Heimsálfur Íslendinga

Fjórar heimsálfur standa Íslendingum næst. Norðurlönd eru þar fremst, við komum frá Noregi, sátum undir dönsku yfirvaldi frá miðöldum þartil fyrir hundrað árum; sóttum og sækjum enn lög okkar og menntun til Norðurlanda.

Önnur heimsálfa Íslendinga er Ameríka. Á útþensluskeiði norrænna manna sem náði hámarki rétt eftir landnám sigldum við vestur, efndum til byggðar á Grænlandi sem stóð í fimm hundruð ár og snertum meginland Ameríku. Þegar hafís, hallæri og illa þokkuð dönsk stjórnvöld ætlaði allt lifandi að drepa í lok 19du aldar sóttum við til Kanada í leit að lífsrými. Bandaríkin settust hér að með hersinn um það bil sem ameríska öldin gekk í garð og var hér fram yfir aldamót. Áður en doktorsnám varð algengt hér útskrifaðist um helmingur íslenskra doktora úr bandarískum háskólum.

Þriðja heimsálfa Íslendinga er Bretland. Þangað sækjum við drjúgt af dægurmenningunni og menntun sömuleiðis. Í skjóli breska flotans var gerð hér stjórnarbylting sumarið 1809 þar sem andblæ frönsku byltingarinnar varð veitt  til landsins án þess að við hefðum áhuga og hundadagabyltingin varð ei meir. Lengra í sögunni er enska öldin en á 15. öld sóttu Englendingar hingað í fisk og verslun. Það voru svo Bretar sem forðuðu Íslandi frá Þjóðverjum í seinni heimsstyrjöld og hernámu landið í eitt ár áður en Bandaríkin komu til skjalanna.

Evrópa er fjórða og síðasta heimsálfa Íslendinga. Þar er einkum vísað til meginlandsþjóðanna og Þjóðverja sérstaklega. Þýsk-íslensk tengsl eru einkum menningarleg þar sem tungumál og fornar skruddur upp á germönsku er betur varðveitt hér en annars staðar.

Að framansögðu má vera ljóst að fyrr göngum við í endurreist Kalmarssamband; verðum við fylki í Bandaríkjunum; fáum inngöngu í Stóra-Bretland en að við afsölum fullveldinu til Evrópusambandsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ágætir punktar hjá þér Páll. Við erum norræn og eigum heima í norrænu samstarfi. Ég hef lengi verið hlynntur endurreistu Kalmarsambandi og tel þann kost í raun ákjósanlegastan. Meginlandsþjóðir Evrópu eru einfaldlega of óskyldar okkur menningarlega til að við yrðum ánægð þar nema kannski kratar, sem hafa sögulega aldrei getað þolað fullvalda Ísland. Aðrir Íslendingar kunna hinsvegar illa við alltumfaðmandi og botnlaust reglufargan og skrifræði ssrm meginlandsþjóðirnar eru flestar helteknar af, enda óvissuþol þeirra samfélaga minna en í norrænum samfélögum.

Kristján Þorgeir Magnússon (IP-tala skráð) 23.1.2012 kl. 00:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband