Skagafjörður er samheiti fyrir betra Ísland

Líklega er ofmælt að segja vandræði Íslands byrja með Innréttingum Skúla Magnússonar sem, ásamt móðuharðindunum, gerðu Reykjavík að höfuðstað landsins. Framhjá hinu verður ekki litið að efnahagsleg og pólitísk mein þjóðarinnar á þessari öld koma öll frá Reykjavík.

Útrásin verður til í þéttbýlinu á SV-horninu. Dellumakeríið sem gerði þjóðina nær gjaldþrota, Icesave-reikningarnir, voru kokkaðir upp steinsnar frá húsinu sem Jörundur hundadagakonur hélt til í þegar hann reyndi hér byltingu sumarið 1809.

Landsbyggðin hristi af sér byltingu Jörundar eins og hverja aðra óværu úr sollinum fyrir sunnan. Menn heyrðu af brölti Jörundar en létu sér fátt um finnast.

Í hruninu 200 árum eftir byltingu Jörundar stóð landsbyggðin keik á meðan ófriður og leiðindi geisuðu í byltinarborginni. Höfuðborgarpöbullinn barði potta og pönnur en landsbyggðin sá til þess að matur fékkst á ílátin þegar þau voru notuð til samræmis við tilgang sinn.

Atvinnuvegirnir sem lyftu okkur úr kreppunni eftir hrun, sjávarútvegur og ferðaþjónusta, eru stundaðir úti á landi. Þénustan á það til að gufa upp á verðbólgubáli sem kveikt er í ýmist við Austurvöll eða Borgartún og er það jafgömul saga fullveldinu.

Landsbyggðin er betra Ísland og Skagafjörður er samheiti landsbyggðarinnar. Byltingarliðið í Reykjavík, hvort heldur Jörundur fyrir 200 árum eða Birgitta pírati í dag, vita sem er að landsbyggðin er áhugalaus um kenjar þeirra og tiktúrur þótt borgarlýðurinn kunni að taka mark á þeim um sinn.

Birgitta hallmælir Skagafirði enda er henni illa við betra Ísland.


mbl.is Tekur upp hanskann fyrir Skagafjörð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fánýtt er þetta tal sem felst í að "hjóla í staðinn en ekki málið" og tala niður landshluta og svæði.

 "Kenjar og tiktúrur" Jörundar hundadagakonungs fólust reyndar í þeim óframkvæmanlegu draumórum að svipta spillt stjórnvöld á Íslandi völdum í nokkrar vikur, stjórnvöld, sem í skjóli dansks valds þjónuðu hagsmunum íslensks aðals, embættismanna og stórbænda, sem héldu landinu í heljargreipum sérhagsmuna sinna varðandi það að koma í veg fyrir þéttbýlismyndun og framfarir í fiskveiðum og samgöngum, sem gæti skapað framsækna borgarastétt. 

Jörundur setti fram hugmyndir um lýðræði, sjálfstæði og frelsi í landinu og er sérkennilegt ef það er notað til þess að níða það niður sem gerst hefur í Reykjavík.

Sérkennilegt er líka að sjá því haldið fram að ferðaþjónusta og uppbygging hennar skuli í sama tilgangi talin vera eingöngu á landsbyggðinni, rétt eins og að höfuðborgarsvæðið sé einhver dragbítur í því efni.   

Ómar Ragnarsson, 17.5.2015 kl. 14:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband