og opið.

Þá er frekar hægt að sjá ef einhver hópur

reynir að spilla kerfinu.

Og stóra málið er að nýska er stórvarasöm en nýtni er góð.

The world's infrastructure is collapsing due to our own stupidity.

Bankar skapa peninga, bókhald, peningabókhald, úr engu.

Egilsstaðir, 27.12.2015  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 27.12.2015 kl. 13:27

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ekkert að þakka Ómar.

Jónas, það er hárrétt, að peningar eru bara bókhaldsstærðir. Mikilvægt er líka að átta sig á að peningakerfið er mannanna verk, og um það gilda engin sérstök náttúrulögmál. Þess vegna er ekkert sem kemur í veg fyrir að við getum ákveðið að breyta því og betrumbæta. Margar úrtöluraddir munu heyrast, fyrst og fremst frá aðilum hafa hagsmuni af því að viðhalda núverandi kerfi. Við ættum ekki að kippa okkur upp við það, heldur einbeita okkur frekar að því að halda úti vel upplýstri umræðu um þetta stærsta hagsmunamál allra.

Góðar stundir.

Guðmundur Ásgeirsson, 27.12.2015 kl. 21:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband